Skip to main content

Kristinréttur Árna og neðanmálsgreinar frá miðöldum – AM 49 8vo

AM 49 8vo er elsta varðveitta handritið af Kristinrétti Árna Þorlákssonar, hinum „nýja“ kristinrétti sem skrifaður var fyrir Ísland og samþykktur á Alþingi 1275. Árni Þorláksson biskup (d. 1298) samdi lögin í samvinnu við Jón rauða, erkibiskup í Niðarósi, líklega þegar hann var í Noregi veturinn 1274. Kristinréttur Árna tók við af hinum kristinna lagaþætti Grágásar, sem hafði verið lögtekinn á tímabilinu 1122 og 1133, þótt elsta handrit hans sé mun yngra.

AM 49 8vo er lítið handrit (110 mm x 137 mm) skrifað að mestu leyti á árabilinu 1290–1310. Það er eindálka skinnhandrit sem er óskreytt og frekar látlaust miðað við betur þekkt lagahandrit eins og Staðarhólsbók (AM 334 fol) eða Skálholtsbók eldri (AM 351 fol). Að minnsta kosti eitt blað hefur glatast framan af Kristinrétti og ekki er vitað hve mörg blöð voru upprunalega í handritinu.

Auk þess að vera elsta handrit Kristinréttar Árna er AM 49 8vo sérstakt vegna spássíugreina sinna. Þessar greinar, sem voru skrifaðar annaðhvort samtímis textanum eða skömmu síðar, vísa í heimildir sem notaðar voru við ritun Kristinréttar Árna. Oftast er vísað í norskar heimildir: „Gulaþingsbók“ (sem inniheldur lög fyrir Gulaþingshérað, frá u.þ.b. 1170) og „Frostaþingsbók“ (lög fyrir Frostaþingshérað frá u.þ.b. 1170) – en handrit þessara texta eru frá 13. öld. Einnig eru nefndar „forn íslensk bók“ (kristinna lagaþáttur Grágásar) og decretales, sem örugglega vísar til verks á latínu sem núna er oftast kallað Liber extra — þ.e. lögbók sem er hluti af Corpus juris canonicis. Raymondus de Pennyafort setti hana saman fyrir páfann á 4. áratug 13. aldar.  Svipaðar spássíugreinar er að finna í Skarðsbók (AM 350 fol) en skyldleiki handritanna tveggja er enn óljós.

Af AM 49 8vo má ráða að Kristinréttur Árna á uppruna í mörgum skriflegum heimildum. Spássíugreinar benda til þess að á þeim tíma sem handritið var skrifað, og fyrir þann sem notaði handritið, hafi verið mikilvægt að vita hvaðan ýmsar lagagreinar komu, annaðhvort til að finna þær eða til að styrkja vald kristinréttar sjálfs. Spássíugreinar í AM 49 8vo þjónuðu sem einskonar skýringargreinar á spássíum rétt eins og neðanmálsgreinar nú á dögum.

 

 

 

 

Birt þann 01.07.2019
Heimildir

Lára Magnúsardóttir. „Icelandic Church Law in the Vernacular 1275–1550.“ Bulletin of Medieval Canon Law 23 (2015): 127–43.

Magnús Lyngdal Magnússon. „Kátt er þeim af kristinrétti, kærur vilja margar læra: Af kristinrétti Árna, setning hans og valdsviði.“ Gripla 15 (2004): 43–90.