Skip to main content

Pistlar

Rímnahandrit frá Vesturheimi – SÁM 176

Langflest handrit í vörslu Árnastofnunar eiga rætur að rekja til safns Árna Magnússonar handritasafnara. Þó leynast ýmis merkileg yngri handrit í handritageymslu stofnunarinnar undir safnmarkinu SÁM (Stofnun Árna Magnússonar).

SÁM 176 er nýjasta handritið skráð undir því safnmarki og jafnframt eitt allra yngsta handritið í geymslunni. Vesturfarinn Dagbjartur Guðbjartsson (1889–1970) skrifaði handritið 1963 en Örn Arnar færði stofnuninni það að gjöf fyrir hönd fjölskyldu Dagbjarts 24. september 2018.

Handritið geymir tvenna rímnaflokka: Hektorsrímur Ólafs Jónssonar og Rímur af Hrólfi Rögnvaldssyni eftir Magnús Jónsson í Magnússkógum.

Ólafur Jónsson (1720–d. um 1764) var bóndi á Öngulstöðum á Staðarbyggð og síðan á Þverbrekku í Öxnadal. Hann orti Hektorsrímur árið 1756. Þær hafa ekki verið prentaðar en eru til í nokkrum handritum, m.a. JS 344 4to, JS 430 8vo og ÍBR 154 8vo.

Magnús Jónsson í Magnússkógum (1763–1840) var afkastamikið og vinsælt rímnaskáld en aðeins Rímur af Bernótusi Borneyjarkappa hafa ratað á prent. Í 6. rímunni af Hrólfi Rögnvaldssyni telur Magnús upp 20 rímur eftir sig en segist vera nokkurn veginn hættur að yrkja. Hann átti þó eftir að yrkja tvenna rímnaflokka til viðbótar.

Magnús orti Hrólfsrímur árið 1828 fyrir Þórunni Ólafsdóttur á Hamraendum (1740–1830). Þórunn var vel menntuð kona og hafði fengið sérstaka viðurkenningu frá Danadrottningu fyrir hæfileika sína í hannyrðum.

Dagbjartur Guðbjartsson fór vestur um haf árið 1911. Hann dvaldi í nokkur ár í Winnipeg og tók þar þátt í útgáfu Rímna af Án bogsveigi eftir Sigurð Bjarnason árið 1919. Hann flutti seinna til Akra í Norður-Dakóta og bjó þar til æviloka.

Ljóst er að Dagbjartur Guðbjartsson hafði eitt ef ekki tvö rímnahandrit undir höndum þegar hann skrifaði SÁM 176. Eins og flestir skrifarar tekur hann ekki fram hvaðan hann fékk handritin og um afdrif forrita hans er ekki vitað. Dagbjartur var ekki eini rímnaáhugamaðurinn í fjölskyldunni og getur vel verið að einhver óþekktur vesturfari nákominn Dagbjarti hafi komið með handritin.

Móðurafi Dagbjarts, Össur Össurarson á Látrum, var rímnaskáld en móðurbróðir Dagbjarts var Nikulás Össursson (Nick Ottensen) sem kom til Kanada árið 1887 og settist fljótlega að í Winnipeg. Nikulás var mikill bókamaður og handritasafnari en seldi handrit sín á 5. áratugnum til Johns Hopkins University í Baltimore. Eitt handrit skrifaði Nikulás Össursson sjálfur í Winnipeg á árunum 1915–1916 og er það uppskrift af Grettisrímum ofangreinds Magnúsar Jónssonar. Dagbjartur vann hjá Nikulási um nokkurt skeið á 2. áratugnum og ekki er útilokað að tengsl séu á milli handritasafns Nikulásar í Winnipeg og SÁM 176. Mikilvægt er að rannsaka betur skrifaratengsl íslenskra innflytjenda í Norður-Ameríku.

Þótt SÁM 176 sé mjög ungt handrit sýnir það lifandi skrifaramenningu í Vesturheimi á 7. áratug síðustu aldar.

Birt þann 29. apríl 2019
Síðast breytt 24. október 2023