Skip to main content

Pistlar

Frásagnir af gælunöfnum

Byggt á fyrirlestri í Nafnfræðifélaginu 19. febrúar 2005

Inngangur
Þegar ég byrjaði að rannsaka íslensk gælunöfn fyrir nokkrum árum var áhugi minn aðallega málfræðilegur. Upprunalegi tilgangurinn með að safna skýringum á tilurð gælunafna var að vita af hvaða stofnum gælunöfnin væru dregin enda ekki alltaf eiginnafn sem liggur að baki.

Gælunöfn eru þó ekki síður félagsfræðilegt fyrirbæri en málfræðilegt. Skýringar eru líka frásagnir (sbr. Linde 1993). Þær eiga margt sameiginlegt með þjóðsögnum og hafa ýmislegt að segja um heimsmynd sögumanns og það samfélag sem hann lifir í.

Efni þessa erindis eru skýringar sem fylgja gælunöfnum og orðræðan í slíkum frásögnum. Aðallega verður fjallað um nafnstyttingar en einnig verður minnst á uppnefni og viðurnefni enda eru mörkin á milli flokkanna oft óskýr.

1. Gögnin
Þær frásagnir sem hér verða ræddar eru sóttar í svör við aukaspurningu sem var dreift með spurningalista nr. 100 frá Þjóðháttadeild Þjóðminjasafns haustið 2000 (http://www.natmus.is/thjodminjar/thjodhaettir/spurningalistar/nr/141). Ætla má að um 350 manns hafi fengið aukaspurninguna, sem þar að auki er aðgengileg á netinu. Tæp 140 svör bárust á Þjóðminjasafn en þau innihalda samtals um 1400 mismunandi gælunöfn. Í kjölfar viðtals við undirritaða, sem birtist í Morgunblaðinu 31. ágúst 2001 og síðan í íslensk-kanadíska blaðinu Lögbergi-Heimskringlu, bárust nokkur svör í viðbót, þ.á m. frá Vestur-Íslendingum.

Svörin eru með mjög mismunandi sniði. Sum eru stutt, önnur löng og ítarleg. Sumir heimildarmenn senda eigin málfræðilegar greiningar á gælunafnamyndun í íslensku eða langa lista yfir nöfn. Kristinn Pálsson fyrrverandi kennari á Blönduósi sendi lista yfir um 950 gælunöfn sem hann hefur safnað (m.a. úr minningargreinum í Morgunblaðinu) í áratugi.

Þar sem svarendur eru sjálfboðaliðar en ekki slembiúrtak þjóðarinnar er ekki hentugt að beita tölfræðilegum aðferðum á svörin. Ég geri einnig ráð fyrir að það sem mönnum hefur fundist frásagnarvert sé oft það sem er afbrigðilegt eða einkennilegt. Það er því í eðli aðferðarinnar að ég muni ekki fá dæmi um nöfn á borð við Sigga og Magga í samræmi við tíðni þessara nafna.

Ég lít á svörin sem frásagnir af persónulegri reynslu (e. personal experience narratives). Ég geri ekki endilega ráð fyrir að þau endurspegli hinn endanlega sannleika um uppruna og notkun nafnanna.

2. Flokkun nafna
Í íslensku eru ýmis orð fyrir mismunandi tegundir af óopinberum mannanöfnum, t.d. gælunafn, stuttnefni, uppnefni og viðurnefni. Þó er notkun þessara orða mjög misjöfn eftir mönnum. Margir nota viðurnefni eða uppnefni um niðrandi nöfn óháð því hvort þau eru notuð ásamt eiginnafni eða í stað þess en gælunafn um óopinber nöfn sem hafa jákvæðan keim. Undirrituð greinir á milli stuttnefna sem eru leidd af eiginnafni (t.d. Siggi: Sigurður), uppnefna sem eru leidd af öðrum stofni og notuð í staðinn fyrir eiginnafn (t.d. ef Þorsteinn er kallaður Skrani) og viðurnefna sem er bætt aftan við eiginnafn eða stuttnefni (t.d. ef sami Þorsteinn væri kallaður Þorsteinn skrani eða Steini skrani). Uppnefni hafa yfirleitt neikvætt gildi. Hugtakið gælunafn nær yfir stuttnefni og nöfn sem eru leidd af öðrum stofnum en eiginnöfnum en sem eru talin hafa almenna tilvísun og jákvætt eða hlutlaust tilfinningagildi (t.d. Stella, Lóa). Slík gælunöfn eru oftast notuð innan fjölskyldunnar eða ættarinnar meðan uppnefni verða gjarnan til meðal skóla- eða vinnufélaga.

