Skip to main content

Pistlar

Gríður, Jón Dýri og Íhalds-Majórinn. Um nafngiftir dráttarvéla

Það breyttist margt í sveitum með tilkomu dráttarvélanna, eða traktoranna eins og flestar þeirra voru kallaðar fram á styrjaldarárin síðari. Framandi veröld blasti við fólki þegar þessi háværu flykki tóku að krafla sig áfram um torfært land þar sem áður höfðu aðeins tiplað hljóðlátir en fótvissir hestar með byrðar sínar eða drögur. Nýjungin hlaut að kalla margt fram í huga fólks og samræðum, bæði þannig að eldri viðhorf og hefðir færðust yfir á nýjungina og með því að nýir siðir urðu til. Þessi mæri gamla og nýja tímans urðu um margt merkileg. Ýmsar hliðar þeirra hafa varðveist í sögum og munnmælum, sem fæst, að því er virðist ennþá, hafa fengið sérstakan gaum í skráningu né heldur rannsóknum. Skrifarinn hefur lagt sig lítillega eftir þessum fróðleik, m.a. sem lið í því starfi hans að vera ábyrgðarmaður Búvélasafnsins á Hvanneyri. Það er nú einu sinni svo að safngripir, t.d. gömul búvél ellegar verkfæri, eru miklum mun verðmætari í augum flestra safngesta fylgi gripunum saga, og sagan þarf helst að vera persónutengd. Þá er líkt og gripirnir öðlist eigið líf. Í nokkru gamni má gefa þessum fræðum heitið búvéla-þjóðfræði.1

Einn angi búvéla-þjóðfræðinnar eru nafngiftir ýmissa véla, einkum dráttarvéla og annarra stærri verkfæra. Nú er það svo að allar slíkar vélar bera sín verksmiðjuheiti og auðkenni þeim tengd. Hins vegar hefur hér og hvar skotið upp þeirri venju að gefa þessum tækjum staðbundin nöfn, oft eins konar gælunöfn. Má því velta fyrir sér fáeinum spurningum í því efni, m.a.:

  • hvað vakti þennan sið?
  • hverjar eru ástæður nafngiftanna?
  • hvers konar nöfn er hér um að ræða?

Um nokkurt skeið hefur skrifarinn haldið uppi spurnum um nafngiftir búvéla og safnað dæmum um þær. Fráleitt hefur það þó verið gert svo kerfisbundið að kalla megi rannsókn. Það sem safnast hefur gefur þó efni til dálítillar samantektar í því skyni tvennu að vekja athygli á viðfangsefninu og að hvetja hugsanlega heimildarmenn til þess að láta frá sér heyra.

Hví að gefa vélum (gælu)nöfn?
Nærtæk skýring gæti verið sá siður sem viðgengist hefur um langan aldur varðandi nafngiftir báta og skipa. Lúðvík Kristjánsson gerði grein fyrir honum í ritverki sínu um íslenska sjávarhætti.2 Svavar Sigmundsson hefur einnig rannsakað siðinn og gert grein fyrir honum hvað varðar einnig skipanöfn á nútíma.3 Má hjá honum sjá nokkra samsvörun við dráttarvélaheitin, eins og nánar verður komið að.

Nöfn á búfé; hestum, nautgripum og sauðfé, svo og hundum, er hluti af búmenningu þjóðarinnar sem enn lifir góðu lífi. Nöfn metfjár, t.d. góðhesta, festust í vitund samtímans og báru frægð gripanna víða og lengi. Nefna má Hrímfaxa, Freyfaxa, Kinnskæ og Kengálu, auk Sáms Gunnars á Hlíðarenda. Nú urðu dráttarvélarnar víða til þess að taka við hlutverki hestanna. Vel kann það að vera ein ástæðan fyrir því að nafngiftasiðurinn hafi færst yfir á arftaka þarfasta þjónsins.

