Skip to main content

Jónsbókarhandrit Björns Grímssonar málara; GKS 3274 a 4to

GKS 3274 a 4to er með glæsilegustu handritum sem skrifuð voru á Íslandi eftir siðskipti. Það er pappírshandrit sem hefur að geyma Jónsbók og skylt efni, svo sem Réttarbætur og samþykktir Alþingis, Kirkjuskipan Kristjáns þriðja, Ribegreinarnar, Þinghlé Kristjáns þriðja, Hjúskaparlög Friðriks annars og Stóradóm.

Á bókarkápunni, sem er úr leðri, stendur ártalið 1614. Fyrsti eigandi handritsins var Þórunn „ríka“ Jónsdóttir, dóttir Jóns Vigfússonar að Galtalæk í Rangárvallasýslu. Talið er að hún hafi fengið handritið í brúðkaupsgjöf frá Gísla lögmanni Hákonarsyni þegar hún gekk að eiga Sigurð Oddsson, sem var sonur Odds Einarssonar biskups.

Hver kafli handritsins hefst á skreyttum upphafsstaf sem nær yfir allt að því heila síðu í mörgum mismunandi litum, svo sem gylltum, gráum, appelsínugulum, gulum, rauðum, grænum og svörtum. 

 

Upphafsstafurinn h í byrjun Rekabálks. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir. Upphafsstafir í byrjun kafla eru í gotneskum stíl og nær alltaf í öðrum lit en textinn. Ýmsar skreytingar eru á spássíum, t.d. skrautlegt flúr í lok hverrar línu. Titilsíða handritsins er með skreyti í endurreisnarstíl og fangamarki Kristjáns fjórða Danakonungs. Svo virðist sem myndirnar séu ekki beinlínis tengdar efni handritsins en þó er augljóst að myndin af Magnúsi konungi lagabæti er gerð eftir myndinni af honum í prentuðu útgáfunni af Jónsbók frá 1578 enda er texti Jónsbókar í handritinu skrifaður eftir útgáfunni. Í upphafsstöfunum eru víða mannamyndir sem eiga sér erlenda fyrirmynd eins og sést af klæðaburði, ekki síst höfuðfötunum, sem benda til þess að fyrirmyndirnar séu hollenskar eða flæmskar. Sérkennileg er mynd við upphaf Rekabálks af manni með beran rass en gera má ráð fyrir að það tengist refsingum fyrir lagabrot.

Matthías Þórðarson kom með þá tilgátu að handrit þetta væri skrifað af Birni Grímssyni málara og Halldór Hermannsson var sama sinnis. Björn Grímsson (um 1575–1634) sigldi til Hamborgar 1597 og dvaldist þar um hríð. Þar hefur hann að öllum líkindum lært teikningu og málaralist og fengið fyrirmyndir að verkum sínum. Einnig er líklegt að hann hafi í Hamborg notið fjölskyldutengsla en mágur hans, Þormóður Kortsson, var barnabarn Lüders Otersen sem var kaupmaður í Lübeck, Hamborg og Kaupmannahöfn. Björn varð síðar sýslumaður í Árnesþingi og mun hafa starfað fyrir og undir verndarvæng Gísla Hákonarsonar.

Vitað er að Björn Grímsson skrifaði annað lögbókarhandrit sem nú hefur safnmarkið Uldall 320 4to og er varðveitt í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Eins og handritið sem hér er til umfjöllunar hefur það að geyma Jónsbók ásamt Réttarbótum. Fram kemur í handritinu að það er skrifað árið 1603 fyrir Höllu systur Björns því að þar stendur: „Eptter Bon og forlægi Haullu Grimzdotter systur minnar“. Halla var eiginkona áðurnefnds Þormóðs Kortssonar og bjó í Skógum undir Eyjafjöllum. Þriðja  handritið sem varðveist hefur með hendi Björns Grímssonar er í Fiskebókasafninu í Cornellháskóla, Íþöku í Bandaríkjunum. Það hefur að geyma Davíðssálma sr. Jóns Þorsteinssonar prests í Vestmannaeyjum og er fagurlega skreytt.