Þótt hugtökin séu skilgreind hverju sinni eru mörkin á milli þeirra samt loðin. Nafn getur færst úr einum flokki í annan með því að notkun þess breytist. Viðurnefni getur orðið að uppnefni ef eiginnafninu er sleppt. Uppnefni getur breyst í gælunafn ef viðhorf nafnbera til þess verður jákvætt. Sama nafn getur haft jákvætt eða neikvætt gildi eftir samhengi (sbr. Jurafsky 1996 um margræða merkingu smækkunarorða almennt) og túlkun þess getur breyst með tímanum.

Strákur sem ég var með í skóla var alltaf kallaður Skrani, það byrjaði sem viðurnefni því hann var alltaf með allskonar dót eins og skrúfur og skrúfjárn í vösunum og safnaði ónýtum tækjum og gerði þau upp. Hann hét Þorsteinn og fannst sjálfum svo flott að vera kallaður Skrani að hann notaði það sjálfur og vildi það frekar en að vera kallaður Þorsteinn, svo eftir smá tíma festist þetta við hann og hann var aldrei kallaður annað en Skrani, ég held nú samt að hann noti þetta viðurnefni ekki lengur (ÞÞ 13729).

Í nokkrum tilvikum er óljóst hvort tengsl eru milli gælunafns og eiginnafns eða hvort það er dregið af allt öðrum stofni. Í viðtali í Morgunblaðinu (Sveinn Guðjónsson 2001) hélt ég því fram að gælunafnið Denni væri dregið af Steingrímur með einföldun samhljóðaklasans (st > d), lengingu samhljóðs í innstöðu (n > nn) og þarafleiðandi einföldun á tvíhljóðinu (ei > e). Í kjölfar þess barst skeyti sem hafði að geyma aðra skýringu á þessu nafni: það væri ekki leitt af eiginnafni heldur skírskotun til þekktrar teiknimyndasögupersónu.

Ég var að lesa viðtal við þig í Morgunblaðinu, þar sem minnst var á gælunafnið Denni, dregið af Steingrímur. Ég hef alltaf haft fyrir satt að það hafi bara einn maður gengið undir þessu nafni, nefnilega Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi Seðlabankastjóri og formaður Framsóknarflokksins. Sá flokkur gaf út dagblaðið Tímann. Þegar SH var að hefja sinn frægðarferil var ein helsta skrautfjöður þess blaðs skopmyndasyrpan sem á ensku heitir Dennis the Menace, upp á íslensku: Denni dæmalausi. Sá var ekki ólíkur nafna sínum í útliti og jafnvel uppátækjum líka. Svo má vel vera að Denni hafi verið kallaður Denni frá barnæsku. Um það væri hann sjálfur traustust heimild, en þetta held ég að sé hin viðtekna alþýðuskýring (ÞÞ 14226).

Það eru mörg tilvik þar sem í frásögn af sama gælunafni er bæði minnst á merkingu, hugrenningatengsl eða skírskotun og einnig á hljóðkerfisfræðileg tengsl. Undirrituð þekkir til annars Steingríms sem er kallaður Denni en veit ekki hvort hann hefur fengið gælunafnið "að láni" frá Steingrími Hermannssyni.

3. Skýringar á viðurnefnum
Í spurningalistanum sem var notaður við gagnaöflun hefur sérstaklega verið beðið um sögur af nafnstyttingum. Samt hafa svörin líka að geyma um 300 viðurnefni. Þetta kann að tengjast því að frásagnir af viðurnefnum eru margvíslegri heldur en af stuttnefnum eða gælunöfnum og e.t.v. sterkari hefð fyrir að segja þær.