Ástæður nafngiftanna?
Megi marka dæmi um nöfn, sem þegar hafa safnast, virðast ástæðurnar einkum geta verið þrenns konar:

Í fyrsta lagi vegna sérkenna og sérstöðu dráttarvélanna. Líklega átti þetta einna helst við á fyrstu árum dráttarvélanna, á meðan vélarnar voru enn fáar og í gerð sinni og vinnubrögðum svo óralangt frá reynsluheimi alls þorra fólks. Nafngiftin var þá með sínum hætti til þess að undirstrika þau firn, sem á ferð voru, og þá undrun er þau vöktu. Dæmi um slíkt nafn er t.d. Gríður, sem fyrsta dráttarvélin, er til landsins kom, hlaut árið 1918.4 Er frá leið varð hún þó þekktari sem Akraness-traktorinn. Ekki má heldur gleyma því að nöfn sumra vélanna (erlendu verksmiðjuheitin) voru ekki beint þjál í munni forfeðra okkar.

Í öðru lagi sýnist ástæða nafngifta geta verið aðferð til þess að greina að dráttarvélarnar á bænum, þegar þær voru orðnar tvær eða fleiri, og jafnvel til þess að greina að dráttarvélar sömu tegundar í sama byggðarlagi. Dæmi um þetta gætu verið nöfn eins og Nýi-Gráni, Hvamms-Gráni, Litli-Rauður og Hóla-Farmallinn. Nöfnin eru sýnilega gefin á hliðstæðan hátt og hestanöfn.

Í þriðja lagi virðist mega rekja nafngiftaástæður til góðlegrar sveitarkímni, sem gjarnan var tengd staðbundnum sögnum, atvikum eða einstaklingum. Þetta er alþekkt útrásarleið löngunar manna, ekki síst í dreifðum byggðum, að hafa nokkra skemmtan af hinu daglega amstri, stundum einnig angi af eðlislægum og saklausum metnaði. Dæmi um slík nöfn eru Íhalds-Majórinn, Gulltönn, Fjárplógur og Mublan (lesendum skal látið eftir að geta sér til um það sem lá á bak við þessi nöfn!).

Eðli nafnanna?
Nafnasafnið sem þegar er orðið til sýnir býsna mikið fjölskrúð, þótt telji aðeins nokkra tugi. Enn er ótímabært að hefja fullnaðarflokkun nafnanna. Hins vegar má gera tilraun til þess að raða þeim saman í nokkra flokka lesendum til frekari glöggvunar:

a. Nöfn sem tengja saman tíma hesta og véla, svo sem Rauður, eða Gamli-Rauður (Farmall A) og Gráni gamli (Ferguson). Algeng nöfn áður fyrr að því er virðist.

b. Nöfn sem eru stytting úr tegundarheiti vélanna, svo sem Nalli (International), Feggi (Ferguson), Kubbur (Farmall Cub), Kata (Caterpillar), Massi (MF) og Keisi (Case). Frumlegt má telja nafnið Silla, sem var viðsnúningur fyrri hluta hins erlenda heitis dráttarvélanna (Allis Chalmers) er ruddu „heimilisdráttarvélunum“ braut hérlendis árið 1944. Örnefnið Ómagaskúr er til á bæ í Árnessýslu, kennt við Hanomag-dráttarvél,5 þ.e. að notaðir eru öftustu stafir vélarheitsins! Sennilega eru heiti, sem fella má undir þennan flokk, algengustu dráttarvélanöfnin.

c. Nöfn sem eru eins konar blanda hljóðgervingar og íslenskunar tegundarheita, svo sem Jón Dýri (John Deere), Sámur (Same), Jósep (JCB), Gemsi (GMC). Dæmi eru líka um að eftirlíking mótorhljóða dráttarvélar hafi skapað henni viðurnefni, sbr. dráttarvélina Lemm-lemm vestur í Reykhólasveit, með díselvél þýskrar gerðar. Heimildarmann minnir að eins-sýlinders Deutz, er hann þekkti, hafi stundum verið nefndur Bankarinn. Ungur bóndasonur í Borgarfirði líkti eftir hljóði dráttarvélar sem á bæinn kom: „runn- runn…“, og auðvitað fékk vélin nafnið Runólfur.

