Inngangur
Í þessari grein er fjallað um hlutverk og verkefni örnefnanefndar og greint frá starfsemi og helstu viðfangsefnum á tæplega þriggja ára tímabili formennsku minnar í nefndinni, frá febrúar 2007 til nóvember 2009.1 Allar tölulegar upplýsingar miðast við þetta tímabil.
1. Hlutverk og verkefni
Örnefnanefnd er stjórnsýslunefnd og heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Í henni eiga sæti þrír fulltrúar: formaður skipaður af mennta- og menningarmálaráðuneyti, fulltrúi tilnefndur af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og fulltrúi tilnefndur af umhverfisráðuneytinu. Auk þess á sæti í nefndinni áheyrnarfulltrúi frá Íslenskri málnefnd. Nefndin er skipuð til fjögurra ára í senn.
Örnefnanefnd starfar á grundvelli laga nr. 35/1953, um bæjanöfn o.fl., með síðari breytingum og í samræmi við reglugerð nr. 136/1999 um störf örnefnanefndar. Nefndin starfar innan þess lagaramma sem henni er settur og verkefni hennar ná aðeins til þeirra sviða sem tilgreind eru í reglugerðinni. Nefndin vísar því frá erindum sem falla ekki undir verksvið hennar.
Elstu lög um bæjanöfn eru frá 1913. Helsti hvatinn að lagasetningunni virðist hafa verið nafnbreytingar á gömlum og grónum býlum sem þá voru farnar að færast mjög í vöxt. Bændur vildu hvorki kenna býli sín við hjáleigur og kot né heldur að þau bæru nöfn sem þótti minnkun að. Stundum má sjá að þessar hugmyndir stafa af því að menn skildu ekki lengur upprunamerkingu býlisheitisins. Menn gátu þá gefið nýbýlum heiti og breytt nöfnum eldri býla að því er virðist án afskipta yfirvalda. Þessu vildu yfirvöld stemma stigu við og koma böndum yfir enda orðið „hrein og bein landfarsótt“ eins segir í frumvarpinu til laganna. Þannig urðu t.d. á þessum árum nafnbreytingarnar Geitastekkur → Bjarmaland; Vælugerði → Þingdalur; Hrappsstaðir → Hlíð; Suðurkot → Skrúðvangur (Þórhallur Vilmundarsson 1980). Mörg sérstæð nöfn hurfu því og heldur flatneskjulegri að einhverjum fannst tóku við. Til er þekkt vísa um slíka nafnbreytingu á bæ einum í Kræklingahlíð: Lögmannshlíðar vífum vænum/verður fátt að bitlingi/ þegar ekur út úr bænum/Ólafur á Hlíðarenda. Bóndinn þar hafði pantað vísu til að festa hið nýja bæjarnafn í sessi sem hann hafði fengið breytt því honum var nokkur ami að gamla nafninu, Tyllingur, sem sveitungarnir afbökuðu gjarnan.
Með nýju lögunum sem sett voru 1913 þurfti leyfi stjórnarráðsins til að breyta nafni. Sýslumaður gat neitað um nýnefni þætti honum það óheppilega myndað eða óviðeigandi. Nafnbreytingar virðast samt sem áður vera býsna tíðar áfram en nú á tímum eru óskir um nafnbreytingar afar fátíðar og þá yfirleitt tilkomnar vegna einhvers annars en sjálfrar merkingar nafnsins (sbr. 2.2).
Örnefnanefnd var komið á fót 1935 og tók hún þá við hlutverki stjórnarráðsins og sýslumanna. Lögunum var breytt lítilsháttar 1937 og svo aftur 1953. Á þeim grunni hvíla lögin nú þótt allnokkrar breytingar hafi verið gerðar á þeim síðan og aukið við nokkrum sinnum, einkum árið 1998. Reglugerð um störf nefndarinnar var sett 1999 þar sem lagagreinarnar eru útfærðar og nefndinni settar eins konar starfsreglur. Segja má þó að margt í lögunum rími ekki við búsetuhætti nú á dögum eða kannski frekar að erfitt sé að finna stað í lögunum þeim búsetuháttum sem færast í vöxt þar sem fólk á tvö heimili, eitt í þéttbýli og annað í dreifbýli, og er þá hvorki átt við sumarbústað í gömlum skilningi né heldur býli í hefðbundinni merkingu þar sem stundaður er búskapur eða einhver önnur atvinnustarfsemi. Samkvæmt lögum getur fólk hins vegar aðeins átt eitt lögheimili og nefndinni ber fyrst og fremst að líta til lögheimila fólks (sbr. Lög nr. 21/1990 um lögheimili, 4. gr.). Þarna er grátt svæði og þarf nefndin oft að taka afstöðu til þess hvort erindi sem henni berast um tilkynningu á nafni á býli heyri undir verksvið hennar því ekki er alltaf ljóst um hvers konar eignarform er að ræða. Þarna lendir nefndin í nokkurri klemmu því raunverulegt hlutverk hennar er aðeins að kanna og taka afstöðu til nafntillagna en ekki til búsetuforms.
Verkefni örnefnanefndar samkvæmt fyrrnefndum lögum og reglugerð eru eftirfarandi:
a. Að taka við tilkynningu um nafn nýbýlis og fjalla um það til samþykktar eða synjunar og senda samþykkt nafn til þinglýsingarstjóra.
b. Að fjalla um beiðni um breytingu á nafni býlis til samþykktar eða synjunar og senda samþykkta nafnbreytingu til þinglýsingarstjóra.
c. Að fjalla um beiðni sveitarstjórnar um lögfestingu á nafni á nýju þéttbýli eða þorpi, sem myndast hefur í landi jarðar eða jarða, til samþykktar eða synjunar og senda samþykkt nafn til þinglýsingarstjóra.
d. Að úrskurða hvaða örnefni skuli sett á landakort sem gefin eru út á vegum Landmælinga Íslands eða með leyfi þeirra, sé ágreiningur eða álitamál um það efni og því hafi verið skotið til nefndarinnar.
e. Að úrskurða um nýtt götunafn eða sambærilegt örnefni innan sveitarfélags, hafi risið ágreiningur um efnið og honum hafi verið skotið til nefndarinnar.
f. Að úrskurða um nýtt eða breytt nafn húss í kaupstað, kauptúni eða þorpi, hafi risið ágreiningur um efnið og honum hafi verið skotið til nefndarinnar.
g. Að veita umsögn um fyrirhugað nafn á nýju sveitarfélagi eða nafnbreytingu og um þau nöfn sem greiða skal atkvæði um ef könnun er gerð á viðhorfi íbúa sveitarfélags til nafns þess.
