Við eigum Árna Magnússyni mikið að þakka fyrir ötult starf hans við söfnun og varðveislu handrita en sumar af hans aðferðum myndu seint þykja til sóma nú á dögum. Þannig tók Árni handrit oft í sundur og lét binda inn hluta þeirra hvern fyrir sig. Þessi meðferð hefur stundum valdið misskilningi og getur reynst fræðimönnum fjötur um fót þegar þeir hyggjast greina handritin sem heimild um það samfélag sem skapaði þau. Til að mynda hefur val og röð texta í handritum verið notuð til að leggja mat á hvort flokkun bókmenntagreina okkar nútímamanna falli að flokkun miðaldamanna. Eitt þeirra handrita sem Árni hlutaði í sundur er AM 589 a–f 4to frá síðari helmingi fimmtándu aldar.
Ekki er hægt að segja að AM 589 a–f 4to teljist til glæsilegustu miðaldahandrita í safni Árna Magnússonar. Handritið, sem skrifað er af tveimur skrifurum, er ómyndskreytt, þétt skrifað og blöðin eru óregluleg að lögun. Handritið hefur því ekki verið stofustáss heldur gripur til daglegra nota og ber það þess merki; það er nokkuð snjáð og dökkt yfirlitum sem bendir til að það hafi verið handfjatlað – og lesið – reglulega.
Handritinu er nú skipt niður á sex safnmörk og eru í þeim varðveittar þrettán sögur, sumar í heild en aðrar óheilar. Mögulega hafa þær þó verið fleiri í öndverðu. Nú samanstendur handritið af 141 blaði og er því ljóst að hér hefur verið um að ræða stóra sagnabók.
Textarnir í handritinu eru nú í þessari röð:
Kirjalax saga
Samsonar saga fagra
Valdimars saga
Clárus saga keisarasonar
Ectors saga
Stúfs þáttur
Þorsteins þáttur bæjarmagns
Egils saga einhenta og Ásmundar berserkjabana
Hálfdanar saga Brönufóstra
Ála flekks saga
Hákonar saga Hárekssonar
Sturlaugs saga starfsama
Göngu-Hrólfs saga
Samkvæmt hefðbundinni flokkun bókmenntagreina teljast sögurnar ýmist til frumsaminna riddarasagna, fornaldarsagna eða þátta. Er þá ótalin Clárus saga keisarasonar sem ýmist hefur verið talin til ævintýra (kristilegra dæmisagna), frumsaminna riddarasagna eða þýddra riddarasagna.
Annað handrit á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, AM 586 4to, er skrifað af þeim sömu og skrifuðu AM 589 a–f 4to. Í því handriti eru einnig fornaldarsögur og riddarasögur en auk þess mörg ævintýri og þar að auki tvær Íslendingasögur sem taldar eru ungar. Ljóst er af þessu að skrifarar handritanna hafa ekki veigrað sér við að blanda saman textum sem við í dag teljum til ólíkra bókmenntagreina. Spurning er hins vegar hvort þetta segi okkur nokkuð um flokkun bókmenntagreina á fimmtándu öld. Handrit sem þessi hafa fyrst og fremst verið hugsuð til lesturs og eigendum sínum til skemmtunar. Það má segja að þau hafi gegnt svipuðu hlutverki og Netflix gerir í dag og er því ekki óeðlilegt að þar sé safnað saman ólíkum gerðum texta. Stundum erum við jú í stuði fyrir sænskan krimma en aðra daga viljum við bara hámhorfa á bandarískan dósahúmor.
Síðast breytt 24. október 2023