Nýverið flutti allra síðasta starfsfólk Árnastofnunar inn í Eddu þegar Árnagarður var endanlega tæmdur. Af þessu tilefni líta starfsmenn um öxl og segja stuttlega frá þeim starfsstöðvum stofnunarinnar sem hafa nú verið kvaddar fyrir fullt og allt. Önnur starfsstöðin sem var rýmd þegar allir starfsmenn hennar fluttu í Eddu var Þingholtsstræti 29. Þar var Stofnun Sigurðar Nordals til húsa og eftir að hún sameinaðist öðrum stofnunum á sviði íslenskra fræða árið 2006, sem saman urðu að Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og varð að alþjóðasviði stofnunarinnar hélst starfsemin áfram í húsinu. Síðustu árin fyrir flutninga hýsti Þingholtsstrætið síðan máltækniteymi Árnastofnunar. Í þessum pistli segir Úlfar Bragason, prófessor emeritus við Árnastofnun og fyrrum forstöðumaður Stofnunar Sigurðar Nordals og síðar sviðsstjóri alþjóðasviðs, frá sögu hússins.
Stofnun Sigurðar Nordals var sett á fót við Háskóla Íslands 14. september 1986 þegar hundrað ár voru frá fæðingu Sigurðar. Samkvæmt reglugerð var hlutverk stofnunarinnar „að efla hvarvetna í heiminum rannsóknir og kynningu á íslenskri menningu að fornu og nýju og tengsl íslenskra og erlendra fræðimanna á því sviði.“ Svipaði starfseminni til þeirrar sem fer fram á skyldum stofnunum erlendis, svo sem Svenska Institutet, Goethe-Institut og Instituto Cervantes eftir því sem fjárhagur leyfði.
Stofnun Sigurðar Nordals var valin stjórn 1986. Í fyrstu stjórninni sátu Davíð Ólafsson fv. seðlabankastjóri, formaður, skipaður af menntamálaráðherra, dr. Jónas Kristjánsson, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, kosinn af háskólaráði, og Svavar Sigmundsson dósent, kosinn af heimspekideild. Stofnun Sigurðar Nordals var veitt byrjunarframlag á fjárlögum fyrir árið 1987. Á miðju því ári var stofnuninni fengið aðsetur í húsinu Þingholtsstræti 29 í Reykjavík sem menntamálaráðuneytið keypti. Menntamálaráðherra friðlýsti húsið 9. desember 1988. Auglýst var eftir forstöðumanni og haustið 1987 réð stjórnin dr. Úlfar Bragason bókmenntafræðing til að veita stofnuninni forstöðu frá og með 1. janúar 1988. Tók stofnunin þá til starfa.
Húsið Þingeyrar
Húsið Þingholtsstræti 29 létu Jón Magnússon landshöfðingjaritari og kona hans Þóra Jónsdóttir reisa 1899. Þau bjuggu í húsinu til 1912 ásamt fósturdóttur sinni. Síðar eignaðist Pálmi Pálsson, yfirkennari við Menntaskólann í Reykjavík, húsið. Kona hans var Sigríður Björnsdóttir, þau áttu einn son, Pál Pálmason, ráðuneytisstjóra. Páll bjó áfram í húsinu eftir að foreldrar hans létust allt fram á níunda áratug 20. aldar. Páll Pálmason lést 1985.
Húsið er tvílyft úr timbri og stendur á hlöðnum kjallara. Þetta er katalóghús og voru viðir þess keyptir tilhöggnir frá Noregi. Það er í svokölluðum sveitserstíl. Er húsið eitt hið elsta sinnar gerðar hér á landi. Hefur því ekki verið breytt að neinu ráði síðan það var byggt. Hörður Ágústsson listmálari og Leifur Blumenstein byggingafræðingur voru fengnir til að vinna álitsgerð um húsið. Miklar viðgerðir þurftu að fara fram á því og gerði Leifur einnig áætlun um kostnað við þær. JBB teiknistofa sf. teiknaði húsið upp. Í framhaldi af þessu réðst stjórn stofnunarinnar í viðgerðir á húsinu svo að starfsemin gæti hafist þar. Hafði Leifur Blumenstein eftirlit með því verki. Lauk viðgerðunum á árinu 1991. Þá var eftir að laga garðinn í kringum húsið en því var lokið á miðju ári 1992. Húsinu var gefið nafnið Þingeyrar til að minnast þess að á miðöldum var Þingeyraklaustur eitt helsta menntasetrið í landinu eins og Sigurður Nordal benti rækilega á. Sjálfur var Sigurður fæddur Húnvetningur. Í Þingholtsstræti 29 var skrifstofa stofnunarinnar, tvö skrifstofuherbergi, fundarherbergi og kaffistofa á aðalhæðinni. Í risi var íbúð sem var lánuð eða leigð erlendum fræðimönnum, rithöfundum og þýðendum er dvöldust hér á landi við rannsóknir og skriftir.
Dagleg störf og draugagangur
Stofnunin skipulagði ráðstefnur og fundi, gaf út ráðstefnurit og skipulagði sumarnámskeið í íslensku fyrir erlenda stúdenta. Þá annaðist hún umsjón með íslensku við erlenda háskóla og tók þátt í norrænu samstarfi um kennslu í Norðurlandamálum í heiminum. Skrifstofa Samstarfsnefndar um Norðurlandafræðslu erlendis var um langt skeið hjá stofnuninni. Stofnunin vann einnig að gerð námsefnis í íslensku sem öðru máli. Þá veitti hún Styrki Snorra Sturlusonar og tók þátt í að koma Snorrastofu í Reykholti á fót. Eftir að stofnanir í íslenskum fræðum sameinuðust 2006 tók skrifstofan að sér að annast styrki til erlendra stúdenta sem stunda íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands.
Lengi voru aðeins tveir fastir starfsmenn í Þingholtsstræti 29 en þeim fjölgaði í þrjá áður en Stofnun Sigurðar Nordals var sameinuð öðrum stofnunum. Auk fastra starfsmanna unnu oft verkefnaráðnir starfsmenn í húsinu, einkum að námsefnisgerð. Stjórn stofnunarinnar fundaði í Þingholtsstræti 29 reglulega og þar var efnt til móttöku ýmissa gesta, svo sem erlendra stúdenta. Margir erlendir fræðimenn og rithöfundar sem hafa hlotið Styrk Snorra Sturlusonar hafa dvalist um langan tíma í fræðimannsíbúðinni.
Þegar Stofnun Sigurðar Nordals flutti í húsið Þingholtsstræti 29 héldu vaktmenn því fram að þar væri reimt. Aldrei urðu starfsmenn varir við draugagang, líklega af því draugnum féll vel við þá. Í gömlu timburhúsi eru hins vegar alls konar hljóð, ekki síst þegar hreyfir vind. Vegna þess að húsið er ekki vel einangrað er þar stundum kalt í kuldaköstum á vetrum. Í sumarsólskini verður hins vegar mjög hlýtt við stóra vesturgluggana. Útsýni er gott af efri hæðinni yfir Tjörnina og Vesturbæinn, af neðri hæðinni sést vel niður Skálholtsstíginn og eftir Þingholtsstræti en húsið stendur á mótum þessara gatna.
Góður andi er í húsinu Þingholtsstræti 29 og gott að vinna þar. Gestum líkaði vel að búa í húsinu og einn sagði að það hefði alltaf verið gaman að ræða við starfsfólkið og drekka með því tíukaffi. Annar sagði: „I came to regard it as my home in Iceland.“








Síðast breytt 19. febrúar 2025