Skip to main content

Þulusafn Jóns Árnasonar

Meðal margvíslegra safnhandrita Jóns Árnasonar með þjóðfræðum er Lbs 587 4to, þulu- og þjóðkvæðasafn. Þar eru bæði uppskriftir Jóns og annarra á þulum og þjóðkvæðum úr munnlegri geymd og afrit af sams konar textum úr öðrum handritum.

Lbs 587 4to er yfir 800 blöð í ýmsu broti og skiptist í tólf ólíka hluta (hér eftir I–XII). I. hluti, um 90 blaða innbundin bók, er eigið þulusafn Jóns Árnasonar ásamt afritum hans af efni frá völdum söfnurum (Magnúsi Grímssyni, Hallgrími Scheving, Jóni Þórðarsyni o.fl.) og/eða orðamun frá þeim. Safnið var „byrjað á Eyvindarstöðum á Alptanesi veturinn 1846–47“, eða mjög snemma á söfnunarferli Jóns, en Jón vísar í það annars staðar sem „ÞS I“. Í II. hluta eru annarra manna uppskriftir bundnar saman í sams konar bók (yfir 100 blöð), en í hlutum III, IV, V (að hluta) og VIII er einnig aðsent efni en óbundið. VI og IX skera sig úr vegna efnis sem þar var safnað. Í VI eru einkum Grýlukvæði, Grýluþulur og Grýluvers en í IX aðallega Þórnaldarþula, en hún hafði greinilega verið sér á báti um skeið (t.d. var hún ósjaldan skrifuð upp með eddukvæðum). X. hluti er stílabók með langloku- og þulusafni Magnúsar Grímssonar frá 1844, en í XI og XII eru afskriftir af þulutextum úr fyrri hlutum safnsins sem Jón Árnason gerði eða lét gera á sínum efri árum, líklega í tengslum við undirbúning þuluútgáfu. Þá geymir VII aðföng og drög Jóns að inngangi um þulur, en þulur ásamt gátum – sbr. Lbs 586 4to, gátusafn Jóns – áttu að vera helsta framlag hans til útgáfunnar sem var fyrst hugsuð sem þriðja bindi þjóðfræðasafns hans (á eftir þjóðsögunum í tveimur bindum) en kom út sem fjögurra binda safnið Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur

Fyrirsagnir handritshluta sýna greinilegan ásetning Jóns að tileinka Lbs 587 4to þulum: „Þulusafn“ (I), „Þulur safnaðar af ýmsum […]“ (II), „Þulusafn annað en Þornaldarþulu“ (IV) o.fl. Í raun er þó talsvert um annan kveðskap í handritinu: langlokur og önnur kvæði, vísur (þ.á m. barnagælur), bænir o.s.frv., enda segir í VII, [50v]:

„Ymisl(egt) <hefur> slæðst með, af því ekki er gott að defínera þulur.“

Lbs 587 4to ber allt yfirbragð þjóðfræðasafna 19. aldar. Pappírinn er oft ósamstæður, slitinn, endurnýttur, með leifum vaxinnsigla; mikið er um innskotsblöð og miða og margt krotað á spássíur. Á sama tíma er reynt að koma reglu á óreiðuna, og þá einkum með millivísunum og hugmyndum um flokkun texta sem koma fram í athugasemdum við þá. Ýmsar skrár yfir þulutexta skjóta upp kollinum hér og þar í safninu.

Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur komu að mestu út eftir dag Jóns Árnasonar, og sá Ólafur Davíðsson um skemmtanir (leiki), vikivaka – og þulur. Bréf Ólafs sýna að hann fékk frá Jóni þulusafn til útgáfu ásamt inngangi en ætlaði að bæta hvort tveggja. Að lokum virðist Ólafur þó hafa að mestu gefið út þulutexta úr þeim handritum sem hann ætlaði til viðbótar þulusafni Jóns – án inngangs.

 

Höfundur: Yelena Sesselja Helgadóttir

Birt þann 13.03.2020
Heimildir

NKS 3010 4to (bréf Ólafs Davíðssonar til Jóns Árnasonar).

Páll Eggert Ólason. Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins. Bd. I. Reykjavík: Landsbókasafn Íslands, 1918.

Yelena Sesselja Helgadóttir. Til varnar Ólafi Davíðssyni, þuluútgefanda? Viskustykki: undin Soffíu Guðnýju Guðmundsdóttur fimmtugri 4. apríl 2014. Reykjavík: Menningar- og minningarsjóður Mette Magnussen. Bls. 73–76.