Þóra Kristjánsdóttir hefur sýnt fram á að mjög listilega gerður predikunarstóll úr kirkjunni í Bræðratungu er handaverk Björns Grímssonar en á stólnum eru meðal annars fjögur málverk sem sýna guðspjallamennina við skriftir. Þetta eru elstu varðveittu málverkin í Þjóðminjasafni eftir íslenskan málara sem hægt er að nafngreina.

Listin að skrifa hélst oft innan sömu ættar. Faðir Björns málara var sr. Grímur Skúlason prestur í Hruna (d. 1582). Hann var góður skrifari eins og tvö lögbókarhandrit á skinni með hendi hans bera vitni um, bæði skrifuð eftir Skarðsbók. Sonur Björns var einnig þekktur og afkastamikill skrifari, sr. Þorsteinn Björnsson (1612–1675) á Setbergi. Ólíkt föður sínum og afa skrifaði Þorsteinn einkum upp Íslendingasögur, biskupasögur, Sturlungu, fornaldarsögur og riddarasögur en það er tímanna tákn því að á hans dögum vaknaði á ný áhugi á íslenskum fornbókmenntum og uppskriftir á þeim blómstruðu.

Fyrsti eigandi GKS 3274 a 4to var eins og áður segir Þórunn ríka Jónsdóttir sem að öllum líkindum fékk handritið í brúðkaupsgjöf. Eiginmaður hennar, Sigurður Oddsson, dó nokkrum árum síðar og eftir það giftist Þórunn Magnúsi Arasyni í Ögri, síðar á Reykhólum, en hann gaf bókina syni þeirra, Jóni Magnússyni, eins og fram kemur á forsíðu: „Mínum unga elskulega syni Jóni Magnússyni eignast nú þessi bók með ástsemd, er hans dygðaríka móðir gaf mér áður. Og bið eg að ekki í burtu fáist til hans athuga aldurs“. Engu að síður hefur skömmu síðar verið ákveðið að gefa bókina Magnúsi Björnssyni á Munkaþverá. Þá var Jón aðeins 5 ára að aldri og um það leyti var hann einmitt sendur í fóstur til Magnúsar Björnssonar, sem var með ríkustu mönnum á Íslandi og átti mörg merk handrit, t.d. Möðruvallabók. Magnús eignar nafna sínum bókina með þessum orðum: „Mínum elskulegum vin Magnúsi Björnssyni er þessi bók af mér Magnúsi Arasyni til eignar og þakklætismerkis fengin Anno 1626.“

Eins og safnmark handritsins gefur til kynna (Gammel Kongelig Samling) var handritið lengi í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn en er nú varðveitt á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sem stendur er það á sýningunni Sjónarhorn. Ferðalag um íslenskan myndheim í Safnahúsinu í Reykjavík.

Birt þann 01.11.2016
Heimildir

Guðrún Ingólfsdóttir. 2016. Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar? Bókmenning íslenskra kvenna frá miðöldum fram á 18. öld. [Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 20]. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Halldór Hermannsson. 1940. Illuminated manuscripts of the Jónsbók [Islandica 28]. Ithaca, New York: Cornell University Press.

Jón Helgason. 1958 Handritaspjall. Reykjavík: Mál og menning.

Koch, Friederike. 1995. Isländer in Hamburg 1520–1662. Hamburg: Verein für Hamburgische Geschichte.

Springborg, Peter. 1977. Antiqvæ historiæ lepores. Om renæssancen i den islandske håndskriftproduktion i 1600-tallet. Gardar (8):53–89.

Þóra Kristjánsdóttir. 2005. Mynd á þili. Íslenskir myndlistarmenn á 16., 17. og 18. öld. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.

Þórunn Sigurðardóttir. 1994. Manuscript Material, Correspondence, and Graphic Material in the Fiske Icelandic Collection. A descriptive catalogue. Ithaca and London: Cornell University Press.