Skip to main content

Pistlar

Hólmfríður Indriðadóttir, skáldkona á Hafralæk (1802–1885)

Hólmfríður Indriðadóttir. Mirsa-vitran. Eiginhandarrit Halldórs Friðjónssonar.

 

Nausti’ úr hrekst minn Kjalars knör,  
hvernig tekst það reynslan skýrir;
hratt fram ekst hans ekki för
af því sextug kerling stýrir

Eins mun fara um Fjalars drykk,
finnst hann spar í hyggjusjóði;
öld mig bara ætlar gikk
ef eg Hjar[r]ands staupið ljóði.

Óð því syng eg sjálfri mér
sinnis ringa’ ef mætti ama;
minn jafningi’ ef einhver er
eyða þvingun kann við sama.

Skemmtin kvæði skapa ró,
skýr uppfræðing yndi veldur,
betri’ úrræði þurfum þó
þegar glæðist mótgangseldur.

Svo hefst þriðja ríma um Mirsa-vitran sem Hólmfríður Indriðadóttir, húsfreyja á Hafralæk í Aðaldal orti þegar hún var um sextugt. „Ekki fer allt eftir aldrinum“, segir máltækið. Það sannaðist á Hólmfríði en þegar hún setti saman rímurnar um Mirsa-vitran bjóst hún við að líf sitt væri á enda. Hún varð hins vegar allra kerlinga elst. Þegar hún lést komin á níræðisaldur árið 1885 hafði hún verið tekin í röð alþýðuskálda.[1] Hún hafði einnig innprentað nýrri kynslóð afkomenda sinna ást á kveðskap og sögum, gaf m.a. Sigurjóni Friðjónssyni, sonarsyni sínum, Snorra-Eddu útgáfu Sveinbjarnar Egilssonar í tannfé.

          Hólmfríður var fædd á Grænavatni í Mývatnssveit 1802 en ólst upp í Baldursheimi og á Þverá í Reykjahverfi þar sem foreldrar hennar bjuggu. Þótt þau væru bjargálna mun Hólmfríður ekki hafa notið annarrar uppfræðslu en í lestri og barnalærdómi. Hún mun hins vegar hafa lært að skrifa fullorðin. Árið 1829 giftist Hólmfríður Jóni Jónssyni frá Hólmavaði. Voru þau hjónin fyrst í húsmennsku þar en bjuggu síðan um 26 ára skeið á Hafralæk. Þau áttu tíu börn en aðeins fimm náðu fullorðins aldri.[2]

            Ung orti Hólmfríður ásamt Sigurlaugu, systur sinni, rímnaflokk eftir Ármanns sögu (til í hdr.) og annan um Þorstein bæjarmagn (Lbs. 2747, 8vo). Þetta hafa þótt nokkur tíðindi því að í sóknarmannatali Grenjaðarstaðar í Suður-Þingeyjarsýslu stendur skrifað m.a. um húsvitjun á Þverá í Reykjahverfi 1837: „Dætur bóndans hafa orkt rímur af Ármans S. og Þorst. Bæarmagn.“[3] Þá var prestur á Grenjaðarstað sá annálaði lærdómsmaður, Jón Jónsson (1772–1866), faðir Guðnýjar skáldkonu í Klömbur, og hefur honum þótt rétt að færa þennan fróðleik til bókar. Síðar á lífsleiðinni mun Hólmfríður hafa ort rímur um Parmes loðinbjörn og aðrar út af Blómsturvalla sögu.[4]

          Í húsvitjun á Hólmavaði í Nessókn 1830 er Hólmfríði gefin sú einkunn að hún sé „lesandi“ og önnur kunnátta „í meðallagi“. Árið 1840 á Hafralæk er sagt, að hún sé skýr og „vel að sér“ og næsta ár prýðilega læs og gáfuð.[5] Enn seinna er sagt að hún sé „vönduð, há-skýr, vel að sér“.[6] Sonarsonur Hólmfríðar sagði um hana að hún hefði verið „hæglát kona, skynsöm og skáldmælt.“ Hafi hún ort mikið af tækifærisvísum þrátt fyrir að hún hafi verið orðin gömul þegar hann mundi eftir henni og „kunni feiknin öll af kvæðum og versum, veraldlegs og trúarlegs efnis“.[7]

            Hólmfríður og Jón, maður hennar, munu hafa búið við fátækt á Hafralæk. Guðmundur Friðjónsson á Sandi, sonarsonur Hólmfríðar, sagði í kvæðinu „Amma mín“ sem hann orti um hana:

Með ómagahópinn við brjóst þitt og bak
þú barðist með hugrekki glöðu,
og undarlegt var það, hve upprétt þú stóðst
í einyrkja búkonu stöðu.

Hann minnist á Ármanns rímur þeirra systra en leggur mesta áherslu á að menntunarþrá ömmu sinnar hafi beinst að alheims áforminu og framtíðarlandinu:

Í hillingarlandinu handan við gröf
var hugur þinn jafnan í förum,
og skáldmælta sálin þín barnshuga-bljúg
með bænrækni og mannást á vörum.“[8]

Í því ljósi má skoða rímur Hólmfríðar um Mirsa-vitran.

            Þrátt fyrir talsverða leit og eftirgrennslan er ekki vitað hvaðan kerlingu á útnára í Þingeyjarþingi barst frásögn þessi úr gósenlöndum Vestur-Asíu. Efnisval hennar sýnir þó að ýmislegt rak á fjörur hennar. Þrátt fyrir aldur ýtir hún Kjalars knerri úr nausti með kímnisglampa í augum og sanna trú í hjarta.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018
Heimildir

Hólmfríður Indriðadóttir. Mirsa-vitran. Hdr. Halldórs Friðjónssonar, í einkaeign; Hólmfríður Indriðadóttir. Mirsa-vitran. Hdr. úr eigu Indriða Þórkelssonar, í einkaeign.

Aðrar heimildir:

Erlingur Friðjónsson. 1959. Fyrir aldamót. Menningar- og fræðslusamband alþýðu, Reykjavík.
Finnur Sigmundsson. 1966. Rímnatal. II. b. Rímnafélagið, Reykjavík.
Guðmundur Friðjónsson. 1955. Ritsafn. V. b. Prentverk Odds Björnssonar, Akureyri.
Indriði Indriðason. 1969. Ættir Þingeyinga. I. b. Helgafell, Reykjavík.
Íslenzkar æviskrár. 1978. Viðbætir við V. b. Jón Guðnason tók saman. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík.
Konráð Vilhjálmsson. Þingeyingaskrá. Ljósprentað hdr. Þjóðskjalasafn.
Úlfar Bragason. 1973. Ármanns rímur eftir Hólmfríði og Sigurlaugu Indriðadætur, BA ritgerð, Háskóla Íslands, Reykjavík.
Úlfar Bragason. 2005. „„Amma mín“: Kvæði Guðmundar Friðjónssonar á Sandi.“ Heimur ljóðsins. Ritstj. Ástráður Eysteinsson o.fl. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík. Bls. 294–302.

 

[1] Íslenzkar æviskrár V (1978:376); Finnur Sigmundsson II (1966:69)

[2] Indriði Indriðason I (1969:261).

[3] Sjá Úlfar Bragason (1973).

[4] Íslenzkar æviskrár V (1978:376).

[5] Sjá Úlfar Bragason (1973).

[6] Sjá Konráð Vilhjálmsson.

[7] Erlingur Friðjónsson (1959:108).

[8] Guðmundur Friðjónsson V (1955:191–93); sjá ennfremur Úlfar Bragason (2005).