Skip to main content

Pistlar

Leyndarmál pappírs: AM Dipl. Isl. Fasc. X,6

Jarðakaupabréf Þorvarðar Loptssonar
Jarðakaupabréf Þorvarðar Loptssonar

Pappír er kínversk uppfinning en elsti pappír sem fundist hefur er frá því um tvö hundruð árum fyrir Krist. Pappír kom með aröbum til Evrópu á elleftu öld. Á Íslandi var hann notaður allt frá fimmtándu öld. Jón Tófason biskup notaði pappírsinnsigli til að loka tveimur bréfum sem hann skrifaði Eiríki Danakonungi í júlí 1420; fyrra bréfið var skrifað 1. júlí á Alþingi en hið síðara þann 28. júlí. Þremur árum seinna var pappír notaður af fylgdarmanni biskups til að skrifa upp klögumál en skjalið hefur því miður glatast. Elsta pappírsskjal sem hefur varðveist er frá 13. september 1437 en Þorvarður Loptsson hins ríka Guttormssonar frá Möðruvöllum í Eyjafirði notaði pappír til að staðfesta kaup á jörð. Neðst á skjalinu sést vatnsmerki, þó ekki heilt. Þegar vatnsmerkið er skoðað sést að um er að ræða dreka, eða reyndar spor drekans. Þótt þetta skjal sé næstum sex hundruð ára gamalt er það enn í mjög góðu ásigkomulagi, líklega vegna þess að pappírinn er framleiddur úr tusku en ekki tré. Fyrr á tíð var tuskum úr hör og hampi safnað saman og þær settar í bleyti til að brjóta þær niður. Myglaðar tuskur voru þá settar í vatnstrog og slegnar með hömrum þar til þær voru orðnar að mauki. Maukið var sett í stór og upphituð ker og svo sigtað í móti með neti úr látúni — efnið sem safnaðist í mótið varð að pappírsblaði sem var sett á loðin reyfi, pressað, límt (án þess er pappír bara þerriblað), þurrkað, slípað og að síðustu var pappírnum pakkað og hann seldur.

 

Vatnsmerki í jarðakaupabréfi Þorvarðar Loptssonar
Hér sést vatnsmerkið

Í mótinu er oftast merki, svokallað vatnsmerki sem skilur eftir sig spor á pappírnum og hægt er að sjá ef blaðinu er haldið að ljósi. Vatnsmerki eru eins konar vörumerki; merki pappírsmyllunnar eða framleiðslusvæðisins en líka gæðamerki. Nokkur pappírsmerki, til dæmis dárahöfuð, voru notuð af mörgum myllum í langan tíma en sum vatnsmerki voru notuð í stuttan tíma. Mótin slitnuðu fljótt; ef þau voru notuð mikið urðu þau ónýt á innan við einu eða tveimur árum en pappír var oftast notaður innan fárra ára frá framleiðslu. Ef skjal eða handrit með ákveðnu vatnsmerki er tímasett og sama vatnsmerki finnst í ótímasettum handritum eða skjölum er nokkuð öruggt að pappírinn var framleiddur í sömu pappírsmyllu eða á sama svæði á sama tímabili. Mörg vatnsmerki eru skráð í erlenda gagnagrunna og sem betur fer vorum við svo heppin að finna í einum slíkum gagnagrunni nánast sama vatnsmerki og sést í elsta íslenska pappírsskjalinu. Pappír með mjög svipuðu vatnsmerki var sennilega framleiddur í Frakklandi en notaður í Culemborg í Hollandi árið 1425. Að öllum líkindum voru pappírsblöðin framleidd í sama móti, þótt ekki á nákvæmlega sama tíma — kannski með eins eða tveggja ára millibili. Eins og áður sagði voru flest vatnsmerki notuð í stuttan tíma en sennilega var pappírinn sem Þorvarður Loptsson notaði á Möðruvöllum til að staðfesta jarðakaup framleiddur í Frakklandi og orðinn nokkuð gamall þegar hann var notaður.

 

Fyrir myndrænni frásögn mælum við með eftirfarandi myndbandi þar sem Silvia fer yfir efni pistilsins.

Birt þann 4. júlí 2022
Síðast breytt 24. október 2023