Skip to main content

Kvæðahandrit í eigu konu á 17. öld

Það vekur nokkra furðu að „hreinræktuð“ kvæðahandrit með veraldlegum kveðskap og rímum er vart að finna í eigu kvenna á 17. öld. Yfirleitt er kveðskapur af þessu tagi í handritum með öðru efni, sögum og einkum trúarlegum kveðskap. Sigríður Erlendsdóttir (f. 1653) á Syðri-Völlum í Húnavatnssýslu átti þó eitt sem kemst nálægt því að geyma einungis veraldlegan kveðskap en það er samsett úr 14 handritum eða handritsbrotum (AM 149 8vo). Samkvæmt lýsingu átti Ingvars saga að fylgja handritinu en er þar ekki nú. Flest handritin í AM 149 8vo eru tímasett til 17. aldar en sum eru e.t.v. skrifuð í upphafi þeirrar átjándu. Ekki er vitað hvort það var Sigríður sem safnaði handritunum saman á einn stað. Í AM 149 8vo eru varðveittar rímur og kvæði af ýmsu tagi, háttalyklar, forn kveðskapur, gamanbragir og kvæði eftir helstu skáld aldarinnar, svo sem Stefán Ólafsson, Hallgrím Pétursson o.fl. Kveðskapurinn er fjölbreyttur og hefur þjónað mismunandi tilgangi, til skemmtunar, fróðleiks og jafnvel kennslu ungra barna (t.d. gátuvísur). Þrátt fyrir að í AM 149 8vo megi finna uppbyggileg kvæði sem einkum virðist beint til ungra stúlkna á giftingaraldri (t.d. Guð geymi blíða), gat slíkur kveðskapur verið þörf áminning giftum konum. Hinn blautlega ástarkveðskap hafa giftar konur þó sennilega skilið betur en óharðnaðar ungar stúlkur:

               Klókar eru konurnar á samfundum,
               af mér ginna erindin mín,
               en launin góð mér lítið gjalda stundum. (10v (15))

Bóklestur átti ekki að leiða konur af vegi dyggðarinnar og því fara ósjaldan saman í handritum þeirra menntun, skemmtun og siðferðilega uppbyggilegt efni. Það getur skýrt hvers vegna svo fá handrit með veraldlegum kveðskap eru í eigu kvenna frá þessum tíma. Mikilvægt þótti að ungar ógiftar stúlkur gerðu sig gildandi sem dyggðum prýddar jómfrúr þar eð slíkt var talið gera þær fýsilegri á hjónabandsmarkaðnum. Trúlega hefur AM 149 8vo borist til Sigríðar eftir að hún giftist, enda minni hætta fyrir slíka konu að skemmta sér við sumt af kveðskap handritsins en viðkvæma stúlku. Undir svæflinum hefur hún einnig geymt trúarrit, trúarlegan kveðskap og bænir, líkt og margar konur samtíða henni. Jón úr Grunnavík getur þess t.d. að Páll Vídalín hafi „fyrir bón Sigríðar Erlendsdóttur á Syðri-Völlum“ ort „minning eftir son hennar Svein, er deyði úr bólunni (að mig minnir) 13 vetra, mannsefnislegur og hugvitsamur piltur“.[1] Kvæði þetta hefur því miður ekki varðveist. Kvæðakver Sigríðar sýnir að lesefni kvenna og sá kveðskapur sem þær höfðu um hönd gat verið með ýmsu móti og ekki alltaf ginnheilagur.

 
Birt þann 22.11.2019
Heimildir

[1] Guðrún Ingólfsdóttir, Um lausavísur Páls Vídalíns í handriti Jóns Ólafssonar frá Grunnavík, Lbs. 360, 8vo, BA-ritgerð frá heimspekideild Háskóla Íslands (Reykjavík, 1987), s. xii–xiii.

Síðast breytt 25.11.2019