Hugtökin íslenska sem móðurmál, annað mál og erlent mál eru lýsandi hugtök um það hvernig málhafi hefur náð tökum á málinu og hvernig því er miðlað til erlendra málhafa. Meðal annarra hugtaka sem nota má í þessu samhengi má nefna íslenska sem fyrsta mál og íslenska fyrir útlendinga.
Íslenska sem móðurmál, tvítyngi og fjöltyngi
Hugtakið móðurmál vísar almennt til fyrsta máls (e. first language, L1) sem barnið tileinkar sér í æsku. Í þessu samhengi er ekki sérstaklega átt við mál móður barnsins heldur getur hugtakið einnig átt við mál föður eða annarra í málumhverfinu. Einnig má nota orðið meðfætt tungumál (e. native language) í sömu merkingu.
Fræðimenn hafa ólíkar hugmyndir um það sem kallað er máltileinkun. Sumir nota hugtakið aðeins yfir einstaklinga sem eru á ákveðnu aldursskeiði (eins til átta ára) (Schulz og Grimm, 2019) en aðrir tala einnig um máltileinkun eldri barna (Slavoff og Johnson, 1995) og jafnvel um málanám fullorðinna (Dąbrowska o.fl., 2020). Með öðrum orðum er hugtakið máltileinkun oft notað sem samheiti fyrir formlegt málanám. Upprunalega lagði þó ameríski annarsmálsfræðingurinn Krashen (1981) til aðgreiningu þessara fyrirbæra, þ.e. að gerður væri greinarmunur á máltileinkun og málanámi. Slíkar hugmyndir má m.a. rekja til kenninga Chomsky á sjötta áratug síðustu aldar þar sem hann hélt því fram að manneskjan væri fædd með þann hæfileika að læra mál (Sigríður Sigurjónsdóttir, 2013).
Almennt er það þannig að einstaklingur sem talar eitt tungumál er eintyngdur. Ef hann talar tvö, þrjú eða fleiri tungumál er hann tví-, þrí- eða fjöltyngdur. Börn af erlendum uppruna sem tileinka sér íslensku sem annað mál eru að minnsta kosti tvítyngd. Vert er að minnast þess að aðstæður þeirra geta verið mjög ólíkar og þetta getur haft áhrif á það hvernig, hversu vel og hvenær þau tileinka sér nýtt mál í nýju landi (Birna Arnbjörnsdóttir, 2008). Annarsmálsfræðingurinn Birna Arnbjörnsdóttir leggur áherslu á að þar skipti aðgengi að íslensku og aðstæður í umhverfinu miklu máli, þ.e. hversu oft þau heyra, sjá og nota tungumálið.
Íslenska sem annað mál
Í þessum pistli er „annað mál“ (e. second language, L2) notað yfir öll tungumál sem einstaklingur lærir í formlegu námi óháð aldri og aðstæðum. Hugtakið „íslenska sem annað mál„ hefur oft verið notað í tengslum við íslenskukennslu erlendra málhafa en eins og fram kemur hér að framan þá merkir orðið „annað“ nýtt mál sem einstaklingur lærir í formlegu námi hér á landi. Þannig er hægt að segja að börn og fullorðnir einstaklingar af erlendum uppruna sem flytja til Íslands læri íslensku sem annað mál. Sömuleiðis flokkast kennsluefni fyrir þennan nemendahóp sem íslenska sem annað mál, þótt venja sé að nota önnur og e.t.v. almennari heiti eins og t.d. íslenska fyrir útlendinga, íslenska fyrir erlent starfsfólk eða íslenska fyrir erlenda stúdenta. Frá sjónarhóli kennslufræði tungumála er heppilegra og meira lýsandi að nota hugtakið „íslenska sem annað mál“. Rannsóknir á þessu sviði varpa ljósi á félagsmálfræðilegar breytingar í íslensku samfélagi, geta stutt við meðferðarstarf talmeinafræðinga, stuðlað að þróun kennslu- og námsefnis fyrir markhópa á ýmsum aldri og ekki síst leitt til þróunar í máltækni.
Íslenska sem erlent mál
Íslenska hefur lengi verið kennd víða um heim. Þó að nákvæmar upplýsingar um fjölda skóla liggi ekki fyrir á þessari stundu má vísa til könnunar frá 2013. Þar kemur fram að hún sé kennd við 91 háskóla erlendis[1] en þessar tölur hafa þó sennilega breyst á síðastliðnum árum. Í alþjóðlegu samhengi þar sem kennslan fer fram við erlendar stofnanir er talað um kennslu íslensku sem erlent mál. Þótt aðgengi að námsefni fyrir íslenskunema hafi aukist með tilkomu Internetsins og að hægt sé að læra íslensku í snjalltækjum og tölvum í dag skiptir búseta nemenda hér höfuðmáli. Hér á landi er íslenska kennd sem annað mál en þegar út fyrir landsteinana er komið er hún kennd sem erlent mál. Nám og rannsóknir á þessu sviði geta m.a. leitt til akademísks samstarfs á sviði tungumála, menningar og lista. Einnig getur námið orðið uppspretta samstarfs á sviði viðskipta og alþjóðasamskipta.
Hugtökin sem notuð voru í þessum pistli eru notuð á fræðasviðunum máltileinkun og kennslufræði tungumála. Þau má nota til að skilgreina betur nálgun einstaklinga á tungumál og kennslu þeirra með hliðsjón af ýmsum markhópum hér á landi og erlendis.
Síðast breytt 19. mars 2024