Fjórða bindið í fræðilegri heildarútgáfu á verkum Hallgríms Péturssonar (1614–1674), Ljóðmæli 4, er komið út hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Það hefur að geyma andlegan kveðskap sem tengist hringrás náttúrunnar, tímaskiptum, svo sem dægra- og árstíðabreytingum, bæði lengri sálma og stök vers, alls 39 talsins. Hér eru morgun- og kvöldsálmar, sálmar við upphaf vetrar og sumars; sálmar sem ætlaðir voru til kennslu og uppfræðslu, t.d. við fermingarundirbúning, svo og tveir borðsálmar, annar ætlaður til söngs fyrir máltíð en hinn eftir máltíð.