Viðurnefni hafa mjög oft í för með sér skýringarsögur þótt uppruni nafnanna sé gleymdur í mörgum tilvikum. Í frásögnum af viðurnefnum og gælunöfnum úr nútímamáli kemur í ljós að menn eru oft óvissir eða ósammála um uppruna nafnanna. Skýringar koma stundum eftir á. Þar að auki eru öfugmæli, orðaleikir og jafnvel fjöltyngdir orðaleikir algengir í slíkum skýringum.

Hale (1981) fjallar um uppruna ýmissa viðurnefna eftir heimildum sem hann telur áreiðanlegar en hann fjallar ekki um formgerð skýringanna sem frásagna. Þar má greina ýmis einkenni sem endurspegla viðhorf sögumanns til nafnsins. Sem dæmi verða hér teknar tvær (tiltölulega meinlausar) skýringar á viðurnefnum.

Sigurður Guðmundsson á Ísafirði átti eitt sinn von á skyrtunnu innan úr Djúpi og þegar Djúpbáturinn lagðist að bryggju var ákafinn svo mikill að hann stökk um borð og ofan á tunnuna og þar á kaf. Alltaf síðan kallaður Siggi “skyrlöpp” (ÞÞ 13710).

Í þessari sögu er viðurnefnið samsetning sem er fremur torræð fyrir þá sem þekkja ekki söguna. Uppbygging frásagnarinnar er dæmigerð fyrir viðurnefnaskýringar. Nafnberi er fyrst nefndur fullu eiginnafni og föðurnafni og er þar að auki kenndur við staðinn þar sem hann bjó: slík auðkenni eiga e.t.v. að sýna að þetta er "raunverulegur" maður og gera söguna meira sannfærandi. Síðustu orðin í frásögninni eru óopinbert heiti sem samanstendur af stuttnefni og viðurnefni. (Hér sést dæmi um það að mismunandi flokkar óopinberra nafna vinna saman; viðurnefni er oft notað með stuttnefni frekar en fullu eiginnafni.) Slík uppbygging þar sem nöfnin mynda ramma utan um frásögnina endurspeglar þá "ummyndun" eða hamskipti sem eiga sér stað þegar “Sigurður Guðmundsson á Ísafirði” verður “Siggi skyrlöpp”.

Önnur formgerð sem er dæmigerð fyrir slíkar frásagnir er að viðurnefnið (eða gælunafnið) er fyrst nefnt en síðan útskýrt, eins og ráðgáta. Í eftirfarandi frásögn endurspeglar þessi uppbygging reynslu sögumannsins þegar hann komst í kynni við nafnið. Hann hefur fyrst heyrt nafnið og undrast það. Hann hefur getið sér til um ástæðu þess eða merkingu en reynst hafa rangt fyrir sér enda var viðurnefnið á allt öðru tungumáli heldur en hann hélt, ensku frekar en kínversku.

Annað dæmi, líka frá Siglufirði, var um mann sem vegna ákveðins atburðar fékk óvænt austurlenska ættarnafnið Li Wong! Þessi maður heitir Jónas og er alltaf talað um Jónas Li Wong. Hins vegar hefur enginn skrifað nafnið svo það er meira bara til í talmáli þó bróðir minn hafi fyrst haldið að hann ætti ættir sínar að rekja til Austurlanda. Sá atburður sem varð þess valdandi að Jónas fékk þetta göfuga austurlenska ættarnafn var sá að Jónas var að vinna við gerð Strákaganga þegar risagrjót féll á höfuð hans. Allir töldu Jónas dauðan en svo var ekki. Hann lifði þetta slys af og var fyrst á eftir talað um Jónas live long eða Jónas lifðu lengi! Síðan afbakaðist live long í lívong eða Li Wong eins og bróðir minn hélt að það væri skrifað og skyldi engan undra (ÞÞ 13730).

Hér kemur fram annað sem er dæmigert fyrir sögur af gælunöfnum, uppnefnum og viðurnefnum. Eftir að hafa kynnt nafnið segir sögumaður frá "alþýðuskýringu" á viðurnefninu sem reynist þó ekki vera rétt. Loksins kemur frásögn sem “leysir gátuna” og gefur hina réttu túlkun á nafninu. Að vissu leyti tengist nafninu ákveðin tvíræðni eða hæðni, að því leyti að Jónas fær viðurnefnið “lifi lengi” í kjölfar slyss þar sem menn héldu að hann hefði farist.

