Skip to main content

Pistlar

Norsk örnefni á Íslandi og torræð örnefni í Eyjafirði

Fyrirlestur fluttur í Nafnfræðifélaginu 4. febrúar 2006.

1
Nafn á þennan fyrirlestur völdum við Svavar Sigmundsson, forstöðumaður Örnefnastofnunar, í sameiningu til þess að teygja hingað fólk. Bragðið er í samræmi við gamla örnefnahefð eða markaðshyggju á Norðurlöndum sem hófst þegar Eiríkur rauði gaf Grænlandi nafn „ok kvað menn þat myndu fýsa þangat farar, at landit ætti nafn gótt“, eins og segir í Íslendingabók,1 en við Svavar töldum það mundi fýsa menn hingað farar að erindið ætti nafn gott.

Frásögn Íslendingabókar er hins vegar ekki síður mikilsverð fyrir sögulega nafnfræði því að hún sýnir – svo naumast verður um villst – að fyrri menn höfðu tilgang með nafngiftum sínum. En frásögn Ara minnir okkur einnig á að vega og meta frásagnir um nafngiftir og örnefni, vega og meta gildi gamalla örnefnaskýringa, því að lengi virðast örnefni hafa orðið tilefni til ótraustra örnefnasagna.2

Í orðum mínum hér á eftir ætla ég mér í fyrsta lagi að segja frá nokkrum norskum örnefnum á Íslandi, eins og ég leyfi mér að orða þetta, og síðan að fjalla um þrjú torræð örnefni í Eyjafirði.

1.1
Íslensk tunga er upphaflega mál norskra innflytjenda. Með máli sínu tóku landnámsmenn með sér örnefni úr heimabyggð sinni. Ekki hefur verið reynt að áætla hve stór hluti íslenskra örnefna hefur borist þannig með landnámsmönnum eða hversu mörg örnefni á Íslandi eru gerð að norskri fyrirmynd. Líkur benda þó til að þessi erfðarörnefni séu verulegur hluti íslenskra örnefna.3

En hvers vegna tóku landnámsmenn með sér örnefni úr heimabyggð sinni í Noregi? Til þess liggja að sjálfsögðu ýmsar ástæður. Fyrsta ástæðan – eða réttara sagt forsenda þess að landnámsmenn gátu tekið með sér örnefni, sem varðveittust á Íslandi, er að tungumál landanna beggja var hið sama – eða eins og ég nefndi: íslensk tunga er upphaflega mál norskra innflytjenda. Önnur mál festu ekki rætur hér á landi, enda þótt hingað kæmi fólk af öðrum málsvæðum, einkum hinu írska eða keltneska málsvæði vestan hafs. Önnur ástæðan til örnefnaflutninga er að sjálfsögðu sú að landslag og landshættir á Íslandi voru svipaðir og víða í Noregi, einkum í fjörðum og víkum á Vesturlandinu og norður eftir ströndinni allt til Hálogalands.4

Í þriðja lagi má nefna að viðhorf manna og lífsreynsla á Íslandi og í Noregi voru svipuð fyrstu aldir Íslandsbyggðar, svo og búskaparhættir og líf meirihluta þjóðarinnar. Í fjórða lagi mætti nefna að hugsanlega hafa landnámsmenn flutt með sér örnefni til Íslands, án þess að nokkur líking væri á milli, einungis til þess að minna á gamla landið. Það gerðu íslenskir vesturfarar á ofanverðri 19du öld og framan af hinni 20ustu þegar þeir fluttu með sér íslensk nöfn til Vesturheims til þess að minna á gamla landið án þess að líkindi væru mikil á milli, að því er virðist.

1.2
Af gömlum sögnum að dæma eru fyrstu örnefni á Íslandi sniðin eftir landsháttum – þau eru náttúrunöfn, naturnavn eða terrengnavn, eins og Norðmenn hafa lengið kallað slík örnefni. Sem dæmi um náttúrunafn má nefna nafn landsins sjálfs, Ísland, sem bersýnilega er náttúrunafn. Í Landnámabók er frá því sagt að Flóki Vilgerðarson gekk upp á fjall eitt hátt ofan við Vatnsfjörð við Barðaströnd og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum og „því kǫlluðu þeir landit Ísland, sem þat hefir síðan heitit.“5 Í Hauksbók er að vísu sagt frá því að Naddoddur hafi orðið sæhafi, þ.e. villst í hafi, og komið í Reyðarfjörð í Austfjörðum „ok gengu þeir þar á hin hæstu fjǫll at vita, ef þeir sæi nǫkkurar manna vistir eða reyki, ok sá þeir ekki tíðenda. En er þeir sigldu frá landinu, fell snjór mikill; af því kallaði hann [landið] Snæland. Þeir lofuðu mjǫk landit.“6

En hvort heldur landið er heitið eftir snjónum á fjöllunum fyrir austan eða hafísum inni á fjörðum fyrir vestan ellegar jöklunum, sem rísa úr sæ þegar siglt er að landinu – sem mér þykir sennilegast – leikur lítill vafi á að örnefnið Ísland er náttúrunafn.7 Sömu sögu er að segja um örnefnin Reykjarvík, Reykjanes, Faxaflói eða Snæfellsnes – allt eru þetta náttúrunöfn. Að sjálfsögðu eru ekki öll gömul örnefni náttúrunöfn heldur er einnig að finna örnefni sem lýsa búskaparháttum eða veiðiskap og einstaka gömul örnefni hafa mannsnafn að fyrra lið. Fleiri flokkar örnefna kunna einnig að vera til. Hins vegar er ekki ætlunin að fjalla hér um flokkun örnefna, þótt það sé mikilsvert og verðugt verkefni sem bíður betri tíma.

Fullvíst er að norskir landnámsmenn hafa tekið með sér örnefni úr heimabyggð sinni til nýja landsins, enda hefur verið bent á það áður. Kristján Eldjárn ýjar að þessu í fyrsta bindi Sögu Íslands þar sem hann skrifar um „fornþjóð og minjar“.8 Þá segir Þórhallur Vilmundarson í grein um Hjörunga-örnefni í Grímni 1996: „Nafnið [Hjǫrungavogur] kann að vera flutt inn að fornu fullskapað frá fyrri heimkynnum nafngjafa í ákveðinni merkingu eins og svo mörg önnur örnefni, t.d. klettaheitið Skjöldungur, skersheitið Kolbeinn, hæðarheitið Dímon, fjallaheitin Glóðafeykir, Herðubreið og Óþoli.“9 En þá er komið að fyrra hluta þessa fyrirlestrar sem ég hef kallað norsk örnefni á Íslandi.

2 Norsk örnefni á Íslandi
Árin 1968 til 1972 bjó ég í Björgvin, fyrstu höfuðborg Íslands. Fór ég víða um sunnanverðan Noreg og þá ekki síst um Vesturlandið, Vestlandet. Tók ég fljótt eftir því að örnefni á þessum slóðum voru mörg hin sömu og örnefni á Íslandi. Fyrstu örnefnin, sem vöktu athygli mína, voru örnefni s.s. Husvika eða Husvik, Hope eða Hop og fjallsnafnið Herdabreida í Harðangursfirði. Þetta vakti mér nokkra furðu, enda var ég fákunnandi um örnefni og örnefnafræði, þótt fyrirlestrar Þórhalls Vilmundarsonar prófessors á árunum 1966 og 1967 vektu áhuga minn og ykju mér skilning. Síðan hef ég hugsað allmikið um örnefni, ekki aðeins um merkingu þeirra heldur einnig um það sem kalla mætti örnefnaflutning milli landanna, en einnig hef ég hugleitt hvað örnefni geta sagt okkur um lífshætti, lífsviðhorf, náttúruskynjun og náttúrusýn manna á miðöldum, þótt hér sé aðeins fjallað um örnefnaflutning milli landanna tveggja.

Til þess að sýna fram á örnefnaflutning frá Noregi til Íslands og renna stoðum undir tengsl íslenskra og norskra örnefna ætla ég að nefna nokkur dæmi um alþekkt örnefni á Íslandi sem eiga sér fyrirmynd – eða hliðstæðu í Noregi. Ég tek fram að hvorki hef ég gert tæmandi könnun á þessum örnefnum né öðrum hugsanlegum tengslum norskra og íslenskra örnefna, svo sem hvaðan úr Noregi algengast er að örnefnin séu komin. Þá hef ég heldur ekki kannað örnefni í byggðum norrænna manna vestan hafs. Skrá mín er því aðeins brot af öllu því sem er að finna, auk þess sem ég nefni aðeins hluta þeirra norsku örnefna sem ég hef séð að eiga sér samsvörun á Íslandi. T.a.m. sleppi ég mörgum algengustu örnefnunum. Vonandi vinnst tími til að gera þessu betri skil síðar því að hugsanlega má lesa eitthvað út úr dreifingu örnefnanna eða þeim flokkum örnefna sem til yrðu við frekari könnun.10

2.1 Arnarfjörður
Arnarfjörður fyrir vestan er tilkomumikill fjörður og klofnar eins og kunnugt er í tvo meginfirði: annars vegar Borgarfjörð, en suður úr honum gengur Dynjandisvogur, og hins vegar Suðurfirði, sem eru fjórir: Fossfjörður, Reykjarfjörður, Trostransfjörður og Geirþjófsfjörður. Arnafjord(en) gengur suður úr Sognsæ innanverðum og klofnar í tvo firði, eins og Arnarfjörður á Íslandi, þótt það kunni að vera tilviljun. Hins vegar einkenna svipmikil fjöll báða firðina sem geta hafa gefið þeim nafn af því að eitthvað í þeim minnti á örninn eða örnina, eins og þeir segja fyrir vestan.

