Skip to main content

Pistlar

Birtist upphaflega í apríl 2003.

Örnefnið Baula er til á nokkrum stöðum í landinu: 


1) Baula í Borgarfirði, keilulaga fjall úr líparíti. Af því dregur orðið baulusteinn (= líparít) nafn sitt. 
2) Sker í Rifgirðingum á Breiðafirði. 
3) Sker nálægt Diskæðarskeri á Breiðafirði. Suðaustur af því eru 3 lítil blindsker sem heita Baulubörn. 
4) Söðulbakað sker nálægt Stykkishólmi á Snæfellsnesi. Baulhólmi og Baulutangi eru þar nærri. 
5) Sker inn og fram af Kálfhólma út af Klofningi í Dalasýslu. 
6) Grasgil í Hrauni í Keldudal í Dýrafirði. 
7) Neðri-Baula er há brún og Efri-Baula grjótmelar og bungur í landi Skóga í Glæsibæjarhreppi í Eyjafirði. Grjótið í Neðri-Baulu er ljóst og líparítkennt. Þessar hæðir eru einnig oft nefndar Beylur. 
8) Hábaula er hæsti hryggur Múlans í Skriðdal. 
9) Baula er einnig í landi Hörgsholts í Hrunamannahreppi. 

Orðið baula er sama og beyla og er merking þess „kryppa, herðakistill“. Í samsettum örnefnum þar sem Baula er fyrri liður, t.d. í nafninu Baulubrekka í Öxney á Breiðafirði, er átt við kú, einnig í bæjarnafninu Baulhús í Arnarfirði.

Birt þann 20. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023