Birtist upphaflega í apríl 2004.
Orðið hurð er á nokkrum stöðum sem örnefni hér á landi, t.d. Hurð, sem er hvilft í bergið neðst í Háubælum í Elliðaey í Vestmannaeyjum. Auk þess er þekkt örnefnið Hálfdanarhurð í Ólafsfjarðarmúla í Eyf. sem lítur út eins og hurð. (Mynd í Afmælisriti Jóns Helgasonar 1969, á móti bls. 431). Sama er að segja um Skessuhurð sem er innan við Höfða í Fáskrúðsfirði í S-Múl. (Sjá meðfylgjandi mynd, sem birtist í Árbók Ferðafélags Íslands 2002:271. Ljósm. Hjörleifur Guttormsson).
Orðið hurð kemur líka fyrir í örnefninu Hurðarás sem er ás nærri Hellisheiði í Árn. Þegar komið er upp á hann opnast víð sýn um Suðurland; það er eins og opnist þar dyr. Nafnmyndin Urðarás um þennan stað á sér ekki stoð. En sú samsetning sem er algengust í örnefnum er Hurðarbak. Það er bæði náttúrunafn og bæjarnafn. Um náttúrunafn má nefna þessi dæmi: Í fornbréfi frá 1486 var talað um að Skriða í Reykjadal í S-Þing. „ætti afriett að hurdarbaki“ (DI VI:575). Á Steinum undir Austur-Eyjafjöllum er Hurðarbak snið í hamra. Á Núpi undir Vestur-Eyjafjöllum er Hurðarbak, einnig í landi Ystaskála í sömu sveit. Hurðarbak er kór í landi Varmahlíðar í Holtshverfi, einnig í sömu sveit. Fjaran fyrir neðan Rauðubjörg í landi Hafnar í Skeggjastaðahr. í N-Múl. heitir Hurðarbak. Fleirtalan Hurðarbök eru ásar fyrir austan Geirlandshraun í V-Skaft. Hurðarbak(ur) er nafn á ás í landi Iðu í Árn. Styttri mynd nafnsins var fremur notuð. (Örnefnaskrár).
Um bæjarnafnið Hurðarbak eru þessi dæmi: 1) Í Villingaholtshr. í Árn. (í landamerkjabréfi: Hurðarbakur). 2) Í Kjósarhr. í Kjós. (Annálar 1400–1800). 3) Í Strandarhr. í Borg. 4) Í Reykholtsdal í Borg. 5) Í Hörðudal í Dal. (Bjarnar saga Hítdælakappa, Íslensk fornrit III:164). 6) Í Torfalækjarhr. í A-Hún. Hurðarbak merkir 'staður/bær í hvarfi', þ.e. væntanlega frá alfaraleið.
Í Noregi er til Hurdalen sem byggðarnafn í Akershus, skrifað „Hurdardalr“ 1346, og talið vera af *Hurð sem árheiti. (Norsk stadnamnleksikon). Hurðarhverfi var byggðarnafn í Þrændalögum í Noregi á 14. öld, en er ekki notað lengur. (Eli Johanne Ellingsve, munnleg heimild). Bæjarnafnið Harbak(ken) í Stjørna í Þrændalögum (Hwrdebak, um 1430) virðist innihalda hurð í merk. 'baksida av ei dør, rommet mellom döra og veggen'. Á Austurlandinu í Noregi er líka Hulebak(ken) á nokkrum stöðum, sem ætti að hafa sama upphaf (Norsk stadnamnleksikon), standa í skugga fjalls eða áss (sbr. Grímnir 2:28; 3:127).
Erfitt er að koma heim og saman merkingu Hurðar í Hurðardalur í Noregi sem Ásgeir Blöndal Magnússon telur (Íslensk orðsifjabók) að geti verið skyld sögninni hyrja (þt. hurða) í fornu máli í merk. 'berja, knýja á' og íslenskum Hurðar -örnefnum, sem virðast eiga við orðið hurð í merk. 'fleki'. Orðið hurð virðist hafa getað merkt 'ás' eða þvíl. í íslensku landslagi, 'e-ð sem lokar', og örnefnið Hurðarás þá myndað með ás sem merkingarauka (epexegese) en orðið merkir auðvitað líka 'dyratré', sbr. að reisa sér hurðarás um öxl.
Síðast breytt 24. október 2023