Sé þetta dregið saman má sjá að nefndin hefur þríþætt hlutverk:
a. Að taka afstöðu til nafna á nýjum býlum og þéttbýli, til samþykktar eða synjunar.
b. Að úrskurða ef upp rís ágreiningur um:
i) örnefni á opinberum landakortum.
ii) ný götuheiti eða sambærileg örnefni innan sveitarfélags.
c. Að veita umsögn um tillögur að nöfnum á nýjum sveitarfélögum.
Fyrsti þátturinn er sá veigamesti í starfsemi nefndarinnar og falla flest erindi sem til nefndarinnar berast undir hann. Þetta endurspeglast líka í heiti laganna sem nefndin starfar eftir, Lög um bæjanöfn o.fl., og nefndina mætti þess vegna kalla bæjanafnanefnd. Til nafntillagna teljast ný nöfn, þ.e. nöfn á nýjum skikum úr jörðum, sem og nafnbreytingar, en frekar lítið er um slík erindi nú á tímum eins og fyrr sagði.
Þessi þáttur lýtur að skráningu í Fasteignaskrá Íslands því óheimilt er að þinglýsa nýjum nöfnum og skrá þau án samþykkis örnefnanefndar. Þeim sem stofna lögbýli eða fá lóð í dreifbýli og byggja sér hús þar á er því skylt að bera undir nefndina val sitt á nafni landsins eða lóðarinnar og fá það samþykkt áður en það er skráð og því þinglýst.
Þegar teknir eru skikar úr jörðum fá þeir fyrst sama heiti í Fasteignaskránni og jörðin sjálf en eru auðkenndir með öðru landnúmeri aftan við nafnið. Séu skikarnir margir er gjarnan skeytt inn á milli nafns og númers auðkennum á borð við land eða lóð og getur verið allur gangur á því hvernig skráningu er háttað. Flestir vilja gefa jörðum sínum eða húsum ný nöfn og þá kemur til kasta örnefnanefndar. Á jörðum sem hafa verið margskiptar getur skráningin orðið afar flókin og erfitt að ráða í hvernig hefur háttað til upphaflega. Ný og önnur heiti greiða því svo sannarlega úr þessu. Hér þarf hins vegar að gera greinarmun á opinberri skráningu annars vegar, og það er það sem snýr að örnefnanefnd, og svo óopinberum nöfnum sem býlin kunna að ganga undir og eru ekki þau sömu. Það sama má segja um merkingar býla og húsa, þ.e. vegvísa. Það er alfarið á ábyrgð sveitarfélaga og örnefnanefnd hlutast ekkert til um í þeim efnum en fær hins vegar oft kvartanir frá fólki sem lúta að slíku.
Hægt er að skjóta málum til örnefnanefndar ef ágreiningur rís um örnefni á kortum Landmælinga en annars hefur nefndin engin afskipti af nafnsetningu á kort. Það sama gildir um ný götuheiti. Úrskurðarbeiðnir af þessu tagi eru fátíðar og kom ekki til þess í tíð nefndarinnar á því tímabili sem hér er til umfjöllunar.
Þriðja hlutverk örnefnanefndar er að veita umsögn um tillögur að nöfnum á nýjum sveitarfélögum sem ætlunin er að bera undir atkvæði íbúanna en lokaákvörðun í þeim efnum er ekki á valdi nefndarinnar. Tillögurnar eru stundum mjög margar og nefndin mælir oft með fleiri en einni tillögu sem er íbúanna að velja á milli. Erindi af þessu tagi berast í hrinum þegar mikið er um sameiningar sveitarfélaga.
Þótt nefndin beri heitið örnefnanefnd má sjá af framangreindu að það er í raun frekar takmarkað svið örnefna sem að henni snýr, þ.e. ef við skilgreinum örnefni vítt. Verksvið nefndarinnar hverfist svo að segja allt um opinbera skráningu á bæjaheitum og sveitarfélagaheitum. Nafnsetning örnefna á kortum kemur aðeins til kasta nefndarinnar sé ágreiningur um þau.
Nefndin er verkfæri yfirvalda til að hafa eftirlit með og áhrif á þessa hlið örnefnaforðans, þ.e. að ný bæjaheiti og sveitarfélagaheiti samræmist íslensku málkerfi og málvenju. Nefndin hefur því málstýrandi hlutverk en með málstýringu er átt við aðgerðir til að hafa áhrif á vöxt og viðgang tungumálsins: hvernig það þróast og hvernig það er notað.
Eftirfarandi þættir eru því ekki á verksviði örnefnanefndar:
a. Nefndin hvorki býr til örnefni né sér um að koma örnefnatillögum á kort.
b. Nefndin hefur ekkert með ný götuheiti að gera.
c. Nefndin tekur ekki afstöðu til nafna á sumarbústöðum eða húsum í þéttbýli og vísar auk þess frá erindum um nafngiftir á óbyggðum landspildum.
Örnefnasetningar á kort eru á verksviði Landmælinga Íslands í samráði við nafnfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Götuheiti eru á vegum sveitarfélaga og í sumum stærri sveitarfélögum eru starfandi götuheitanefndir sem búa til götuheiti. Örnefnanefnd hefur engin afskipti af þeirri starfsemi.
Menn geta sett skilti á sumarbústaði sína og gefið þeim heiti eftir sínu höfði en þeir fá ekki opinbera skráningu sem slíkir. Sumarbústaðir eru skráðir á nafn jarðarinnar sem þeir eru byggðir á og auðkenndir með sérstakri talnarunu þar fyrir aftan og fá svo flokkunarheitið sumarbústaður.
2. Nafntilkynningar
2.1 Ný bæjaheiti
Í töflu 1 eru tölulegar upplýsingar um fjölda tilkynninga um ný bæjanöfn á tímabilinu frá 2007 til nóvember 2009 með samanburði við árin þar á undan. Einnig er sýnt hvaða afstöðu nefndin tók til erindanna.
