Skip to main content

Pistlar

Starfsstöðvar kvaddar – Laugavegur 13

Nýverið flutti allra síðasta starfsfólk Árnastofnunar inn í Eddu þegar Árnagarður var endanlega tæmdur. Af þessu tilefni líta starfsmenn um öxl og segja stuttlega frá þeim starfsstöðvum stofnunarinnar sem hafa nú verið kvaddar fyrir fullt og allt. Við byrjum á Laugavegi 13 en það var fyrsta starfsstöðin sem var rýmd, sumarið 2023. Ari Páll Kristinsson rannsóknarprófessor segir frá.

Laugavegur 13.
Laugavegur 13
SSJ

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hafði starfsstöð á Laugavegi 13 frá sumrinu 2015 fram á sumarið 2023. Þar voru meðal annars geymd seðlasöfn orðabókarinnar, í herbergi á þriðju hæð, og á fimmtu hæðinni örnefnasafnið, gögn um starfsemi Íslenskrar málnefndar og fleira. Starfsmenn á sviðum orðfræði, nafnfræði og málræktar höfðu á þessu átta ára tímabili vinnuaðstöðu á fjórðu og fimmtu hæð hússins. Þar var einnig drjúgur hluti hins ríkulega bókasafns Árnastofnunar á sviði málfræði og nafnfræði. Þegar á leið voru til viðbótar tekin á leigu fáein herbergi á annarri hæð hússins, meðal annars fyrir starfsemi alþjóðasviðs og fyrir stoðþjónustu. Á fjórðu hæð var fundarherbergi með ágætum skjá og voru þar gjarna haldin húsþing, málstofur og ýmsir fundir. Kaffistofa á fjórðu hæð var líka oft notuð undir starfsmannafundi og aðra viðburði.

Ólíkt starfsstöðvunum í Árnagarði og í Þingholtsstræti 29 var Laugavegur 13 aðeins millikafli til að brúa ákveðið bil. Árin átta á Laugaveginum voru aðeins brot af sögu þeirra fræðasviða stofnunarinnar sem þar hafði verið komið fyrir tímabundið. Starfsemin átti sér forsögu í þremur ólíkum þráðum sem síðan fléttuðust saman.

Starfsmennirnir og gagnasöfnin á Laugavegi 13 höfðu áður haft sameiginlegt aðsetur í húsi Háskóla Íslands við Neshaga 16. Flutningurinn þaðan niður á Laugaveg var ekki á óskalista stofnunarinnar en kom óvænt til þegar Háskólinn ákvað haustið 2014 að megintölvur skólans og upplýsingaþjónusta skyldi flutt á Neshaga 16 og Árnastofnun yrði að leita annað. Vetrinum 2014–2015 var því varið í að leita að öðru hentugu húsnæði, sem lyktaði með leigusamningi um hluta hússins við Laugaveg 13. Sumarið 2015 fluttist þangað öll starfsemi þáverandi orðfræðisviðs, málræktarsviðs og nafnfræðisviðs. Þessi þrjú starfssvið höfðu orðið til við sameiningu fimm stofnana þegar Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum var komið á fót, árið 2006. Sviðin þrjú störfuðu hvert og eitt á grunni rótgróinna stofnana og hafði starfsemin því átt mismunandi heimkynni gegnum tíðina. Orðabók Háskólans, stofnsett 1944, var upphaflega til húsa í Aðalbyggingu Háskólans en flutti í Árnagarð 1969, og þaðan á Neshaga 16 árið 1991. Örnefnastofnun Þjóðminjasafns starfaði frá 1969 í húsnæði Þjóðminjasafnsins en fljótlega eftir að Örnefnastofnun Íslands var komið á fót 1998 þurfti að flytja safnkostinn og starfsemina að Lyngási 7 í Garðabæ. Þegar hin nýja Árnastofnun varð til var nafnfræðin flutt á Neshaga 16. Íslensk málstöð, stofnsett 1985, var til húsa að Aragötu 9 allt til ársins 1999 þegar hún færðist yfir á Neshaga 16.

Á Laugavegi 13 fór að mörgu leyti ágætlega um starfsemina og starfsfólkið ekki síður en verið hafði á Neshaga 16, enda voru samskipti við leigusala með ágætum. Staðsetningin í hjarta Reykjavíkur var á margan hátt tilbreyting frá háskólasvæðinu, og hafði meðal annars þann kost að vera í námunda við suma starfsemi Stjórnarráðsins. Eigi að síður hefur það væntanlega verið flestum gleðiefni þegar loks var unnt flytja í langþráð sameiginlegt hús á Melunum sumarið 2023.

Birt þann 14. febrúar 2025
Síðast breytt 20. febrúar 2025