2.2 Brimnes
Brimnes eru mörg hér á landi, bæði fyrir austan, norðan og vestan. Bremnes, Bremsnes eða Bremneset er að finna á nokkrum stöðum í Noregi. M.a. er Bremsnes á Averøya skammt suðvestur af Kristiansund.

2.3 Einbúi
Örnefnið Einbúi mun vera að finna á mörg hundruð stöðum á Íslandi.11 Oftast er þetta nafn á stökum hólum eða steinum en auk þess á fjöllum eða fjallstindum og í Bárðardal er þetta bæjarnafn og austast á Tvídægru er Einbúi nafn á vatni eða flóa. Einstaklega tignarlegt er fjallið Einbúi inn af Lónafirði í Jökulfjörðum. Örnefnið Einbu kemur fyrir á nokkrum stöðum í Noregi, m.a. á bæ ofarlega í Romsdalen á Upplöndum, en vafalítið er að hann dregur nafn af einhverjum tindi eða fjalli, þótt það sé ekki skráð.

2.4 Fannardalur
Fannardalur er að því er virðist aðeins einn á Íslandi, inn af Norðfirði, og heitir eftir eina jöklinum á Austurlandi, jöklinum Fönn. Í Noregi kemur örnefnið Fonndalen fyrir a.m.k. á tveimur stöðum, m.a. í Norlandfylke, vestur af jöklinum Blåmannsisen, um 70 km austur af bænum Bodø.

2.5 Flatey
Flatey kemur fyrir á nokkrum stöðum á Íslandi, þótt Flatey á Breiðafirði og Flatey á Skjálfanda séu kunnastar. Flatøya er nafn á lítilli eyju í Nordland, norðvestur af Mo í Rana.

2.6 Glóðafeykir
Margir hafa haldið að örnefnið Glóðafeykir væri einstakt og hvergi til nema í Skagafirði. Í Noregi eru tvö fjöll sem bera nafnið Gloføken, annað á Heiðmörk, vestan við vatnið Femund, hitt á eynni Bremanger þar sem fyrrum bjó Berðlu-Kári, félagi og fóstbróðir Kveld-Úlfs.

2.7 Hegranes
Annað þekkt skagfirskt örnefni er örnefnið Hegranes sem væntanlega er líkingarnafn. En Hegranes er víðar, m.a. heitir nes, norðan Sandviken í Bergen, Hegrenes og yst á löngu og mjóu nesi við sunnanverðan Førdefjordener Hegrenes, gegnt bænum Kvellestad, *Kvöldstöðum, en á þessum slóðum er varðveitt sögnin um að Kveld-Úlfur Bjálfason, faðir Skalla-Gríms, hafi komið frá Kvellestad.

2.8 Hekla
Hekla er sá staður á Íslandi sem lengst af hefur verið einna kunnastur umheiminum ásamt Geysi og Reykjavík. Í Noregi koma fyrir örnefnin Hekleberg í Buskerud, Heklefjell á Upplöndum, Hekletindan í Nordlandog á eynni Åmøya í Nordland er fjallið Heklan, 637 m hátt, og er talið heita eftir tenntu amboði sem lýst er sem „plate med spisse metalltenner som brukes til rensing av lin og hamp“ eða „reiskap til å reinse lin“, „for di fjellet er sundskoret i mange piggar“.12 Önnur norsk heklu-örnefni eru talin dregin af orðinu hekla 'kápa' „jamføring med snødekte toppar slik som í fjellnamna Kåpa, Duken,“13 eins og talið er að liggi að baki íslenska örnefninu.

2.9 Herðubreið
Herðubreið á Mývatnsöræfum er talið eitt fegursta fjall á Íslandi og var fjallið kjörið þjóðarfjall Íslendinga árið 2002, á alþjóðlegu ári fjallsins. Herðubreiðar eru raunar tvær á Íslandi, fjalladrottningin á Mývatnsöræfum 1682 m á hæð, og Herðubreið við Eldgjá, 812 m, sunnan Skuggafjallakvíslar og Ófærufoss í Skuggafjallagjá. Fjallið Herdabreida er einnig að finna við norðanverðan Harðangursfjörð á Hörðalandi, þaðan sem einna flestir landnámsmenn virðast hafa komið, og eru nokkur líkindi með fjöllunum þótt fjalladrottningin sé mun tignarlegri. Augljós líking er milli fjallanna tveggja, þótt Herðubreið á Mývatnsöræfum sé í mínum augum fallegra fjall og mun herðabreiðara en Herdabreida við Harðangursfjörð.

2.10 Hestfjall
Örnefnið Hestfjall kemur fyrir á a.m.k. fimm stöðum á landinu. Kunnast er e.t.v. Hestfjall í Grímsnesi en norðan á því er örnefnið Hesteyru, enda fjallið líkast hestshaus þegar horft er á það í austri. Tvö fjöll við Sognsæ, Sognefjorden, bera þetta nafn, Hestfjellet, norðan fjarðar við Fjærlandsfjorden, 1360 m á hæð, hitt sunnan fjarðar, gegnt Fjærlandsfjorden, 1624 m á hæð. Líklegt verður að telja að bæði þessi örnefni séu líkingarnöfn, náttúrunöfn.

2.11 Hópið
Örnefnið Hóp kemur fyrir á nokkrum stöðum á Íslandi, þótt Hópið í Húnaþingi sé kunnast. Örnefnið Hop, Hope eða Hopen „smal (innestengd) vik“, kemur fyrir á a.m.k 20 stöðum í Noregi. Við Nordåsvatnet, skammt frá Trollhaugen, bústað Edvards Griegs, skammt sunnan Björgvinjar, er byggðarhverfi sem nefnt er Hop. Er hverfið raunar orðið hluti af sjálfri borginni. Út úr Nordåsvatnet gengur lítil vík, sem nefnist Hop eða Hopsbukti og þarna er auk þess lítið lokað vatn eða tjörn sem einnig er kallað Hop eða Hopsvatnet.

2.12 Húsavík
Á Íslandi er örnefnið Húsavík að finna allvíða, m.a. á einum fimm stöðum á norðanverðu landinu, á Austurlandi og á Ströndum. Kunnust er Húsavík við Skjálfanda. Í Sturlubók Landnámu er örnefnasögn þar sem segir frá því að Garðar Svavarsson, sænskur að ætt, „fór at leita Snælands at tilvísan móður sinnar framsýnnar. Hann kom at landi fyrir austan Horn et eystra; þar var þá hǫfn. Garðarr sigldi umhverfis landit ok vissi, at þat var eyland. Hann var um vetrinn norðr í Húsavík á Skjálfanda ok gerði þar hús. Um várit, er hann var búinn til hafs, sleit frá honum mann á báti, er hét Náttfari, ok þræl og ambátt. Hann byggði þar síðan, er heitir Náttfaravík. Garðarr fór þá til Nóregs ok lofaði mjǫk landit.“14

Í Hauksbók er sögnin um Garðar Svavarsson sýnu ævintýralegri: „Garðarr hét maðr, son Svávars hins svænska; hann átti jarðir í Sjólandi en var fœddr í Svíaríki; hann fór til Suðreyja at heimta fǫðurarf konu sinnar. En er hann sigldi í gegnum Péttlandsfjǫrð, þá sleit hann undan veðr, ok rak hann vestr í haf. Hann kom at landi fyrir austan Horn; þar var þá hǫfn. Garðarr sigldi umhverfis landit ok vissi, at þat var eyland. Hann kom á fjǫrð þann, er hann kallaði Skjálfanda; þar skutu þeir báti ok gekk á Náttfari þræll hans; þá slitnaði festrin, ok kom hann í Náttfaravík fyrir útan Skuggabjǫrg. En Garðarr kom o˛ðrum megin fjarðarins ok var þar um vetrinn; því kallaði hann þar Húsavík. Náttfari var eptir með þræl sinn ok ambátt; því heitir þar Náttfaravík. Garðarr sigldi austr aptr ok lofaði mjǫk landit ok kallaði Garðarshólm.“15

Margt er undarlegt við frásagnir Landnámabókar af Garðari Svavarssyni. Það sem einkum vakti athygli mína var hversu víða Garðar tengist: fæddur í Svíaríki og virtist eiga jarðir á Sjálandi, fór til Suðureyja að heimta föðurarf konu sinnar og frá Suðureyjum sigldi hann gegnum Péttlandsfjörð, milli Skotlands og Orkneyja, á leið til Noregs, en hraktist þaðan til Íslands og sigldi umhverfis landið og bjó sig til vetursetu í Húsavík á Skjálfanda. Líklegt er að höfundur Hauksbókar sé að sýna þekkingu á löndum og þjóðum og bæta um frásögn Sturlubókar, auk þess sem hann er bersýnilega að reyna að gera frásögn sína trúlegri með því að skýra örnefni eða öllu heldur með því að búa til örnefnasagnir.

Þá er undarlegt við frásagnir Landnámabókar um Garðar að hann kemur að landi fyrir austan Horn og siglir umhverfis landið en hefur vetursetu í Húsavík. Hvora leiðina sem hann hefur siglt umhverfis landið frá Eystra-Horni er hann ekki kominn umhverfis landið þegar hann kemur í Húsavík við Skjálfanda og veit ekki fyrr en hann er kominn aftur að Eystra-Horni að landið er eyland. Frá Eystra-Horni hlýtur hann því að hafa siglt aftur norður fyrir land – væntanlega undir vetur. Þetta er því hin mesta ólíkindasögn. En meginþáttur frásagnarinnar er hins vegar að skýra frá því að Garðar Svavarsson hafi gefið landinu nafnið Garðarshólmur.

