Skip to main content

Örnefnanefnd starfar á grundvelli laga, nr. 22/2015, um örnefni sem tóku gildi 17. mars 2015. Sjá einnig reglugerð um störf örnefnanefndar frá 14. nóvember 2017.

Skv. lögunum eru verkefni Örnefnanefndar eftirfarandi:

  1. að veita rökstutt álit um örnefni vegna birtingar í opinberum örnefnagrunni hafi risið ágreiningur um það efni og honum verið skotið til nefndarinnar,
  2. að úrskurða um nýtt eða breytt bæjarnafn, götunafn eða annað það nafn sem notað er til skráningar á staðfangi hafi risið ágreiningur um það efni og honum verið skotið til nefndarinnar,
  3. að úrskurða um nöfn á skiltum opinberra aðila,
  4. að veita umsögn um fyrirhugað nafn á nýjum þéttbýliskjarna eða hverfi innan sveitarfélags,
  5. að veita umsögn um nafn sveitarfélags, sbr. 6 gr.,
  6. að veita umsögn um nafn á nýju náttúrufyrirbæri innan sveitarfélags,
  7. að sinna öðrum verkefnum sem henni kunna að vera falin með lögum, reglugerðum eða ákvörðun ráðherra. 

Örnefnanefnd er heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði.

Sú meginbreyting hefur orðið á störfum nefndarinnar með nýjum lögum að hún annast ekki lengur veitingu leyfa vegna nafna á nýjum lögbýlum eða breytingu á eldri nöfnum. Tilkynningar um ný nöfn eða óskir um breytingar þurfa að berast viðkomandi sveitarfélagi. Örnefnanefnd hefur eftirlit með nýjum eða breyttum nöfnum og getur fellt úrskurði þar að lútandi ef henni þykir þörf á eða ef ágreiningi um nafn hefur verið vísað til hennar. Fyrirspurnum um nöfn eða nafngiftahefð má beina til Nafnfræðisviðs Árnastofnunar.