d. Nöfn dregin af nöfnum vætta og ása, t.d. Ásaþór, er var merkileg jarðýta í Vestur-Barðastrandarsýslu,6 og áður nefnd Gríður, fyrsti traktorinn sem til Íslands kom árið 1918. Í þessum flokki er líka heitið Surtur er eyfirskur jarðvinnslutraktor bar. Þorgeirsboli var vél kölluð er sömu verkefnum sinnti í Suður-Þingeyjarsýslu.

e. Nöfn dregin af þekktum persónum, sem gjarnan tengjast viðkomandi dráttarvél með einum eða öðrum hætti: Davíð var dráttarvél sem bóndi í Kjós keypti af Reykjavíkurborg í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar. Jakobína var jarðýta vestur á Fjörðum er fékk nafn baráttukonu sem lagði lið við útvegun hennar og Ingólfur var dráttarvél í Dýrafirði, úr hópi IH-dráttarvéla sem Ingólfur Jónsson þáv. landbúnaðarráðherra hlutaðist til um að keyptar voru frá Bretlandi, íslenskum bændum til sparnaðar. Vestur á Mýrum hefur verið til sovéska ýtan Raísa.

f. Nöfn dregin af uppruna vélarinnar, innlendum eða erlendum: Kroppur var dráttarvél keypt frá Kroppi, Landi var hins vegar keyptur úr Landssveit, en dráttarvélin Loftur var keypt í Þingeyjarsýslu.

g. Nöfn sem eru tengd einstökum atvikum, eða aðstæðum, gjarnan kímilegum: Íhalds-Majórinn var dráttarvél af gerðinni Fordson-Major í eigu austfirsks bónda sem ekki var vinstri maður en það skapaði honum nokkra sérstöðu í byggðarlaginu. Mublan var hins vegar dráttarvél sem sunnlenskur bóndi veitti sér sem afmælisgjöf sjötugum. Baunin var svo nafn er smávaxin Bautz-dráttarvél norður á Ströndum hlaut sakir smæðar sinnar samanborið við dráttarvélar á næstu bæjum.

Sjaldnast eru heimildir um nöfnin annað en munnmæli og lauslegar sögusagnir. Dæmi eru þó um ritaðar heimildir, til að mynda um eitt fyrsta og þekktasta íslenska dráttarvélaheitið, Þúfnabani. Það voru, sem kunnugt er, risavélar til jarðvinnslu, er fyrst komu sumarið 1921, smíðaðar hjá Heinrich Lanz í Mannheim. Sigurður Egilsson frá Laxamýri var annar tveggja fyrstu ökumanna hans hérlendis. Hann var í blaðaviðtali spurður um hver gefið hefði nafnið; hann svaraði:7

Þegar ég vann við vélina í Reykjavík, borðaði ég á matsöluhúsi þar, er kallað var Hússtjórn (hjá Hólmfríði Gísladóttur). Margir keyptu þar fæði tíma og tíma (t.d. svokallaðir grasekkjumenn). Voru þarna ýmis gamanmál uppi höfð og fjörugar borðræður. Meðal annara, sem þar borðuðu nokkuð lengi, var Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi. Mun hann fyrstur hafa tekið upp á því að kalla mig Sigurð Þúfnabana þar við borðið. En mér tókst að smokra nafninu af mér yfir á vélina.