4. Gælunöfn úr barnamáli
Það er mjög algeng skýring á gælunöfnum (einkum þeim sem virðast leidd af eiginnafni en með óreglulegum hætti) að þau hafi orðið til við tilraun barns (nafnbera, systkinis eða leikfélaga) til að bera fram eiginnafn eða hefðbundið stuttnefni. Hér eru tvö af rúmum 20 dæmum af þessu tagi í svörunum.

Unnur Ragna Benediktsdóttir, fékk gælunafn, þegar ég var árs gömul, móðir mín sagði mér að þegar ég átti að segja Ragna þá varð úr því Agga (ÞÞ 13649).

Skólasystir mín heitir Sigfríður Margrét en þótti þetta erfitt í framburði og hefur verið kölluð Dísý síðan (ÞÞ 13721).

Ég efast ekki um að framburður barna sé hin “rétta” skýring á mörgum gælunöfnum. Gælunöfn hafa einnig mörg málfræðileg einkenni sem minna á barnamál og það málsnið sem er notað þegar talað er við börn. Hins vegar eru slíkar skýringar stundum nefndar í tilvikum þar sem heimildarmaður tekur fram að hann muni ekki eftir því hvernig gælunafnið varð til heldur endurspegli skýringin ályktun hans. Til dæmis skrifar einn heimildarmaður um gælunafn ömmu sinnar:

Amma mín sem hét Guðrún var alltaf kölluð "Gúna". Ég veit ekki hvernig þetta gælunafn kom til en ekki er ólíklegt að það sé svipaðrar ættar og Bummi [tilraun barns til að segja Guðmundur eða Gummi] (ÞÞ 13717).

Annar heimildarmaður greinir nákvæmlega frá því hvernig hann tengist aðilum að ferli sem hann hefur greinilega ekki verið vitni að.

Systir tengdamóður minnar var kölluð Bebba alla sína ævi af skyldmennum. Hún hét Stefanía en systir hennar, tengdamóðir mín, sem var 4 árum yngri gat ekki sagt Stebba þegar hún var lítil og út kom Bebba (ÞÞ 13730).

Kona sem heitir Þórhildur og er kölluð hinu hefðbundna gælunafni Tóta nefnir líka framburðarerfiðleika systkina. Hún fullyrðir þó ekki að systkinin hafi fundið upp nafnið heldur bara að þau hafi notað það.

Ég á mörg systkin sem eflaust hefur þótt erfitt að segja Þórhildur (ÞÞ 13729).

Að minnsta kosti ein heimildarkonan gerir sér grein fyrir því að barnamálsskýringin á gælunöfnum er hefðbundin sem saga.

Oft fylgir saga gælunafni um að það hefði orðið til vegna þess að eldra systkin, eða það sjálft, hefði afbakað nafnið, t.d. Dódí (Þórdís), Dundun (Guðrún), Gúgú (Guðrún), Laulau (Guðlaug), þ.e. framburðartilraunir (ÞÞ 13753).

Við getum ekki vitað hvort skýringin er rétt í ákveðnu tilviki né hvort heimildarmaður sem nefnir hana man í raun eftir því hvernig nafnið varð til.

Sumir útvíkka barnamálsskýringu til tilrauna barna til að bera fram önnur orð. Til dæmis er gælunafnið Muni sagt vera komið til af tilraun barns til að segja “vinur minn”.

Maður um sextugt á Sauðárkróki heitir Sigurgeir og er alltaf kallaður "Muni", þetta gælunafn er þannig til komið að hann á systir sem er lítið eitt eldri og þegar þau voru smábörn var hún alltaf svo góð við hann og sagði alltaf "vinur minn" við hann, en hún var ekki betur talandi en það að þetta hljómaði eins og "muni minn" og þetta nafn festist við hann og er notað af öllum, bæði þegar talað er við hann og um hann (ÞÞ 13723).

Einn heimildarmaðurinn segir frá kenningu sinni um að gælunafn systur hans tengist framburði hennar ungrar á orðinu kartöflur. Hins vegar man hvorki hann né móðir hans glöggt eftir því hvernig nafnið hefur orðið til.