Líklegast þykir mér, að bak við frásagnir Landnámabókar búi sú þörf íslenska höfðingjaveldisins að sýna fram á að ferðir norrænna manna hafi verið miklar til landsins á 9du öld og landið sé ekki – og hafi aldrei verið jafn afskekkt og margir vildu vera láta. En þessar ferðir til landsins á 9du öld virðast þó mest hafa verið fyrir tilviljun, ef dæma má af frásögnum Landnámabókar: fyrst Naddoddur víkingur, sem ætlaði að fara úr Noregi til Færeyja, en rak vestur í haf; síðan Garðar Svavarsson hinn sænski stóreignamaður, sem sleit undan veðri í Péttlandsfirði norður í höf, og að lokum Flóki Vilgerðarson, einnig víkingur, sem fór að leita Snjólands en fór fyrst til Hjaltlands, þar sem dóttir hans Geirhildur týndist í Geirhildarvatni (sem enginn veit neitt um). Síðan fór Flóki til Færeyja og gifti þar aðra dóttur sína en „frá henni var Þróndr í Gǫtu“, eins og segir í frásögninni, en þessi ættfærsla er ókunnug úr öðrum heimildum.

En til þess að gera langa sögu stutta hér á þessum stað tel ég að húsa-örnefni á Íslandi – og í Noregi – séu ekki dregin af húsum, sem byggð hafa verið við víkur og voga, heldur sé eitthvað í landinu sem húsi frá 'gúlpi frá', eins og er á Húsavík við Skjálfanda og þetta séu náttúrunöfn – terrengnavn. En nóg um það að sinni.

Í Noregi hef ég fundið fjórar Húsavíkur: (1) Husvik í Akershus við Óslóarfjörð, nyrst í bænum Drøbak, (2) Husvik á Otterøy í Nord-Trøndelag, skammt vestur af Namsos, (3) Husvik á Vestfold, suður af Tønsberg, og (4) Husvika inni á fastlandinu við Halsfjorden, austur af eynni Þjóttu (Tjøtta) og eynni Álöst, Alsten. Þar stóð bærinn Sandnes þar sem bjó höfðingskonan Sigríður Sigurðardóttir, kona Bárðar Brynjólfssonar, sem síðar varð kona Þórólfs Kveld-Úlfssonar og að lokum kona Eyvindar lamba Kárasonar en hann var bróðir Salbjargar, konu Kveld-Úlfs, móður Skalla-Gríms. Á eynni Alsten dvaldist löngu síðar skáldpresturinn Petter Dass [1647–1707] á prestsetrinu Alstadhaug þar sem hann orti NordlandsTrompet, sem dr. Kristján Eldjárn þýddi og gaf út 1977, en það er önnur saga.

2.13 Hvalfjörður
Örnefnið kemur aðeins fyrir á einum stað á Íslandi, að því er ég veit best. Fjörðurinn dregur vafalítið nafn sitt af Hvalfelli, 848 m háu fjalli fyrir botni fjarðarins sem lítur út eins og hvalur ef horft er á það úr vestri, sbr. einnig örnefnið Reyðarfjörður sem dregur nafn sitt af Reyðarfjalli, sunnan fjarðarins, sem líkist mjög hval, reyði, ef horft er á það úr suðri eða suðaustri.16

Í Noregi er örnefnið að finna a.m.k. á fjórum stöðum, á þremur stöðum á Finnmörk. Þar má fyrst nefna Hvalfjorden, nyrst á Kvaløya, en á vesturströnd eyjunnar er bærinn Hammerfest. Kvalfjord er bóndabær sem stendur við Store Kvalfjordalen á Stjernøya, 50 km suðaustur af Hammerfest. Austan við Store Kvalfjordalen er Lille Kvalfjorden. Þessir firðir báðir eru innilokaðir af sundum og fjörðum og eru engar líkur til að hvalur hafi gengið þarna inn, enda er ég þess fullviss að firðirnir dragi nafn sitt af einhverju fjallinu á Stjernøya enda þótt sumir norskir örnefnafræðingar telji að fjörðurinn „har sikkert namn av at det har komme inn kval der.“17

2.14 Hvalsnes
Hvalsnes er að finna á a.m.k þremur stöðum á landi hér, Hvalsnes á utanverðu Reykjanesi, Hvalsnes í Lóni og á Eyri í Ísafirði. Örnefnið Kvalnes er „namn mange stader, særleg i Nord Noreg … s(ammen)satt med dyrenamnet, ofte av di neset minner om ein kval på skap [í útliti]“.18

2.15 Kaldakinn
Á Íslandi er örnefnið Kaldakinn að finna a.m.k. á sex stöðum, þótt Kaldakinn í Suður-Þingeyjarsýslu sé mér kunnust. Örnefnið Kalkinn kemur fyrir á nokkrum stöðum í Noregi. M.a. heitir 1884 m hátt fjall í Sunndal í Møre og Romsdal Kalkinn.19

2.16 Kaldbakur
Örnefnið kemur fyrir a.m.k. á 10 stöðum á Íslandi: á þremur stöðum á Suðurlandi, á þremur stöðum á Vestfjörðum og á fjórum stöðum á Norðurlandi. Kaldbakur í Eyjafirði og Kaldbakur norðan Kaldbaksvíkur eru væntanlega kunnust þessara örnefna. Í Noregi koma fyrir örnefnin Kaldbaken, Kaldbakk og Kaldbakken. Kaldbaken í Møre og Romsdal er 976 m hátt fjall norður af Molde. Við Sognsæ sunnanverðan, skammt norður af Viksøyri, er bær sem heitir Kaldbakk, austan undir háu fjalli, í námunda við Hestfjöllin tvö, sem áður voru nefnd. Á Upplöndum er einnig bær sem ber nafnið Kaldbakken, í Redalen austur af vatninu Mjøsa.

2.17 Kaupangur
Örnefnið kemur aðeins fyrir á einum stað á Íslandi, við Eyjafjörð austanverðan, eins og margir þekkja. Í Noregi kemur örnefnið fyrir á a.m.k. þremur stöðum: Kaupang er nú kirkjustaður við Sognsæ innanverðan, við Amlabukta, nálægt Lærdalsfjorden. Þessa staðar er getið í Sverris sögu og staðurinn þá kallaður Lúsakaupangur en þar var kaupstefna og kaupstaður. Kaupang er einnig bær við Larvik á Vestfold og svo er Kaupangur gamalt nafn á Niðarósi, nú Þrándheimi, og er staðarins víða getið í Heimskringlu og Íslendingasögum.

2.18 Kálfskinn
Kálfskinn er bær á Árskógarströnd við utanverðan Eyjafjörð að vestan, eins og margir þekkja, en þar bar Hrærekur konungur Dagsson á Heiðmörk beinin eftir að Ólafur helgi Noregskonungur hafði látið blinda hann og flytja til Íslands. Kalvskinnet er nafn á bæjarhverfi í Þrándheimi. Þar felldi Sverrir konungur Erling skakka árið 1179. Nafnið kemur einnig víða fyrir sem nafn á bæjum og landssvæðum, s.s. akurlendi, algengast norðanfjalls í Noregi.20

2.19 Kerling
Örnefnið kemur fyrir mjög víða hér á landi. Auk þess hafa fjölmörg örnefni kerling- eða kerlingar- að fyrra lið. Örnefnið Kjerring(a) kemur fyrir a.m.k á tveimur stöðum í Noregi: (1) Kjerring, 1498 m hátt fjall, upp af Kinsarvik, austan við Sørfjorden á Hörðalandi; þar skammt austur af er Ramnabjerget, sem ég kem síðar að, og (2) Kjerringa, fjall vestan til á Sørøya á Finnmörku. Örnefnið er einkum haft um staka klettadranga, eins og þekkt er.

2.20 Kiðjaberg
Örnefnið kemur aðeins á einum stað á landinu, í Árnessýslu, og er þar nafn á bóndabæ. Kiberg er einnig aðeins eitt í Noregi, yst við Varangerfjorden norðanverðan, milli Vardø og Vadsø, gegnt Kirkenes.

2.21 Kjós
Kjósarörnefni eru a.m.k. níu á landinu, ef dæma má eftir Örnefnaskrá Íslands, og staka örnefnið kemur fyrir á nokkrum stöðum. Orðið kjós merkir 'þröngur dalur' eða 'þröng vík'. Í Noregi kemur örnefnið Kjos eða Kjose fyrir a.m.k. allvíða: Kjos í Akershus, Buskerud, Sogn og Fjordane, Vest Agder og Kjose á Vestfold og Kjosen á Finnmörku, Telemark og í Troms bæði sem fjörður og bær við þennan fjörð en upp af bænum er Store Kjostind.

2.22 Knarrarberg
Örnefnið Knarrarberg er aðeins að finna á einum stað á Íslandi, að því er virðist: við Eyjafjörð innanverðan, næst norðan við Kaupang í Kaupangssveit, sem áður var nefndur, í hinu gamla Fiskilækjarhverfi sem svo hét á söguöld, síðar lengi Öngulsstaðahreppur og nú Eyjafjarðarsveit. Í landi Knarrarbergs er Festarklettur þar sem sagan segir að Helgi hinn magri hafi bundið skip sitt. Gæti Festarkletturinn verið hið upphaflega Knarrarberg. Knarrberg er síðan bær á Nøtterøy á Vestfold, skammt sunnan við Tønsberg.

