Merking og notkun
Æðiber eru svört og eitruð ber belladonnajurtarinnar sem notuð hafa verið til lækninga og sem fegrunarlyf í Evrópu frá fornu fari. Þessi jurt vex ekki villt á Íslandi og orðið virðist ekki algengt í eiginlegri merkingu. Þó eru dæmi um hana í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans.
- Nú eru vægir skammtar af æðiberi og skollarót notaðir vegna vöðvaslakandi áhrifa sinna.
Þetta orð er aftur á móti alþekkt í sambandinu vera með æðiber í rassinum ‘vera eirðarlaus, geta ekki verið kyrr’, sem einkum er haft um ókyrra eða óþreyjufulla krakka. Dæmi um notkun þess má finna í ritmálssafninu (ROH) og því bregður sömuleiðis fyrir í blöðum.
- ekkert stoðar ef menn hafa æðiber í rassinum. (ROH; úr Brekkukotsannál)
- flestir, sem á annað borð gátu hreyft sig, virtust með æðiber í rassinum. (Mbl. 16.1.2000)
Þetta orðasamband er þó ekki síst notað í daglegu tali og óformlegu máli, t.d. finnast þó nokkur dæmi um það á bloggsíðum á netinu, sem standa yfirleitt nærri hversdagslegu talmáli að stíl og málsniði.
Dæmi úr ýmsum heimildum sýna dálítil tilbrigði í notkun orðasambandsins, t.d. kemur fyrir æðiber í botni, æðiber í boru o.fl. Orðið æðiber kemur líka fyrir eitt sér í yfirfærðri merkingu eins og eftirfarandi dæmi úr bókinni Sóla, Sóla eftir Guðlaug Arason (1985) sýnir:
- Hefur konan gleypt æðiber, eða hvað?
Aldur og uppruni
Heimildir benda til þess að orðið æðiber sé ekki mjög gamalt í íslensku. Orðið er ekki í gömlum orðabókum, t.d. ekki í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals frá því um 1920, og það birtist ekki í Íslenskri orðabók fyrr en með 2. útgáfu 1983.
Dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru öll frá 20. öld. Það elsta er úr Sölku Völku eftir Halldór Kiljan Laxness (1931-32) þar sem Steinþór spyr á einum stað hvort Salka sé „með æðiber í rassinum“ þegar hún ætlar að hlaupa leiðar sinnar. Svipuð notkun kemur fram í því sem Velvakandi skrifar eftir páskana 1956:
- ég vona að minnsta kosti, að hinir séu fleiri sem ekki eru svo grátt leiknir af þessu ólæknandi „æðiberi“ nútímans, að þeir geti ekki fundið fullnægingu í sjálfum sér eða einhverju öðru en kvikmyndum, böllum og ralli þessa örfáu daga ársins, sem slíku er ekki til að dreifa. (Mbl. 12.4.1956)
Dæmi um orðið í eiginlegri merkingu, þ.e.a.s. um tiltekna tegund af berjum, eru aftur á móti yngri. Elstu dæmi Orðabókar Háskólans um hana eru frá árunum 1966-68 og í Íslenskri orðabók er hennar alls ekki getið, heldur einungis orðasambandsins vera með æðiber í rassi(num). Annað nafn á berjunum er djöflaber og jurtin hefur líka verið kölluð sjáaldursjurt og völvuauga. Ef marka má íslenska blaðatexta eru þau orð enn yngri en æðiber.
Fyrirmyndarinnar að íslenska orðinu æðiber hlýtur að vera að leita í dönsku því þar heitir belladonnajurtin og ber hennar galnebær (líka tossebær; galenbär á sænsku). Þótt ekki hafi fundist heimildir um yfirfærða merkingu danska orðsins né heldur um orðasamband sem líkist því íslenska, er ekki ólíklegt að það eigi líka rætur í dönsku, bæði vegna þess að æðiber vaxa ekki á Íslandi og vegna þess að orðasambandið og yfirfærða merkingin sem þar birtist virðist vera nokkru eldri en hin eiginlega merking orðsins.
Fyrri liður íslenska orðsins tengist nafnorðinu æði ‘asi; vitfirring’ og sögninni æða ‘ólmast, flana, geysast áfram’ svo og lýsingarorðinu óður og á merkingarlega skylt við orð eins og æðibuna ‘eirðarlaus maður’, æðibunugangur ‘óðagot’ og æðikollur ‘bráður eða fljótfær maður’.
(júlí 2005; endurskoðað í apríl 2019)
Síðast breytt 24. október 2023