Skip to main content

Pistlar

Elliðaár

Birtist upphaflega í mars 2008.

Í Landnámabók er nefndur Elliðaárós, eins og nafnið sé eintala, (ekki *Elliðaáaós), en á síðari tímum er alltaf talað um Elliðaár, t.d. í Skarðsárannál frá um 1640 (við árið 1582) (Annálar I:168), Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (II. b.) (eða Hellisár í sumum heimildum, t.d. sóknarlýsingu, Gullbringu- og Kjósarsýsla, 148). Elliðaárnar renna að nokkru í tveimur kvíslum, og á fyrsta korti sem gert var af þeim frá 1880, er hvor kvísl um sig neðantil merkt Elliðaá þar sem þjóðvegurinn úr Reykjavík lá yfir þær. (Elliða-ár frá upptökum og að árósum 1880. Birt í Elliðaárdalur. Land og saga, bls. 66-67). Bærinn Árland neðra er nefndur í heimildum í lok 14. aldar, hefur líklega upphaflega aðeins heitið Á hin neðri, síðar Ártún, og Árbær Á hin efri (Árland efra) (Ólafur Lárusson, Byggð og saga, 192-197). Í Landnámu er nafnið talið dregið af skipinu Elliða sem Ketilbjörn gamli Ketilsson á Mosfelli átti (Ísl. fornrit I:384). Mannsnafnið Elliði er nefnt í nafnatali frá 17. öld. Alltaf er talað um Elliðavatn, ekki *Elliðaárvatn, svo að bærinn Elliðavatn hefur e.t.v. heitið Elliði upphaflega og þá verið kenndur við eitthvað í náttúrunni sem líktist skipi. Örnefnið Elliði er víðar til: 1) Bær í Staðarsveit í Snæf. 2) Stór hóll í landi Sveðjustaða í Miðfirði. 3) Í Litluhlíð í Lýtingsstaðahr., Skag. 4) Bringulagað hátt fjall, bratt og illgengt, milli Hjaltadals og Kolbeinsdals í Skag. Árni Magnússon handritasafnari skrifar á einum stað í handriti, að Elliði sé nafn á nokkrum fjöllum á Íslandi og dregið af el-liði, „því elið líður með honum“. (OH)

Elliðavatn. Ljósm. Jóhann Ísberg.

Elliðaey í Vestmannaeyjum er talin draga nafn af því að hún líkist stafnháu skipi, og samnefnd eyja á Breiðafirði er brött í sjó. Meðfram túninu á Elliðavatni er ás, sem nefndur er Bæjarás eða Heimaás (Örnefnaskrá) og gæti minnt á skip. Mannsnafnið Elliði kemur auðvitað líka til greina til skýringar, en engar heimildir eru um mannsnafnið hér á fornum tíma, aðeins Elliða-Grímur, en hann er væntanlega kenndur við skip.

Í Noregi er til bæjarnafnið Elstad í Ringebu í Kristians Amt, sem skrifað er „a Ellidstadum“ í bréfi frá 14. öld. Oluf Rygh taldi að nafnið hefði verið *Eldríðarstaðir (Norske Gaardnavne IV,1, bls. 144). Mér þykir eins líklegt að það hafi verið *Elliðastaðir. Meðal horfinna örnefna í Noregi er „Ællidenes“ við Túnsberg (DN II:120 (1320/1409). Útgefandi Norske Gaardnavne VI, A. Kjær, telur nafnið geta verið upphaflega *Elliðanes, þó að Oluf Rygh hafi talið að afrit handritsins frá 1409 hafi oft miður réttar nafnmyndir (bls. 230). Í ritinu Hversu Noregr byggðist er nefnt Elliðaeið í Naumudal í Noregi : „let menn sina draga ellidann nordr vm Ellidaeid til Naumudals“ (Ordbog over det norrøne prosasprog 3: 882; Flateyjarbók I:23). Það er nefnt Eldueið í Landnámu (346), nú Namdalseid (Norsk stadnamnleksikon (99). Það skal nefnt hér að Ketilbjörn gamli var einmitt úr Naumudal.