2.23 Laxnes
Örnefnið Laxnes er að finna í Mosfellssveit, en þar ólst Halldór Guðjónsson upp og kenndi sig við bæinn, eins og alþekkt er. Laksnes er einnig bóndabær við ána Tana, sem rennur á mörkum Finnmerkur og Finnlands (í Lapplands léni). Fleiri Laxnes eru mér ekki kunn.

2.24 Málmey
Málmey er á austanverðum Skagafirði og er óvíða fegurri sýn til eyjarinnar en úr Sléttuhlíð. Í Noregi hef ég fundið örnefnið á tveimur stöðum: Malmøya í Óslóarfirði, skammt frá ströndinni við Bekkelaget, og í mynni Larviksfjorden við Larvik á Vestfold.

2.25 Norðfjörður
Örnefnið er aðeins að finna einu sinni í Örnefnaskrá Íslands. Afbrigðið Norðurfjörður kemur einnig einu sinni fyrir – á Ströndum – og í gömlum heimildum er Hesteyrarfjörður kallaður Norðfjörður. Merking örnefnisins virðist vera 'nyrsti fjörður' en gæti e.t.v. einnig verið 'fjörðurinn sem veit í norður'. Örnefnið Nordfjord eða Nordfjorden kemur fyrir a.m.k. 15 sinnum í Noregi. Stærsti og kunnasti fjörðurinn með þessu nafni í Noregi er Nordfjord í Sogn og Fjordane. Í mynni fjarðarins er eyjan Bremanger en á henni stendur bærinn Berðla, Berle, en þar bjó Berðlu-Kári, félagi og fóstbróðir – og tengdafaðir Kveld-Úlfs, sem áður var á minnst. Við næsta fjörð, Førdefjorden, um 50 km sunnar, hinum megin við fjallið, stendur bærinn Kvellestad. Eins og ég nefndi áður lifir enn á þessum slóðum sögnin um að Kveld-Úlfur Bjálfason hafi verið frá Kvellestad, *Kvöldstað, og hafi verið kallaður Úlfur frá Kvöldstað, en þar mun vera kvöldsett.

Til gamans má geta þess að næst fyrir sunnan Førdefjorden er Dalsfjörður, Dalsfjorden, þar sem bærinn Rivedal stendur, en það er hald manna að Ingólfur landnámsmaður hafi komið þaðan og þar stendur nú stytta af honum. Að baki bæjarins í Rivedal stendur Blåfjell, Bláfjall, 708 m hátt, sem ég kem síðar að. Auk þessara fjarðanafna bera fjórir bóndabæir nafnið Norfjord: tveir í Finnmörku, annar á Sørøya og hinn við Syltefjorden, og tveir í Nordland við Mistfjord og hinn við Tørrfjord.

2.26 Nípa
Nípa, Nípan eða Norðfjarðarnípa er um 800 m hátt standberg milli Norðfjarðar og Mjóafjarðar austur, eins og margir þekkja. Örnefnið kemur allvíða fyrir í Noregi, einkum á Vesturlandinu. Ivar Aasen lýsir þessum norsku fjöllum í orðabók sinni sem „steil Fjeldtop, en Bjergside med en brat nedgaaende Side“.21Nipa er 291 m hátt, þverhnípt fjall við norðanverðan Myrfjorden á Finnmörku og bóndabær í Romarheimsdalen, 50 km NNA af Bergen. Um 14 km NA af bænum er fjallið Høganipa, 1028 m hátt. Þá kemur Nipa fyrir á fjórum stöðum í SognogFjordane: á Fjölum, í Førde, í Sogndalsfjorden, þar sem um er að ræða bratt fjall, 986 m hátt, skammt frá bænum Fimreite, sem er sögufrægur staður, og við Mårdalen á Austfold. Örnefnið Nipe kemur einnig fyrir á AustAgder, Austur Ögðum, og á Telemark, Þelamörk. Þá er örnefnið Nipane nafn á 1375 m háu fjalli við botn Osafjorden og nafn á fjalli í SognogFjordane, suður af Arnafjorden, sem áður var nefndur. Að lokum má nefna að örnefnið Nipen kemur fyrir á smáeyju í Troms, sem heitir nú Håja – áður Håøya, enda er eyjan naumast annað er Nipen, 486 m hátt standberg. Þá má nefna að Nipen er nafn á bóndabæ í Troms, inni á fastlandinu, skammt suður af Harstad. Austur af Harstad eru mörg há og brött fjöll, 1000 til 1300 m há, m.a. Blåfjell, sem síðar verður á minnst. Enn má nefna fjallið Nipo sem er 949 m hátt þverhnípi við Lofthus við Sørfjorden sem gengur suður úr Harðangursfirði.

2.27 Rauðubjörg
Rauðubjörg eru líparítbjörg á vestanverðu Barðsnesi utanvert við Norðfjarðarflóa og blasa björgin við frá Neskaupstað. Hefur lengi verið sagt á Norðfirði að alltaf skíni sól í Rauðubjörg. Örnefnið Rødberg eða Røberg kemur fyrir á nokkrum stöðum í Noregi, bæði í Buskerud, Heiðmörk og í SørTrøndelag.

2.28 Skjaldbreiður
Örnefnið Skjaldbreiður er enn eitt af þessum örnefnum sem mörgum finnst hljóti að vera íslenskast af öllu sem íslenskt er, bæði vegna þess að fjallið blasir við frá Þingvelli við Öxará, svo og vegna kvæðis Jónasar um „fjallið, allra hæða val“. Örnefnið Skjaldbreiður kemur raunar víðar fyrir á Íslandi. Má nefna hæðardrag norðaustur af Heklu og á Skaga er smáhæð, 200 m á hæð, en þar norðan við er Skjaldbreiðarvatn. Þá er örnefnið að finna sem nafn á gróðurlendi vestast á Skeiðarársandi, sunnan Brunasands, og gæti hafa verið þar vatn áður. En örnefnið Skjaldbreiður er ekki íslenskara en svo að það er að finna allvíða í Noregi, bæði sem nafn á fjöllum og vötnum, sem virðist algengara, og er það of langt upp að telja.

2.29 Skuggabjörg
Til gamans má nefna örnefnið Skuggabjörg sem er nafn á bæ í Deildardal í Skagafirði, innan við Gröf á Höfðaströnd. Á Hörðalandi sunnanverðu, austur af Lofthus við Sørfjorden, sem gengur suður úr Harðangursfirði – og áður var á minnst, er gamla grasbýlið Skuggabjørg. Nafnið er eins skrifað og íslenska örnefnið og borið fram á svipaðan hátt, enda mállýskur á þessum slóðum líkar íslensku – hafa m.a. varðveitt tvíhljóð s.s. /á/. Því segja menn á þessum slóðum /bát/ ekki /båt/ eins og víðast í Noregi. En þetta var útúrdúr. Skuggabjørg á Hörðalandi standa á allmiklu undirlendi sem umkringt er háum fjöllum og svipar aðstæðum nokkuð til Deildardals. Til gamans má svo geta þess að skammt vestur af Skuggabjörgum á Hörðalandi er fjallið Kjerring, Kerling og kem ég að því betur hér á eftir.

2.30 Stafnes
Eins og menn þekkja er Stafnes á utanverðu Reykjanesi. Örnefnið kemur fyrir á nokkrum stöðum í Noregi. Stavanes er t.a.m. bær við Simadalsfjorden, sem gengur inn úr Harðangursfirði, og stendur á litlu nesi og heitir vafalaust eftir nesinu, en stav- í norskum örnefnum er notað „i stadnamn brukt om framstikkende høgder og nes“. Stavenes er einnig bær í Sogn og Fjordane, yst á nesi milli Stavfjorden og Stongfjorden, skammt norður af Askvoll. „Førsteleddet skal sikte til den bratte fjellveggen med de tre markerte toppar mellom Stongfjorden og Stavfjorden.“22 Nokkru sunnar en Stongfjorden, norðan Åfjorden, er nes sem ber nafnið Staveneset.

2.31 Svartá
Svartár eru nokkrar á Íslandi, s.s. í Borgarfirði, Húnaþingi og Skagafirði, og virðast draga nafn sitt af því að þær eru dragár eða bergvatnsár sem falla í ljós jökulvötn og sýnast því svartar. Í Noregi eru aðstæður e.t.v. aðrar að þessu leyti en engu að síður eru þar nokkrar Svartár, Svartåa, s.s. á Heiðmörk, suðaustur af Elverum, skammt frá sænsku landamærunum. Þá er Svartåa uppi í Trollheimen, austast í Møre og Romsdal, á Upplöndum, í Sør Trøndelag og á Vestfold.

2.32 Veturhús
Örnefnið Veturhús, sem nafn á litlum grasbýlum, kemur fyrir á a.m.k. fjórum stöðum á landinu, þótt allir séu þessir bæir nú komnir í eyði, að því er virðist. Veturhús voru m.a. í Hamarsfirði, neðan Hamarsels, en Veturhúsaá fellur enn í Hamarsá. Handan Búlandstinds, inni í Berufirði, er Urðarteigur og er þá eins og við séum komin á slóðir Bjarts í Sumarhúsum.23 En Veturhús er einnig að finna í Noregi og heita Vetrhus, m.a. á tveimur stöðum á Austur Ögðum, á Hörðalandi, skammt sunnan Odda, innst við Sørfjorden í Harðangursfirði, sem áður hefur verið á minnst, en af þessum slóðum komu flestir landnámsmenn. Vetrhus er bæjarnafn í Sogn og Fjordane, austanvert við Nordpollen, skammt norður af Norfjorden.

