Skip to main content

Fréttir

Handrit, tónlist og fleira á Menningarnótt

Fjölbreytt tónlist verður flutt allan daginn og fram á kvöld í Bókasal Þjóðmenningarhússins á Menningarnótt. Dagskráin hefst strax kl. 14 og lýkur á ellefta tímanum um kvöldið. Enginn aðgangseyrir verður að tónleikum eða sýningum og gestir geta nýtt sér barna- og fjölskyldunálgun sem útbúin hefur verið fyrir flestar sýningar í húsinu.

Efni yfirstandandi sýninga er fjölbreytt; íslenskar kvikmyndir, ljósmyndasýningin Íslendingar, handritin frá miðöldum, kúla úr þæfðri ull í ýmsum myndum og fleira. Barnahorn er á kvikmyndasýningunni, spæjaraleikur á ljósmyndasýningunni og leiðsagnarhandrit um goðsögulega dreka og fleira á handritasýningunni. Einnig er hægt að leika sér með orðapúsl á ísskápsseglum.