Meginsjónarmið Örnefnanefndar um nöfn sveitarfélaga, 27. ágúst 1998
- Athuga ber að hér er um að ræða opinbert stjórnsýsluheiti en nöfn landsvæða eða byggðarlaga, sem fyrir eru innan sveitarfélags eða í nágrenni þess, ættu hvorki að þurfa að breytast né leggjast af með tilkomu nýs stjórnsýsluheitis.
- Forðast skyldi að ný stjórnsýsluheiti geti útilokað, þrengt að eða raskað á annan hátt merkingu eða notkun rótgróinna heita sem tengjast svæðum eða byggðarlögum innan sveitarfélags, nágrannasveitarfélags eða héraðs.
- „Nafn sveitarfélags skal samrýmast íslenskri málfræði og málvenju,“ segir í 4. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Stjórnsýsluheiti eru að jafnaði mynduð með hliðsjón af einhvers konar kerfi, ekki síst þannig að eftirliður sambærilegra heita sé ávallt eða oftast hinn sami og beri með sér um hvers konar stjórnsýslueiningu er að ræða. Slíkt kerfi er til hagræðis fyrir málnotendur og þeir átta sig betur á að um sé að ræða stjórnsýsluheiti.
Dæmi: Nöfnin Hraungerði og Gaulverjabær mynda með eftirliðnum -hreppur stjórnsýsluheitin Hraungerðishreppur og Gaulverjabæjarhreppur; nöfnin Akureyri og Hafnarfjörður mynda með eftirliðnum -bær stjórnsýsluheitin Akureyrarbær og Hafnarfjarðarbær o.s.frv.
Örnefnanefnd mælir með þessari aðferð enda hefur hún gefist vel í nöfnum stjórnsýslueininga hér á landi og erlendis (sbr. t.d. eftirliðinn kommune í Danmörku).
- A. Fyrri liður heitis á sveitarfélagi: Fyrri liður sé hefðbundið nafn eða nýtt nafn sem sérkennir svæðið eða hluta þess.
- B. Síðari liður heitis á sveitarfélagi:
- B.1. Eftirliðurinn -hreppur sé hafður um öll dreifbýlissveitarfélög (enda þótt innan þeirra séu lítil þorp eða kauptún) en hann á þó einkum við þar sem meginhluti byggðar í sveitarfélagi er dreifbýli.
- B.2. Eftirliðurinn -byggð sé hafður þar sem svo háttar til að í sveitarfélagi er í senn allnokkurt dreifbýli og eitt eða fleiri stór þéttbýlissvæði.
- B.3. Eftirliðurinn -bær sé hafður um sveitarfélög þar sem byggðin er að mestu eitt samfellt stórt þéttbýlissvæði.
- B.4. Eftirliðurinn -borg sé aðeins hafður um mjög stórt samfellt þéttbýlissvæði (t.a.m. á borð við hið samfellda þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu).
Ef til er rótgróið örnefni um það svæði sem nýtt sveitarfélag tekur til og ekki þykir eiga við að nota einhvern þessara eftirliða (-hreppur, -byggð, -bær, -borg) kemur til álita að gera hinn nauðsynlega greinarmun á landsvæði og sveitarfélagi með því að bæta orðinu sveitarfélag framan við gamla heitið á byggðinni.