2.33 Þelamörk
Þelamörk heitir austurhluti Hörgárdals, eins og áður hefur verið minnst á og margir þekkja. Orðið þeli merkir 'hrím', 'ís' eða 'kuldi'. Örnefnið Þelamörk merkir því 'hrímskógur'. Í hinum fögru sveitum Telemark í sunnanverðum Noregi hef ég upplifað hrímskóginn.24 Snorri Hjartarson hefur lýst svipaðri upplifun í kvæðinu Á Foldinni:

Á leið sinni upp frá sjónum
milli skógar og akra
hefur haustið numið staðar
í nótt við staka björk,
kveikt rautt bál
og ornað sér á höndum
og horfið undir morgun
á skóginn, til fjalls.25

Skógur er löngu horfinn úr Hörgárdal, þótt þar sé nú verið að rækta skóg að nýju. Ekki er því unnt að upplifa hrímskóg á Þelamörk. Fyrrum var mikill birkiskógur á þessum slóðum og hefur hann vafalaust hrímað í frosti og hægviðri sem þarna var oft. Ekki er því ólíklegt að örnefnið Þelamörk í Hörgárdal sé eitt af mörgum dæmum um örnefni sem landnámsmenn tóku með sér að heiman.

2.34 Öxarfjörður
Öxarfjörður í Þingeyjarþingi er væntanlega náttúrunafn, hvaðan sem líkingin er dregin.26 Í Noregi kemur örnefnið Øksfjorden fyrir á tveimur stöðum, á Finnmörk um 70 km suðvestur af Hammerfest og austast í Lofoten í Nordland.

3 Nokkur örnefni í Eyjafirði
Í síðara hluta þessa erindis ætla ég að fjalla um þrjú örnefni í Eyjafirði, en merking þeirra liggur ef til vill ekki í augum uppi við fyrstu sýn. Örnefni eru Blámannshattur, Hrafnagil og Hörgárdalur, en öll tengjast þau norskum örnefnum eins og örnefnin í fyrra hluta erindisins.

3.1 Blámannshattur
Blámannshattur er hæsta fjall milli Eyjafjarðar og Skjálfanda, 1201 m yfir sjávarmáli, nyrst á Skessuhrygg, sem gengur til norðurs upp af bænum Skarði í Dalsmynni. Blámannshattur sést víða af vesturströnd Eyjafjarðar, t.a.m. frá Galmaströnd og frá Hjalteyri.27 Frá Akureyri sést Blámannshattur yfir Stórahnjúk (786 m) og Kræðufell (711 m), sem eru fjöllin upp af bænum Nolli á Kjálka eða Laufásströnd. Alls staðar sker Blámannshattur sig frá þessum fjöllum fyrir þær sakir að hann er blár og hann teygir sig upp yfir fjöllin og myndar mön yfir Laufásfjöllunum.

Frásagnir eru víða um blámenn í fornum bókum og eru blámenn sagðir „svartir á skinn“ eða „biki svartari“ og „engi hlutr var hvítur á útan tenn og augu“.28 Oft var um að ræða bardagamenn og gjarna óvini kristninnar og jafnvel hinn vonda sjálfan. Blámenn koma hins vegar ekki fyrir annars staðar í örnefnum hér á landi svo mér sé kunnugt. Í Noregi kemur örnefnið Blåmannen víða fyrir, bæði í Nordlandog Troms. Á Kvaløy vestur af Tromsø á Tromsøya í Tromsfylke eru tvö fjöll sem bæði bera þetta nafn. Annað heitir aðeins Blåmannen og er 845 m hátt, hitt er nokkru norðar á eynni og heitir Store Blåmannen og er 1044 m hátt og er eitt af þeim fjöllum í Noregi sem mjög er sóst eftir að klífa.29 Inni á fastlandinu, austur af Tromsø, er þriðja fjallið sem ber nafnið Blåmannen en í nágrenni við það eru fjöllin Blåkollen, Blånova og Blåkollkoia.

Í Norlandfylke, um 70 km austur af bænum Bodø er fjallstindur, 1571 m á hæð, sem ber nafnið Blåmannen, inni í miðjum jökli þeim sem nú heitir Blåmannsisen. Í vestanverðum jöklinum eru tveir fjallstindar og heitir annar Hekletindan, 1144 m á hæð, og hinn Kjerringa, Kerling, og er 1325 m á hæð. Vestur af Blåmannsisen er dalur sem kallast Fonndalen, Fannardalur, eins og áður var á minnst. Allt eru þetta því kunnugleg nöfn.

Að því er talið er, draga norsku blåma(n)ns-örnefnin nafn sitt af orðinu blåmanen, 'blámön'.30 Norska örnefnið Blåman kemur aðeins fyrir sem heiti á fjalli. Við Björgvin, „borgina við fjöllin sjö“, fyrstu höfuðborg Íslands, þar sem ég átti heimili fjögur ár fyrir aldarþriðjungi, rís fjallið Blåman, 562 m á hæð, að baki einkennisfjalli Björgvinjar, Fløyen. Blåman teygir sig upp yfir Fløyen, sem er aðeins 339 m á hæð, og Sandviksfjellet, 418 m hátt, og sést utan af Byfjorden eins og blá mön.

Þess má geta að á eynni Hestmona í Nordland er fjallið Hestmona, Hestmön, 568 m hátt. Milli Hrafnfjarðar og Furufjarðar á Ströndum er Hattarfell og er sennilegt að fyrri hluti orðsins sé dreginn af orðinu höttur. Örnefnið Höttur kemur fyrir a.m.k. á tveimur stöðum á Íslandi: sem 1106 m hátt fjall, austanvert við Fljótsdal við Gilsá, og 1231 m hátt fjall vestan Fagradals, skömmu áður en komið er niður í Reyðarfjörð.

Óþarft er að nefna, það sem allir vita, að litarheitið blár kemur víða fyrir í örnefnum, bæði á Íslandi og í Noregi, s.s. Bláfell, Bláfjall eða Bláfjöll sem eru a.m.k á sex stöðum á landinu. Nefna má Blágnípu suðvestan í Hofsjökli hinum meiri, Bláskógaheiði þekkja allir og á miðjum Tröllaskaga, sunnan í Vörðufelli, er fjallið Blástakkur,1325 m hátt fjall sem er í raun austasti hluti Skíðadalsjökuls.

Að þessu sögðu er rétt að ljóstra því upp, sem þið hafið vafalítið þegar getið ykkur til, að tilgáta mín er sú, að örnefnið Blámannshattur hafi upphaflega verið *Blámanarhöttur en hafi breyst í munni manna, eins og algengt er um örnefni, og orðið Blámannshattur – nema hugmyndaríkur og skemmtinn skrásetjari og skáld úr Þingeyjarþingi hafi búið til örnefnið Blámannshattur til þess að auka fjölbreytni í landinu umhverfis sig.

3.2 Hrafnagil
Jarðarinnar Hrafnagils í Eyjafirði er ekki getið í Landnámu, og er hún því ekki landnámsjörð, eins og kallað er, enda í næsta nágrenni við Kristnes, landnámsjörð Helga magra sem nam allan Eyjafjörð, eins og alkunna er.31 Hins vegar hefur jörðin snemma komist í byggð, því að hennar er getið í Íslendinga sögum, bæði Vatnsdæla sögu og Ljósvetninga sögu, þar sem getið er fyrsta nafngreinda ábúanda jarðarinnar sem var Einar Arnórsson „vitr maðr, gofugr ok ættstórr“.32 Í Sturlungu er Hrafnagils víða getið, bæði í Guðmundar sögu dýra, Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar og Þorgils sögu skarða. Einna eftirminnilegast kemur Hrafnagil við sögu aðfaranótt 21. janúar 1258 þegar Þorvarður Þórarinsson fór að Þorgils skarða og drap hann þar á hrottalegan hátt.33 Þá er allvíða getið Hrafnagilslaugar þar sem menn sátu og nutu hitans í lauginni.

Örnefnið Hrafnagil mun koma fyrir á nær 100 stöðum á Íslandi.34 Auk þess eru önnur hrafna-örnefni víðs vegar um land. M.a. eru Hrafnabjörg mörg á landinu. Í Noregi eru hrafna-örnefni allmörg, s.s. örnefnið Ramsgjel, langt inni í landi í Nordland, um 80 km NNA af Mo i Rana, og þar eru einnig örnefnin Ramsgjelsvatnet og Ramsgjel(s)tinden.

Vafalaust draga mörg hrafna-örnefni á Íslandi og í Noregi nafn sitt af því að hrafnar tóku sér bólfestu á þessum stöðum. Líklegt er t.a.m. að mörg Hrafnabjörg hér á landi hafi fengið nafn af hröfnum, sem höfðust þar við, þótt einnig kunni að vera að einhver Hrafnabjörg hafi fengið nafn af dökkum lit sínum eða annarri líkingu við hrafninn. Alþekkt er að hrafnar verpa í árgljúfrum og giljum og „Krummi svaf í klettagjá“, eins og segir í kvæði Jóns Thoroddsens. En víkjum að Hrafnagili í Eyjafirði.

