Skip to main content

Gafl og Gefla

Birtist upphaflega í janúar 2006.

Orðið gafl merkir sem kunnugt er ‘endaveggur húss’, ‘hússtafn’ eða ‘endi á t.d. kassa, rúmi eða þ.h.’, einnig ‘holskefla’, eitthvað sem líkist gafli. Orðið kemur fyrir sem örnefni, Gafl, á nokkrum stöðum á landinu, sem náttúrunafn, t.d. endinn á Víðidalsfjalli í V-Hún. og norðurhlið Drangeyjar á Skagafirði, en einnig í samsetningum eins og Eyjargafl sem er hólmi á Breiðafirði sem liggur undir Hrappsey. Í Dalasýslu er Gaflfell og Gaflfellsheiði.

Gafl er nafn á fjórum bæjum: 1) Í Villingaholtshr. í Flóa í Árn. 2) Í Húnaþingi vestra í V-Hún. (sjá mynd). 3) Í Svínadal í A-Hún. 4) Í Reykdælahr. í S-Þing. og sem síðari hluti samsetningar kemur það fyrir í bæjanöfnunum Flóagafl í Flóa og Suðurgafl í Biskupstungum í Árn. Á Brekku í Gufudalssveit er holt nefnt Húsgafl og sagt draga nafn af lögun (örnefnaskrá á ÖÍ). Þar mun þó áður hafa staðið býli, seinna beitarhús, síðast stekkjarrústir.

Ekki er alltaf auðvelt að sjá ástæðu fyrir nafninu sem bæjarnafn. Í fornu máli merkti gafl nokkurn veginn hið sama og í nútímamáli, einnig „Endespidse paa en Ø“ ... „ligesom Gavlen endnu forekommer som Navn paa Næs og Fjelde“ (Johan Fritzner, Ordbog over Det gamle norske sprog (1973) I:536). Í 17. aldar máli gat orðið einnig merkt ‘takmörk, landamerki?’, latína ‘terminus’ (Runólfur Jónsson, Recentissima antiqvissimæ linguæ Septentrionalis incunabula Id est grammaticæ Islandicæ rudimenta Nunc primum adornari cæpta & edita Per Runolphum Jonam Islandum. Kaupmannahöfn 1651).

Sambærilegt við Gafl er bæjarnafnið Stafn sem var bæði til í Bólstaðarhlíðarhr., A-Hún. og í Reykdælahr., S-Þing.

Orðið gefla merkir ‘(kipruð) vör’ eða ‘stútur á íláti’ eða ‘holskefla’ í nútímamáli en er ekki skráð í fornu máli. Sem örnefni, Gefla, er líklegra að það sé myndað af orðinu gafl. Það er „auðkennilegt kollótt fjall“ (205 m) við Leirhöfn í N-Þing. þar sem hæst ber á Vestursléttu (Melrakkasléttu) (Gísli Guðmundsson, Árbók Ferðafélags Íslands 1965, 12, 74).

Birt þann 20.06.2018