Kenningasmiðir um endalok norrænnar byggðar á Grænlandi hafa lítið gert með frásögn arafróða (í merkingunni fróður maður sem þekkir sögu lands síns af frásögnum sér eldri manna, allt að tvö til þrjú hundruð ár aftur í tímann) af því hvernig fór fyrir síðustu norrænu mönnunum þar í landi. Knud J. Krogh getur þess í framhjáhlaupi í frábærri bók sinni um Grænland Eiríks rauða (Erik den Rødes Grønland/Qallunaatsiaaqarfik Grønland. Nationalumeseets forlag [Kaupmannahöfn] 1982 — aukin og endurbætt útgáfa af verki með sama heiti frá 1967) að Niels Egede (1710–1782), grænlenskumælandi sonur Hans Egede kristniboða, hafi skráð sögu eftir galdramanni frá Unartoq í Eystribyggð um að sjóræningjar hafi farið með síðustu norrænu mennina í burtu eftir þrjár árásir á byggðir þeirra, en nokkrar konur og börn hafi komist undan og flúið til Inúíta.
Til upplýsingar má geta þess að á eynni Unartoq eru heitar laugar sem Ívar Bárðarson segir frá í Grænlandslýsingu sinni frá síðari hluta 14. aldar. Ívar segir þær vera í hólmum sem systraklaustur ordinis Sancti Benedicti í Hrafnsfirði eigi til hálfs við dómkirkjuna. Enn má sjá minjar um norræna menn við þessar laugar og því er ekki ósennilegt að þær hafi verið galdramanninum, heimildarmanni Niels Egede, sífelld áminning um fyrri byggð í landinu og því gefið honum og forfeðrum hans tilefni til að segja söguna.
Knud J. Krogh leggur ekkert mat á áreiðanleika frásagnar galdramannsins frá Unartoq — en þess verður að geta að hann segir jafnframt alls kyns furðusögur af dvergum og eineygðu fólki en slíkar lygasögur hafa þótt draga úr trúverðugleikanum eins og fram kemur í frumútgáfu sögunnar sem H. Ostermann sá um og lét prenta í Meddelelser om Grønland, 120. bindi árið 1939. Í formála útgáfu sinnar gerir Ostermann grein fyrir þessum áður óbirtu handritum frá Niels Egede og telur að þeim hafi verið ætlað að vera hluti af mikilli Grænlandslýsingu sem Otho kristniboði Fabricius (1744–1822) var að efna til — en bar ekki gæfu til að ljúka eins og títt er um stórhuga menn og hugmyndaríka á öllum tímum.
Ostermann gerir sér engu að síður grein fyrir að hann hafi ákaflega merkilegt efni í höndunum og segir til dæmis um þá sögu sem Knud J. Krogh vitnar svo hlutlaust til: „Saaledes er de henimod slutningen meddelte traditioner om »de gamle Norske« hidtil ukendte og synes at være ikke mindre end sensationelle.“ (xi) Sú „sensasjón“ sem Ostermann átti von á við útkomu þessara áður óþekktu frásagna sem Niels Egede lauk við að hreinrita á nýársdag 1770 hefur eitthvað látið bíða eftir sér — enda hefur ófriðurinn mikli í Evrópu sennilega verið rúmfrekari í fjölmiðlum en tíðindi af sjóráni á fyrri öldum eftir að 120. hefti af Meddelelser om Grønland kom út árið 1939.
Ekki kemur fram hvenær Niels hefur heyrt þessa sögu en vel má vera að það hafi verið í leiðangri hans um Grænland 1739–1743, sem hann lýsir í prentuðum dagbókum sínum. Væru þá liðin um 240 ár frá þeim atburðum sem hugsanlega er verið að segja frá, ef við reiknum með að þeir hafi getað gerst um 1500, en það er heldur skemmri tími en frá landnámi Íslands upp úr 870 og fram að ritunartíma þeirrar Íslendingabókar sem eignuð er hinum íslenska Arafróða. Eldri gerð þeirrar bókar var rituð á árunum 1122–1133 eða um 250–260 árum eftir að Ísland byggðist og þreytast menn þó aldrei á að vitna til hennar sem heimildar, ekki síst eftir að í ljós kom af rannsóknum á borkjörnum úr Grænlandsjökli að hið svokallaða landnámsöskulag féll rétt upp úr 870.
Hérna má lesa frásögn angekkoksins frá Unartoq í Eystribyggð, sem Niels Egede skráði á nýársdag 1770 og gleymdist allt til ársins 1939 að hún var prentuð með gotnesku letri í tímariti sem fór hljótt í sprengjuregni stríðsins:
„Han fortalte ogsaa, at hans forfædre skulle have fortalt, at da deris forfædre kom norden fra America, og avancerede Søer efter paa denne Vester kant af Grønland, for at sætte dem need, kom og nogle for at ville boe hos de norske, men de formente dem det, og kun allene tilstæde dem at handle med Sig, og de vare ogsaa bange for dem, siden de hafde mange Sorter givær; men da de nu hafde samled sig nogle familier, og hafde faaed nogen Fortroelighed med dem, kom der S:W: fra 3de smaae Skibe ind til dem, og Plyndre og slog ihiel nogle af de norske, men som de norske bleve deris Mestere, motte de 2de Skibe sægle deris Vey, og det 3die toge de til Priis; men vii Grønl: hafde ikke fast Boepæle den gang, men blev bange og flygtede langt ind i Landene; men Aared der Efter, kom Een Heel flaade og stridede med dem, Plyndrede og slog ihiel for foede, toge deris Kvæg og Meubler med sig og Reiste deris Vei; de andre som overblevne, satte deris aabne Fartøyer ud, og lade dem med det overblevne og sægle deris Vei syd om Landet, og Efterloede nogle tilbage, hvor Grønlænderne lovede at staae dem bie om tiere saadant ondt skulle hende dem. Men aared der Efter, kom atter de slæmme Søerøvere, og da vii saae dem igien, toge vii flugten, og bragte nogle af de norskis Børn og qvinder med os ind i Fiorden, og Efterlode de andre udj Stikken, men da vii om Høsten kom og tængte at finde nogle igien, motte vii med forskrækkelse see, at alle ting var bort Røved, Huuse og Gaarde opbrænte og ødelagt, saa der fattis alting; over dette Syn toge vi de qvinder og Børn tilbage med os, og flygtede langt ind i fiorden, og der forbleve vii i Roelighed udj mange Aar, og toge de norske qvinder til ægte, som vare kun 5 udj talled med nogle Børn, og da vii omsider bleve mange reiste vii omkring og satte os fast langs Landet, og i mange Aar En saae nogen af disse Søe-Røvere; omsijder kom Een af disse Snaphaner, som er af de Engelske Capere, og da de saae at vi ikke hafde stort, og vii vare mange, torde de ikke binde an med os, men allene handlede med os. Disse samme Slags folk, kommer enda undertiden her under Landet, og handler med Grønlænderne, og naar de kan see deeris Kands dertil, Plyndrer de allevægne, saa det er troeligt at disse Søe-Røvere har væred de samme og har nu Colonier tvers over paa de Americanske Stæder.“ (268)
Síðast breytt 24. október 2023