Fyrir þremur áratugum fór ég að vorlagi með börn mín fram á Þveráreyrar í Eyjafirði. Þetta var að morgni sunnudags í fegursta veðri, sól og sunnanvindi. Þarna var margt að sjá, fugla og fiska, steina og blóm, lömb og hesta og fjöll og dali Eyjafjarðar. Vesturfjöllin: Kerling, Þríklakkar og Bóndi, Litli-Krummi og Stóri-Krummi og Súlur voru böðuð í sól. Allt í einu staðnæmdust augu mín við tindana tvo, Stóra-Krumma og Litla-Krumma. Litli-Krummi er sunnar, 1190 m á hæð, Stóri-Krummi norðar, 1170 m á hæð – og þá birtist mér sýn. Í þessum tveimur fjöllum komu fram greinilegar myndir af hröfnum þar sem snjó hafði tekið að hluta úr austurhlíðum fjallanna og tindar þeirra mynduðu haus og nef hrafnanna tveggja sem teygðust upp til norðurs og svartir vængir þeirra skáru sig úr hvítum snjónum.35

Örnefnin Stóri-Krummi og Litli-Krummi virðast því vera líkingarnöfn – eða náttúrunöfn, eins og við mátti búast. Niður undan hnjúkunum eru grunnar skálar. Koma þar upp lækir og smáár sem falla niður í Eyjafjarðará. Mestar eru Grísará sem fellur niður hjá samnefndum bæ og Reyká sem kemur úr skálum milli Stóra-Krumma og Litla-Krumma og heita þar Reykárbotnar ytri og syðri og fellur hún niður í gili norðan hins sögufræga bæjar Hrafnagils.36 Mér finnst því freistandi að ætla að bærinn Hrafnagil í Eyjafirði hafi fengið nafn sitt af gilinu sem aftur dregur nafn sitt af tindunum tveimur, Stóra-Krumma og Litla-Krumma.

3.3 Hörgárdalur
Fyrir þremur áratugum átti ég um árabil athvarf á eyðibýlinu Hamri á Þelamörk, eins og austurhluti Hörgárdals í Eyjafirði er nefndur og áður er á minnst. Frá Hamri er einkar fagurt útsýni inn í Myrkárdal og Barkárdal, inn Hörgárdal og suður á Staðartunguháls og fram Öxnadal á Drangafjall, ofan við Hraun, og inn á Þverbrekkuhnjúk eða Bessahlaðahnjúk. Til austurs sást úr stofunni á Hamri á Landafjall og inn Bægisárdal upp á Bægisárjökul og Húsárskarð, þaðan sem Húsá rennur niður túnfótinn á Hamri og út í Hörgá.

Hvergi er þess getið í heimildum af hverju Hörgárdalur dregur nafn sitt, enda örnefnaskýringar fátíðar í fornum ritum. Landnámsmenn í Eyjafirði og í Hörgárdal komu úr Noregi, að því er segir í Landnámu, nokkrir af Hálogalandi, sem hefur vakið áhuga minn í öðru sambandi, þótt ég fari ekki frekar út í þá sálma hér. Hörgárdalur kemur hins vegar við sögu á fyrstu öldum Íslands byggðar. Þegar Víga-Glúmur varð héraðssekur fyrir víg Þorvalds króks á Grund í Eyjafirði skyldi hann ekki búa nær í Eyjafirði en í Hörgárdal. Bjó Glúmur fyrst að Möðruvöllum en síðan tvo vetur í Myrkárdal. Að lokum „keypti Glúmr land at Þverbrekku í Øxnadal ok bjó þar, meðan hann lifði, ok varð gamall ok sjónlauss,“ eins og segir í Víga-Glúms sögu.37 Í Sturlungu er Hörgárdals víða getið og er dalurinn til að mynda sögusvið Guðmundar sögu dýra en auk þess má nefna að Guðmundur biskup Arason var fæddur á Grjótá í Hörgárdal hinn 26. september árið 1161, eins og segir í Prestssögu Guðmundar Arasonar.38 Hvergi er þó í þessum heimildum vikið að merkingu örnefnisins Hörgárdalur.

Síðari tíma menn hafa getið sér þess til að dalurinn dragi nafn af heiðnum blótstöðum, hörgum, sem verið hafi í dalnum, enda þótt engar heimildir séu um blótstaði í Hörgárdal – né annars staðar á Íslandi, sbr. KLNM VII 1962:8.39 Hins vegar er það alþekkt að orðið hörgur gat í fornu máli merkt 'heiðinn blótstaður' og í Hyndluljóðum stendur:

Ho˛rg hann mér gerði,
hlaðinn steinum,
nú er griót þat
at gleri orðit,
rauð hann í nýiu
nauta blóði,
æ trúði Óttarr
á ásyniur.40

Alþekkt eru líka orð Völuspár:

Hittoz æsir
á Iðavelli,
þeir er hǫrg ok hof
hátimbroðo;
afla lǫgðo,
auð smíðoðo
tangir skópo
ok tól gørðo.41

Höfundur Völuspár hefur hugsanlega haft spurnir af hofum og hörgum en sumt í frásögn kvæðisins fer þó milli mála. M.a. er óvíst hvernig skilja á orðin „hörg og hof hátimbruðu“ ekki síst ef hörgur var steinaltari. Menn hafa gripið til þeirrar skýringar að sögnin hátimbra ætti við girðingar eða gerði úr timbri sem hafi verið umhverfis hofin og hörgana. En orðfærið gæti bent til þess að höfundur Völuspár hafi aldrei séð hörg.

Í Gulaþingslögum stendur: „ef maðr verðr at þvi kunnr oc sannr at hann leðr hauga eða gerir hus oc kallar horg ... þa scal hann bœta firi þat morcum .iii. byscupe oc ganga til skrifta. oc bœta vid Crist.“42 Þessi orð benda til þess að í Noregi hafi menn hlaðið hús, grjóthörga, til átrúnaðar eða til trúariðkana. Í Kristinrétti Sverris segir einnig: „Blott er os kuiðiat at ver skulum æigi blota ... hæiðin guð ... ne hauga ne horgha.“43 Af þessum orðum má ráða að í Noregi hafi menn dýrkað heiðin goð og hauga – svo og hörga. Hafi konungur og kirkjuyfirvöld viljað banna þennan heiðindóm sem bundinn var haugum og hörgum þegar kristni tók að festa rætur.

Þótt einstaka frásagnir séu í Landnámu um grjóthörga, sbr. ÍF I 1968:140, er í Kristinna laga þætti Grágásar hvergi getið um hof eða hörga og engin dæmi þess að þurft hafi að banna mönnum að hlaða hauga eða hörga til átrúnaðar eða trúariðkana. Þar segir aðeins að menn skuli trúa á einn guð og á helga menn hans og blóta eigi heiðnar vættir og ákvæðin um heiðindóm eru einföld og skýr: „Ef maðr blotar heiþnar vættir.oc uarþar þat fiorbavgs Garþ.“44 Íslendingar hafa því í þann tíð haldið betur kristna trú en Norðmenn. Er raunar sennilegt að átrúnaður úr frumheiðni og heiðindómur bundinn hörgum og hofum hafi ekki borist til Íslands með landnámsmönnum á 9. og 10. öld. Átrúnaður á hörga og heiðnar vættir hafi þá þegar verið mjög á undanhaldi og kristin trú tekin að festa rætur. Á Íslandi var auk þess stofnað nýtt þjóðríki, þjóðveldi, sem um margt var ólíkt því þjóðfélagi sem þá var í Noregi.

Ósennilegt er að heil sveit dragi nafn af heiðnum blótstað eða blótstöðum sem þar kynnu að hafa verið. Naumast hefur steinaltari eða steinölturu sett slíkan svip á byggðarlagið eða einkennt það með slíkum hætti að það hlaut nafn sitt af og hafi menn á landnámsöld hlaðið grjóthörga eða gert steinaltari á Íslandi er allt slíkt löngu horfið sjónum manna.

Orðið hörgur er talið skylt orðinu harður, af sama toga og sænska orðið harg, horg 'grýtt svæði' og harg 'grjótvarða sem siglingarmerki', sbr. fornháþýska harug eða haruh 'heiliger stein, opferststätte' og harahus 'steinkreis um grab'.45 Sumir telja orðið skylt fornírsku carn 'steinhrúga' en í sænsku er til orðið har 'grýtt land'. Af sama toga eru einnig orðið hörgrur 'hrjósturland' og lýsingarorðið hörgralegur 'hrjóstrugur'.46 Menn hafa því getið sér þess til að örnefnið Hörgárdalur væri dregið af orðinu hörgur eða hörgrur í merkingunni 'hrjósturland' og lýsingarorðinu hörgralegur í merkingunni 'hrjóstrugur'. Grjóthólarnir eða melbakkarnir neðarlega í dalnum væru þessar hörgrur eða hörgar er dalurinn dragi nafn sitt af.

