Íslendinga saga Sturlu Þórðarsonar segir svo frá andláti húsfreyju Snorra Sturlusonar: „Um sumarit Jakobsmessu andaðist Hallveig Ormsdóttir í Reykjaholti, ok þótti Snorra þat allmikill skaði, sem honum var.“ Sögumaðurinn brýtur þannig hlutlæga frásögn sína og segir álit sitt á skaða Snorra og samhryggist honum. Hins vegar hefur hann líklega getið um dauða hennar vegna þess sem fylgdi á eftir, morðið á Snorra 23. september 1241.
Konur koma lítið við Íslendinga sögu nema ófriður standi af þeim, þær blandist inn í deilur eða þær eigi fé sem karlar sækjast eftir. Hallveigar Ormsdóttur er mjög lítið getið í sögunni nema sem féríkustu konu landsins þótt gera megi ráð fyrir að hún hafi haft áhrif sakir ættar og auðs.
Hallveig mun hafa verið fædd um aldamótin 1200. Hún var óskilgetin dóttir Orms Jónssonar Breiðbælings, frillusonar Jóns Loftssonar í Odda, og frillu hans Þóru Eiríksdóttur, systur Kolskeggs hins auðga í Dal undir Eyjafjöllum. Um Orm Breiðbæling segir sagan: „Hann var spekingr mikill at viti ok it mesta göfugmenni. … Hann var vellauðigr at fé, því at hann hafði af fé Kolskeggs slíkt, er hann vildi, því at Þóra var arfi Kolskeggs, en börn hennar eftir hana.“ Mun Ormur hafa farið með Dalverjagoðorð sem Kolskeggur átti.
Jón Loftsson var ekki einasta valdamesti höfðinginn hér á landi í lok 12. aldar, hann var þeirra ættgöfgastur, dóttursonur Magnúsar berfætts Noregskonungs, og líklega meðal þeirra best menntuðu. A.m.k. var Oddastaður eitt helsta lærdómssetur á landinu á 12. öld. Gera má ráð fyrir að Ormur Jónsson hafi verið vel menntaður enda var hann messudjákn að vígslu. Minna er vitað um menntun kvenna á þessum tíma en vegna auðs og lærdóms meðal Oddaverja má gera ráð fyrir að Hallveig hafi hlotið þá menntun sem best þótti sæma konum af hennar stétt.
Því hefur verið haldið fram að höfðingjar á miðöldum hafi einkum valið sér eiginkonur eftir ættgöfgi þeirra og stéttarstöðu. Hallveig var góður kvenkostur enda var hún gjafvaxta gift Birni Þorvaldssyni Gissurarsonar goðorðsmanns í Hruna. En móðurfaðir hans var Klængur Skálholtsbiskup. Stóðu að honum margar göfugustu ættir landsins, Haukdælir og Möðruvellingar, Reyknesingar og Staðarhólsmenn. Tók Björn bús- og mannaforráð Orms Jónssonar eftir að Austmenn höfðu drepið hann og Jón son hans, albróður Hallveigar, í Vestmanneyjum 1218. Hallveig og Björn áttu tvo syni, Klæng og Orm. Björn var drepinn 17. júní 1221 af mönnum Lofts Pálssonar biskups á hlaðinu á Breiðabólsstað eftir miklar deilur milli þeirra um landamerki. Inn í þessar deilur blönduðust aðrar deilur um verslun Íslendinga við Austmenn og taldi Björn að Snorri Sturluson lögsögumaður hefði meira hugsað um fremd sína en rétt Íslendinga í málarekstri í Noregi. Drógu gárungar í liði Bjarnar dár að skáldskap Snorra til heiðurs Skúla hertoga, sem þá fór með völd í Noregi, og vændu hann um undirlægjuhátt. Tók Snorri því illa og er gefið í skyn í Íslendinga sögu að hann hafi jafnvel verið ráðbani Bjarnar.
Hallveig varð ekkja eftir Björn aðeins rúmlega tvítug. Hún var þó ekki á flæðiskeri stödd með tvo barnunga syni sína, bjó á einum helsta og auðugasta stað landsins og hafði hlotið ófafé í arf eftir föður sinn og eiginmann. Við það bættist arfur eftir Kolskegg auðga, móðurbróður hennar, sem lést 1223, og Dalverjagoðorð þótt hún sem kona mætti ekki fara með það á þingum.