- Tilkynningar alls: 184
- 2007: 85
- 2008: 66
- 2009: 33
-
- 2006: 41; 2005: 35; 2004: 23; 2003: 29; 2002: 15
- Samþykkt nöfn 131 71% (82%)
- Vísað frá/frestað 25 15%
- Hafnað 28 14% (18%)
Tafla 1: Tilkynningar um ný nöfn
Eins og sjá má er hægfara aukning í fjölda tilkynninga frá árinu 2003 til 2006 með örlítilli niðursveiflu á árinu 2004. Á árinu 2007 verður stórfelld aukning og hefur hvorki fyrr né síðar borist jafnmikið af erindum til nefndarinnar um ný bæjaheiti. Án efa helst þetta í hendur við efnahagsleg gæði og þenslu, hið svokallaða góðæri, sem nær hámarki sínu á árinu 2007. Það verður stöðutákn að eiga jarðarskika, ekki einungis sumarbústað heldur jörð. Það má m.a. merkja á aukinni ásókn í lögbýlisrétt fyrir landskika. Kreppan segir svo til sín strax árið 2008 og árið 2009 færist þetta í svipað horf og var fyrir hámark góðærisins.2
Dreifingin á samþykktum nöfnum, frávísunum og erindum sem er hafnað er með svipuðu móti frá ári til árs á þessu tímabili.
Erindum er vísað frá þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að stofnað hafi verið býli, þ.e. um er að ræða sumarbústaði eða óbyggðar lóðir eða landskika, eins og fram kom í 1. kafla. Ef tilskilin gögn vantar eða erindi þarfnast athugunar er þeim frestað en þau mál koma oftast fyrir nefndina síðar og eru þá yfirleitt samþykkt.
Eins og sjá má á töflunni samþykkir örnefnanefnd langflestar nafntilkynningar sem henni berast (71%), taki hún á annað borð afstöðu til þeirra. Ef við drögum frá þær tilkynningar sem uppfylla ekki formleg skilyrði, þ.e. þessar 25 sem vísað var frá eða frestað, þá samþykkti nefndin 82% erindanna og hafnaði 18%, eða tæpum fimmtungi. Ég geri síðar (4.2) nánari grein fyrir ástæðum synjana en vil nefna strax að í rúmlega þriðjungi tilvika er ástæðan sú að bæjarheitið sem lagt var til er samnefni við aðra fasteign innan sama umdæmis sýslumanns. Nefndinni er óheimilt skv. lögum um bæjanöfn að samþykkja slík nöfn jafnvel þótt fullkomlega góð og gild teljist vera og er það ákvæði sett af öryggisástæðum (sbr. Lög, nr. 35/1953, um bæjanöfn o.fl., með síðari breytingum, 5. gr.). Samnefnd býli sem þó kunna að finnast innan sama lögsagnarumdæmis hafa í flestum tilvikum fengið heiti sín fyrir tíma þessarar lagasetningar.
Þegar samnefnin hafa verið dregin frá eru ekki eftir nema um 20 nöfn af 184 nafntilkynningum sem ekki hlutu náð fyrir augum nefndarinnar þessi tæpu þrjú ár sem tölurnar taka mið af, sem vart getur talist ýkja mikið. Það segir okkur að annaðhvort sé nefndin mjög frjálslynd, sem fær tæpast staðið því viðmiðin eru nokkuð ströng eins og gerð verður grein fyrir í 3. kafla, eða það sem líklegra er að flestir hafi góða tilfinningu fyrir því hvað teljist vera gott og gilt bæjarnafn og málkennd manna í þeim efnum sé nokkuð stöðug. Enda er ekki að sjá að neinar róttækar breytingar í nafnavali séu í uppsiglingu þótt vissulega megi sjá eilítið aðrar áherslur en fyrir um hálfri öld eins og fræðast má um í grein Þórhalls Vilmundarsonar frá 1980.
2.2 Nafnbreytingar
Ekki er mikið um að fólk vilji breyta nöfnum á býlum og sendi örnefnanefnd beiðni þess efnis eins og sjá má á töflu 2. Ásóknin í nafnbreytingar virðist hafa minnkað nokkuð frá því sem var á árum áður um miðja tuttugustu öld og fyrr (sjá Þórhall Vilmundarson 1980:29–30). Ástæðan kann að vera sú að sérkennilegum bæjaheitum eða nöfnum sem fólki fannst minnkun að hefur þegar verið útrýmt (sbr. 1. kafla) eða smekkurinn og tíðarandinn hefur breyst. Tafla 2 sýnir fjölda beiðna á tímabilinu frá 2007 til nóvember 2009 og afstöðu örnefnanefndar til erindanna.
- Fjöldi beiðna: 15
- 2007: 7
- 2008: 5
- 2009: 3
- Fallist á nafnbreytingu 11 (73%)
- Vísað frá/frestað 1
- Hafnað 3
Tafla 2: Beiðni um nafnbreytingu
Það kann að skjóta skökku við að sjá hversu hátt hlutfall beiðna um nafnbreytingar fallist er á í ljósi þess að nefndin er fastheldin og leyfir þær ekki nema „alveg sérstaklega standi á“ eins og orðað er í 5. gr. laga nr. 35 um bæjanöfn. Þessi undantekningartilvik eru útfærð nánar í reglugerð um störf örnefnanefndar og eiga við þegar nafn er talið mjög óviðeigandi eða óheppilega myndað eða um er að ræða samnefni við annað bæjarheiti í sama umdæmi sýslumanns, en slíkt er talið óæskilegt frá öryggissjónarmiði.
Í einu tilvika af þessum 11 var um samnefni að ræða, í fjórum tilvikum var orðið við eindregnum óskum eigenda um að draga til baka nýlega samþykkt nöfn á nýbýli enda mátti leiða líkur að því að engin hefð væri komin á notkun þeirra og þau ekki almennt orðin kunnug. Í tveimur tilvikum var um að ræða óheppilega mynduð nöfn sem tengdust atvinnustarfsemi sem áður hafði farið fram á landinu og voru í raun fyrirtækjanöfn. Annað þessara býla bar heitið Reykhólar – tilraunastöð og var því breytt í Kötluland. Fjórar breytinganna voru heimilaðar til að greiða úr nafnabrenglum sem orðið höfðu við samruna spildna eða við skiptingu jarða. Í engu tilvika var því um að ræða að rótgróið nafn væri aflagt sem býlisheiti í viðkomandi sýslumannsumdæmi, nema þá þessi tvö óheppilega mynduðu nöfn sem varla var nein eftirsjá að.