Þótt óvarlegt sé að neita nokkru, þar sem heimildir eru af skornum skammti, er ekki sennilegt að mínum dómi að þessir melhólar hafi sett svo mikinn svip á Hörgárdal til forna að þeir hefðu gefið dalnum nafn. Landið var þá meira gróið og víða var Hörgárdalur þá viði vaxinn, m.a. mestöll Þelamörk. Auk þess höfðu menn á landnámsöld að jafnaði annan hátt á þegar þeir gáfu landi nafn, eins og frásögn Eiríks sögu rauða, sem áður er á minnst, ber með sér: „Þat sumar fór Eiríkr at byggja land þat, er hann hafði fundit ok hann kallaði Grœnland, því at hann kvað menn þat mjo˛k mundu fýsa þangat, ef landit héti vel.“47

Orðið hörgur var hins vegar í norrænu máli notað um kollótt fjöll með brattar hlíðar, „bergknaus, helst med bratte sidor og flat topp“.48 Í norsku er orðið horg enn notað um „bergknatt, fjellnut, særl. med flat topp og bratte sider; rund og flat fjelltopp“49 eða „berghamar med tverrbratte sider“.50

Örnefnafræðingum í Noregi ber saman um að hörga-örnefni í Noregi eigi rætur að rekja til þessarar merkingar. Norski örnefnafræðingurinn Jørn Sandnes segir að „i norske stadnamn har vi sikkert å gjera med terrengnemninga h[org] 'bratt berg' ved mange fjellnamn som Lønahorgi, like eins ved gamle gardsnamn som Horge i Austevoll, Hord og Lærdal, SogFj, Horgjem i Rauma, MogR, Horjem i Snåsa, N-Trl, og Horg i Melhus, S-Trl. På Austlandet, mest i sør-aust, finst det 8 gardsnamn sms. av hǫrg- og vin, Horgen. Desse er av Magnus Olsen forklart av gno. hǫrgr m 'heilagdom', men ut fra nyare granskingar bør ein her òg halde ope for ei tolking knytt til berg – skjer, steinhaugar e.l. på staden. I så fall kan tydinga 'heilagdom' ved hǫrgr vera så sein som frå tidleg kristen tid.“51

Á leiðinni frá Granvin, við innanverðan Harðangursfjörð, og inn á Voss eru í röð fjöllin Herdabreid, Veskrehorg, Grønahorg, Hangur og Lønahorgi og þar norður af er Myrkdalen.52 Fjölmörg örnefni í Noregi, sem talin eru frá 9du og 10du öld, er að finna á Íslandi, eins og áður er að vikið, s.s. örnefnin Herðubreið og Hangur (af sömu rót og Hengill, en fjallið Hangur er á Voss), svo og Myrkadal – Myrkárdalur. Hins vegar er ekkert íslenskt fjall sem ber heitið Hörgur, að því er best er vitað. Þessir þrír norsku hörgar minna hins vegar á fjöllin í Hörgárdal, kollótta og þverskorna berghamra, með ávala kolla og þverhníptar hlíðar.

Þegar siglt er inn Eyjafjörð – og Hörgárdalur opnast á stjórnborða – blasa við fjöllin í dalnum, nyrst burstirnar á Möðruvallafjalli og innar Lönguhlíðarfjall, Slembimúli, Grjótárhnjúkur og Háafjall og fyrir miðjum Öxnadal Bessahlaðahnjúkur eða Þverbrekkufjall. Þegar ekið er um Dalsmynni og Laufásströnd, Kjálka, sjást þessi fjöll einnig og af Þelamörk sjást fjöllin upp af Fornhaga, Tunguhnjúkur og Selhnjúkur sem öll eru eins og „berghamar med tverrbratte sider“ eða „bergknatt, fjellnut med flat topp og bratte sider“ – eins og norsku hörgarnir.

Ég hallast þess vegna að því að fjöllin vestan Hörgárdals séu hörgarnir sem gáfu honum nafn í upphafi og hafi hann upphaflega heitið *Hörgadalur eftir þessum sérkennilegu, tignarlegu hörgum sem minntu landnámsmenn á fjöllin við Harðangursfjörð. Þessi fjöll greina dalinn frá öðrum dölum Eyjafjarðar. Íslensku hörgaörnefnin eru því "terrengnemninga h[org]", – náttúrunöfn eins og norsku hörgaörnefnin. Hörgá hefur þá heitið *Hörgaá [hörga:] . Orðmyndin *Hörgadalur hefur síðan breyst í Hörgárdalur, ef til vill fyrir áhrif árheitisins *Hörgaá eftir að langt /a/ varð að tvíhljóði eftir 1400 og árheitið borið fram [hörgau]. Sams konar breytingar verður vart í örnefninu Fnjóskadalur. Eftir honum rennur Fnjóská en dalurinn nefndur eftir fnjóskunum: 'þurrum, feysknum og gömlum trjástofnum', sem enn setja svip á dalinn. Í seinni tíð hefur mátt heyra framburðinn Fnjóskárdalur, eins og dalurinn drægi nafn sitt af Fnjóská en ekki fnjóskunum sem enn sjást. Breytingin *Hörgadalur > Hörgárdalur væri því sams konar framburðarbreyting.

Utan af Eyjafirði, af Laufásströnd og frá Þelamörk minna Lönguhlíðarfjall, Slembimúli, Grjótárhnjúkur, Háafjall, Selhnjúkur og Tunguhnjúkur – og fyrir miðjum Öxnadal Bessahlaðahnjúkur – á norsku hörgana. Þessi fjöll eru "berghamrar med tverrbratte sider" – eins og norsku hörgarnir. Hörgarnir í *Hörgadal standa því enn, þótt blótstaðirnir séu löngu týndir – eða hafa væntanlega aldrei verið til.

Neðanmálsgreinar:

 

