Skip to main content

Pistlar

Jarðabók yfir Barðastrandarsýslu

Í handritinu AM 469 fol. eru einu frumgögnin að Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem varðveitt eru í handritasafni Árna Magnússonar og ná þau til Barðastrandarsýslu; önnur varðveitt frumgögn hennar eru í Þjóðskjalasafni Íslands.

Vorið 1702 var Árni skipaður ásamt Páli Vídalín lögmanni í nefnd sem falið var með konunglegu erindisbréfi að taka saman jarðabók og manntal um allt Ísland auk fjölda annarra erinda sem í bréfinu voru talin upp í 30 greinum og lutu að landshögum og stjórnsýslu. Hugmyndir manna um þann tíma sem nefndin þyrfti til þess að ljúka störfum sínum voru afar óljósar og Árni sagði í bréfi til vinar síns að hann byggist við að verða kominn aftur til Hafnar að 18 mánuðum liðnum. Það fór þó á annan veg og Árni yfirgaf ekki Ísland að fullu og öllu fyrr en 1712.

Árni og Páll hófu samantekt jarðabókarinnar haustið 1702 á norðanverðu Snæfellsnesi og gátu unnið við hana í tæpar þrjár vikur. Í júní 1703 hófust þeir aftur handa vestur í Bjarnareyjum á Breiðafirði og söfnuðu á þremur vikum upplýsingum frá bændum í Eyjahreppi, Barðastrandarhreppi og á Rauðasandi. Þá urðu þeir frá að hverfa því setning alþingis nálgaðist og þar bar þeim að vera. Um miðjan ágúst gátu þeir tekið til starfa á ný og fóru um Gullbringusýslu til októberloka og höfðu þá lokið gerð jarðabókar fyrir sýsluna. Jarðabókarvinnunni í Barðastrandarsýslu lauk hins vegar ekki fyrr en haustið 1710 þegar Magnús Einarsson, skrifari Árna, skráði jarðir í þeim sex hreppum sem eftir stóðu.

Afrakstur þessara tveggja fyrstu sumra gaf vísbendingu um framhaldið, verkið sóttist hægar en í fyrstu var talið. Vegalengdir voru miklar en veðurfar rysjótt og leyfði aðeins ferðalög á sumrum sem voru stutt. Önnur erindi nefndarmanna voru mörg og afskipti þeirra og tillögur til úrbóta í landsmálum vöktu brátt upp mótmæli og urðu tilefni ýmiss konar málatilbúnaðar á hendur þeim sem tók æ meiri tíma frá jarðabókarvinnunni. Verkið hélt þó áfram með hjálp aðstoðarmanna þeirra. Haustið 1712 fór Árni af landinu til þess að fylgjast með málaferlum fyrir hæstarétti og það kom í hlut Páls að ljúka verkinu með aðstoðarmönnum sínum á árunum 1713 og 1714.

Jarðabókin var þannig frágengin að upplýsingar um jarðir í hverjum hreppi voru skráðar í hefti í arkarbroti, beint eftir frásögn þeirra sem voru kvaddir til að veita þær, en nefndarmenn höfðu í upphafi tekið saman ítarleg fyrirmæli um þau atriði sem leitað skyldi svara við. Heftin voru þannig útbúin að blaðtvinnunum er haldið saman af þræði sem dreginn er í gegnum þau í kjalbrotinu og endarnir festir niður með innsiglislakkinu á þá síðu þar sem skjalið er vottfest með innsiglum og undirskriftum þeirra sem það gera.

Jarðabókarheftin voru varðveitt í Skálholti og ekki send til Danmerkur fyrr en haustið 1720 þegar lokið var langvarandi ófriði milli Dana og Svía sem gert hafði siglingu danskra skipa ótrygga. Árni sá jarðarbókargögnin ekki aftur fyrr en upp úr miðju ári 1727 en þá hafði hann dregist á það eftir ítrekaðan þrýsting frá rentukammerinu að fara gegnum skjölin, flokka þau eftir sýslum og láta binda þau inn; jafnframt minnti rentukammerið á að honum bæri að láta þýða jarðabókina á dönsku. ‒ Eftir lát Árna grennslaðist rentukammerið fyrir um afdrif jarðabókarheftanna og fundust þau í kistu á skrifstofu hans í leyndarskjalasafninu, óinnbundin og óþýdd. 1742 fór rentukammerið að ganga eftir því við dánarbú Árna að það léti þýða jarðarbókarskjölin og var það gert á næstu árum undir handarjaðri Hans Grams prófessors.  Gram lést 1748 og tveimur mánuðum eftir lát hans fer rentukammerið þess á leit við háskólann að kannað yrði hvort dönsk þýðing jarðabókarinnar fyndist í dánarbúi hans. Í beinu framhaldi af því hefur þýðingin ásamt frumskjölunum væntanlega verið afhent rentukammerinu.

Árið 1750 virðist rentukammerið hafa áttað sig á því að það heftin yfir Múlasýslu og Skaftafellssýslur, og þar að auki Barðastrandarsýslu, vantaði í jarðarbókargögnin. Talið er að jarðabókarheftin yfir sýslurnar eystra hafi brunnið með húsi Árna í Store Kannikestæde í október 1728 en heftin yfir Barðastrandarsýslu fundust árið 1777 meðal þeirra skjala hans sem bjargast höfðu úr brunanum og er líklegast að þau hafi aldrei verið afhent rentukammerinu. Væntanlega hefur Árni tekið þau til hliðar vegna þess að skráning þeirra Páls á hreppunum þremur í Barðastrandarsýslu frá 1702 var þarna einungis í ófrágengnu uppkasti og hvorki undirskrifuð né vottfest og að hann hafi ætlað sér að ganga frá þeim við hentugleika en af því hafi aldrei orðið. Hinir hrepparnir sex í sýslunni fylgdu þarna með fullfrágengir af hendi Magnúsar Einarssonar. Árnanefnd fékk Skúla Magnússon til að þýða heftin og var þýðingin afhent rentukammerinu 1778. Frumritin runnu hins vegar inn í handritasafn Árna Magnússonar og fengu safnmarkið AM 469 fol.

Jarðabók Árna og Páls var varðveitt óbundin í heftum í Ríkisskjalasafni Dana fram til ársins 1895 en þá var heftunum skipað í rétta röð og þau bundin inn í ellefu bindi. Árið 1928 voru jarðarbókarbindin afhent út Ríkisskjalasafninu danska til Þjóðskjalasafns Íslands. — Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn gaf Jarðabókin út á prenti í 11 bindum á árunum 1913–1943.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018