Skip to main content

Fréttir

Munnleg saga í Vísindakaffi í Kántrýbæ

Fræðasetur HÍ á Norðurlandi vestra og Rannís bjóða í Vísindakaffi í Kántrýbæ á Skagaströnd fimmtudaginn 23. september kl. 20-21:30

Mikilvægi munnlegrar sögu - Kynning á verkefni Fræðasetursins á Skagaströnd

Dagskrá

Hallgrímur Pétursson; Ljóðmæli 4 komin út

Fjórða bindið í fræðilegri heildarútgáfu á verkum Hallgríms Péturssonar (1614–1674), Ljóðmæli 4, er komið út hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Það hefur að geyma andlegan kveðskap sem tengist hringrás náttúrunnar, tímaskiptum, svo sem dægra- og árstíðabreytingum, bæði lengri sálma og stök vers, alls 39 talsins. Hér eru morgun- og kvöldsálmar, sálmar við upphaf vetrar og sumars; sálmar sem ætlaðir voru til kennslu og uppfræðslu, t.d. við fermingarundirbúning, svo og tveir borðsálmar, annar ætlaður til söngs fyrir máltíð en hinn eftir máltíð.

Ný stjórn stofnunarinnar

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað nýja stjórn stofnunarinnar. Stjórnin er þannig skipuð:

  • Lára Magnúsardóttir, sagnfræðingur, formaður, án tilnefningar
  • Ásgrímur Angantýsson, málfræðingur, varaformaður, án tilnefningar
  • Guðrún Þórhallsdóttir, dósent, tilnefnd af háskólaráði Háskóla Íslands
  • Torfi Tulinius, prófessor, tilnefndur af háskólaráði Háskóla Íslands
  • Terry A. Gunnell, prófessor, tilnefndur af háskólaráði Háskóla Íslands.
100 ára afmæli örnefnasöfnunar á Íslandi

Í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá því að örnefnaskráning hófst verður haldið málþing um örnefni laugardaginn 30. október. Þingið verður haldið í sal Þjóðminjasafns Íslands og hefst að morgni og stendur eitthvað fram eftir degi. Starfsmenn nafnfræðisviðs stofnunarinnar annast undirbúning þingsins. Dagskrá og nánari tímasetning verður auglýst síðar.

Sagan af Árna yngra ljúfling

Sagan af Árna yngra ljúfling er ein fyrsta íslenska skáldsagan í nútímaskilningi. Hún hefur ekki áður verið gefin út eftir eiginhandarriti sem höfundurinn, Jón sýslumaður Espólín (1769–1836), ritaði á síðustu æviárum sínum.

Í sögunni segir frá flakkaranum Árna sem ferðast um landið, hlýðir á tal manna og skrifar upp. Sagan hefst í Vopnafirði og endar í miðju kafi á Akureyri. Lýst er sérkennum héraða og skoðunum manna á öllu milli himins og jarðar. Sagan er merkileg fyrir mikið þjóðtrúarefni sem auðvelt er að leita uppi með aðstoð efnisskrár sem fylgir textanum.

Hallveig ehf. í Reykholti 28. ágúst

Laugardaginn 28. ágúst kl. 17 verður fluttur einleikurinn Hallveig ehf. í gömlu Reykholtskirkju í Reykholti. Leikurinn fjallar um ævi Hallveigar Ormsdóttur sem var seinni kona Snorra Sturlusonar og bjó með honum í Reykholti þar til hún lést rétt rúmlega fertug að aldri. Margrét Ákadóttir fer með hlutverk Hallveigar, en leikinn skrifaði Hlín Agnarsdóttir í samvinnu við Margréti. Leikstjóri er Inga Bjarnason.

Nánari upplýsingar má fá á heimasíðu Snorrastofu.

Handrit, tónlist og fleira á Menningarnótt

Fjölbreytt tónlist verður flutt allan daginn og fram á kvöld í Bókasal Þjóðmenningarhússins á Menningarnótt. Dagskráin hefst strax kl. 14 og lýkur á ellefta tímanum um kvöldið. Enginn aðgangseyrir verður að tónleikum eða sýningum og gestir geta nýtt sér barna- og fjölskyldunálgun sem útbúin hefur verið fyrir flestar sýningar í húsinu.

Frændafundur 7 - Íslensk-færeysk ráðstefna, 21.–23. ágúst

Frændafundur 7 er ráðstefna sem er haldin á vegum Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og Fróðskaparseturs Føroya í samvinnu við Norræna húsið. Á ráðstefnunni verður fjallað um fjölbreytileg efni sem tengjast Íslandi og Færeyjum. Öllum er heimill ókeypis aðgangur.

Laugardaginn 21. ágúst er ráðstefnan í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, sunnudaginn 22. ágúst í Norræna húsinu. Mánudaginn 23. ágúst verður málstofa um tilbrigði í færeysku máli í stofu 311 í Árnagarði. Sjá nánar:

Icelandic Online - ný námskeið opnuð

Þrjú ný Icelandic Online námskeið verða opnuð í Norræna húsinu 7. september kl. 16. Vigdís Finnbogadóttir opnar námskeiðin. Icelandic Online er vefnámskeið í íslensku sem öðru máli. Þegar hafa verið útbúin námskeiðin Icelandic Online og Icelandic Online 2. Að verkinu standa Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, íslenskuskor hugvísindadeildar Háskólans og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Icelandic Online er öllum opið og er aðgangur ókeypis.