3. Viðmið og vinnureglur
Áður en fjallað verður frekar um nöfn þau sem nefndin samþykkti eða hafnaði á því starfstímabili sem er til umræðu og rýnt í hvað stýrir nafnavalinu verður gerð grein fyrir þeim viðmiðum sem örnefnanefnd hefur að leiðarljósi í starfsemi sinni þegar hún tekur afstöðu til nýrra bæjaheita og erinda um nafnbreytingar.
Í lögum og reglugerð um nefndina segir eftirfarandi (Reglugerð nr. 136/1999 um örnefnanefnd, 3. gr.):
Örnefnanefnd skal í störfum sínum miða að varðveislu íslensks menningararfs og örnefnavernd og að því að ný örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði og íslenska málvenju.
Hér er skýrt kveðið á um skyldu nefndarinnar sem lýtur að varðveislu örnefna sem menningararfleifðar, verðmæti sem okkur ber að standa vörð um og skila áfram til komandi kynslóða. Þetta ákvæði er í samræmi við samþykktir sérfræðinefndar Sameinuðu þjóðanna um örnefni sem sameiginlegan menningararf (sbr. Ara Pál Kristinsson 2010:18-19). Tregðu nefndarinnar til að leyfa breytingar á gamalgrónum bæjaheitum má því skoða í ljósi þessa. Þannig heimilar nefndin ekki nafnbreytingu byggða á tilfinningarökum einum eða því að fólk leggi hugsanlega aðra merkingu í bæjarnafn en þá sem upprunalega að baki liggur. Nærtækt dæmi um slíkt er þegar fyrri nefnd hafnaði beiðni um breytingu á nafninu Saurar í Ásgarð (sjá Ara Pál Kristinsson 2010:17-18).
Orðalagið „í samræmi við íslenska málfræði“ vísar til þess að bæjaheiti skulu beygjast samkvæmt beygingakerfi íslenskrar tungu og væntanlega einnig þess að orðstofnar skuli vera af íslenskri rót. Með „íslenskri málvenju“ er átt við að fylgt sé hefð við nafngiftir, þ.e. í merkingu orðstofna og tilvísun. En hvað felst í því nákvæmlega: hver eru merkingarsviðin og hvernig er tilvísun háttað? Í 4. gr. reglugerðar nr. 136, sem er nokkurn veginn samhljóða 5. gr. laga nr. 35, segir eftirfarandi:
Sé nafn dregið af staðháttum eða örnefni í nágrenninu skal því lýst. [...] Við nafngiftir býla skal þess gætt að fylgt sé þeim venjum sem ráðið hafa nafngjöfum býla hér á landi. Ekki má nafngjöf leiða til samnefna á fasteignum í sama umdæmi sýslumanns. Jafnframt skal sneiða hjá nöfnum sem eru svo lík öðrum nöfnum á fasteignum í umdæminu að það geti valdið ruglingi.
Hér kemur fram að samnefni eru ekki leyfileg og heldur ekki nöfn sem líkjast svo bæjaheitum sem fyrir eru í héraðinu að hætta geti verið á nafnaruglingi. Að öðru leyti eru viðmiðin um nafnmyndun nýrra býla mjög almennt orðuð. Talað er um venjur „sem ráðið hafa nafngjöfum býla“ en þær ekki skýrðar nánar. Fá má þó vísbendingar í upphafsmálsgreininni þar sem talað er um staðhætti og örnefni. En notkun skilyrðissetningar hér, „Sé nafn dregið af [...] skal því lýst“, opnar jafnframt fyrir þá túlkun að nafn geti verið dregið af einhverju öðru en finna má í nánasta umhverfi.
Örnefnanefnd hefur mótað sér sínar eigin vinnureglur og viðmið þegar lagt er mat á tillögur um ný bæjaheiti sem fyrir nefndina eru lagðar. Þau viðmið byggja að sjálfsögðu á því sem lesa má beint og óbeint í lögunum en taka einnig til fleiri þátta. Hér eru talin upp þau atriði sem nefndin gengur út frá þegar tekin er afstaða til nýrra nafna og dæmi gefin um nöfn sem falla að þeim viðmiðum:
a. Í samræmi við staðhætti og viðeigandi:
i) Náttúrueinkenni: Slétta, Eyri, Reykir
ii) Landsnytjar: Sel, Sauðhagi
b. Dregið af örnefni í nágrenninu
c. Sögulega rétt: Hof, Staður, Kirkjuból, Þingheimar
d. Stefnutilvísanir í forliðum hafi viðmið: Efsta-Sel, Austurás
f. Sama nafn en auðkennt með undirnúmeri: Grund II
Meginviðmiðin eru staðhættir og örnefni enda eru bæjaheiti frá fornu fari langflest af þeim toga. Sé nafn sótt til landslags eða náttúrufars þarf það að koma vel heim við staðhætti. Þannig verður eyri, áreyri eða eyri út í sjó, að vera í næsta nágrenni við bæinn Eyri og nafninu Sléttu á bæ byggðum í hlíð yrði hafnað. Nafnið Reykir yrði aðeins leyft á hverasvæðum eða þar sem eru heitar laugar, þ.e. þar sem gufa eða reykur er stöðugt náttúrufyrirbrigði en ekki hverfult. Því hafnaði nefndin t.d. á sínum tíma bæjarheitinu Brim á bæ reistum nálægt sjó með þeim rökum að sjávarbrim væri hverfult náttúrufyrirbrigði. Einnig þurfa landsnytjar að skírskota til raunveruleikans, þess sem er eða var. Sem dæmi má taka nýbýlið Sauðhaga sem byggt er á gamalgrónu beitilandi fyrir sauðfé, „enda sauðfjárhagar þar góðir” eins og landeigandi nefndi þegar hann greindi frá ástæðum að baki vali nafnsins.
