Skip to main content

Pistlar

Helga Halldórsdóttir (1843–1937)

Helga Halldórsdóttir, húsfreyja á Sandi í Aðaldal (1843–1937).
Frásögn Sigríðar Friðjónsdóttur, dóttur hennar, húsfreyju á Sílalæk.

Erlingur Friðjónsson, kaupfélagsstjóri og alþingismaður, ritaði endurminningar sínar úr uppvextinum á Sandi í Aðaldal, Fyrir aldamót (Reykjavík: MFA, 1959). Í skjölum, sem hann lét eftir sig þegar hann lést 1962, 85 ára gamall, hafa varðveist nokkur aðföng hans að endurminningabókinni, m.a. lýsing Sigríðar, systur hans, á Helgu Halldórsdóttur,  móður þeirra,  líklega með hendi Halls Jónassonar, sonar Sigríðar. En í eftirmála minninganna segir Erlingur að Sigríður hafi lesið yfir handritið af bókinni, leiðbeint sér um sumt og lýsingin á móður þeirra sé að mestu eftir hennar frásögn. Sigríður var ári eldri en Erlingur og gefur hann henni þá einkum að hún sé „stálminnug og fróð“.

Sigríður Friðjónsdóttir var fædd á Sandi 20. desember 1875 og var elst fimm hálfsystkina Guðmundar, bónda og skálds á Sandi. Hún giftist Jónasi Jónassyni bónda á Sílalæk, næsta bæ við Sand í Aðaldal, árið 1898 og bjó þar lengi síðan. Um hana sagði Arnór Sigurjónsson skólastjóri, bróðursonur hennar, að hún hafi verið „skörungskona í framgöngu, djarfmælt og skorinorð og lét engan vera í vafa um, hvernig hún leit á málin [„Um höfund kvæðanna,“ í Sigurjón Friðjónsson: Ljóð og æviágrip, Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar, 1967, s. 195].“ Sigríður var flutt í skjól Jónasar, sonar síns, lögreglumanns í Reykjavík, þegar frásögn hennar um móður sína var skrifuð upp eftir henni. Það var á jólaföstu 1955 eins og meðfylgjandi bréf hennar sjálfar ber vott um en það er dagsett 21. desember, daginn eftir áttræðisafmæli hennar. Jafnframt hefur varðveist bréf hennar (með hendi Jónasar, sonar hennar) til Erlings frá 14. janúar 1958. Hefur hún þá lesið handrit Erlings af lýsingunni á móður þeirra og telur að þeim beri ekki á milli um annað en það hvers vegna móðir þeirra fluttist í Sand. Með því að bera saman handritið af frásögn Sigríðar og bókina er auðvelt að sjá að Erlingur fylgir því að mestu en víkur við orði og orði til að frásögnin falli inn í samhengið í texta hans og að stíl hans sjálfs. Þá lætur hann báðar sagnirnar um það eina atvik, sem systkinin höfðu ólíkar spurnir af, koma fram í bókinni að hætti gamalla sögumanna. Jafnframt bætir hann nokkrum atriðum við frásögn systur sinnar.

Hér fer á eftir frásögn Sigríðar eins og hún er varðveitt í handriti, lítið stytt og lagfærð. Hún var upphaflega í sendibréfsformi og ekki heil ævisaga heldur aðeins nokkrar minningar eins og Sigríður orðar það. Skýringum er skeytt inn í eftir því sem þörf var talin á:

Að minnast mömmu er dálítið erfitt og á hún það þó skilið að hennar sé minnst. Hún átti langa ævisögu og töluvert margbrotna. Hún var mývetnsk og stóðu að henni góðar ættir. Hún var dóttir Halldórs Gamalíelssonar frá Haganesi og Arnfríðar Tómasdóttur frá Kálfaströnd. Kona Gamalíels [Halldórssonar] og móðir Halldórs var Helga, dóttir séra Einars Hjaltasonar og Ólafar konu hans, dóttur séra Jóns Þórarinssonar, og var Ólöf því systir Benedikts, sem kallaði sig Gröndal og Gröndalsætt er komin frá, og fleiri merkra systkina. En kona Tómasar var Guðrún systir Sigurðar, föður Jóns alþingismanns á Gautlöndum. Mamma missti föður sinn ung og var tekin í fóstur af frænku sinni Sigríði Sigurðardóttur á Arnarvatni [hálfsystur Jóns á Gautlöndum] og þar ólst hún upp á margmennu myndarheimili. Kona sem ég kynntist og hafði verið unglingur hjá foreldrum hennar, sagði mér að Halldór faðir hennar hefði verið mesta prúðmenni og sannar það líka vísan sem Jón Hinriksson [skáld á Helluvaði] orti um hann er hann [þ.e. Jón] var léttadrengur hjá honum níu eða tíu ára gamall:

            Bjórin eltir bauga Þór

            blíður æ þó reyni stríð.