Um þetta leyti munu þau Snorri Sturluson fyrst hafa hist eftir því sem Íslendinga saga segir. En Snorri var þá orðinn meðal valdamestu höfðingja landsins og um tuttugu árum eldri en Hallveig. Gefið er í skyn að Snorri hafi verið í dáleikum við Solveigu Sæmundardóttur Jónssonar í Odda sem var í för með honum. Inn í þá frásögn er felld mynd af Hallveigu Ormsdóttur, ekkju Björns Þorvaldssonar, eins og Snorri leit hana þá:
En er þau [Solveig] riðu frá Keldum, reið kona á mót þeim ok hafði flakaólpu bláa ok saumuð flökin at höfði henni. Hafði hon þat fyrir hattinn. Einn maðr var með henni. En þat var Hallveig Ormsdóttir, er þá var féríkust á Íslandi. Snorra þótti hennar ferð heldr hæðilig ok brosti at.
Umkomuleysi hennar virðist algjört og Snorri gerir gys að henni. En á meðan synir Hallveigar voru á bernskuskeiði laut hún forsjá tengdaföður síns, Þorvalds í Hruna. Og þrátt fyrir það orð sem lagðist á að Snorri hefði stutt Loft biskupsson í deilum þeirra Bjarnar Þorvaldssonar kom Þorvaldur því til leiðar að Hallveig gerði helmingafélag við Snorra. Hafði Snorri þá miklu meira fé en nokkur annar maður á landinu eftir því sem sagt er.
Fluttist Hallveig í Reykholt með syni sína og gerðist þar húsráðandi á höfðingja- og lærdómssetrinu sem Snorri hafði reist sér. Ólust synir hennar þar upp. Ekki gerir Íslendinga saga lítið úr vífni Snorra en samt virðast samfarir hans og Hallveigar góðar þótt ekki lifði barna þeirra. Þórður Sturluson sagði að vísu illa fyrir um þetta hjónaband en var ekki meira á móti því en svo að Sturla, óskilgetinn sonur hans, dvaldist langdvölum í Reykholti og kallar Klæng, son Hallveigar, fóstbróður sinn. Má gera ráð fyrir að Hallveig hafi að einhverju leyti gengið Sturlu í móðurstað en Þóra, frilla Þórðar Sturlusonar og móðir Sturlu, lést sama ár og Hallveig kom í Reykholt.
Þótt Íslendinga saga segi fátt af Hallveigu er ljóst að þau Snorri hafa haft mikið umleikis og verið mannmargt í Reykholti. Hafa hálfsystkini Hallveigar að einhverju leyti dvalist með henni þar og þau Snorri haft hönd í bagga með þeim.
En sumarið 1241, þegar Hallveig er aðeins rúmlega fertug veikist hún og draga þau veikindi hana til dauðs. Nú hefði mátt ætla að Þorvaldur í Hruna, tengdafaðir Hallveigar, hefði búið svo um hnútana að arfskipti eftir hana yllu ekki deilum. En Snorri var aldrei auðveldur í fjármálum og það kom til ágreinings milli hans og Hallveigarsona um arfinn, töldu Klængur og Ormur sig eiga allt fé að helmingi en Snorri vildi láta Bláskógaheiði ráða landskiptum. Kom þá fram spásögn Þórðar Sturlusonar þegar hann varaði Snorra við að gera helmingafélag við Hallveigu og taldi það mundu verða honum að aldurtila. Var Klængur í aðför með fyrrum tengdasonum Snorra, Gissuri, föðurbróður sínum, og Kolbeini unga um haustið þegar Snorri var drepinn. En Ormur skarst úr leik. Lét síðan Órækja Snorrason drepa Klæng í Reykholti um jólin sama ár til hefnda eftir föður sinn. Ormur bjó hins vegar áfram á Breiðabólsstað og hafði mannaforráð þangað til Þórður kakali Sighvatsson neyddi hann á fund Noregskonungs. Lést hann í Noregi 1250 og átti enga afkomendur.
Það fáa sem Íslendinga saga segir af högum Hallveigar gæti að einhverju leyti verið eftir henni haft. Þegar Sturla Þórðarson rekur á efri árum sögu hennar og Snorra er ljóst að hann hefur fulla samúð með henni og skilur sorg Snorra þegar hún lést. Hefði hann hins vegar haft áhuga á að segja örlagasögu hennar mætti ætla að hún hefði ekki síður orðið magnþrungin en sagnir af formæðrum hennar í ættum Noregs- og Danakonunga.
Síðast breytt 22. júní 2018