Skip to main content

Pistlar

Alls konar kerlingar

Orðið kerling hefur fleiri en eina merkingu svo sem: ‛gömul kona; kjarklítill karlmaður; eiginkona (í góðlátlegri kímni eða óvirðingar- og kæruleysistón); almúgakona, fátæk kona; bein í steinbítskjafti; planki í bátsbotni með holu fyrir sigluna; húnn á efri hæl á orfi; nef á hefli; varða’ samkvæmt Íslenskri orðabók. Orðið er leitt af karl með viðskeytinu -ing sem veldur hljóðvarpi í stofni. Í þessum pistli verður augum beint að kerlingu sem lifandi veru og ýmsum samsetningum þar sem kerling er fyrri liður.

Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru samsetningar með kerlinga- eða kerlingar- að fyrri lið um 270. Mestur hlutinn á við konur og er notkunin oftast niðrandi. Engin tök eru á að taka öll dæmin með í stuttum pistli en ég vel úr fjöldanum þau sem eiga að lýsa konu og einnig þau sem vísa til þess sem haft er eftir konum.

En fyrst er það kerling notað um gamla konu. Sú notkun getur bæði verið jákvæð og neikvæð. Í Vísnabókinni er mynd eftir Halldór Pétursson af Höllu kerlingu sem ,,fetar fljótt, framan eftir göngum“ og er hún af góðlegri gamalli konu í síðu vaðmálspilsi með herðasjal. Fáir nota sennilega orðið kerling á þennan hátt nú til dags. Mun fleiri nota orðið neikvætt og þarf konan ekki endilega að vera öldruð eins og Halla. ,,Kerlingin í næsta húsi er algjör gribba.“ ,,Æ, kerlingin, sem alltaf er að skrifa í blöðin,“ heyrði ég nýlega um konu á besta aldri að mínu mati en besti aldurinn er einnig afstæður. Ég var átján ára þegar krakkaskari hrópaði að mér niðri á Tjörn: ,,Kerling á skautum“.

Mjög neikvætt er að segja að karl sé kerling. Í því felst að karlinn sé huglaus og láti aðra, oft eiginkonuna, móður sína eða aðra ráða yfir sér. ,,Hann Jón er algjör kerling, þorir engu.“ ,,Þið eruð börn, þið eruð kerlingar, allir“ lætur Einar H. Kvaran Lénharð fógeta segja við menn sína.

Eiginmenn, einkum þeir eldri, eiga það til að kalla konu sína kerlingu. ,,Ég þarf að spyrja kerlinguna,“ eða ,,Ég þarf að láta kerlinguna vita.“ Oftast er þetta ekki illa meint en ekki er hægt að segja að mikil virðing fylgi.

Fátæka almúgakonan er sú sem segir frá í ævintýrunum: kóngur og drottning í ríki sínu og karl og kerling í koti sínu. Sú kerling er ekki endilega gömul. Hún á gjafvaxta dætur á besta aldri. Efnalitlar konur samtímans eru ekki endilega kallaðar kerlingar.

Sumt um kerlingar er þó jákvætt eins og þegar sagt er: ,,Hún er aldeilis kerling í pilsinu sínu, þ.e. hörkudugleg. Ekki er ég eins viss um eftirfarandi: ,,Æ mikið rétt, á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar,“ sem Halldór Laxness lét assorinn segja í Íslandsklukkunni.

Kerling um konu í fyrri lið samsetninga er nánast alltaf notað í neikvæðri merkingu. Hér koma nokkur dæmi úr Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eftir þekkta rithöfunda. Guðmundur Hagalín var sérlega öflugur. Dæmi frá honum eru: –álka, -bikkja, -bleyða, -dyntur, -herfa, -hrota, -skass, -skeggur, -svín, -tifra, -torta, -trippa, -trunta, -tuðra, -tuska, -væða, -væfla. Halldór Laxness á m.a. þessi dæmi: -aflag, -álft, -flagð, -gípa, -kjökur, -skrudda, -tötur, Guðmundur Friðjónsson: -flygsa, -hlussa, -ugla, Einar H. Kvaran: -bjáni, -fjandi, -skar, -tuska, Ólafur Jóh. Sigurðsson: -bryðja, -hlussa (nokkrum sinnum), -skrukka og Jóhannes úr Kötlum: -himpi og -gæra í skáldsögunum.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar og í blöðum og tímaritum má ýmislegt finna eins og kerlingarfáráður, -hex, -norn, -næpa, -púta, -rotta, -ræfill, -skepna, -skita, -skjóða, -skrifli, -skrípi, -skræfa, -skömm, -tetur.

Jón Ólafsson úr Grunnavík þýddi bókina Nikulás Klím eftir Ludvig Holberg. Þar notar hann orðin kerlingabók, kerlingabuldur, kerlingarugl og kerlingaslaður og er forvitnilegt að skoða hvað Holberg notaði sjálfur:

Fabeln und Mährchen þýðir Jón ,,skröksögur, bábiljur og kerlingabækur[1], sem sjóferðamenn sögðu“ (168). Alte Weiber-Mährchen þýðir Jón sem ,,kerlingabulldur“ (245). Mährgen þýðir Jón sem ,,þvættingur og kerlingarugl“ (244).

Hér tekur Jón sér þýðandaleyfi án sýnilegrar ástæðu en honum er samt ekki alls varnað. Hann notar nefnilega:

           Þat eru Karlmanna bábiliur þar sem Holberg notar Mährgen.

En nóg er til af dæmum um að það sem frá kerlingum komi sé ekki merkilegt. Nefna má:

            kerlingabull: og heimta að hann setji botninn í allt þetta kerlingabull

            kerlingagrilla: hlægileg kerlingagrilla

            kerlingamas: Frá sjónarmiði raunvísindamannsins virðist orðræða húmanistans oft sem bróderaðar blúndur, krosssaumur og kerlingamas

            kerlingaslaður (kiellingasladur) er þýðing Jóns Árnasonar á aniles ineptiæ í Nucleus latinitatis (anus ‛kona, kiellíng’)

            kerlingavæll: … eins og þessi kellíngavæll, væri sá frægi veraldarsaungur sem hafði hrifið páfann

            kerlingaþvaður: þad er kéllínga þvadur úr gømlum og ónýtum lækninga-skruddum

Margt hefði mátt nefna fleira sem ekki kemst fyrir í stuttum pistli. Einnig um karlana því að þeir eiga margt gott skilið eins og kerlingin sagði.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018
Heimildir

Holberg, Ludvig. 1948. Nikulás Klím. Íslenzk þýðing eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík. Jón Helgason bjó til prentunar. Íslenzk rit síðari alda. 3. bindi. Kaupmannahöfn.
Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þangað eru þau dæmi sótt sem ekki er vísað til sérstaklega.

[1] Helga Kress skrifaði grein í Tímarit Máls og menningar 1978 (369–395) undir titlinum Bækur og ,,kellingabækur“ sem vert er að benda á.