Systir mín heitir Svanhildur. Hún var í æsku nefnd Dadda eða Daddalá, og Döddunafnið hefur iðulega verið notað af foreldrum okkar. Ég hef lengi haft þá hugmynd að nafnið, í báðum þessum formum, hafi komið af tilraunum hennar barnungrar til að kveða að orðinu “kartöflur”. Móðir mín segir það ekki ósennilegt, en getur ekki staðfest það með svo mikilli vissu að verjandi sé að byggja á því vísindalegar niðurstöður. Hvað Döddunafnið snertir segir hún alveg eins líklegt að það sé bara dæmigert babl sem tekið er til nafnnýtingar, en “Daddalá” kunni að hafa haft eitthvað með kartöflur að gera. Ég er þeirrar skoðunar að orðið kartafla, í eintölu eða fleirtölu, sé nokkuð merkilegt orð í þessu samhengi. Jarðargróði þessi er óhjákvæmilegt umræðuefni á heimilum í návist barna og litlum börnum erfiður tungubrjótur, enda kemur ýmislegt út þegar þau reyna að nefna hann. Væri gaman að vita hvort unnt sé að sýna fram á gælunöfn af þessu dregin (ÞÞ 13719).

Af þessu dæmi sést einnig að fjölskyldumeðlimum ber ekki alltaf saman um uppruna gælunafns. Menn muna ekki endilega eftir því hvernig það varð til heldur búa til skýringar eftir á. Það eru fleiri dæmi þar sem fyrir hendi eru bæði skýring sem tengist barnamáli og önnur, e.t.v. tengd erlendu tungumáli. Hálfnorskur afi er t.d. sagður hafa borið fram sybbinn sem bibbinn en þetta fætt af sér gælunafnið Bibbi (ÞÞ 13744). Bibbi sýnir fleiri einkenni barnamáls en norsku en e.t.v. er gefið í skyn að munurinn sé lítill.

Undirritaður Sighvatur hefur frá bernsku verið kallaður "Bibbi" svo gáfulegt sem það nú er. Mér er sagt að þetta hafi byrjað þannig að eins og títt er um hvítvoðunga hafi ég verið syfjaður, eða "sybbinn" eins og einhverjir hafi orðað það, fyrstu mánuðina. Móðurafi minn sem var hálfnorskur hafi hinsvegar alltaf sagt drengurinn væri ósköp "bibbinn". Hvort þetta getur nú talist gáfuleg skýring verður hver að hafa fyrir sig, en Bibbi hef ég verið kallaður í fjölskyldunni og af vinum frá því ég man eftir mér og er enn - kominn á fimmtugsaldur (ÞÞ 13744).

Það er einnig eftirtektarvert að heimildarmaður sem skrifar um Döddu-nafnið virðist hafa rætt málið við móður sína en ekki við Svanhildi sjálfa. Sami maður spurði móður sína líka um eigið gælunafn, sem hann tengir við erlent nafn þótt það hljómi líka eins og barnamál:

Ég heiti Lúðvík, og var í æsku nefndur Lúí. [...] Ég hafði einhverja óljósa hugmynd um að upphaflega hafi það verið dregið af franska nafninu Louis, og hringdi ég til móður minnar til að grennslast fyrir um það. Hún taldi sig ekki muna með vissu að svo hefði verið, en taldi það afar líklegt (ÞÞ 13719).

Það eru fleiri tilvik þar sem móðirin er talin vera öruggasta heimild um uppruna nafnsins. Í þessu dæmi reynist hún þó ekki muna eftir tilurð gælunafnsins.

Annað dæmi um “barnamálsmynd” sem er endurtúlkuð sem erlent orð eða nafn er nafnið Líba, sem er talið vera leitt af lítið barn en sem fær ritmynd í Þjóðskrá sem sýnir að það hefur verið túlkað sem þýska orðið Liebe 'ást'.

Varðandi sögur af uppruna gælunafna þá kemur mér í hug að samskóla mér í "Versló" var Sigríður Líba Ásgeirsdóttir (reyndar var hún lengi vel skráð Liebe í þjóðskrá en það hefur nú verið leiðrétt). Eins og ég man það best þá var Líbunafnið þannig til komið að þegar amma hennar fæddist var fyrir drengur sem gat ekki sagt lítið barn og úr varð Líba (ÞÞ 13733).

