Í janúar 2025 flutti allra síðasta starfsfólk Árnastofnunar inn í Eddu þegar Árnagarður var endanlega tæmdur og nú eru allir starfsmenn stofnunarinnar undir sama þaki í fyrsta sinn. Af þessu tilefni líta starfsmenn um öxl og segja stuttlega frá þeim starfsstöðvum stofnunarinnar sem hafa nú verið kvaddar fyrir fullt og allt. Gísli Sigurðsson rannsóknarprófessor segir frá.
Ég man ekki eitthvað um Snorrabúð ...
Þegar ég kom fyrst í Árnagarð, nýnemi í íslensku, blöstu við mér tvö stór málverk eftir Jóhann Briem í anddyrinu: hjörturinn úr Helgakviðu Hundingsbana með sín glóandi horn við himin sjálfan og örlaganornirnar þrjár, Urður, Verðandi og Skuld, við rætur asks Yggdrasils. Þarna tók Óskar Halldórsson á móti okkur við töfluna í stofu 201 og byrjaði námskynninguna á tilvitnun í Matthías Jochumsson: „Hvar skal byrja, hvar skal standa?“
Mörgum námskeiðum og kaffibollum hjá Gógó í kjallaranum síðar fékk ég aðstöðu og tæki inni á Árnastofnun hjá Hallfreði Erni Eiríkssyni til að vélrita upp viðtöl sem ég hafði tekið við Vestur-Íslendinga í Manitoba. Þá kynntist ég fyrst flókaskóklæddu fræðimönnunum sem ólust upp undir handarjaðri Jóns Helgasonar innan við múrvegginn á Árnasafni og liðu þarna um gangana með handrit í höndunum og töluðu kunnuglega um safnmörk og hvernig uppgómmælt lokhljóð hefðu verið táknuð á þrettándu öld eins og þetta væru hversdagsleg umræðuefni. Á milli setninga sló Borgundarhólmsklukkan taktinn í þessu samfélagi sem hnitaðist um húsþing á Málstofu og íbyggna og víðfræga kaffitíma með sínu soðgreifatali á kaffistofunni þar sem Jón Samsonarson, Bjarni Einarsson, Stefán Karlsson og Ólafur Halldórsson áttu sín föstu sæti, rifjuðu upp ævintýri frá Kaupmannahöfn og skeggræddu nýjustu málvillur úr útvarpsdagskránni – en Eva Úlfarsdóttir Líndal á skrifstofunni sá um að öllum liði vel.
Jónas Kristjánsson, sem hafði tekið við forstöðumannsstarfinu af Einari Ólafi um áramótin áður en fyrstu handritin frá Danmörku komu í hús, stýrði þó oft annars konar umræðum, laðaði fram frásagnir þeirra sem höfðu farið á ráðstefnur, hélt uppi fjörinu í rútuferðum og bauð öllum heim til sín á þorrablót þar sem Sigríður Kristjánsdóttir hafði alla þræði í hendi sér og vakti með Jónasi yfir velferð okkar og virðingu stofnunarinnar: þau buðu upp á sérstaka ‘hræru’ í fordrykk, skiptu í lið til að leika bókatitla, jafnvel handritanúmer þegar best lét, og Jónas treysti nýliðum til að vera með skemmtiatriði. Saman áttu þau hjón ekki lítinn þátt í þeirri blöndu af forvitni, vinnusemi, jafnræði, vandvirkni og glaðværð sem skapaðist meðal þeirra sem störfuðu á Árnastofnun – og sem laðaði hina erlendu fræðimenn til starfa hjá okkur.
Niðri í kjallaranum voru Jón Sigbjörnsson og Helga Jóhannsdóttir að afrita og skrá jafnóðum viðtölin í segulbandasafninu en á kvöldin og um helgar sátu næturverðirnir á kaffistofunni, með hinn margfróða Reyni Unnsteinsson í fararbroddi; hituðu kaffið og veittu félagsskap yfir skákborði og tóbaksreyk – á meðan það var leyfilegt. Reynir mundi svo langt fram að hann gat sagt sögur af hinum tvöfalda vinnudegi Einars Ólafs sem kom snemma á morgnana en lagði sig heima á Oddagötu eftir hádegismatinn og hélt svo áfram vinnu fram á kvöld. Fyrir jólin gaf hann ‘sínum mönnum’ frí fram yfir áramót að þeir mættu lesa jólabækurnar og koma endurnærðir til starfa á nýju ári.
Handritin voru til sýnis í lítilli stofu við útidyrnar og vakthafandi fræðarar tóku á móti skólahópum jafnt sem helstu fyrirmennum heimsins, á borð við Harald R. eins og hann skrifaði í gestabókina við innganginn undir myndinni af Ganglera í Uppsala Eddu, Mitterand, Karl Gústav, Juan Carlos, Milan Kundera, Yoko Ono, Carl Barks og sjálfa Hillary – að ógleymdri Elísabetu Englandsdrottningu. Heimsókn Elísabetar varð til þess að sérstök fjárveiting fékkst til að pússa og lakka stóru vængjahurðirnar sem sveifluðust fram í anddyrið – enda voru þær orðnar lúnar af banki þeirra sem vildu komast inn.
Hægt og rólega hvarf landnemakynslóðin í Árnagarði af sjónarsviðinu, þótt þeir sem heilsu höfðu hafi haldið áfram störfum á eftirlaunaaldri; Ólafur á hverjum degi í um áratug efir áttræðisafmælið þegar hann lauk loks við verkefnið sem Jón fól honum þegar Ólafur kom fyrst til Hafnar: útgáfu á Ólafs sögu Tryggvasonar hinni mestu. Væri Ólafur ekki kominn í tíukaffið var hringt heim til hans að forvitnast hvort ætti að skrá hann veikan.
Á lessalnum sátu bæði stúdentar, sjálfstætt starfandi fræðimenn og erlendir gestir sem höfðu þann sið að deila tollinum í síðdegiskaffinu þannig að lyktin barst um húsið og dró niður kennarana af efri hæðunum, jafnvel sjálfan Jakob Ben úr Hlíðunum og Hermann Pálsson frá Edinborg – og kvöddu svo með sama hætti þegar þeir flugu til síns heima. Eina undantekningin frá þessu var enski prófessorinn Peter Foote sem gaf alltaf með sér í tíukaffinu á morgnana til að geta skálað við sinn góða vin Ólaf Halldórsson sem þurfti að keyra Volvoinn heim í Hafnarfjörð síðdegis – en splæsti við þessi tækifæri í nokkrar gamansögur úr Flóanum til að gleðja Fóta-Pétur.
Svo gerðist það án þess að nokkur vissi af að klukkan var hætt að slá og á snöggu augabragði vorum við unga fólkið á stofnuninni orðin að ‘gömlu köllunum’ í nær öfugu kynjahlutfalli við það sem tíðkaðist í árdaga þegar Óðinn og hans bræður voru stýrendur himins og jarðar.
























Síðast breytt 21. febrúar 2025