Skip to main content

Pistlar

Hvítabjarnar-örnefni

Birtist upphaflega í júlí 2008.

Hvítabjarnar-örnefni er að finna á a.m.k. þremur stöðum á landinu. Ekkert af þeim virðist vera nefnt í fornum textum.

Hvítabjarnarey er út af Stykkishólmi. Í sóknarlýsingu er hún nefnd Hvítubjarnarey í aukafalli (í Hvítubjarnarey, bls. 196). Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að hún dragi nafn af því að þar hafi hvítabjörn komið á land og lagst í bás einn sunnan á eynni sem er luktur háum hamrabjörgum allt í kring. Tröllkona ein í Helgafelli reyndi að bana honum með því að kasta steini út í eyna en steinninn lenti ofar en hún ætlaði og björninn varð ómeiddur (I:197).

Hvítabjarnarey (t.v.). Ljósmynd: Grétar Eiríksson (Ferðafélag Íslands, Árbók 1986, bls. 145).

Undir Reykhólum í Reykhólasveit eru bæði Hvítabjarnarhólmi og Hvítabjarnarflögur. Í sýslulýsingu Barðastrandarsýslu frá 1746, eftir Ólaf Árnason í Haga á Barðaströnd, eru nefndar allmargar eyjar undir Reykhólum og eru þar á meðal Hvítabjörn og Hvítabjarnarhólmi (bls. 165). Eyjan Hvítabjörn er ekki þekkt nú svo vitað sé. Í örnefnalýsingu Samúels Eggertssonar um Reykhóla eru nefndar Stóra- og Litla-Hvítabjarnarey, Hvítabjarnareyjarhólmi og Hvítabjarnareyjarflögur (þrjár). Í Íslensku fornbréfasafni er Ágrip af skiptabréfi eftir Odd Sigurðsson frá 1506. Þar er nefnd Hvítabjarnarey (XI:59–60) og er líklegt að þar sé átt við ey þá sem heyrir undir Reykhóla þar sem þeir eru nefndir í bréfinu. Engar sagnir eru þekktar um hvítabjörn á þessum slóðum.

Í landi Reykja í Hrútafirði eru fjögur örnefni kennd við hvítabjörn, HvítabjarnargilHvítabjarnarhóllHvítabjarnarnes og Hvítabjarnarvatn. Í sóknarlýsingu frá 1848 er nefnt Hvítabjarnargil fyrir sunnan Reyki sem renni úr vatni uppi á hálsi, og Hvítabjarnarvatn upp undan Reykjum; „í því er hólmi, manngerður í fornöld með dálítið meira varpi (nokkrar æður)“ (bls. 14). Hvítabjörn hefur e.t.v. gert sig heimakominn í því æðarvarpi eins og í varpinu á Hrauni á Skaga á dögunum. Í örnefnalýsingu stendur að Hvítabjarnargil heiti Hvítabjarnarlækur ofan brúnar og hann komi úr Helgavatni. Á Hvítabjarnarhól er endurvarp frá Skálafelli. Hvítabjarnarnes er þar einnig nefnt Hvítabjarnartangi. Sögn er til um að hvítabjörn hafi gengið á land í Hvítabjarnarnesi. „Þaðan fór hann upp með Hvítabjarnargili og hafðist við milli Hvítabjarnarvatns og Helgatjarnar. Eitt sinn var maður á ferð frá Reykjum að Búrfelli. Hann var vopnlaus, en annar maður fylgdi honum á leið, og hafði sá atgeir í hendi. Bangsi sá til ferða þeirra, en var hinn rólegasti, meðan þeir voru báðir saman. Þegar mennirnir voru komnir austur á Sandhólahraun, sneri fylgdarmaðurinn við, en hinn hélt áfram ferðinni. Þá sætti björninn lagi, fór á eftir vopnlausa manninum og drap hann.“ (Örnefnaskrá Reykja).

Ýmis Bjarnar-örnefni eru í landinu en ekkert er hægt að segja um hvort um er að ræða bjarndýr eða mannsnafnið Björn sem forlið. Bæjanöfnin Bjarnarhöfn og Bjarnargil eru á meðal þeirra. Í Landnámu er Bjarnarhöfn kennd við Björn austræna en um Bjarnargil eru ekki fornar heimildir (Íslenzk fornrit I:122). Nokkur Bjarndýrs-örnefni eru einnig til, m.a. Bjarndýrsklöpp á fjórum stöðum á Austurlandi (Árbók Ferðafélagsins 2008) en þeim verða ekki gerð skil að sinni. Sama er að segja um örnefni eins og Björninn, fjalllendi upp af Fljótshverfi í V-Skaft., sem væntanlega er dregið af líkingu við bjarndýr.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Árbók Ferðafélags Íslands 2008. Úthérað ásamt Borgarfirði eystra, Víkum og Loðmundarfirði eftir Hjörleif Guttormsson. Reykjavík.
Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Safnað hefur Jón Árnason. Reykjavík 1961.
Íslenzkt fornbréfasafn. XI. Reykjavík 1915–1925.
Landnámabók. Íslenzk fornrit I. Reykjavík 1968.
Sýslulýsingar 1744–1749. Sögurit XXVIII. Reykjavík 1957.
Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenzka bókmenntafélags 1839–1873. I. Húnavatnssýsla. Reykjavík 1950.
Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenzka bókmenntafélags. Snæfellsnes III. Reykjavík 1970.
Uppdráttur Íslands. 1:100 000. Blað 23. Geodætisk institut. Landmælingar Íslands 1964.
Uppdráttur Íslands. 1: 100 000. Blað 24. Geodætisk institut. Landmælingar Íslands 1974.
Uppdráttur Íslands. 1: 100 000. Blað 34. Landmælingar Íslands 1975.
Uppdráttur Íslands. 1: 100 000. Blað 77. Landmælingar Íslands 1974.