Skip to main content

Pistlar

Hindisvík

Birtist upphaflega í júlí 2008.

Hindisvík er bær á Vatnsnesi í V-Hún. Nafnið kemur ekki fram í fornritum en í Auðunarmáldögum frá 1318 er nafnið skrifað „hamdisvyk“ (DI II:480). Handritið er frá 1639. Í Ólafsmáldögum frá 1461 er nafnið skrifað „hanndis vik“ (DI V:343). Bærinn er nefndur Vík á Vatnsnesi í Sjávarborgarannál fyrir árið 1686 (Annálar IV:313). Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er jörðin nefnd Vijk, „kölluð af sumum so sem að fornmæli Hindisvijk“ (VIII:161). Eins eru bæði nöfnin Vík og Hindisvík í Jarðatali Johnsens (227) en Hindisvík á Íslandskorti Björns Gunnlaugssonar 1844.

Hindisvík. Ljósm. Marinó Fannar Pálsson.

Í jarðatalinu frá 1861 er nafnið Hindingsvík aðalmyndin (96), sem Finnur Jónsson taldi að væri tómur tilbúningur (Bæjanöfn á Íslandi, 512). Í sóknarlýsingu 1840 notar sr. Ögmundur Sigurðsson ýmist myndina Hindingsvík (Sókn. 34, 43) eða Vík (38).

Erfitt er að koma þessum nafnmyndum Hamdisvík og Hindisvík heim og saman. Nafnið Hamðir er úr fornum kveðskap en ekki notað á Íslandi svo vitað sé. Það var einnig til sem hauksheiti, svo að örnefnið gæti hafa verið kennt við fuglinn og væri þá upphafleg merking nafnsins ‘hauksvík’.

Óvíst er þó enn um merkingu. Hugsanlega er það skylt norska nafninu Hindnes og merkir þá e.t.v. ‘hin klofna‘ e.þ.u.l. og þá skylt orðunum hindra og handan. Hindisvík skiptist vissulega í tvo hluta en skiptingin er ekki afgerandi á neinn hátt og því tæpast tilefni til að kalla hana eftir því. Nafnmyndin Hindisvík gæti hugsanlega hafa verið dregin af annars óþekktu nafni eða orði *Hyndir*Hyndisvík, dregið af hundur, en af sama stofni er hyndla (hindla) í merk. ‘tík’ en einnig ‘léleg kýr’. Nafnið Hindisvík er ekki varðveitt fyrr en eftir að /y/ hvarf úr málinu og varð /i/ í framburði.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Annálar 1400–1800. IV. Reykjavík 1940.
Árni Magnússon og Páll Vídalín. Jarðabók. Kaupmannahöfn 1926.
DI = Íslenzkt fornbréfasafn I–. Kaupmannahöfn 1857–.
Finnur Jónsson. Bæjanöfn á Íslandi. Kaupmannahöfn 1911–15.
J. Johnsen. Jarðatal á Íslandi. Kaupmannahöfn 1847.
Ný jarðabók fyrir Ísland. Kaupmannahöfn [1861].
Sýslu- og sóknalýsingar Hins ísl. bókmenntafélags 1839–1873. Húnavatnssýsla. Akureyri 1950.