Skip to main content

Pistlar

Fontur

Birtist upphaflega í september 2003.

Örnefnið Fontur er til á a.m.k. fjórum stöðum á landinu:

1) Ysti oddi Langaness í N-Þing. (= Langanesfontur), hömrum girtur, og er þar allhátt bjarg.
2) Endinn á fjallgarðinum við Barðsnes í Norðfirði, S-Múl. (= Hornsfontur), þar sem Hornið endar í mjóu nefi.
3) Berggangur í landi Sandvíkur í Norðfirði fyrir innan Guðrúnarskarð.
4) Strýtumynduð hæð efst á Gildrufjalli í landi Stafafells í Lóni, A-Skaft.

Merking orðsins er 'ker (á stalli), skírnarfontur'. Í eldra máli var til orðið fontvirki, eins konar stauravirki utan við kirkju þar sem kirkjuklukkur hafa hangið, sbr. máldaga Garðakirkju á Akranesi frá 1560 (Íslenskt fornbréfasafn XIII:525). Orðið fontur virðist því merkja 'stólpi, staur' e.þ.h., sbr. orðtakið: standa eins og fontur 'standa hreyfingarlaus (eins og staur)' (Íslensk orðabók (3. útg. 2002), 365). Líklegt er að örnefnin séu dregin af útliti þessara staða.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023