Skemmtilegt dæmi um það hvernig gælunöfn geta sprottið fram og borist áfram. Sennilega mundum við setja Þúfnabana-nafnið í e-flokk hér að framan. Án þess bornar séu brigður á frásögn Sigurðar má geta þess að einungis örfáum dögum eftir komuna til landsins virðist jarðvinnsluvél þessi hafa búin að fá nafnið Þúfnabani, ef marka má blaðafregnir.8

Nafnið Þúfnabani er fremur samnafn en sérnafn, notað yfir eina og áðurnefnda gerð landbúnaðarvéla. Skrifaranum virðist hins vegar sem nafnið sé nú á tungu flestra að færast yfir á allar dráttarvélar á járnhjólum. Ástæðan fyrir því er líka athugunarefni.

Siður á undanhaldi?
Tilfinning skrifarans er sú að heldur sé sá siður að gefa dráttarvélum nöfn eða auknefni á undanhaldi. Einnig virðist vera um töluverðan héraðamun að ræða. Til virðast vera þau byggðarlög þar sem nafngiftasiðurinn er nær eða með öllu óþekktur. Gagnasafnið er þó enn alltof takmarkað til þess að á því megi byggja almennar kenningar þar um. Erlendar heimildir um nafngiftasiðinn eru enn fáar. Þó mun siðurinn a.m.k. hafa verið þekktur í Noregi.
Þótt hér hafi nær eingöngu verið fjallað um nafngiftir dráttarvéla og stærri vinnutækja til sveita má minna á að ýmis önnur vinnutæki hafa hlotið nöfn. Má þar t.d. minna á götuvaltann Bríeti, kolakranann Hegra, gámalyftuna Jaka og jarðborinn Jötunn. Fjöldi bifreiða, m.a. langferðabifreiðar (t.d. Soffía I-III) og snjóbílar (t.d. Bangsi), hafa fengið nafn með hliðstæðum hætti og hugsanlega af sambærilegum ástæðum og dráttarvélarnar. Keppnisbílar torfærumanna virðast yfirleitt bera nöfn (t.d. Heimasætan). Loks má minna á einkanúmer bifreiða sem nú hafa rutt sér til rúms og eru oftar en ekki nöfn af einhverju tagi (t.d. Amma, Erpur). Með sínum hætti eru þetta sennilega angar af sömu nafnfræðinni og þannig hluti af þjóðmenningu okkar sem rétt er að safna, greina og rannsaka. Það getur varpað viðbótarljósi á sögu okkar og menningu. 

Höfundur er þakklátur þeim Svavari Sigmundssyni og Jónínu Hafsteinsdóttur hjá Örnefnastofnun Íslands fyrir yfirlestur greinarinnar og verðmætar ábendingar um efni hennar, lagfæringar og viðbætur.
Höfundur þiggur allar ábendingar um dráttarvéla- og landbúnaðartækjanöfn ásamt viðeigandi skýringum með þökkum. Bent er á netfangið bjarnig@hvanneyri.is, og talsímann 437 0000.

Aftanmálsgreinar

1. Í ljósi ríkjandi alþjóðahyggju má enska heitið með ögn einfölduðum hætti: Folklore on Agricultural machinery, skammstafað FOAM. Mega hvert þriggja kallast vinnuheiti!

2. Lúðvík Kristjánsson. Íslenskir sjávarhættir II 1982, bls. 237–239.

3. Svavar Sigmundsson. „Hvernig skal kenna skip?“ (viðtal). Mbl., B5, 16. maí 2001.

4. Ásmundur Ólafsson. „Fjalla-Gríður fékk svo mælt...“ Mbl. Lesbók, 1. apríl 2000.

5 Svavar Sigmundsson. Í bréfi til höfundar 28.2.2003.

6. Ari Ívarsson. Vélvæðing í Rauðasandshreppi og nágrenni. Handrit í vörslu Búvélasafnsins, 16 bls. 1999.

7. Karl Kristjánsson. Sigurður Egilsson frá Laxamýri. Heima er bezt. 17. árg. nóv. 1967, bls. 391.

8. Kristinn Snæland. Bílar á Íslandi í myndum og máli 1904–1922, bls. 90.

Birt þann 22. janúar 2019
Síðast breytt 24. október 2023