Séu bæjaheiti samsett, sem algengt er, telst nægilegt að í öðrum nafnliðnum sé tekið mið af staðháttum en hinn kenndur við eitthvað annað svo sem dýr eða veðurfar, sbr. alþekkt bæjaheiti eins og Geldingaholt, Grísatunga, Vindheimar. Nýnefnin Hrafnshagi og Hrafnsholt, sem lögð voru fyrir nefndina og hún samþykkti, eru af þessum toga. Hrafnsholt er byggt úr jörðinni Langholti og þar er síðari liðurinn kominn. Einnig nefndu eigendur í rökstuðningi sínum fyrir nafnavali að hrafnar hefðu oft viðkomu á holtinu í landi þeirra. Eigendur Hrafnshaga höfðu hins vegar hinn fræga stóðhest Hrafn frá Holtsmúla í huga enda stunda þeir hrossarækt í högum sínum og reka fyrirtæki í kringum hana. Þeir vildu hafa eitthvað í bæjarnafni sínu sem minnti á atvinnustarfsemina á landareigninni. Nefndin horfði hins vegar til þess að forliðurinn hrafn er algengur í bæjaheitum og hefur þá tilvísun til fuglsins hrafns.
Tenging við atvinnustarfsemi sem stunduð er á landareigninni er býsna algeng röksemd í nafntillögum og er þá um að ræða hrossarækt, skógrækt, ylrækt og jafnvel ferðaþjónustu. Örnefnanefnd fellst ekki á slík nöfn nema hægt sé að túlka þau þannig að þau skírskoti til landshátta eða umhverfis. Þannig hafnaði nefndin t.d. nafninu Áning sem bæjarheiti á landskika þar sem rekið var samnefnt ferðaþjónustufyrirtæki enda hvorki hægt að tengja nafnið landslagi né heldur stöðugu fyrirbæri í umhverfinu, sbr. umræðuna hér að framan.
Með viðmiðinu „sögulega rétt“ er átt við að örnefnanefnd samþykkir því aðeins nöfn með menningarlegri skírskotun að sýnt hafi verið fram á að hún eigi sér raunverulega stoð. Þannig heimilar nefndin aðeins nýnefnin Kirkjuból eða Stað séu til heimildir um kirkju á jörðinni. Hér er því um ákveðna menningarvernd að ræða í anda fyrrnefnds ákvæðis Sameinuðu þjóðanna um örnefni sem menningararfleifð. Því var nafntillögunni Brimstaður hafnað en sæst á Brimstaðir. Rökin voru þau að bæjanöfn með nafnliðnum staður hafi einungis tíðkast sem nöfn á kirkjustöðum og ekki vitað um nein frávik frá þeirri rótgrónu hefð (sbr. Finn Jónsson 1907-1915:450-451). Þar sem nýbýlið væri hvorki kirkjustaður né byggt úr landi kirkjustaðar gæti nefndin því ekki fallist á nafnmyndina Brimstað. Þingheimar var hins vegar samþykkt sem nafn á nýbýli úr landi Forsætis í Rangárþingi eystra þar sem heimildir eru til um að þar hafi fyrrum staðið þinghús sveitarinnar.
Um býlisheiti þar sem forliður hefur stefnu- eða staðsetningarmerkingu, t.d. austur, út, mið, innri, hefur sú hefð gilt að þau kallist á við samnefnt býli í næsta nágrenni án forliðar eða býli með andstæðan eða merkingartengdan stefnulið. Bæjarheitið Austurás væri því aðeins samþykkt að nálægt væri bærinn Ás eða Vesturás.3Efsta-Sel var byggt úr landi Neðsta-Sels og þar var einnig nágrannabýlið Efra-Sel.
Stundum vill fólk halda sama nafni þegar stofnað er nýbýli úr jörð á nýju landnúmeri. Til aðgreiningar er þá skeytt rómverskum tölum aftan við sjálft nafnið. Þannig verður til nýbýlið Grund II úr jörðinni Grund því litið er svo á að hið upprunalega heiti jafngildi Grund I.
Eins og nefnt var hér að framan tekur örnefnanefnd ekki tilfinningarök gild sem ástæður fyrir nafnbreytingum og það sama á við um nýmyndun nafna, sbr. þau viðmið sem nefndin fer eftir og tilgreind voru hér að framan. Nokkuð er um það að fólk færi til ástæður af slíku tagi til skýringar á vali sínu á nafni en nefndin hafnar slíkum nöfnum nema unnt sé að túlka þau á annan hátt í samræmi við framangreind viðmið.
Fyrir kemur að fólk vill nefna býli sín eftir æskuheimilinu eða uppeldisslóðum. Ef hægt er að finna samsvörun í staðháttum eða örnefnum á jörðinni er fallist á nafnið. Dæmi um slíkt nafn er Garðshorn sem sagt var myndað með hliðsjón af nöfnunum Garðsendi og Byggðarhorn en frá þeim bæjum voru hjónin sem landið áttu. Spildan var úr Byggðarhorni og kallast þar síðari nafnliðirnir á og því var nafnið samþykkt. Annað dæmi er nafnið Ásnes í Ölfusi. Húsfreyjan á bænum var dönsk og alin upp í bæjarfélaginu Asnæs á Sjálandi og þaðan var hugmyndin að nafninu fengin. Nafnmyndun af þessum toga er alþekkt í nýja heiminum þar sem innflytjendurnir tóku með sér nöfn að heiman, sbr. bæjaheiti á Íslendingaslóðum í Vesturheimi. Örnefnanefnd kaus að líta svo á að þar sem Gljúfurá rynni meðfram landinu mætti finna nafninu stað í landslaginu, nesi út í ána og lágum ásum, og féllst því á nafnið.
Þessi tvö nöfn, Garðhorn og Ásnes eru tekin sem dæmi um það að þótt nefndin sé býsna fastheldin og víki ekki frá viðmiðum sínum er þó alltaf reynt að líta á nafntillögur í sem víðustu ljósi. Rök nefndarinnar að baki samþykktum nöfnum eru því ekki endilega alltaf þau sömu og þær ástæður sem landeigendur höfðu gefið upp í erindum sínum til hennar.
