Birtist upphaflega í júlí 2008.
Hvítabjarnar-örnefni er að finna á a.m.k. þremur stöðum á landinu. Ekkert af þeim virðist vera nefnt í fornum textum.
Hvítabjarnarey er út af Stykkishólmi. Í sóknarlýsingu er hún nefnd Hvítubjarnarey í aukafalli (í Hvítubjarnarey, bls. 196). Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að hún dragi nafn af því að þar hafi hvítabjörn komið á land og lagst í bás einn sunnan á eynni sem er luktur háum hamrabjörgum allt í kring. Tröllkona ein í Helgafelli reyndi að bana honum með því að kasta steini út í eyna en steinninn lenti ofar en hún ætlaði og björninn varð ómeiddur (I:197).
Hvítabjarnarey (t.v.). Ljósmynd: Grétar Eiríksson (Ferðafélag Íslands, Árbók 1986, bls. 145).
Undir Reykhólum í Reykhólasveit eru bæði Hvítabjarnarhólmi og Hvítabjarnarflögur. Í sýslulýsingu Barðastrandarsýslu frá 1746, eftir Ólaf Árnason í Haga á Barðaströnd, eru nefndar allmargar eyjar undir Reykhólum og eru þar á meðal Hvítabjörn og Hvítabjarnarhólmi (bls. 165). Eyjan Hvítabjörn er ekki þekkt nú svo vitað sé. Í örnefnalýsingu Samúels Eggertssonar um Reykhóla eru nefndar Stóra- og Litla-Hvítabjarnarey, Hvítabjarnareyjarhólmi og Hvítabjarnareyjarflögur (þrjár). Í Íslensku fornbréfasafni er Ágrip af skiptabréfi eftir Odd Sigurðsson frá 1506. Þar er nefnd Hvítabjarnarey (XI:59–60) og er líklegt að þar sé átt við ey þá sem heyrir undir Reykhóla þar sem þeir eru nefndir í bréfinu. Engar sagnir eru þekktar um hvítabjörn á þessum slóðum.
Í landi Reykja í Hrútafirði eru fjögur örnefni kennd við hvítabjörn, Hvítabjarnargil, Hvítabjarnarhóll, Hvítabjarnarnes og Hvítabjarnarvatn. Í sóknarlýsingu frá 1848 er nefnt Hvítabjarnargil fyrir sunnan Reyki sem renni úr vatni uppi á hálsi, og Hvítabjarnarvatn upp undan Reykjum; „í því er hólmi, manngerður í fornöld með dálítið meira varpi (nokkrar æður)“ (bls. 14). Hvítabjörn hefur e.t.v. gert sig heimakominn í því æðarvarpi eins og í varpinu á Hrauni á Skaga á dögunum. Í örnefnalýsingu stendur að Hvítabjarnargil heiti Hvítabjarnarlækur ofan brúnar og hann komi úr Helgavatni. Á Hvítabjarnarhól er endurvarp frá Skálafelli. Hvítabjarnarnes er þar einnig nefnt Hvítabjarnartangi. Sögn er til um að hvítabjörn hafi gengið á land í Hvítabjarnarnesi. „Þaðan fór hann upp með Hvítabjarnargili og hafðist við milli Hvítabjarnarvatns og Helgatjarnar. Eitt sinn var maður á ferð frá Reykjum að Búrfelli. Hann var vopnlaus, en annar maður fylgdi honum á leið, og hafði sá atgeir í hendi. Bangsi sá til ferða þeirra, en var hinn rólegasti, meðan þeir voru báðir saman. Þegar mennirnir voru komnir austur á Sandhólahraun, sneri fylgdarmaðurinn við, en hinn hélt áfram ferðinni. Þá sætti björninn lagi, fór á eftir vopnlausa manninum og drap hann.“ (Örnefnaskrá Reykja).
Ýmis Bjarnar-örnefni eru í landinu en ekkert er hægt að segja um hvort um er að ræða bjarndýr eða mannsnafnið Björn sem forlið. Bæjanöfnin Bjarnarhöfn og Bjarnargil eru á meðal þeirra. Í Landnámu er Bjarnarhöfn kennd við Björn austræna en um Bjarnargil eru ekki fornar heimildir (Íslenzk fornrit I:122). Nokkur Bjarndýrs-örnefni eru einnig til, m.a. Bjarndýrsklöpp á fjórum stöðum á Austurlandi (Árbók Ferðafélagsins 2008) en þeim verða ekki gerð skil að sinni. Sama er að segja um örnefni eins og Björninn, fjalllendi upp af Fljótshverfi í V-Skaft., sem væntanlega er dregið af líkingu við bjarndýr.
Síðast breytt 24. október 2023