Skip to main content

Pistlar

Ástir og útsaumur. Kvennakvæðin í Eddu: Guðrúnarkviður, Oddrúnargrátur og Guðrúnarhvöt

Hetjukvæðin í Eddu raðast saman í samfellda frásögn. Atburðarásin hnitast um bölið sem hlaust af gulli dvergsins Andvara, og þau ósköp sem græðgi og valdabarátta leiddi yfir hetjur kvæðanna. Eftir að aðalkarlhetja kvæðanna Sigurður hefur vegið Fáfni og eignast gullið sem ormurinn Fáfnir lagðist á ríður Sigurður fyrir valkyrjuna Sigurdrífu og þiggur af henni góð manndómsráð. Sigurdrífa reynist vera Brynhildur Buðladóttir og þau verða elskendur en vegna galdra Grímhildar Guðrúnarmóður gleymir Sigurður heitum sínum við Brynhildi og tekur saman við Guðrúnu Gjúkadóttur. Seinna aðstoðar hann mág sinn, Gunnar Gjúkason, að ná ástum Brynhildar með svikum. Brynhildur kemst að öllu saman og eggjar Gunnar og Högna bróður hans til að vega Sigurð. Þeir gera það en Brynhildur fremur sjálfsmorð og fer til Heljar. Eftir situr Guðrún og leitar á náðir Þóru Hákonardóttur í Danmörku þar sem Guðrún sest við hannyrðir áður en hún er þvinguð til að giftast Atla Húnakonungi, bróður Brynhildar. Það hjónaband endar með þeim ósköpum að Guðrún drepur syni þeirra hjóna og Atla sjálfan – eftir að hann hefur látið drepa bræður hennar. Guðrún giftist síðan í þriðja sinn Jónakri konungi og eignast þrjá syni með honum en missir þá og dóttur sína með Sigurði að lokum og endar ævi sína ein og yfirgefin.

Nokkur hetjukvæðanna lýsa sérstaklega viðbrögðum Guðrúnar við þessum atburðum. Þau kvæði geyma kvenlegt sjónarhorn á hetjusögu karlanna og hafa í flestum endursögnum sögunnar orðið út undan. Í kvenlegu kvæðunum er hefðbundnum skýringum hafnað um að atburðarásin og barátta karlanna sé keyrð áfram af eftirsókn eftir auði og völdum. Í staðinn eru settar inn tilfinningar, ástarbrall, framhjáhald og afbrýði sem hvorki bólar á í hinni karllegu hetjusögu kvæðanna né Völsungasögu – sem byggist á þessum karllegu kvæðum en sneiðir hjá hinu kvenlega sjónarhorni á söguna eins og það birtist í Guðrúnarkviðunum þremur, Oddrúnargráti og Guðrúnarhvöt (og jafnvel í Atlamálum).

Í Guðrúnarkviðu fyrstu er sagt frá sorgarviðbrögðum Guðrúnar við dauða Sigurðar og konur í kringum hana rekja fyrir henni raunir sínar þannig að áheyrendur fá innsýn í áhrif hetjulífsins á örlög kvennanna. Í næstu kviðu af Guðrúnu rekur hún raunir sínar fyrir Þjóðreki konungi og lýsir því hvernig hún fór til Danmerkur og stundaði þar hannyrðir sem er talað um með sérfræðiorðaforða áður en fjölskyldan þvingaði hana til að taka bónorði Atla húnakonungs, bróður Brynhildar sem hafði hrint ógæfunni af stað. Í Oddrúnargráti er kynnt til sögunnar annars óþekkt systir Atla sem á í leynilegu ástarsambandi við Gunnar Gjúkason en það kemst upp og til að vernda sæmd ættar sinnar býður Atli Gunnari og Högna til sín, gagngert til að hefna þessa – en ekki til að komast yfir gullið af Gnitaheiði sem þeir bræður höfðu fengið eftir Sigurð. Í þriðju kviðunni af Guðrúnu er sögð sagan af því að frilla Atla sakar Guðrúnu um að liggja með öðrum manni en Atla og Guðrún er niðurlægð til að sverja þær ásakanir af sér. Þá harmar hún að bræður hennar séu ekki á lífi til hefnda og þar með fær Guðrún sjálfstæða ástæðu til að ná sér niðri á eiginmanni sínum; ástæðu sem tengist ekki Rínargullinu eða bræðrunum á nokkurn hátt.

Loks lítur Guðrún yfir farinn veg í Guðrúnarhvöt eftir að hafa sent syni sína til að hefna fyrir það að Jörmunrekur konungur hafði látið troða Svanhildi dóttur hennar undir hrossafótum. Í einræðu Guðrúnar eru tilfinningar hennar í forgrunni og áheyrendur kynnast vel þeim andstæðu öflum sem togast á í henni: hefndarskyldunni og sorginni sem siðaboð hetjuhugsjónarinnar hafa leitt yfir hana. Hún hlær þegar hún tekur fram vígbúnað sona sinna en situr svo grátandi þegar þeir eru farnir og þylur tregróf sitt. Guðrún bindur saman efni flestra hetjukvæðanna með því að giftast hverjum þjóðkonungnum á fætur öðrum og situr hér ein eftir og býr sig undir að ganga í dauðann eftir að hafa sent einu eftirlifandi syni sína frá sér til að uppfylla hefndarskylduna. Í kvæðinu stafar þó ekki ljóma af hetjuskapnum heldur dregur það miklu frekar fram hörmulegar afleiðingar hans.

Í heildarútgáfu minni á Eddukvæðum (frá 1998, endurútg. 2014) hef ég kallað sjónarhornið í þessum kvæðum kvenlegt og haldið því fram að þau endurspegli kvenlega túlkun á alþekktri atburðarás og séu sprottin úr kvenlegra umhverfi en hin karllegri hetjukvæði – sem skýri hvernig standi á hinu ólíka sjónarhorni til hetjuskaparins, sem þau geyma.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023