4. Afgreiðsla nafntilkynninga
4.1 Samþykkt nöfn
Í eftirfarandi töflu eru skráð þau nöfn sem samþykkt voru árið 2009:
Aðalvík
Álfsstaðir II
Ásólfsskáli II
Fellsmúli
Fjarkastokkur
Glæsivellir
Hlíðarbakki
Hlíðartún
Hraunbrún
Koltursey
Kvíarholt II
Langabarð
Laugamýri
Lind
Lækjarholt
Lækjartún II
Miðhóll
Skálarimi
Stórhóll
Strandarhjáleiga II
Vatnsleysa IV
Tafla 3: Samþykkt nöfn árið 2009
Eins og sjá má á þessum lista fara flestir mjög hefðbundnar leiðir í nafnavali sínu. Nöfnin eru öll samsett að einu undanskildu og vísar annar nafnliður eða báðir nær undantekningarlaust til staðhátta. Þessir liðir eru flestir afar algengir í bæjaheitum enda geta þeir víðast hvar átt við, eins og vík, hlíð, bakki, tún, holt, laug, lækur, vatn. Einungis tvö nafnanna geta talist óvanaleg eða frumleg, nöfn sem þó falla innan framangreinds viðmiðunarramma um merkingarsvið og tilvísun. Þetta eru nöfnin Fjarkastokkur og Koltursey. Fjarkastokkur var fengið eftir örnefni á jörðinni þar sem bændur höfðu um aldamótin 1900 hlaðið stokk fyrir ál einn úr ánni sem eftir landinu rennur til að koma í veg fyrir flóð. Enga skýringu á tilurð fyrri liðar örnefnisins var hins vegar unnt að finna. Fyrri liðurinn Koltur í heitinu Koltursey getur átt við bungulaga fell eða hæð, sbr. eyna Koltur í Færeyjum, og verið dýralíkingarnafn en koltur getur merkt ´folald´ (sbr. ensku colt), (sjá Ásgeir Blöndal Magnússon 1989:492). Sambærileg örnefni eru Hestur og Göltur. Hugsanlega hafa landeigendur haft þá merkingu í huga og viljað tengja bæjarheitið við atvinnustarfsemi á jörðinni en á þessu landsvæði hafa verið stofnuð fjölmörg nýbýli þar sem stunduð er hrossarækt. Síðari liðurinn er myndaður með hliðsjón af síðari lið þess bæjar sem nýbýlið er úr, Miðey, en slíkrar tilhneigingar gætir mjög í nafnavali eins og sjá má í töflu 4. Þar eru sundurliðaðar þær aðferðir sem notaðar voru við val þeirra nafna sem samþykkt voru á því þriggja ára tímabili sem hér um ræðir, hvort heldur eru nöfn nýbýla eða nafnbreytingar sem fallist var á, alls 142 nöfn sbr. töflur 1 og 2. Dæmi valin af handahófi eru sýnd um hverja aðferð. Heildartalan í töflu 4, 162, passar ekki við fjölda nafna því fleiri en ein ástæða getur legið að baki nafnavali í sumum tilvikum og stundum var ekki unnt að greina tilurð nafnsins.
- Umhverfi 76 (47%)
- Örnefni 46: Fjarkastokkur
- Staðhættir 30: Lækjarholt, Ægissíða
- Sami liður 34 (21%)
- Síðari liður 22: Aðalvík
- Fyrri liður 11: Laugamýri, Skálatjörn
- Kennilið bætt við 1: Nýja-Jórvík
- Undirnúmeri aukið við nafn 31 (13%): Álfsstaðir II
- Atvinnustarfsemi 10 (6%): Birkiland, Laufás, Hófgerði
- Æskustöðvar 5: Garðshorn, Ásnes
- Söguleg rök 3: Þingheimar, Ferjukot
- Endurvakið nafn 3: Ráðagerði, Fellsmúli
Tafla 4: Aðferðir við nafnaval samþykktra bæjaheita 2007–2009
Uppsprettu um helmings nafnanna er að finna í nánasta umhverfi bæjanna. Sum eru dregin beint af örnefni í nágrenninu en í öðrum tilvikum er vísað til staðhátta eins og t.d. með bæjarheitið Ægissíðu sem gefið var nýbýli á landræmu með sjó fram. Langflestir hafa góða tilfinningu fyrir umhverfi sínu þegar að nafnavali kemur og velja nafn sem kemur vel heim við staðhætti. Það sama er að segja um nöfn sem dregin eru af örnefnum. Þar er í allflestum tilvikum rétt með farið en örnefnanefnd gengur að öllu jöfnu úr skugga um það með athugun í örnefnalýsingum, séu þær fyrir hendi, eða öðrum heimildum til að treysta að rof verði ekki á örnefnahefð.
Mjög vinsæl er sú aðferð að haldið er í síðari lið þess bæjarheitis sem nýbýlið er úr en skipt út forliðnum. Mun sjaldgæfara er að því sé öfugt farið. Menn vilja með þessu eflaust tengja sig við upprunabæinn eða fá einhvers konar samræmi eða líkindi í bæjaheitum á sömu torfunni. Þetta er sama aðferð og lengi hefur verið viðhöfð í heitum gatna innan sama hverfis. Sambærilegt má sjá í mannanafnavali þegar einstaklingum í sömu fjölskyldu eru gefin samsett nöfn þar sem annar nafnliðurinn er einn og hinn sami, t.d. Þor‑ eða ‑rún, en það er reyndar ævagamall nafnsiður (sbr. Janzén 1947:32-33). Svipaðrar tilhneigingar gætir einnig þegar systkinum er gefið sama millinafn, t.d. Hólm, eða barni það sama og foreldri. Menn vilja líklega með þessu skapa einhvers konar samkennd, vera hluti af heild. Vísbendingar eru um að þessi aðferð við nafnaval á nýbýlum hafi aukist nokkuð á seinni árum, sem kannski má rekja til aukinnar tilhneigingar til reglufestu almennt í nafngiftum annars vegar og tilslakana af hálfu örnefnanefndar hins vegar, a.m.k. hefur nefndinni ekki á öllum tímum verið þessi aðferð að skapi og hún lagst gegn henni (sjá Þórhall Vilmundarson 1980:35).