  1. ÍF I 1968:13.
  2. Eitt af mörgum dæmum um ótrausta örnefnasögn í Landnámu er frásagan af Faxa, suðureyskum manni, sem var með Flóka Vilgerðarsyni á skipi. Er þeir sigldu vestur um Reykjanes og lauk upp firðinum, svo að þeir sáu Snæfellsnes, ræddi Faxi um og mælti: „„Þetta mun vera mikit land, er vér hǫfum fundit; hér eru vatnfǫll stór“. Síðan er þat kallaðr Faxaóss.“ ÍF I 1968:38 Kynlegt má telja að orð Faxa skyldu varðveitast, því að í þeim er lítill fróðleikur fólginn og ályktun hans óvænt því að ógerningur var fyrir hann að draga þá ályktun, sem fram kemur í orðum hans, af sýninni sem blasti við honum við Reykjanes: að landið væri mikið og vatnsföll stór. Frásögn Landnámu er bersýnilega gerð til þess að skýra örnefnið Faxaós. Faxa-örnefni í Noregi eru öll skýrð á þann hátt að um sé að ræða eitthvað 'skummande', þ.e. hvítfext. Eins og kunnugt er hefur Þórhallur Vilmundarson víða í skrifum sínum bent á ótraustar örnefnasagnir í Landnámu, sbr. einnig Jakob Benediktsson ÍF I 1968:CXLII.
  3. Sjá Kristján Eldjárn. "Fornþjóð og minjar." Saga Íslands I 1974:108.
  4. Á Hálogalandi bjuggu norrænir menn þegar snemma á miðöldum „í bland við tröllin“, þ.e.a.s. í bland við fólk af samísku kyni, sem þeir kölluðu oftast Finna, en þeir voru taldir fjölkunnugir. Norrænir menn gáfu þessum Finnum einnig nöfn eins og tröll eða bergrisar, jafnvel jötnar – og þeir karlmenn á Hálogalandi, sem voru norrænir í föðurætt en finnskir í móðurætt, voru kallaðir hálftröll eða hálfbergrisar. Engar sögur fara hins vegar af því að samískir karlmenn, Finnar, eignuðust börn með norrænum konum. Kynferði og búseta norrænna manna á miðöldum kemur við sögu örnefnarannsókna minna, þótt þess verði að litlu getið hér. Enn hefur ekki verið grafið fyrir „ystu rætur íslenskrar menningar“, eins og Hermann Pálsson kallaði þátt Finna eða Sama í rannsóknum sínum. Svási, faðir Snæfríðar hinnar forkunnarfríðu, finnsku barnsmóður Haralds hárfagra, er sagður jötunn í Heimskringlu. Sjá Hermann Pálsson. Samar og ystu rætur íslenskrar menningar 1997:20.
  5. ÍF I 1968:38.
  6. IF I 1968:37.
  7. Alkunna er að það fyrsta, sem menn sjá af Íslandi þegar siglt er að því suðaustan úr hafi, eru jöklarnir. Halldór Kiljan Laxness hefur lýst þeirri landsýn á sinn sérstaka og eftirminnilega hátt í kvæðinu Í Landsýn þar sem hann segir: „Sjá fjöll mín hefjast hvít sem skyr og mjólk/úr hafi, – gnoðin ber mig aftur heim/á vetrarmorgni -, af þiljum heilsa' eg þeim:/þú ert mitt land og hér em eg þitt fólk.“ Kvæðakver 1987:99.
  8. Kristján Eldjárn. „Fornþjóð og minjar.“ Saga Íslands I 1974:108-109.
  9. Þórhallur Vilmundarson. „Hjǫrungavágr.“ Grímnir 3 1996:50.
  10. Sjá frekar Norsk stadnamnleksikon. Oslo 1980.
  11. Í Sarpi, tölvutækri örnefnaskrá Örnefnastofnunar, munu vera yfir 600 Einbúa-örnefni.
  12. Norsk stadnamnleksikon 1980:149.
  13. Norsk stadnamnleksikon 1980:148.
  14. ÍF I 1968:34, 36.
  15. ÍF I 1968:35.
  16. Sjá frekar Þórhallur Vilmundarson. „Safn til íslenzkrar örnefnabókar.“ Grímnir 1 1980:104.
  17. Norsk stadnamnleksikon 1980:193.
  18. Norsk stadnamnleksikon 1980:193.
  19. Norsk stadnamnleksikon 1980:179.
  20. Norsk stadnamnleksikon 1980:179.
  21. Norsk stadnamnleksikon 1980:233.
  22. Norsk stadnamnleksikon 1980:297.
  23. Sjá Þórhallur Vilmundarson. „Safn til íslenzkrar örnefnabókar.“ Grímnir 2 1983:132–136.
  24. Þess má geta að sumir norskir örnefnafræðingar telja Telemark „sammensatt av folkenamnet þilir 'teler' i gen. fleirt. og mǫrk f 'mark, skog'. ... Folkenamnet þilir er ikkje sikkert tolka.“ Norsk stadnamnleksikon 1980:313. Þessa skýringu verður að telja vafasama, enda kemur þjóðarheitið þilir hvergi fyrir.
  25. Snorri Hjartarson. Lauf og stjörnur. 1966:33.
  26. Þórhallur Vilmundarson „Safn til íslenzkrar örnefnabókar.“ Grímnir 3 1996:139–140.
  27. Galmaströnd er einnig við Steingrímsfjörð utanverðan. Merking nafnliðarins galma er óviss. Í Noregi eru allmörg örnefni með galma- að fyrra lið, s.s. Galmakskaidde, Galmakvuovdde sem er á samísku málsvæði. Er Galmaströnd e.t.v. samískt örnefni?
  28. Fritzner I 1954:149. Tilvitnanirnar eru úr Barlaams sögu, Bartholomeus sögu og Karlamagnús sögu.
  29. Til gamans má geta þess að á Kvalöy eru örnefni eins og Kvitfjellet, Gråtind, Grönlibruna, Mjelskartind og Svarthamaren, sem öll bera í sér litanöfn. Auk þess er á eynni örnefnin Sandvika, Kvalsvik, Kjølen, Kjölur, og Nipan á smáeyju vestur af Kvaløy.
  30. „Blåmansisen har fått namn etter fjellet Blåman(n)en 1571m, som stikk opp av breen. Sisteleddet -man kjem venteleg av gno mǫn f 'man, faks' Hestmona. B. Er såleis eit jamnföringsnamn.“ Norsk stadnamnleksikon 1980:360.
  31. Kristnes er einnig eyðijörð í Garðsárdal inn úr Eyjafirði.
  32. ÍF X 1940:62.
  33. Sturlunga II 1946:218–219.
  34. Nefna má að örnefnið Hrafnagil er m.a. að finna sem nafn á gili við norðanverðan Hvalfjörð, skammt utan við Bjarteyjarsand þar sem einnig er að finna örnefnin Hrafnabjörg og Hrafneyri. Örnefnið kemur einnig fyrir sem nafn á eyðibýli og gili suður úr Laxárdal á Skaga þar sem einnig er að finna örnefnin Hrafná og Hrafndal, en á Skaga er auk þess að finna dýraörnefni eins og Hestgil, Hrossafell, Bjarnarfell og Bjarnarvötn, Gauksstaði, Selá, Selvík, Selnes og Selvatn, Hvalvík, Melrakkagil, Melrakkafell, Hafragil, Álftavatn á fleiri en einum stað, Kálfá og Kálfárdal, Lambá, Laxá, Reyðarvötn og Svínahnjúk, svo að menn á Skaga hafa haft næmt auga fyrir dýrum. Þá kemur örnefnið Hrafnagil fyrir sem nafn á eyðibýli við Hrafnagilsá í Þorvaldsdal í Eyjafirði.
  35. Auk Stóra-Krumma og Litla-Krumma er fjall norðan Barkárdals, 1321 m á hæð, sem kallast Krummi. Skammt þar norður af er Blástakkur, 1325 m hár tindur, sunnan í Vörðufelli sem er austasti hluti Skíðadalsjökuls. Í örnefnaskrá, sem Margeir Jónsson skráði um Úlfá í Eyjafirði, og er í vörslu Örnefnastofnunar, segir að uppi undir fjallsbrún, efst í Úlfárskál, sem svo er nefnd, sé klettur, sem Krummi kallast. Angantýr Hj. Hjálmarsson og Pálmi Kristjánsson segja í fjölritinu „Örnefni í Saurbæjarhreppi“ (bls. 101), að í Úlfárskál sé hjarnfenni, sem nefnt er Úlfárjökull. „Klettanef kemur fram úr jöklinum og kallazt Krummi.“ Eftirtektarverk er því að Krummaörnefni er að finna víða í dölum Eyjafjarðar – og naumast annars staðar á landinu, hvað sem veldur.
  36. Steindór Steindórsson Lýsing Eyjafjarðar I 1949:51.
  37. ÍF IX 1956:91.
  38. Sturlunga saga I 1988:102.
  39. Í Biskupasögum stendur að vísu um Hörgaeyri í Vestmannaeyjum að „þar vóru áðr blót ok hörgar.“ Bp I 1858:20 Þessi frásögn getur hins vegar ekki talist traust og er væntanlega um örnefnasögn að ræða því að talið er að „Medan hov-ordninga har vori den dominerande i tidsromet 600- til 900-åra, må horg vise tilbake på eit tidlegare religiøst utviklingssteg.“ Kult hist leks VII 1962:11. Hörgar og frásagnir um hörga áttu að bera vitni um mjög fornan átrúnað. Af þeim sökum einum er það raunar þegar ósennilegt að íslensk hörga-örnefni eigi rætur að rekja til átrúnaðar sem tengdur er hörgum. Í frumheiðni trúðu Germanar á skógarlundi og á tré, eins og Tacitus segir frá, svo og á helga steina, fossa og á fjöll – „trúðu á stokka og steina“, eins og hið gamla orðtak felur í sér. Fáar íslenskar heimildir frá miðöldum eru þó um slíkan átrúnað aðrar en frásagnir Eyrbyggju um þá trú Þórsnesinga að þeir dæju í Helgafell, sbr. ÍF IV 1935:9, og trú Hvammverja að þeir dæju í Krosshóla, sbr. ÍF I 1968:139-140, og frændur Sel-Þóris í Þórisbjörg, sbr. ÍF I 1968:99.
  40. Eddadigte II 1965:81.
  41. Eddadigte I 1955:2.
  42. NGL II 496.
  43. NGL I 430.
  44. Grágás I 1852:22.
  45. Vries 1962:281.
  46. Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók 1989:413.
  47. ÍF IV 1935:201.
  48. Marius Hægstad/Alf Torp Gamalnorsk ordbok. Kristiania 1909:200, sbr. einnig Fritzner II 1954:191.
  49. Norsk riksmålsordbok I 1937:1901.
  50. Norsk stadnamnleksikon 1980:161.
  51. Norsk stadnamnleksikon 1980:161.
  52. Cappelens Norges Atlas, Dobbeltblad 3–4.
Birt þann 22. janúar 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Aasen, Ivar. Norsk Ordbog. Kristiania 1918.

Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Reyjavík 1989.

Cappelens Norges Atlas. Oslo 1965.

Eddadigte I. Udgivet af Jón Helgason. (2. ændr. udg.) København 1955.

Eddadigte II. Udgivet af Jón Helgason. (3. gennems. udg.) København 1965.

Fritzner, Johan. Ordbog over Det gamle norske Sprog I–III. Nytt uforandret opptrykk av 2. utgave (1883–1896). Oslo 1954.

Grágás, Islændernes Lovbog i Fristatens Tid, udgivet efter det kongelige Bibliotheks Haandskrift og oversat af Vilhjálmur Finsen. Kjøbenhavn 1852.

Halldór Kiljan Laxness. Kvæðakver. Reykjavík 1987.

Hermann Pálsson. Samar og ystu rætur íslenskrar menningar. Studia Islandica. Reykjavík 1997.

ÍF I = Íslenzk fornrit I. Íslendingabók og Landnáma. Jakob Benediktsson gaf út. Reykjavík 1968.

ÍF IV = Íslenzk fornrit IV. Eyrbyggja. Einar Ól. Sveinsson og Matthías Þórðarson gáfu út. Reykjavík 1935.

ÍF IX = Íslenzk fornrit IX. Víga-Glúms saga. Jónas Kristjánsson gaf út. Reykjavík 1956.

ÍF X = Íslenzk fornrit X. Ljósvetninga saga. Björn Sigfússon gaf út. Reykjavík 1940.

Karlamagnus saga ok kappa hans, udgivet af C. R. Unger. Kristiania 1860.

Kristján Eldjárn. "Fornþjóð og minjar." Saga Íslands I. Reykjavík 1974.

KLNM = Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder. 1–21. København 1956–1977.

Marius Hægstad/Alf Torp. Gamalnorsk Ordbok. Kristiania 1909.

NGL = Norges gamle Love, udgivne ved R. Keyser og P. A. Munch. Christiania 1846, 1848, 1849, 1885.

Norsk riksmålsordbok, utarbeidet av Trygve Knudsen og Alf Sommerfelt I–II. Oslo 1937–1957.

Norsk stadnamnleksikon. Redigert av Jørn Sandnes og Ola Stemshaug. Oslo 1980.

Postula sögur, udgivne af C. R. Unger. Kristiania 1874.

Snorri Hjartarson. Lauf og stjörnur. Reykjavík 1966.

Steindór Steindórsson. Lýsing Eyjafjarðar I. [Akureyri] 1949.

Sturlunga saga I–II. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu um útgáfuna. Reykjavík 1946.

Topografiske kart 1:25 000. Norges Geografiske oppmåling 1920–27. Oslo 1964.

Vries, Jan de. Altnordisches Etymologisches Wörterbuch. Leiden 1962.

Þórhallur Vilmundarson. „Hjǫrungavágr.“ Grímnir 3 1996:44–51.

Þórhallur Vilmundarson. „Safn til íslenzkrar örnefnabókar.“ Grímnir 1–3 1980–1996.