Skip to main content

Gullslegin tíðabók

Þann 7. febrúar síðast liðinn færði dr. Margaret Cormack stofnuninni lítið en forkunnarfagurt handrit að gjöf. Það er hluti tíðabókar frá miðri 15. öld sem skrifuð var og lýst í Frakklandi.

Handritið er úr skinni í áttungsbroti (octavo), 165 x 120 mm að stærð en leturflöturinn er að jafnaði 95 x 70 mm. Það er 16 blöð en á þeim er fyrst dagatal á frönsku (bl. 1r-12v) en þar fyrir aftan (bl. 13r-16v) er víxlsöngur á latínu, Litania sanctorum, þar sem þríeinn Guð, María Guðsmóðir, englar og allir heilagir eru ákallaðir. Aftan á víxlsönginn vantar, því handritið er einungis hluti úr stærri bók (eða raunar tveir hlutar því víxlsöngurinn hefur ekki upphaflega fylgt strax á eftir almanakinu), tíðabók sem fylgt hefur Parísarvenju. Á tíðabókum voru leskaflar, sálmar og bænir sem hafðar voru yfir við tíðagjörð en hún fór fram átta sinnum á sólarhring í kirkjum og klaustrum. Hryggjarstykkið í þessum bókum voru Maríutíðir hinar minni og þegar kom fram á síðmiðaldir voru þær ekki bara sungnar af klausturfólki og klerkum heldur einnig af leikmönnum í heimahúsum. Efnafólk tók þá að leggja mikið upp úr því að eignast fallegar tíðabækur og á 15. og 16. öld stóð markaður með þær með miklum blóma, einkum í París þar sem flestar bækurnar voru skrifaðar og lýstar. Tíðabækur frá þessum tíma byrja yfirleitt á almanaki þar sem hátíðir kirkjuársins og dýrlingadagar eru skráðar í fallegum litum. Þannig hefur verið um bókina sem blöðin okkar eru úr. Í dagatalinu eru nöfn dýrlinga sett við messudaga þeirra og eru ýmist í bláum eða rauðum lit en dagar höfuðdýrlinga og aðrar stórhátíðir eru auðkenndar með gylltum stöfum. Þá er upphaf hvers mánaðar gefið til kynna með skreyttum upphafsstöfum sem lagðir eru blaðgulli.

Vel hefur verið vandað til bókarinnar. Bókfellið er sérlega vandað, ljóst að lit og blöðin þunn og gylling og skreytingar eru unnar af mikilli nákvæmni. Eigendur handritsins hafa líka gætt þess vel – það ber ekki merki þess að hafa verið mikið handfjatlað eða ógætilega. En einhvern tíma hefur bókin verið hlutuð sundur og partarnir ratað hver í sína áttina. Ekkert er vitað um feril handritsins þar til faðir gefandans, Allan Cormack, keypti þennan hluta þess hjá fornbókasölu James Thin í Edinborg árið 1976 og hafði hann þá nýlega verið bundinn í vandað band. Allan Cormack var af skosku bergi brotinn en alinn upp í Suður-Afríku og varð síðar prófessor í eðlisfræði við Tufts-háskóla í Bandaríkjunum. Hann hlaut nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 1979 fyrir framlag sitt til þróunar sneiðmyndatækni. Að honum látnum gekk handritið til dóttur hans Margaret sem er sagnfræðingur og starfar við College of Charleston í Suður-Karólínu. Sérsvið hennar eru heimildir um dýrkun dýrlinga á Íslandi og hún hefur margoft dvalið við rannsóknir á Árnastofnun. Gjöf hennar til stofnunarinnar lýsir stórhug og mikill fengur er að henni í handritasafnið því þar er engin sambærileg bók fyrir.

Birt þann 19.06.2018