Það var fyrir áhrif frá rómantísku stefnunni, þjóðernishyggju og Grimmsbræðrunum sem Íslendingar hófu að safna þjóðsögum úr munnlegri geymd á 19. öld og varð fyrsti afrakstur þess lítið kver sem Magnús Grímsson og Jón Árnason gáfu út árið 1852 undir heitinu Íslenzk æfintýri. Þegar þýski fræðimaðurinn Konrad Maurer (1823–1902) kom til landsins árið 1858 höfðu þeir Jón Árnason og Magnús Grímsson samt eiginlega gefist upp við söfnunina. Maurer hvatti þá til dáða og hafði mikil áhrif á þjóðsagnasöfnunina, en í ritum hans kemur fram að hann taldi að vegna einangrunar landsins og lítið breyttra lifnaðarhátta um aldir hefðu þjóðsögurnar varðveist þar „hreinar og ósviknar“. Margir þeirra sem söfnuðu fyrir Magnús og Jón voru lærðir menn, margir prestar, sem voru vel lesnir og þekktu þar með margar hinna erlendu sagna sem höfðu borist til Íslands með prentuðum bókum. Það má því búast við að þeir hafi ekki eytt tíma sínum í að skrifa upp þannig sögur þegar nóg var að finna af „ekta íslenskum“ sögum meðal sagnafólksins. Þó er hægt að finna dæmi um sögur úr arabískum sagnasöfnum sem fólk hefur sagt hvert öðru á Íslandi auk nokkurra sem greinilega eiga rætur að rekja til evrópskrar miðaldasagnahefðar. Arabíska sögusafnið 1001 nótt (Alf layla wa-layla) var þýtt og gefið út á frönsku á árunum 1704–1715. Eftir þeirri þýðingu voru sögurnar fljótlega þýddar á ýmis önnur tungumál og bárust til Íslands strax á 18. öld. Dönsk þýðing kom út árið 1746 og hefur líklega borist fljótt til Íslands. Eftir henni eru flestar íslenskar þýðingar sem finnast í handritum, gerðar á 18. og 19. öld. Sú handritahefð endurspeglar hvernig erlendar, veraldlegar sögur dreifðust á Íslandi fram á 19. öld og engan þarf að undra að slíkar sögur hafi síðan fundist í munnlegri geymd þegar hafist var handa við að safna þjóðsögum. Einn þeirra sem safnaði sögum fyrir Magnús og Jón var nafni Jóns, Jón Sigurðsson (1828–1889) stórbóndi og alþingismaður á Gautlöndum í Mývatnssveit. Hann þekkti auðsjáanlega erlendar sögur frá íslenskum eins og sést í bréfi sem hann skrifar Jón Árnasyni 1. febrúar 1860, þar sem hann segir m.a.
„Þá er annar söguflokkur sem hjer er nokkuð algengur, og er dálítið svipaður Þúsund og einni nótt, hefi jeg hripað upp eina sögu af þeim flokki og sendi yður, en það er sagan Af þrem kóngssonum.“
Íslenska sagan er efnislega mjög lík sögunni í 1001 nótt en frábrugðin í mörgum smáatriðum. Þau atriði virðast öll verða til að gera atburði kunnuglegri fyrir íslenska áheyrendur en eins og sjá má af orðum Jóns Sigurðssonar hafa þessar sögur gengið í munnmælum og verið sagðar fólki til skemmtunar. Önnur saga sem kemur úr 1001 nótt í þjóðsagnasafninu sem kennt er við Jón Árnason (þar eð Magnús féll frá áður en komið var að frágangi safnsins) er frá safnara og heimildarkonu sem bæði eiga sér sérstöðu í safninu. Safnarinn er sá yngsti sem vitað er um, en Páll Pálsson var aðeins 11 ára þegar hann fór að skrifa upp sögur eftir sögukonunni Guðríði Eyjólfsdóttur (1811–1872). Hún er síðan sá nafngreindi heimildarmaður í safni Jóns Árnasonar sem eignaðar eru flestar sögur eða alls 58. Guðríður hefur kunnað alls konar ævintýri en einnig sagnir um huldufólk, drauga og útilegumenn. Nokkrar sögur hennar má auðveldlega rekja til bóklegra sagna svo sem þýðinga á miðausturlenskum sögum og jafnvel miðaldaævintýrum. Sagan sem auðþekkjanlegust er úr 1001 nótt er kölluð „Peningasteinninn“ í prentuðu útgáfunni en er sagan af Ali Baba og ræningjunum fjörutíu sem stundum er nefnd „Sesam, sesam“. Það er ákaflega heppilegt fyrir okkur öll að einn þeirra sem safnaði þjóðsögum fyrir Jón Árnason skyldi vera ungur og óskólagenginn þannig að hann var ekki búinn að koma sér upp neinni síu sem varnaði útlendum bóksögum að komast inn í íslenskt þjóðsagnasafn. Hinn ungi Páll Pálsson varð til þess að opna fyrir okkur glugga inn í ákaflega fjölbreytta og alþjóðlega sagnahefð á þeim tíma þar sem gera átti hinu þjóðlega sérstaklega hátt undir höfði og takmarkið var að safna „hreinum og ósviknum“ íslenskum þjóðsögum. Af sögusjóði Guðríðar má ráða að það hafi ekki bara verið „íslenskar“ sögur sem gengu í munnmælum á 19. öld heldur hafi söguefnið verið sótt víða og langt að.
Síðast breytt 24. október 2023