            Óramaður ekki stór

            íðilþýður hverja tíð.

Arnfríður mun hafa verið myndarkona. Hún var svo mikil greiðamanneskja að hún jafnvel gaf sinn síðasta bita. Hún var nákvæm við sjúka og heppin ljósmóðir. Mun mamma hafa haft það af henni hvað mikið var leitað til hennar þegar sjúkleika bar að höndum og á móti rúmum þrjátíu börnum tók hún. Báðar voru þær mæðgurnar ólærðar. Snemma mun mamma hafa farið að vinna fyrir sér og gerst vinnukona. Mun hún fljótt hafa orðið eftirsótt því jafnan var hún á stærri heimilum í Mývatnssveit og víðar. Kynntist hún því fljótt stórbúskap og góðum efnum og þoldi því illa að hafa ekki nóg framan við hendurnar til að veita bæði heimafólki og gestum af fullri rausn. Og er hún var orðin bústýra á Sandi lagðist það orð á í nágrenninu að henni myndi ekki vera lagið að fara með lítil efni. En öllum þótti gott til hennar að koma og hjá henni að vera.

Það virðist hafa verið það sem kallast örlög að mamma var á Sandi þegar pabbi missti konuna sína fyrsta búskaparárið er hann var þar og stóð einn uppi með þrjú ungbörn og stóra jörð, niðurnídda og húsalausa, ákveðinn í því að reisa hana úr rústum, en ástæðan til þess, að hún var þar, var sú að rúmlega tvítug hafði hún kynnst yngsta bróður pabba, er Hernit hét, og varð sú kynning svo náin að þau áttu barn saman, dreng sem Pétur hét [1866]. Ekki giftust þau sem þau þó bæði höfðu kosið, var það fólk mömmu sem staðið hafði á móti því og fór því hvert sína leið. Mamma fór í Arnarvatn til frændfólks síns og ólst Pétur þar upp fyrstu árin en hún fór aftur í vinnumennsku og gaf kaup sitt með honum. En þó að vegir hennar og Hernits skildu þá áttu þau eitt sameiginlegt, það var umhyggjan fyrir barninu. Að lokum ákvað Hernit að fara til Ameríku. Það var sama vorið og pabbi fór í Sand [1873]. Pétur var þá sex ára og mamma var farin að hafa hann hjá sér þar sem hún var vinnukona í það og það skiptið. Bað þá Hernit pabba að taka mömmu og drenginn og láta þau ekki vera á hrakningi og láta Pétur hafa sama uppeldi og kennslu sem sín eigin börn. Þannig stóð á því að mamma var á Sandi og tók þar við bústjórn er Sigurbjargar missti við [hún lést 22. mars 1874] og mun pabbi ekki hafa séð aðra færari til þess, enda munu flestir segja að henni hafi farið það vel úr hendi er kunnugir voru.

Náttúrlega var mömmu farið að fara aftur þegar ég man glöggt eftir henni en þær mágkonur mínar gáfu mér þessa lýsingu af henni þegar hún kom fyrst í Sílalæk en þar var hún frá 14. maí [vinnuhjúaskildaga] til fardaga [um mánaðamótin maí-júní] að pabbi flutti í Sand: „Hún var lág og grönn, kvik í hreyfingum með skýrleg, stálgrá augu, bogadregnar augabrýr, hátt enni og hreinan svip, bein í baki, með fallegar, jarpar fléttur niður í mitti.“

Mamma var vel verki farin og stjórnsöm, vildi láta vinna vel og reglulega öll verk, lagði þó mest upp úr vandvirkni, var stúlkunum notaleg og góð og vissi ég ekki annað en þeim þætti öllum vænt um hana. Og þó að hún krefðist dugnaðar af öðrum þá heimtaði hún alltaf mest af sjálfri sér. Eldhúsverk fórust henni allra best úr hendi. Og að taka á móti gestum fórst henni þannig að Sigurjón bróðir [bóndi á Litlulaugum, alþingismaður og skáld] sagði á gamals aldri að engri konu hefði hann kynnst er jafn fljót hefði verið að framreiða góðgerðir og sagt var að síðasta skipun Sigurjóns á Laxamýri [Jóhannessonar, föður Jóhanns skálds], er fólk hans var í heyskap vestur á bæjunum, væri: „Látið Helgu svo hita kaffið, hún er ekki lengi að því.“ Og allir könnuðust við gæðin á kaffinu hennar Helgu.

