Skip to main content

„Í þessari smeðju öld:“ Bréfabækur Brynjólfs biskups Sveinssonar

 

Handritið AM 268 fol. geymir elstu bréfabók Brynjólfs biskups Sveinssonar sem varðveist hefur og spannar hún árin 1652−1654. Bréfabækurnar voru upphaflega 21 talsins og var þessi sú sjöunda í röðinni. Nú eru einungis 14 bækur varðveittar og mestöll vitneskja um embættisfærslur Brynjólfs fyrstu árin í Skálholti hafa því lent í glatkistunni. Við erum ekki í góðri stöðu til að meta það hvort hann stökk fullskapaður fram á sviðið sem biskup eða hvort (og þá hvernig) hann þurfti að þreifa fyrir sér í embættisverkum fyrstu árin. Þegar atburðarásin í AM 268 fol. hefst er Brynjólfur búinn að vera biskup í 13 ár og er orðinn flestum hnútum kunnugur.

Meðal þeirra vandamála sem Skálholtsbiskup stóð frammi fyrir árið 1652 var stofnun spítala. Engar raunverulegar sjúkrastofnanir höfðu verið starfræktar í landinu á þeirri öld sem var liðin síðan klaustrunum var lokað og margir vildu gera úrbætur. Hugmyndin var sú að prestar og sýslumenn legðu til fjárframlög úr eigin vasa en innheimtan gekk brösuglega og Brynjólfur þurfti oft að kreista fram peningana með góðu eða illu. Rekstur Skálholtsskóla kemur einnig töluvert við sögu í bréfabókinni og þar er að finna innsýn í líf allmargra einstaklinga sem koma ekkert við heimildir að öðru leyti. Skólapiltar taka upp á ýmsum óknyttum, svo sem því að stela pappírsörkum úr ranni rektors og að ærslast í kirkjum með þeim afleiðingum að innanstokksmunir skemmast. Í kjölfar þess háttar gjörninga eru menn yfirheyrðir sem vonlegt er. Líkt og í öllum alvöru réttarhöldum eru skráðar ítarlegar atvikaskýrslur og af þeim má ráða sitthvað um lífið í skólanum. Allmargir unglingspiltar sem sátu í Skálholtsskóla veturinn 1652−1653 áttu eftir að koma við sögu Brynjólfs með einum eða öðrum hætti síðar. Meðal þeirra má nefna bekkjarbræðurna Daða Halldórsson og Þormóð Torfason sem eru aðeins fjórtán og sextán ára þegar þeir koma fyrst fyrir í bréfabókunum.

Orðalagið í bréfabókum Brynjólfs er víðast hvar staðlað og formfast, rétt eins og ætla má um svo virðuleg skjöl („... með öllum þeim gögnum og gæðum sem greindri jörð fylgja, fylgt hafa og fylgja eiga að fornu og nýju ...“). Þó kemur það einstaka sinnum fyrir að skapgerð og persónuleiki biskups skína í gegnum orðalagið. Í janúar 1653 skrifar Brynjólfur meðmælabréf með manni sem hefur starfað fyrir dómkirkjuna í Skálholti, segir hann fylgisaman staðnum og sínum húsbændum, „hvör dyggð sjaldfengin er nú í þessari smeðju öld, þar flestir vilja öllum þóknast og þóknast þar með öngum.“

Um miðja 17. öld var skjalavarsla á Íslandi öll í skötulíki, enda voru þá engar opinberar stofnanir starfræktar í landinu sem sáu um varðveislu bóka. Mörk einkalífs og embættisgjörða opinberra valdsmanna voru aukinheldur óljós og þegar Brynjólfur biskup lést lentu bréfabækur hans einfaldlega með öðrum eftirlátnum eigum hans fremur en að þær væru varðveittar í skjalageymslum Skálholts. Þar eð allir afkomendur Brynjólfs höfðu látist á undan honum kom það í hlut bróðursonar Brynjólfs, síra Torfa Jónssonar í Gaulverjabæ, að taka við bókunum. Þegar Torfi lést var bókunum skipt milli barna hans. Árni Magnússon safnaði bréfabókunum síðan saman skömmu eftir 1700 og höfðu þá þrjár bækur glatast. Fjórar til viðbótar töpuðust síðan í brunanum í Kaupmannahöfn 1728.

Birt þann 18.06.2019