Skip to main content

Pistlar

Bjalli

Birtist upphaflega í apríl 2008.

Elsta þekkta dæmið um örnefnið Bjalli er í samsetningunni Bjallabrekka undir Eyjafjöllum í Rang. sem Hauksbók Landnámabókar nefnir með þessum orðum:

Þrasi var son Þórólfs; hann fór af Hörðalandi til Íslands ok nam land millim Jökulsár ok Kaldaklofsár ok bjó á Bjallabrekku; þar heita nú Þrasastaðir skammt austr frá forsinum, en leiði Þrasa er fyrir vestan Forsá heldr nær ánni í Drangshlíð undir gnúpinum, ok er skriða á hlaupin. (Íslenzk fornrit I:339).

Bjallabrekka er fyrir ofan bæinn í Ytri-Skógum (Páll Sigurðsson 1886, II:507). Aðrar gerðir Landnámabókar segja að Þrasi hafi búið í Eystri-Skógum, en heimild Hauks er talin vera trúverðug. Forsá heitir nú Skógaá.

Háibjalli

Háibjalli. Ljósm. Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Bjalli er örnefni sem þekkt er um Suður- og Vesturland, austan úr Mýrdal og vestur í Dali, þar sem um 70 staðir bera það nafn. Haraldur Matthíasson segir í Árbók Ferðafélagsins 1966 að nafnið muni lítt eða ekki notað utan Rangárvallasýslu (bls. 21) en það er orðum aukið þó að það sé líklega algengast þar. Nokkur dæmi verða tekin hér:

  1. Í fjallinu upp af Reynisbæ í Mýrdal eru tveir berghausar, sem heita Norður-Bjalli og Suður-Bjalli.
  2. Eini bærinn með þessu nafni er í Landsveit í Rang., fyrst getið 1756, en gamli bærinn stóð undir svonefndum Bjalla. (Landmannabók, bls. 50). Í jarðatali Johnsens 1847 er bærinn nefndur "Bjalla (Bjallinn)" (bls. 45).
  3. Austur- og Vestur-Bjallar eru móbergsfell á Landmannaafrétti í Rang.
  4. Klettur á Húsatóftum á Skeiðum, Árn.
  5. Á eða við Vogastapa, Gull. eru nokkur Bjalla-nöfn, m.a. Háibjalli (sjá mynd).
  6. Klettabelti grasi gróið að ofan í Grísatungu í Stafholtstungum, Mýr.
  7. Hjalli, grasivaxinn að ofan fyrir ofan Dýrastaði í Norðurárdal, Mýr.
  8. Klettur á Kirkjuhóli í Staðarsveit, Snæf.
  9. Túnblettur á Hróðnýjarstöðum í Laxárdal, Dal.

Merkingin er oftast 'ás, hæð, bunga (með klettum), klettur', en einnig túnblettur eins og síðastnefnda dæmið sýndi. Það er skylt orðinu bjalla og bölti. Bjallkolla er ávalur hryggur syðst á Þrívörðuhálsi, sem er austan við Sænautavatn í N-Múl. Það er eina dæmið sem ég hef um þennan stofn í örnefni utan Suður- og Vesturlands. Árni Magnússon handritasafnari skráði fyrstur orðið bjalli og segir að það sé 'hæð með klettum framan í' (1930, II:237).

Í nýnorsku er til orðið bell hvk. í merk. 'kuven, rundvoren høgd, bergknoll' og fjallið Bellingen er í Heiðmerkurfylki í Noregi (N. Nystu í Årbok for Glåmdalen 1948, bls. 24-27; NSL (1980), bls. 68). Í sænskum mállýskum er bjälle til í merk. 'knöl' eða 'hnúskur, hnúta' (Rietz, bls. 36) eða 'bólguhnúður, þrymill' (ÁBlM, 58).

Orðið bjalli er af norrænum uppruna og hefur því verið þekkt hér frá fyrstu tíð og örnefni mynduð af því þegar í upphafi byggðar.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir
ÁBlM = Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík.
Árni Magnússon 1930. Voculæ islandicæ rariores nonnullæ. Árni Magnússons levned og skrifter. II. København.
Haraldur Matthíasson 1966. Ferðafélag Íslands. Árbók. Reykjavík.
Johnsen, J. 1847. Jarðatal á Íslandi. Kaupmannahöfn.
Landmannabók 2003. Valgeir Sigurðsson. Landmannabók. Landsveit. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Hella.
Landnámabók. 1968. Íslendingabók. Landnámabók. Íslenzk fornrit I. Reykjavík.
NSL = Norsk stadmnamnleksikon. Red. av Jørn Sandnes og Ola Stemshaug. 2. utg. Oslo.
Nystu, Nils 1948. Årbok for Glåmdalen, bls. 24–27.
Páll Sigurðsson 1896. Um forn örnefni, goðorðaskipun og fornmenjar í Rángárþíngi. Safn til sögu Íslands II, bls. 498–557. Kaupmannahöfn.
Rietz, Johan Ernst 1962. Svenskt dialektlexikon. Lund.