Um greind mömmu má svipað segja og verk hennar, hún var skýrleikskona og bar gott skyn á þau málefni er hún lét sig skipta. Hún ólst upp á heimilum þar sem mikið mun hafa verið lesið, tók vel eftir og var minnug. Og þegar hún kom í Sand, kom hún ekki að tómum kofum, því þar var mikið af bókum eftir því sem að þá gjörðist. Og las pabbi allar kvöldvökur vetrarins, ef að engar sérstakar annir meinuðu það, og aldrei byrjaði hann að lesa fyrr en mamma var komin inn frá eldhúsverkunum. En eitt var það þó sem var ríkast í eðli mömmu, það var hvað hún var ljóðelsk. Það var ekki einungis að hún gripi hverja lausavísu heldur kunni þau ógrynni af kvæðum að ég hef enga konu vitað kunna jafn mikið. Þegar hún var í Múla tæpt tvítug átti hún að gæta barns þeirra prestshjónanna, hirða herbergi þeirra og vera yfirleitt til snúninga fyrir frúna [Arnfríði Sigurðardóttur]. Þá leyfði prestur [Benedikt Kristjánsson] henni að lesa bækur er voru í bókaskáp í herberginu, þær er hana langaði til, og þá voru það kvæðabækurnar sem hún hneigðist mest að og sagði hún mér að þar hefði hún lært það sem komið hafði út af kvæðum Bjarna Thorarensens og Jónasar Hallgrímssonar. En mest dáði hún þó Benedikt Gröndal [eldri] er hún nefndi jafnan frænda sinn. Og þannig hélt hún áfram að nema og lesa, einnig ljóð yngri skálda, fram á tíræðisaldur. Stuttu eftir að mamma dó hélt Guðmundur bróðir ræðu í útvarpið um konur og sérstaklega þær er liðnar voru. Þar komst hann á einum stað þannig að orði að háöldruð kona, er nú væri nýlátin, hefði kunnað svo mikið af vísum og ljóðum að ef út hefði átt að gefa það, þá hefðu það orðið margar bækur. Við sem hlustuðum og kunnug vorum, vissum að þetta var mamma. Líklega hefur þessi ást á ljóðum verið runnin henni í blóð frá þeim mörgu skáldum og óteljandi hagyrðingum í ættum hennar.

Þegar pabbi hætti búskap og fékk þeim eldri bræðrum jörðina [1901] var ég gift og komin að heiman. Pabbi tók úr búinu nokkrar kindur, að mig minnir svona tuttugu og fimm, og mun hafa ætlast til að þau gætu bæði af því lifað, en mamma sagði að þau gætu ekki verið í húsmennsku á Sandi, svo vel þekkti hún þau bæði, og þegar öll sín börn færu úr Sandi færi hún með þeim. Þau ár sem þið bræður [Erlingur og Halldór] voruð í Ólafsdal [1901–1903] og Þórunn var ekki gift, var hún svona til skiptis hjá mér og á Sandi. En þegar Þórunn gekk með fyrsta barnið bað hún hana að koma til sín [á Akureyri, það var 1905]. Eins og þér er kunnugt var Þórunn alltaf heilsulítil [hún var berklaveik] og var stundum langdvölum í rúminu og var það þá mamma sem annaðist heimilið. Og það sagði Jón [J. Jónatansson, járnsmiður], tengdasonur hennar, að svo mikill styrkur hefði hún verið í heimilinu á meðan henni entist orka að það gæti hann aldrei henni fulllaunað og hefði þó enginn einkasonur getað hlúð betur að henni eftir lát Þórunnar [1929] en Jón gerði. Þó að mamma væri roskin [62 ára], er hún kom til Akureyrar, eignaðist hún þar margar og góðar kunningjakonur og komst nokkuð inn í bæjarmál, að minnsta kosti þau er þið bræður [Erlingur og Halldór voru í forystusveit jafnaðarmanna] voruð riðnir við, og hélt lítt skertum andlegum kröftum fram í andlát [23. mars, 1937].

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023