Skip to main content

Pistlar

Hurðar-örnefni

Birtist upphaflega í apríl 2004.

Orðið hurð er á nokkrum stöðum sem örnefni hér á landi, t.d. Hurð, sem er hvilft í bergið neðst í Háubælum í Elliðaey í Vestmannaeyjum. Auk þess er þekkt örnefnið Hálfdanarhurð í Ólafsfjarðarmúla í Eyf. sem lítur út eins og hurð. (Mynd í Afmælisriti Jóns Helgasonar 1969, á móti bls. 431). Sama er að segja um Skessuhurð sem er innan við Höfða í Fáskrúðsfirði í S-Múl. (Sjá meðfylgjandi mynd, sem birtist í Árbók Ferðafélags Íslands 2002:271. Ljósm. Hjörleifur Guttormsson).

Orðið hurð kemur líka fyrir í örnefninu Hurðarás sem er ás nærri Hellisheiði í Árn. Þegar komið er upp á hann opnast víð sýn um Suðurland; það er eins og opnist þar dyr. Nafnmyndin Urðarás um þennan stað á sér ekki stoð. En sú samsetning sem er algengust í örnefnum er Hurðarbak. Það er bæði náttúrunafn og bæjarnafn. Um náttúrunafn má nefna þessi dæmi: Í fornbréfi frá 1486 var talað um að Skriða í Reykjadal í S-Þing. „ætti afriett að hurdarbaki“ (DI VI:575). Á Steinum undir Austur-Eyjafjöllum er Hurðarbak snið í hamra. Á Núpi undir Vestur-Eyjafjöllum er Hurðarbak, einnig í landi Ystaskála í sömu sveit. Hurðarbak er kór í landi Varmahlíðar í Holtshverfi, einnig í sömu sveit. Fjaran fyrir neðan Rauðubjörg í landi Hafnar í Skeggjastaðahr. í N-Múl. heitir Hurðarbak. Fleirtalan Hurðarbök eru ásar fyrir austan Geirlandshraun í V-Skaft. Hurðarbak(ur) er nafn á ás í landi Iðu í Árn. Styttri mynd nafnsins var fremur notuð. (Örnefnaskrár).

Um bæjarnafnið Hurðarbak eru þessi dæmi: 1) Í Villingaholtshr. í Árn. (í landamerkjabréfi: Hurðarbakur). 2) Í Kjósarhr. í Kjós. (Annálar 1400–1800). 3) Í Strandarhr. í Borg. 4) Í Reykholtsdal í Borg. 5) Í Hörðudal í Dal. (Bjarnar saga Hítdælakappa, Íslensk fornrit III:164). 6) Í Torfalækjarhr. í A-Hún. Hurðarbak merkir 'staður/bær í hvarfi', þ.e. væntanlega frá alfaraleið.

Í Noregi er til Hurdalen sem byggðarnafn í Akershus, skrifað „Hurdardalr“ 1346, og talið vera af *Hurð sem árheiti. (Norsk stadnamnleksikon). Hurðarhverfi var byggðarnafn í Þrændalögum í Noregi á 14. öld, en er ekki notað lengur. (Eli Johanne Ellingsve, munnleg heimild). Bæjarnafnið Harbak(ken) í Stjørna í Þrændalögum (Hwrdebak, um 1430) virðist innihalda hurð í merk. 'baksida av ei dør, rommet mellom döra og veggen'. Á Austurlandinu í Noregi er líka Hulebak(ken) á nokkrum stöðum, sem ætti að hafa sama upphaf (Norsk stadnamnleksikon), standa í skugga fjalls eða áss (sbr. Grímnir 2:28; 3:127).

Erfitt er að koma heim og saman merkingu Hurðar í Hurðardalur í Noregi sem Ásgeir Blöndal Magnússon telur (Íslensk orðsifjabók) að geti verið skyld sögninni hyrja (þt. hurða) í fornu máli í merk. 'berja, knýja á' og íslenskum Hurðar -örnefnum, sem virðast eiga við orðið hurð í merk. 'fleki'. Orðið hurð virðist hafa getað merkt 'ás' eða þvíl. í íslensku landslagi, 'e-ð sem lokar', og örnefnið Hurðarás þá myndað með ás sem merkingarauka (epexegese) en orðið merkir auðvitað líka 'dyratré', sbr. að reisa sér hurðarás um öxl.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023