Skip to main content

Pistlar

aðdragandi og kjölfar

Ólík orð í sams konar hlutverki

Vísun til tíma og tímaafstöðu er ríkur þáttur í notkun og merkingu margra orða auk þess að vera samgróin málkerfinu sem slíku í beygingarmyndum sagna. Forsetningar og samsetningar gegna einnig mikilvægu málkerfislegu hlutverki að þessu leyti.

Nafnorð og notkunarsambönd koma hér við sögu á margbreytilegan hátt, m.a. í föstum samböndum sem gegna áþekku hlutverki og ýmis málkerfislegri orð, forsetningar, samtengingar og atviksorð. Meðal þeirra eru tvö orðasambönd sem segja má að myndi eins konar samhverfu þótt yfirbragðið sé ólíkt.

aðdragandi

Orðið aðdragandi vísar til tímaskeiðs á undan einhverju sem tiltekið er og um leið til þess samhengis og orsakasambands sem þar er að baki: aðdragandi byltingarinnaraðdragandi hrunsins. Myndun og saga orðsins tengir saman vísun til staðar og tíma eins og fram kemur í elstu dæmum um orðið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans frá lokum 18. aldar. Latnesk skýring orðsins í orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá miðri 18. öld, AM 433 fol., er tvíþætt:

Ad-dragandi, tractus terræ aliqvo vergens. 2. causa  originalis.

Annars vegar er um að ræða hallandi landslag, hins vegar upphaflega orsök. Staðarmerkingin hefur verið fremur fyrirferðarlítil en henni bregður fyrir í ýmsum ritheimildum:

  • sunnan við borgina á móti austri var gott skjól af áðurnefndri hæð sem nú er bygð að miklu leyti, auk þess er það litla undirlendi og aðdragandi brekkunnar skreyttur með trjágörðum og blómum. (Vesturland 1935)
  • Austlægir vindar, sem blása af hafi á vetrum, æða yfir víkina og missa úrkomu sína í aðdraganda heiðarinnar og á heiðina sjálfa. (Lesbók Morgunblaðsins 1941)

Tímamerkingin er annars algerlega ráðandi og þar hefur sambandið í aðdraganda e-s fengið hlutverk sem svipar til hlutverks forsetninga (eins og fyrirá undan) og samtenginga (eins og áður en). Þessi notkun orðsins hefur styrkst í nútímamáli:  

  • Mörgum þykir sem íslensk stjórnvöld, og þar á meðal Alþingi, hafi flotið sofandi að feigðarósi í aðdraganda hrunsins.(Fréttablaðið, 2009)
  • sagði hún mér frá atviki einu sem gerðist á vinnustaðnum í aðdraganda jólanna. (Fréttablaðið 2002)
  • Ætli verði nokkur áhugi á að koma með þær upplýsingar í aðdraganda jólahátíðarinnar. (MÍM)

Í tveimur síðara dæmunum er ekkert orsakasamhengi fyrir hendi svo að merkingarhlutverkið liggur afar nærri forsetningunni fyrir.

kjölfar

Orðið kjölfar hefur fengið sambærilega stöðu í orðasambandinu í kjölfar e-s, nema hvað þar er vísað til tímaskeiðs á eftir einhverju sem tiltekið er og þeirrar framvindu og orsakasambands sem af því leiðir: í kjölfar kosninganna, í kjölfar ósigursins.

Einnig hér tengist saman vísun til staðar og tíma þar sem tímamerkingin sprettur fram sem líking. Upphaflega er líkingin bundin sambandi við hreyfingarsögn og þá einkum við sögnina sigla:

  • Vágestir þeir, er sigla í kjölfar styrjaldarinnar eru nú farnir að gera vart við sig um lönd álfunnar, er striðinu mikla linnir. (Ísafold 1918)
  • Hollusta, þrifnaður og bætt heilsufar mun sigla í kjölfar sundhallarinnar. (Vísir 1928)

Aðrar hreyfingarsagnir geta gegnt sama hlutverki, svo sem koma og renna:

  • Með kreppunni, sem allir vita að kemur í kjölfar stríðsgróðans — ef auðvaldið stjórnar áfram — vofir yfir verkalýðnum ægilegra atvinnuleysi en nokkurntíma fyr hefir þekst hér á landi. (Verkamaðurinn, 1942)
  • útflutningsframleiðslan berst í bökkum vegna þessara áfalla. Hún á þess því engan kost að bæta á sig auknum rekstrarkostnaði, sem óhjákvæmilega hlyti að renna í kjölfar stórhækkaðs kaupgjalds. (Morgunblaðið, 1960)

En  orðasambandið hefur losnað úr þessum skorðum og fengið sjálfstæðara hlutverk sem bera má saman við hlutverk forsetningarinnar eftir:

  • Í kjölfar óeirðanna hefur fjöldi fólks verið settur á bak við lás og slá. (Morgunblaðið 1976)
  • Ekkert umtalsvert atvinnuleysi hefur orðið í kjölfar efnahagsaðgerðanna í maí í fyrra og fullnaðarsigur á óðaverðbólgunni er ekki lengur fjarlægur draumur. (Morgunblaðið, 1984)
  • var mér boðið til kvöldverðar í Perluna í kjölfar ráðstefnunnar um morguninn. (MÍM)
  • Í kjölfar ráðstefnunnar verður gefið út veglegt ráðstefnurit. (MÍM)
  • Könnunin var gerð í kjölfar Evrópuverkefnis um konur í atvinnurekstri og landbúnaði. (MÍM)

Dæmin  bera með sér að ekki er alltaf um að ræða skýrt orsakasamband heldur getur verið átt við tímaafstöðuna eina, þ.e. merkinguna ‘í (beinu) framhaldi af (e-u)’.

Þróunin í notkun þessara orða sýnir vel hvernig nafnorðasambönd geta leitað inn á svið orðanotkunar þar sem meira fer fyrir kerfislegri orðum. En þótt segja megi að samböndin í aðdraganda e-s og í kjölfar e-s nálgist merkingu forsetninganna fyrir og eftir taka þau jafnframt með sér merkingarþátt sem vísar til framvindu í tíma í samhengi við þá tímaafstöðu sem um er að ræða og það geta málnotendur hagnýtt sér.

(mars 2012)

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir