Birtist upphaflega í september 2003.
Örnefnið Fontur er til á a.m.k. fjórum stöðum á landinu:
1) Ysti oddi Langaness í N-Þing. (= Langanesfontur), hömrum girtur, og er þar allhátt bjarg.
2) Endinn á fjallgarðinum við Barðsnes í Norðfirði, S-Múl. (= Hornsfontur), þar sem Hornið endar í mjóu nefi.
3) Berggangur í landi Sandvíkur í Norðfirði fyrir innan Guðrúnarskarð.
4) Strýtumynduð hæð efst á Gildrufjalli í landi Stafafells í Lóni, A-Skaft.
Merking orðsins er 'ker (á stalli), skírnarfontur'. Í eldra máli var til orðið fontvirki, eins konar stauravirki utan við kirkju þar sem kirkjuklukkur hafa hangið, sbr. máldaga Garðakirkju á Akranesi frá 1560 (Íslenskt fornbréfasafn XIII:525). Orðið fontur virðist því merkja 'stólpi, staur' e.þ.h., sbr. orðtakið: standa eins og fontur 'standa hreyfingarlaus (eins og staur)' (Íslensk orðabók (3. útg. 2002), 365). Líklegt er að örnefnin séu dregin af útliti þessara staða.
Síðast breytt 24. október 2023