Skip to main content

Hestaþings-örnefni

Birtist upphaflega í desember 2007.

Hestaþings-örnefni er að finna á nokkrum stöðum á landinu og fylgir þeim mörgum sú sögn að þar hafi farið fram hestaat, hestavíg eða hestaþing. Þannig segir Árni Magnússon frá: „Sunnan undir Sólheimajökli, í tungunni milli eystri kvíslarinnar og þeirrar, sem undir jökulinn rennur, heitir Hestaþingsháls. Þar segja menn, fyrrum hestavíg brúkuð verið hafa, sem og líklegt er af nafninu“ (Chorographica, bls. 33). Höfundur Holta-Þóris sögu, sem sennilega var samin á 19. öld, notaði nafnið í sögunni (bls. 495), en það virðist ekki þekkt á síðustu tímum og er ekki í örnefnaskrám. Árni nefnir líka að Hestaþingstaðir heiti pláss einhvers staðar í Skaftártungu nærri Flögu (sama rit, bls. 25). Það er heldur ekki í örnefnaskrám.

Hestaat á Þingvöllum 1930.

Hestaþingshóll er við Rangá norðan við Völl í Hvolhreppi í Rang. og Hestaþingsflöt í Hróarsholti í Árn., tilvalinn leikvangur frá náttúrunnar hendi. Hún mun draga nafn sitt af því, að þar mun hafa verið att hestum til forna (Örnefnaskrá). Þar voru líka haldin hestamannamót á síðustu öld.

Hestaþingsflatir eru í Hlíð í Grafningi. Þær eru nokkuð stórar valllendisflatir, niður undan Hellisgili, með gulvíðisrunnum í kring. Þar var áður haldið hestaþing. Hestaþingshóll er í landi Kaldaðarness í Flóa. Þar voru háð hestaþing til forna. Ef til vill hefur það einmitt gerst þar að Jóra bóndadóttir trylltist er hún sá hest föður síns bíða lægra hlut fyrir öðrum (sbr. Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur I, 173–175).

Í Gullbringu- og Kjósarsýslu eru tveir Hestaþingshólar þekktir, annar í landi Varmár, tangi út í Leiruvog. Bendir nafn hans á forn hestaöt þarna niður við sjóinn. Hóll þessi er á tanganum, og ef vel er að gáð, virðist vera þarna um gamalt mannvirki að gera (Örnefnaskrá). Hinn Hestaþingshóllinn er á Eyri í Kjós. Bendir þetta örnefni á, að þarna á eyrinni hafi verið höfð hestaöt til forna (Örnefnaskrá).

Hestaþingseyrar eru við Norðurá í landi Kalmanstungu í Borgarfirði (Chorographica, bls. 44). Þessir staðir eru allir á Suður- og Vesturlandi en aðeins er hægt að nefna hestaþingstaði utan þess svæðis í Skagafirði. Annar er Hestaþingshamar á Víðilæk í Seyluhr. í Skag. Í sóknalýsingu frá 1842 er talað um Hestaþingshamar (eða Hestavígshamar) í Víðimýrarhvarfi og segir að þar hafi „oft verið fundir áður, og þar hafa Skagfirðingar og aðrir kosið Brand Kolbeinsson yfir sig“ (Sókn., bls. 58, sbr. Sturlungu). Í annarri sóknalýsingu er talað um Hestavígshamar á Flugumýri (Sókn., bls. 105). Hann er nefndur Hestaþingshamar í ritinu Landið þitt Ísland II, 61. Orðið hestaþing kemur fyrir í nokkrum fornsögum (sbr. Gísli B. Björnsson og Hjalti Jón Sveinsson, bls. 32).

Hestaöt voru einnig þekkt í Noregi og víðar á norrænu svæði til forna (sjá Svale Solheim, Hestekamp í KLNM VI, d. 538-540). Hestaþing voru ekki vel séð af kirkjunnar mönnum. Árið 1592 hélt Oddur Einarsson Skálholtsbiskup prestastefnu á Kýraugastöðum í Landsveit, þar sem gerð var löng samþykkt, og stendur þar í 6. gr.: „Item fyrirbjóði prestarnir hestaþing, vökunætur og smalabúsreiðir á helgum dögum hvort það sker nótt eður dag“ (Alþingisbækur II, bls. 255). Í annarri gerð sömu samþykktar er bætt við á eftir „á helgum dögum“: „og aðra slíka heiðinglega háttu“ (sama rit, bls. 258).

Síðasta hestavíg á Íslandi fór fram á Vindhólanesi í Fnjóskadal um 1625 að sögn Jóns Espólíns (1769–1836) og greinir hann frá því í Árbókum sínum (VI, bls. 21–22). Frásögn hans af hestavíginu er birt í lestrarbók Sigurðar Nordals (Íslenzk lestrarbók 1750-1930, bls. 28–29). Í Hestaþings-örnefnum er því varðveittur vitnisburður um einn þátt í skemmtanahaldi fornmanna.

Birt þann 20.06.2018
Heimildir

Alþingisbækur Íslands II. (1582–1594). Reykjavík 1915–1916.
Árni Magnússon. Chorographica islandica. Safn til sögu Íslands, 2. flokkur I.2. Reykjavík 1955.
Gísli B. Björnsson og Hjalti Jón Sveinsson. Íslenski hesturinn. Reykjavík 2004.
Holta-Þórissaga. Íslendinga sögur XI. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Íslendingasagnaútgáfan. 1953.
Íslenzk lestrarbók 1750–1930. Sigurður Nordal setti saman. 7. prentun. Reykjavík 1967.
Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. I. Safnað hefur Jón Árnason. Ný útgáfa. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Reykjavík 1954.
Jón Espólín. Íslands árbækur í söguformi. Kaupmannahöfn 1821–1855.
Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Íslenzkir þjóðhættir. Reykjavík 1945.
Landið þitt Ísland. II. Höf.: Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. Reykjavík 1981.
Sókn. = Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenzka bókmenntafélags 1839–1873. Skagafjarðarsýsla. Pálmi Hannesson og Jakob Benediktsson bjuggu til prentunar. Akureyri 1954.
Sturlunga saga. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu um útgáfuna. I–II. Reykjavík 1946.
Svale Solheim. Hestekamp. Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder. VI. Reykjavík 1961.
Örnefnaskrár í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.