Þriðja algengasta aðferðin er sú að halda í nafnið á jörðinni sem skipt var en auðkenna býlisheitið með undirnúmeri. Ruglingi getur auðvitað valdið ef samnefndir skikar með mismunandi undirnúmerum eru orðnir of margir og þá fer oft betur á því að taka upp nýnefni í stað þess að auka við enn einu númerinu.
Eins og fram kom í 3. kafla er nokkuð um að fólk óski eftir því að atvinnustarfsemi sú sem fram fer á landareigninni endurspeglist í nafni jarðarinnar. Örnefnanefnd lagði blessun sína yfir nokkur nöfn af slíku tagi á umræddu tímabili, eða 10 talsins, sbr. töflu 4. Í öllum tilvikum var unnt að finna víðari skírskotun til staðhátta í nafnliðunum sem gefa áttu til kynna þá ræktun sem fengist var við enda um almenna merkingu að ræða eins og dæmin sýna. Það sama er að segja um bæjaheiti kennd við æskustöðvar eigenda en fimm slík nöfn voru heimiluð.
Þrjú nöfn voru samþykkt sem höfðu menningarlega skírskotun til fyrri tíma. Fleiri nafntillögur af þessum toga bárust nefndinni en þar sem engar heimildir fundust sem staðfestu merkingartilvísun nafnliðanna var þeim hafnað, sbr. umræðu í 3. kafla um viðmið örnefnanefndar.
Í þremur tilvikum var um að ræða endurvakin nöfn þar sem til voru heimildir um býli fyrr á tímum á landareigninni eða nágrenni sem báru þessi tilteknu heiti.
4.2 Synjanir
Eins og fram kom í töflum 1 og 2 samþykkir örnefnanefnd langflestar nafntilkynningar sem henni berast og voru synjanir á því tímabili sem um ræðir innan við fimmtungur erinda. Í eftirfarandi töflu hafa verið tekin saman þau nöfn sem nefndin hafnaði. Þrjú nafnanna af þessu 31 voru tillögur að nafnbreytingu. Þrjú nöfn voru samþykkt nokkru síðar í ljósi nýrra gagna svo í raun eru þetta aðeins 28 nöfn sem hafnað var.
Aðalból
Austurás
Áning
Ásgarður
Barkarstaðaskógur (samþ. síðar)
Bjarmaland
Demantsklettur
Demantslækur
Draumahellir
Draumastaðir
Grænahlíð
Gullhellir
Hamarsey
Hamrar
Hestahof
Hjallaheiði (samþ. síðar)
Hlíðarendi
Hof
Kirkjuból
Laufás
Litlhóll
Lyngheiði
Miðgarður
Naust
Ráðagerði (samþ. síðar)
Reykhólar
Sólbakki
Sóltún
Stormur
Ylfingur
Ölfusholt
Tafla 5: Synjanir
Mörg nafnanna eru hefðbundin og er ástæða synjunarinnar í mörgum tilvikum sú að um var að ræða samnefni við aðra fasteign innan sama umdæmis sýslumanns en eins og fram hefur komið (2.1) er nefndinni óheimilt skv. lögum um bæjanöfn að samþykkja slík nöfn jafnvel þótt fullkomlega góð og gild teljist vera. Í töflu 6 eru ástæður synjana sundurgreindar. Þar má sjá að tæplega helmingi nafna er hafnað vegna samnefnisákvæðisins. Eitt nafnanna, Ölfusholt, þótti hljóðlega það líkt bæjarheiti sem fyrir var í sýslunni, Ölvisholti, að hætta var talin á nafnaruglingi af þeim sökum.
- Samnefni 11 36%
- Líkindi 1 3%
- Andstætt nafngiftahefð 19 61%
Tafla 6: Ástæður synjana
Eftir standa þá nöfn þau sem tilgreind eru í eftirfarandi töflu:
Aðalból
Austurás
Áning
Barkarstaðaskógur
Demantsklettur
Demantslækur
Draumahellir
Draumastaðir
Grænahlíð
Gullhellir
Hamarsey
Hestahof
Hof
Kirkjuból
Litlhóll
Miðgarður
Naust
Stormur
Ylfingur
Tafla 7: Synjanir á grundvelli nafngiftahefðar
Þessum 19 nöfnum var hafnað á grundvelli þess að þau væru andstæð nafngiftahefð. Sundurgreina má rökin fyrir því frekar og er sýnt í töflu 8 hver var ástæða synjunar í hverju tilfelli.
- Sögulega villandi 4: Aðalból, Hof, Hestahof, Kirkjuból
- Tilfinningarök 3: Demantsklettur, Demantslækur, Gullhellir
- Ekki vísað til staðhátta 3: Grænahlíð, Hamarsey, Naust
- Stefnuviðmið vantar 2: Austurás, Miðgarður
- Fyrirtækjanafn 2: Áning, Barkarstaðaskógur
- Huglægt ástand 2: Draumahellir, Draumastaðir
- Framburðarmynd 1: Litlhóll (samþykkt sem Litlihóll)
- Hverfult veðurfar 1: Stormur
- Dýrsheiti sem ekki er líkingarnafn 1: Ylfingur
Tafla 8: Sundurgreindar ástæður synjana
Fjórar nafntillögur þóttu fela í sér sögulegar rangfærslur. Nafntillögunni Aðalból, á land úr jörðinni Kirkjuferjuhjáleigu var hafnað með þeim rökum að merking nafnsins gæfi til kynna að þar væri um höfuðból að ræða en ekki spildu úr landi annarrar jarðar og það hjáleigulandi. Engar heimildir eru til um kirkju á jörð þeirri sem skiki sá sem eigendur vildu gefa heitið Kirkjuból er fenginn úr. Sama gildir um Hof og Hestahof: Engar heimildir fundust um hof til forna á þeim jörðum og ekki var heldur unnt að finna merkingunni hof í landslagi, þ.e. ´hjalli´ eða ´hæð´, stað í landinu.
Demanta- og gullörnefnum var hafnað á þeim forsendum að ekki væri nein hefð fyrir því að kenna býli við eðalsteina eða góðmálma. Þarna kunna líka að liggja að baki tilfinningarök en nefndin samþykkir ekki nöfn af því tagi eins og fram hefur komið og hafnaði því líka nafntillögum með forliðnum drauma.
