Skip to main content

Pistlar

Ærið gömul predikunarbók

Í Árnasafni í Reykjavík eru tvö samföst blöð (tvinn) með tveimur hómilíum sem bera safnmarkið AM 237 a fol. og eru talin skrifuð um 1150. „Er ur æred gamalle predikunar bok“ skrifar Árni Magnússon á seðil sem fylgir blöðunum. Hingað til hefur verið talið að þessi blöð séu elstu varðveittu blöðin með efni á norrænu og er margt sem bendir til að svo sé þótt það sé ekki ótvírætt. Blöðin eru úr stærra handriti sem hefur án efa verið eign kirkju þar sem önnur hómilían er predikun sem flytja skyldi á vígsludegi hennar (kirkjudegi). Hómilían eða predikunin, sem er á fremra blaðinu, er kölluð Kirkjudagsmál og hefst á þessum orðum efst á 1ra: „… trú rétta. Þá er oss leiðir inn til almennilegrar kristni …“. Hin hómilían, sem er á aftara blaðinu, hefst svo efst á 2ra: „… er mér hafði vitrast. Þá kom annar engill …“. Þessar hómilíur eru einnig í Norsku hómilíubókinni, AM 619 4to. Þar sem þetta handrit er jafn tengt helgihaldi og kirkju, sem raun ber vitni, er mjög líklegt að klerklærður maður hafi skrifað það.

          Blöðin eru tvídálka og eru úr handriti í arkarbroti. Á bl. 1 og 2r eru 40 línur í dálki, en á 2v er 41 lína í hvorum dálki. Blöðin bera þess merki að hafa verið notuð sem kápa utan um kver eða bók; t.d. eru brot í skinninu og bl. 1r og 2v eru máð og skítug. Skorið hefur verið af ytri spássíum og gengið svo nærri leturfleti að sums staðar (einkum á bl. 2) vantar ysta staf í línu. Fyrirsögn með rauðu bleki og upphafsstafur með rauðu bleki; skriftin er karlungaskrift.

Predikunarbók

Skriftin á blöðunum í AM 237 a fol. og á elsta hluta Reykjaholtsmáldaga (R1) þykir líkjast svo mikið að það hafa komið upp hugmyndir að um einn og sama skrifara sé að ræða; þau eru þó ekki úr sama handriti því að brot blaðanna er misjafnt. Reykjaholtsmáldagi er aðeins eitt blað og elsti hluti hans, sem talinn hefur verið skrifaður á síðari hluta 12. aldar, nær aðeins yfir 14 línur á framhliðinni. Breidd blaðanna þriggja er nú svipuð en blöðin í 237a eru hærri en máldagablaðið eða 312 mm á móti 297. Þar að auki hefur verið skorið af blöðunum í 237a eins og áður sagði, en ekki er að sjá að máldagablaðið hafi sætt sömu örlögum. Það er einnig ólíklegt að um sama skrifarann sé að ræða vegna þess að stafsetningin er ekki sú sama í 237a og og notkun banda er heldur ekki sú sama. Reyndar er mikill munur á hvorutveggja og nægir þar að nefna notkun brodda, límingsstafa og lykkjubókstafa en mjög lítið er af þeim í R1. Skrifari 237a hefur tileinkað sér að einhverju leyti hugmyndir um íslenska stafsetningu sem koma fram hjá fyrsta málfræðingnum en það hefur skrifari R1 ekki gert. Af þeim sökum er ekki ólíklegt að R1 sé eldra en 237a. Og þótt stafagerð sé lík eru ekki allir bókstafir eins, svo sem <g>, <h> og <ſ>. Einnig er depillinn yfir <y> líkari broddi en depli í 237a og er því frábrugðinn sams konar depli yfir <y> í R1.

         Þrátt fyrir töluverðan mun í stafsetningu og bandanotkun gætu þessi tvö brot verið skrifuð af mönnum sem lærðu að skrifa á sama stað eða annar af hinum. Samkvæmt fyrrnefndum seðli með hendi Árna Magnússonar fékk hann þau „fra Sr Þorsteine Ketilssyne 1728“, en Þorsteinn var prestur og prófastur á Hrafnagili í Eyjafirði. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi tók við handritinu 18. júní 1997.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 19. júní 2018