Hér virðist barnamálsskýringin hafa fylgt nafninu í fleiri kynslóðir (þótt heimildarkona tjái óvissu um uppruna nafnsins) jafnvel þótt nafnið hafi verið skráð í Þjóðskrá í mynd sem gefur til kynna annan uppruna. (Það fylgir ekki sögunni hvernig það gerðist.)

Í sumum tilvikum myndast hugrenningatengsl á milli gælunafns og annars orðs eða nafns. Ef nafnbera (eða öðrum) mislíkar þessi hugrenningatengsl verður gælunafnið stundum lagt niður. Þetta á við um Guðmund nokkurn sem var kallaður Bummi (nafnið er skýrt sem barnamálsútgáfa af Gummi) þangað til skólabróðir hans benti á það að bum þýðir ‘róni’ á ensku.

Ég á bróður sem heitir Guðmundur. Þegar hann var barn festist við hann gælunafnið "Bummi”. Þetta var til komið þannig að leikfélagi hans var að reyna að segja Guðmundur eða Gummi. Þetta gælunafn sat á honum fram eftir öllu. Þegar hann byrjaði í menntaskóla benti einn kunninginn okkur á að þetta minnti sig alltaf á enska orðið "bum”. Upp úr því hættum við að nota þetta gælunafn þar sem við vildum ekki kalla bróður okkar róna. Eitthvað er þó um það að börn og eldra fólk í fjölskyldunni noti það ennþá (ÞÞ 13717).

Ef nafnberi heillast af slíkri “alþýðuskýringu” getur hann hins vegar eignað sér hana. Annar Guðmundur skrifar að hann hafi farið að skrifa stuttnefni sitt Gimsi í staðinn fyrir Gymmsi þegar vinkona hans fullyrti að gælunafnið væri “dregið af” orðinu gimsteinn:

Ég er af nánum vinum og ættingjum kallaður Gimsi. [...] Menn eru ekki sammála um hvernig eigi að skrifa nafnið. Einu sinni skrifaði ég það Gymmsi (sbr. Gummi), en ég hætti því alfarið þegar skynsöm kona benti mér á að það væri dregið af gimsteinn. Hún gat reyndar ekkert vitað um það hvernig nafnið kom til en síðan skrifa ég alltaf Gimsi. Sumir skrifa Gymsi. [...] Uppruni er mér óþekktur, en ég held að ég hafi fengið þetta nafn sem ungbarn í Svíþjóð (ÞÞ 13731).

Einn heimildarmaðurinn tengir nafnið Nonni við latnesku skammstöfunina NN:

Um uppruna gælunafnsins Nonni (eldri gerð Nóni) veit ég ekki með vissu, en held þó að það sé dregið af skammstöfuninni NN. Jón eða NN var á fyrri öldum oft notað um einhvern ótilgreindan mann, t.d. í lögfræðilegum textum. (NN er talið standa fyrir Nomen Nescio, skv. orðabók) (ÞÞ 13743).

Ég held að fleiri telji Nonna-nafnið upprunalega hafa verið barnamálsmynd af Jón með tvöföldun. Þótt latneska skýringin sé ósennileg er hún engu að síður frumleg og skemmtileg og ljær hversdagslega gælunafninu tignarlegan blæ.

5. Dengi og Stella
Sein skírn er oft nefnd sem ástæða fyrir gælunöfnum, einkum gælunöfnum leiddum af stofnum eins og lítill, barn, systir og bróðir, drengur og stelpa. Ein heimildarkonan segir að maðurinn hennar hafi verið kallaður Dengi (af drengur) því hann var ekki skírður fyrr en hann var sex ára. Það kemur fram í frásögninni að henni hafi fundist svo sein skírn einkennileg.

Maðurinn minn, sem hét Einar Örn, var fyrstu sjö árin sín kallaður Dengi. Það var mjög skiljanlegt, vegna þess að hann var ekki skírður, eða nefndur fyrr en hann var sex ára. Þá voru þrjú systkinin skírð saman í Dómkirkjunni. Hann mundi vel eftir þessu, það var spennandi að ganga upp að altarinu og þau sögðu nöfnin sín sjálf. Ég hitti aldrei tengdaforeldra mína, til að geta spurt þau, hvers vegna? Þau voru dáin þegar ég kom til sögu (ÞÞ 1400).