Merking nafnliða í þremur tillögum gekk í berhögg við ásýnd lands og umhverfis: Grænahlíð er byggð á flötu landi, Naust er ekki við sjávarsíðuna og engar eyjar, hvorki í vatni né á landi, fundust í nágrenni Hamarseyjar. Því nafni svipar óneitanlega til fyrirtækjanafna og ekki ólíklegt að slík hugsun hafi legið þar að baki en nefndin heimilar ekki bæjaheiti sem augljóslega eru hrein og klár fyrirtækjanöfn og ekki unnt að finna í þeim neina skírskotun til staðhátta, sbr. umfjöllun í 3. kafla. Af slíkum toga eru nöfnin Áning, en þar er rekin ferðaþjónusta, og Barkarstaðaskógur en eigendur óskuðu nafnbreytingar úr Barkarstaðasel til samræmis við nafn þess fyrirtækis sem stóð í umfangsmikilli skógrækt á landinu.4
Stormur þótti hvorki vísa til staðhátta né afmarkaðs kennileitis heldur til hverfuls veðurfyrirbrigðis og var því ekki samþykkt sem bæjarheiti.
Örnefnanefnd taldi að heitið Ylfingur gæti ekki talist líkingarnafn kennileitis við dýrið ylfing á sama hátt og t.d. bæjanöfnin Hestur og Göltur en dýrsheiti eru algeng sem nafnliður í íslenskum bæjanöfnum og vísa þá jafnan til kennileitis sem tengist eða minnir á sköpulag viðkomandi dýrs (sbr. Þórhall Vilmundarson 1983:82-83). Frekari rök gegn nafninu voru að engin hefð væri heldur fyrir „afkvæmaheitum“ dregnum af bæjarnafni þeirrar jarðar sem byggt er úr sem í þessu tilviki var jörðin Syðri-Úlfsstaðir, auk þess að líklegt væri að þar lægi að baki mannsnafnið Úlfur fremur en dýrið úlfur.
4.3 Lokaorð
Athyglisvert er að engin nafntillagnanna sem örnefnanefnd bárust á títtnefndu tímabili sækir til goðafræðinnar eða hefur að fyrirmynd nöfn á fornfrægum eða landskunnum höfuðbólum en í leiðbeiningum örnefnanefndar frá árinu 1951 um val nýrra bæjanafna er sérstaklega tekið fram að slík nöfn séu ekki leyfð (sbr. Þórhall Vilmundarson 1980:28). Dæmi um nöfn af þeim toga væru Baldursheimur, Fensalir, Lögberg og Keldur. Þetta segir eflaust sitt um breytt samfélag og hugsunarhátt: Goðafræðin og sagan eru mönnum líklega ekki eins nærtæk og fyrrum og ekki sá sjóður sem sótt er í við nýmyndun nafna nú á dögum.
Í sömu leiðbeiningum er einnig amast við því sem kallað er „tilgerðarleg nöfn“ og þau ekki heimiluð. Nú er það að vísu huglægt hvað telst tilgerðarlegt og eflaust líka misjafnt eftir tímum. Skrúður og Aðalból voru nefnd sem dæmi um tilgerðarleg nöfn 1951. Aðalbóli var að vísu hafnað sem nafni af núverandi nefnd en á sögulegum forsendum, eins og greint hefur verið frá. Þótt nöfnunum með demant, gulli og draumum sem forlið hafi verið hafnað með þeim rökum að ekki væri venja að kenna nöfn bæja við eðalsteina, góðmálma og huglægt ástand mætti allt eins fella þau undir flokk „tilgerðarlegra nafna“ eins og sá flokkur horfir við örnefnanefnd nú á tímum. Hugsanlega eiga nafntillögur af þessu tagi eftir að sækja á og smekkur manna í þeim efnum, jafnvel nefndarmanna í örnefnanefnd, að breytast í framtíðinni. En íhaldssöm nefnd eins og örnefnanefnd hlýtur samt alltaf á hverjum tíma að halda fram hefðinni og sporna gegn of róttækum nýjungum í nafnavali.
Heimildir
- Ari Páll Kristinsson. 2010. Um íslenska örnefnastýringu. Orð og tunga 12:1–23.
- Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Finnur Jónsson. 1907–1915. Bæjanöfn á Íslandi. Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta IV. Hið íslenzka bókmenntafélag, Kaupmannahöfn.
- Janzén, Assar. 1947. De fornvästnordiska personnamnen. Assar Janzén (ritstj.): Personnnavne, bls. 22–186. Nordisk kultur VII. Albert Bonniers förlag, Stockholm.
- Lög, nr. 21/1990, um lögheimili.
- Lög, nr. 35/1953, um bæjanöfn o.fl., með síðari breytingum.
- Reglugerð, nr. 136/1999, um störf örnefnanefndar.
- Þórhallur Vilmundarson. 1980. Nýnefni og örnefnavernd á Íslandi. Grímnir 1:24–36.
- Þórhallur Vilmundarson. 1983. Safn til íslenzkrar örnefnabókar 2. Grímnir 2:51–144.
Aftanmálsgreinar
- Ég gegndi formennsku í örnefnanefnd frá 20. febrúar 2007 til 20. febrúar 2011.
- Hér má því við bæta að tvær tilkynningar áttu eftir að berast nefndinni á árinu 2009, svo alls urðu þær 35, en á árinu 2010 bárust nefndinni einungis 19 tilkynningar.
- Nafnið gæti að sjálfsögðu einnig verið dregið af örnefni í landinu, þar væri ás sem kallaðist Austurás.
- Síðar var þetta nafn reyndar samþykkt en þá hafði skráningu verið breytt úr nafnbreytingu í nýbýlisskráningu á spildu úr Barkarstaðaseli og því ekki lengur um að ræða að gamalgróið býlisheiti væri aflagt.
Þóra Björk Hjartardóttir
Íslensku- og menningardeild
Háskóla Íslands
Árnagarði við Suðurgötu
ÍS-101 Reykjavík, ÍSLAND
thorah@hi.is
Síðast breytt 24. október 2023