Bókin sem hefur safnmarkið 622 4to í safni Árna Magnússonar er eitt fárra skinnhandrita þar sem skrifarinn er þekktur með vissu. Á saurblaði handritsins er að finna slitur úr tileinkun: „Helga Gísladóttir sögð er á þessa bók [...] föður mínum Gísla Jónssyni p(resti) anno Domini 1549.“ Hér er átt við Gísla Jónsson, síðar biskup í Skálholti (1558–83), eldheitan siðskiptamann. Hann hefur tileinkað Helgu dóttur sinni bókina, að minnsta kosti fyrsta hluta hennar, árið 1549.
Gísli gekk í Skálholtsskóla og varð svo handgenginn Ögmundi Pálssyni biskupi að hann varð seinna kirkjuprestur í Skálholti. Hann var samtíða Oddi Gottskálkssyni og Gissuri Einarssyni og deildi með þeim áhuga á kenningum Marteins Lúters. Gísli fór utan til náms eins og þeir en árið 1546 er hann kominn í eitt besta brauð landsins í Selárdal í Arnarfirði. Hann gaf út tvær prentaðar bækur í Kaupmannahöfn í þágu hins nýja siðar árið 1558.
Handritið var ekki upphaflega hugsað í þeirri mynd sem það er varðveitt, og raunar ekki augljóst að Gísli hafi skrifað kverin í þeirri röð sem þau raðast nú. Skipta má bókinni í þrjá hluta. Í þeim fyrsta er að finna sálma og nótnaskrift, þar sem blandað er saman kaþólsku efni og lúterskum sálmum. Hér er sálmur sem prentaður var í Kaupmannahöfn árið 1547 og sýnir hve hratt nýtt efni hefur borist til Íslands. Í öðrum hlutanum lítur skrifarinn hins vegar til baka og ritar nokkur glæsilegustu helgikvæði íslenskra síðmiðalda, þar á meðal Lilju, Milsku, Rósu, Ellikvæði Jóns Hallssonar og loks Píslargrát sem kenndur er Jóni Arasyni. Gísli greinir jafnan frá höfundum kvæðanna en það hafði yfirleitt ekki tíðkast. Sá háttur hans að halda nöfnum skáldanna til haga bendir til þess að áherslan á verk einstaklinga hafi verið að ná fótfestu en á miðöldum tíðkaðist ekki að geta höfunda sagna og kvæða. Þriðji hluti handritsins geymir eingöngu helgikvæði úr kaþólsku eftir Hall Ögmundsson, sem hugsanlega var frændi konu Gísla. Hallur er eitt glæstasta skáld sextándu aldar en kvæði hans eru hvergi varðveitt annars staðar. Nafn hans og kveðskapur væru því gleymd ef ekki væri fyrir handrit Gísla.
Þegar Gísli skrifar bókina er prenttæknin að ryðja sér til rúms á Íslandi og í handritinu má finna skemmtilegar vísbendingar um að prentuð bók hafi jafnvel þótt eftirsóknarverðari gripur eða gjöf til dóttur en skinnhandrit. Í þriðja hluta bókarinnar sést að Gísli hefur leitast við að gera handritið svipað prentaðri bók í útliti með því að líkja eftir nýjum venjum í prentbókum. Þar er hvert kver merkt með bókstaf, a, b, c, d, og blöðin sömuleiðis númeruð a1, a2, o.s.frv.
Þessi smásniðna en þykka skinnbók, sem nú er alls 90 blöð, veitir þannig fágæta innsýn inn í menningarástand á miklum umbreytingartímum um miðja sextándu öld. Hún minnir á að við siðbreytingu urðu ekki afgerandi skil í menningar- og trúarlífi þjóðarinnar, jafnvel í fjölskyldum heitustu siðskiptamannanna. Handritið er einkabók, ef svo má segja, sýnir hina hliðina á biskupnum. Hún varðveittist í kvenlegg allt frá dögum Helgu þar til Árni fékk hana frá Þórði Péturssyni bónda á Innrahólmi í Akraneshreppi. Hún er nú varðveitt í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík. Fræðast má nánar um AM 622 4to í Góssinu hans Árna, minningum heimsins í íslenskum handritum, sem Árnastofnun gaf út árið 2014.
Síðast breytt 22. júní 2018