Skip to main content

Dynjandi

Birtist upphaflega í maí 2005.

Örnefnið Dynjandi er m.a. nafn á fossi og býli í Arnarfirði. Fossinn dregur nafn af hljóði sínu. Nafnið er vafalaust fornt því að í Noregi er einnig til sambærilegt nafn, Dynjandaskeið, nú Dønski í Bærum við Ósló („mote Dynienda“ DN I:194 (1337)). Dynjandi í Arnarfirði er nefndur í skjali 1418 (DI IV:265). Nafnið Fjallfoss á fossinum er rangnefni, en honum er lýst í Sóknalýsingum Bókmenntafélagsins sem stórum „fjallfossi“ árinnar, og þá eflaust átt við að hann sé þess eðlis að hann steypist ofan af fjallsbrún.

Beyging nafnsins nú er eins og nafnið sé karlkyns, með Dynjanda í öllum aukaföllum.
Orðið dynjandi hefur væntanlega verið kvenkyns, sbr. kveðandi, hrynjandi o.fl. Það kemur fram hjá Eggerti lögmanni Hannessyni árið 1570, „á Dynjandi“ (DI XV:474), og í Eyrarannál 1686, þar sem þgf. er líka „á Dynjandi“ (Annálar 1400–1800 III:346) og útgefandinn bætir við „og er rétt“! En karlkynsbeyging er til annars á 18. öld. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1710 er beygingin á reiki, „um Dynjanda“ (11) en bæði „til Dynjanda“ (9) og „til Dynjandis“ (11). Í samsetningu „Dynjandaland“ (16).

Dynjandi er einnig jörð í Jökulfjörðum. Hennar er getið í fornbréfi 1505 (DI VII:760). Eignarfallið Dynjanda er í Vatnsfjarðarannál yngra 1616 (Annálar III:99; sbr. og IV:248). Þar er foss kallaður Dynjandisfoss.

Í samsetningum er Dynjandi í Arnarfirði yfirleitt alltaf Dynjandis-: Dynjandisá. Jarðabók Árna og Páls Vídalíns 1710 hefur þennan rithátt (VII:10). Dynjandi blasir við frá Auðkúlu „og heyrast drunur hans greinilega í hagstæðu veðri og þá hvað helst í vorleysingum, þegar vötnin á Dynjandisfjöllum eru að brjóta af sér klakaviðjar vetrarins.“ (Örnefnaskrá Auðkúlu). Dynjandisheiði er fjallvegur milli V-Barð. og V-Ís., frá bænum Dynjanda í Arnarfirði og vestur að botni Geirþjófsfjarðar. Einnig má nefna Dynjandisvog (Landið þitt I:154).

Líklegt er að nafnið Dynjandi hafi snemma orðið karlkyns eins og oft gerist um örnefni, ekki síst bæjanöfn. Bærinn hefur verið nafnlaus í fyrstu en sá sem fyrstur byggði þar hefur búið „at Dynjandi“, þ.e. við fossinn Dynjandi. Svipað hefur gerst með bæjarnafnið Þjótanda í Þjórsá. Orðið þjótandi var kvk. í fornu máli og merkti ‘lífæð’. Nafnið hefur vafalítið átt við þrengslin sem verða í ánni þar sem brúin hefur staðið við bæinn Þjótanda. Ásgeir Blöndal Magnússon segir í orðsifjabók sinni að þjótandi sé kk.orð og merki ‘þytur, hraður straumur’ og er það efalítið dregið af nafni bæjarins, sem hefur verið kk. Þjótandi, um Þjótanda.

Kvk.orð sem nefnd eru óbeygjanleg eins og speki hafa tilhneigingu til að fá -s í ef., í samsetningum þar sem eitthvert orð kemur á undan viðkomandi orði, sbr. nafnið Heimspekisdeild, sem tíðkaðist áður fyrr. Sama er að segja um orð eins og athyglis-verður, af orðinu athygli, sem annars hefur ekki -s í ef. (Kjartan Ólafsson talar um í Árbók Ferðafélags Íslands 1999, 31, að -is sé gömul beyging, og á þá líklega við beygingu orða eins og kvæði, kvæðis, en óvíst er að dynjandi hafi nokkurn tíma verið hvk.)

Þó ekki sé um forlið í samsetningunni Dynjandisá að ræða hefur -s komið inn í samsetningarnar með Dynjandi án þess að orðið sjálft hafi haldið -s-eignarfalli.

Sama hefur gerst með Súgandisey við Stykkishólm. Orðið súgandi hefur væntanlega verið kvk. en er beygt eins og karlkynsorð í Súgandafirði, en þar er nafnið skv. fornum heimildum kennt við Hallvarð sem hafði viðurnefnið súgandi. Súgandi er nú nefndur hóll í landi Botns í Súgandafirði. 

Algengt er að nöfn með -andi séu nöfn á vatnsföllum og fossum og straumum. Þannig er Rjúkandi árnafn á Jökuldal og nafn á fossi í Vatnsdalsá og Skínandi er foss í sömu á. (Sbr. og Grímnir 1:41; 2:9). Dynjandi er auk þess nafn á nokkrum fossum og lækjum, t.d. á fossi í Víðidalsá í landi Stafafells í Lóni og á læk í landi Þinganess í Nesjum í A-Skaft., og þar er Dynjandanes. Bær í Nesjum í A-Skaft., sem er nýbýli frá 1943, er nefndur Dynjandi, þar sem beygingin er „við Dynjanda“ og „frá Dynjanda“ (Byggðasaga Austur- Skaftafellssýslu I:139–140).

Birt þann 20.06.2018
Heimildir

Skammstafanir heimilda:
DI = Diplomatarium Islandicum, þ.e. Íslenskt fornbréfasafn.
DN = Diplomatarium Norvegicum, þ.e. Norskt fornbréfasafn.