Á Orkneyjum er örnefnið Elwick sem rakið er til nafnsins *Elliðavík (Sophus Bugge, Aarbøger for nordisk oldkyndighed og historie 1889, 15-16). Í Hákonar sögu Hákonarsonar er staðurinn nefndur Elliðarvík á Orkneyjum, nærri Kirkjuvogi, þar sem Hákon lá um hríð eins og segir í sögunni. (Flateyjarbók III (1945), bls. 581–582). Elwick er þó á annarri eyju, Hjálpandisey sem svo hét, nú Shapinsay. Hugh Marwick nefnir Elliar Holm (Helliar Holm) í mynni víkurinnar, sem ætti þá að vera *Elliðahólmur (Orkney Farm-Names, (1952), bls. 54). (Landakort: Ordnance Survey. Landranger 6.). Ekki er fjarri að álykta að nafnið sé hér dregið af elliði í merk. 'skip‘.

Elliðaárvogur hefur upphaflega aðeins átt við innsta hlutann, innan Gelgjutanga á móti Grafarvogi, en nafnið hefur síðar verið látið ná til sundsins milli Klepps og Gufuness. Þannig er það sýnt á uppdrætti sem Strætisvagnar Reykjavíkur hf. gáfu út 1932 og birtur er í bók Einars S. Arnalds, Reykjavík. Sögustaður við Sund. 4. bindi Lykilbók, bls. 93. Árni Óla staðfestir þetta í bókum sínum um Reykjavík. Í Skuggsjá Reykjavíkur (1961), kaflanum Laxinn í Elliðaánum, talar hann um „að í ráði sé að setja áburðarverksmiðjuna niður öðru hvoru megin við Elliðaárvoginn“ (bls. 279). Í bókinni Horft á Reykjavík(1963) í kaflanum Á gömlum vegi í borg, segir hann m.a. „Var þá ekki önnur byggð þarna á nesinu en Laugarnes að vestan og Kleppur að austan við Elliðaárvog.“ (bls. 163). Í kaflanum Landnemar í Langholti segir Árni: „Inn við Elliðaárvoginn stóð Kleppsbærinn gamli...“ (bls. 331). Allt bendir því til að nefna eigi sundið milli Sundahafnar og Gufuness fremur Elliðaárvog en Kleppsvík. Kleppsvík var aðeins lítil vík við Klepp og átti því alls ekki við allt sundið upphaflega eins og nú er farið að nota nafnið.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Annálar 1400–1800. I. Reykjavík 1922–1927.
Árni Óla. Skuggsjá Reykjavíkur. 1961.
----------. Horft á Reykjavík. 1963.
Sophus Bugge. Aarbøger for nordisk oldkyndighed og historie 1889.
DN = Diplomatarium Norvegicum. Oldbreve. Norskt fornbréfasafn. Christiania 1852.
Einars S. Arnalds. Reykjavík. Sögustaður við Sund. 4. bindi Lykilbók. Reykjavík 1989.
Elliðaárdalur. Land og saga. Árni Hjartarson, Helgi M. Sigurðsson (ritstjóri), Reynir Vilhjálmsson. Reykjavík 1998.
Flateyjarbók III. Akranes 1945.
Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839–1855. Reykjavík 2007.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III. Khöfn 1923–1924.
Landnámabók. Íslensk fornrit I. Reykjavík 1968.
Hugh Marwick. Orkney Farm-Names. Kirkwall 1952.
Norsk stadnamnleksikon. Jørn Sandnes og Ola Stemshaug. 2. utg. Oslo 1980.
OH = Orðabók Háskólans.
Ordnance Survey. Landranger 6. Orkney Mainland, 1:50 000.
Ordbog over det norrøne prosasprog. 3. København 2004.
Ólafur Lárusson. Byggð og saga. Reykjavík 1944.
Oluf Rygh. Norske Gaardnavne IV,1. Kristiania 1900.