Skip to main content

Egill Skallagrímsson uppdubbaður – AM 454 4to

Sögur má segja í bundnu máli jafnt sem lausu. Búningurinn sem þeim er sniðinn er að sumu leyti undir tíðarandanum kominn — tiltekið bókmenntaform kemst í tísku og sagnaefni er þá endurunnið og aðlagað nýjum smekk. Vinsældir rímnakveðskapar leiddu til þess að sögum var snúið í rímur en svo voru líka dæmi þess að upp úr rímum yrðu til frásagnir í lausu máli. Þannig gat sama efnið farið heilan hring, úr sögu í rímur og aftur í sögu sem þá dró ef til vill dám af skáldskaparmáli og stílvenjum rímnanna.

Dæmi um þetta má sjá í afdrifum Egils sögu Skallagrímssonar á 17. öld. Frá þeim tíma eru ómetanlegar uppskriftir Ketils Jörundssonar á sögunni en Egla varð einnig efni í rímur sem Jón Guðmundsson í Russeyjum (Rauðseyjum) á Breiðafirði orti árið 1643. Rímurnar eru 40 talsins og voru ortar að beiðni Eggerts Björnssonar hins ríka, sýslumanns á Skarði á Skarðsströnd. Þær fylgja atburðarás sögunnar en vitaskuld þurfti skáldið að þjappa efninu og umskapa það til þess að það félli að rímnaforminu. Svona lýsir það Agli andspænis Aðalsteini Englakonungi í 20. rímu:

Seima yggur sat við borð,
sem að ég fyrr innti,
rekkurinn tryggur ræddi ei orð
reiður og hryggur geðs um storð.

Ófnis stíga ullur skýr
öli og mat nam hafna,
eflir víga yggldar brýr
ofan lét síga varla hýr.

Einhvern tíma eftir að Jón í Russeyjum færði Eglu í rímnabúning var rímunum snúið á nýjan leik í sögu. Hún er mjög frábrugðin gömlu Eglu að orðfæri og stíl enda rituð á íslensku eins og hún var töluð á 17. öld. Höfundur þessarar nýju Eglu leggur líka miklu meira upp úr bardagalýsingum en gert er í fornsögunni. Frásögnin minnir þess vegna meira á fornaldar- og ævintýrasögur en hefðbundnar Íslendingasögur auk þess sem öllum kveðskap Egils er sleppt. Þá eru sögulokin all frábrugðin hinni gömlu gerð:

Það var einn tíma um vorið að allir karlmenn voru heiman farnir frá Mosfelli til erinda sinna, að hestur einn lá í bænum að Mosfelli um þverar dyr dauður, so ei var hægt að ganga hjá, en konum varð mjög að orðum um það þær kæmi honum ei í burt. Sem Egill þetta heyrði gekk hann á fætur, og var hann þá allsendis blindur, og leiddu konur hann þangað sem hesturinn lá dauður, og tók hann um afturfætur hestsins og rykkti honum í einu út á hlað svo út gengu garnir. Á rann ein fyrir neðan túnið. Hólmi var í miðri ánni og víðir í hólmanum.

   Egill mælti: „Er nú ei neitt fyrir?“

En konur kváðu svo vera. Egill tók nú í afturfætur hestsins og kastaði honum svo hann kom yfir alla ána og í bakkann hinumegin.

   Egill mælti: „Hvar kom hann niður?“

   En konur kváðu hann komið hafa í bakkann hinumegin hólmans.

   Egill mælti: „Í víðirinn ætlaði eg honum.“

Gekk Egill til rekkju sinnar og lifði ei lengi úr því. Dó hann að Mosfelli, og var hann þar heygður. Ei höfum vér meira af honum að segja en hér er skrifað og ljúkum so þessari sögu af Egli Skallagrímssyni. (125r–v)

Handritið er eitt af fjórum sem varðveita þessa umrituðu gerð Egils sögu. Það er að mestu skrifað af Gísla Guðmundssyni á Rauðalæk í Holtum, að sögn Árna Magnússonar „eftir bók í folio frá sýslumanninum Ólafi Einarssyni“.

Lýsingu á handritinu má finna á: https://handrit.is/is/manuscript/view/AM04-0454

Birt þann 01.02.2017