Skip to main content

Pistlar

Dagverðar-örnefni

Birtist upphaflega í janúar 2018.

Nýlega tók ég eftir skilti í Norræna húsinu í Reykjavík þar sem stóð „Dögurður/Brunch“. Guðrún Kvaran fjallar um þetta orð í pistli á Vísindavefnum: „Með orðunum dögurður og dagverður var átt við morgunverð, fyrri máltíð dagsins, en þau eru ekki lengur notuð í almennu máli. Vel fer á því að nota dögurð nú í staðinn fyrir brunch, styttingu úr breakfast og lunch, það er máltíð sem sameinar morgunverð og hádegisverð“. Báðar myndir orðanna koma fyrir í textum frá miðöldum. Elsta dæmið um dögurðr/dagurðr er í Íslenskri hómilíubók (Holm perg 15 4to, frá um 1200. Elsta dæmið um dagverðr er hins vegar að finna í handriti Konungsbókar Grágásar (GKS 1157 fol., frá um 1250). Dagverðarmál eða dagmál voru kl. 9 á Íslandi (sjá Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XII, 118–120).

Orðið dagverður kemur fyrir sem liður í nokkrum örnefnum og má nefna sem dæmi: Dagverðardalur (Strandabyggð, Árneshreppur, Ísafjarðarbær), Dagverðareyrar (Borgarbyggð), Dagverðarholt (Rangárþing eystra), Dagverðarmýri(Dalabyggð, Sveitarfélagið Hornafjörður), Dagverðarnes (Dalabyggð, Skorradalshreppur), Dagverðará (Dalabyggð, Snæfellsbær), Dagverðartunga (Hörgársveit).

Í Landnámabók og í Laxdæla sögu er örnefnið Dagverðarnes skýrt svo að landnámskonan Auðr (eða Unnur) djúpúðga Ketilsdóttir hafi borðað þar dögurð: „Eptir um várit fór Auðr í landaleit inn í Breiðafjǫrð ok lagsmenn hennar; þau átu dǫgurð fyrir norðan Breiðafjǫrð, þar er nú heitir Dǫgurðarnes“ (Landnámabók, Íslenzk fornrit I, bls. 139) og „Ok um várit fór hon yfir Breiðafjǫrð ok kom at nesi nǫkkuru, ok átu þar dagverð; þar er síðan kallat Dǫgurðarnes, ok gengr þat af Meðalfellsstrǫnd“ (Laxdæla saga, Íslenzk fornrit V, bls. 9).
 

Sambærileg setning kemur fyrir í Harðar sögu Grímkelssonar þar sem Þyrilsnes í Hvalfirði er nefnt Dögurðarnes og skýringin á örnefninu er þar tengd Torfa Valbrandssyni og félögum hans sem drepa Hörð og félaga hans í sögunni: „Þeir riðu þegar um nóttina. Þeir átu dögurð um morgininn eptir á nesi því innanverðu, er þeir kölluðu Dögurðarnes síðan“ (Harðar saga, Íslenzk fornrit XIII, bls. 80).

Önnur skýring á slíkum örnefnum er að þau séu tengd eyktamörkum, þ.e. föstum punktum í landslagi, sem hafi verið notuð sem viðmið við sólargang til að vita hvað tímanum líður (sjá Gösta Franzen, Laxdælabygdens ortnamn (Uppsala, 1964), bls. 16, nmgr. 1 og bls. 55–56, og einnig Árni Björnsson, Tímamælar, Íslensk þjóðmenning VII, ritstj. Frosti F. Jóhannsson (Reykjavík, 1990), bls. 85–91). Þórhallur Vilmundarson dregur þetta hins vegar í efa og bendir á að „Þegar að er gáð, kemur í ljós, að síðari liðir íslenzkra Dögurðar- eða Dagverðar-nafna eru yfirleitt ekki hæðaorð, sem algengust eru í eyktamarkanöfnum (-hóll, -hæð, -tindur, -klettur o.s.frv.), heldur orð eins og -nes, -eyri, -dalur, -gerði, -á [...] Líklegt er, að mörg önnur Dögurðar-örnefni séu til komin á svipaðan hátt sem heiti á stað eða landssvæði, þar sem vinnandi fólk var vant að snæða dögurð undir berum himni eða í tjaldi“ (Harðar saga, Íslenzk fornrit XIII, bls. xxxii–xxxiii).

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Myndir: skilti í Norræna húsinu (EL), Hvalfjörður og Þyrilsnes (eftir W. G. Collingwood).