Samkvæmt núgildandi mannanafnalögum er skylt að gefa barni nafn innan sex mánaða frá fæðingu (http://www.rettarheimild.is/DomsOgKirkjumala/Mannanafnaskra/Um_nofn/#Meginreglur_um_mannanofn). Til eru þjóðsögur af fólki sem fékk ekki nöfn fyrr en það var vel stálpað. Mannfræðingurinn Heijnen (2005:131) hefur eftir heimildarkonu að lagasetningin hafi verið viðbrögð við þeim “vanda” að það drægist hjá foreldrum að velja nöfn á börnin sín.

Þessi breyting (sem tengist öðrum samfélagsbreytingum, á Íslandi sem annarsstaðar, sbr. Bodenhorn og vom Bruck 2006:2-3; Layne 2006:34-35) getur verið ein ástæðan fyrir því að svarendur virðast fúsir til að segja sögur af seinni skírn (sbr. einnig svör við spurningalista nr. 105 frá Þjóðháttadeild Þjóðminjasafns). Slík gælunöfn geta fest við menn þótt þeir eigi nöfn en að sögn margra eru slík nöfn minna notuð nú en áður (sbr. t.d. ÞÞ 13753). Gælunöfnin Lilla, Lilli og Stella eru meðal þeirra sem er getið í sem flestum svörum (19, 16 og 14) en undirrituð þekkir engan sem gengur undir nafninu Lilli eða Lilla og eina Stellan sem ég þekki heitir því nafni sem eiginnafni.

Önnur ástæða fyrir því að þessi gælunöfn eru nefnd í svo mörgum svörum getur vel verið sú að þau koma fyrir í aukaspurningunni. Mér hafði skilist að Stella væri erlent nafn og var minnst á þá skýringu í viðtalinu í Morgunblaðinu (Sveinn Guðjónsson 2001). Hins vegar kom fram í nokkrum svörum að Stella væri leitt af orðinu stelpa og notað einkum um stelpur sem væru skírðar seint. Auk ofantaldra minna sýnir eftirfarandi frásögn “stéttaskiptingu” nafna í dreifingu nafnanna Stella og Stúlla:

Ég heiti Ingveldur en hef alltaf verið kölluð Stella. Flestir sem kynnast mér taka gælunafnið upp, það er helst á vinnustöðum, sem Ingveldar-nafnið hefur verið notað. Mér finnst ég frekar heita Stella en Ingveldur og þegar ég var fermd ákvað ég að nota tækifærið og bað prestinn um að skíra mig Stellu-nafni í viðbót, en hann neitaði því á þeim forsendum að Stella væri erlent nafn. Ég lét þar við sitja.

En ég veit hvers vegna ég er kölluð Stella. Ég var ekki skírð fyrr en ég var ársgömul. Nafnlaust ungbarnið var kallað "litla stelpan'' og síðan "litla stellan'' og að endingu Stella. Ég hygg að flestar Stellur hafi farið í gegnum þennan feril.
Ég vil líka bæta því við að ég á vinkonu, sem alltaf er kölluð Stúlla. Hún var skírð seint eins og ég og var kölluð "litla stúlkan" og "litla stúllan" og að endingu varð hún Stúlla. Ég hef stundum sagt í gamni að í gælunöfnum okkar komi fram munurinn á þjóðfélagsstétt foreldra okkar vinkvennanna, annars vegar verkafólkið og hins vegar menntaðir embættismenn. Jæja, þegar Ingveldur hittir Þóru Ellen er Stella að hitta Stúllu (ÞÞ 14430).

Í Nöfnum Íslendinga er eiginnafnið Stella útskýrt sem leitt af latneska orðinu stella 'stjarna' sem hefur orðið að kvenmannsnafni t.d. í ensku (síðan á 16. öld), þýsku (á 18.) og norðurlandamálunum (frá 19. öld). Sem eiginnafn er Stella ungt hér á landi. Það kemur ekki fyrir í manntalinu frá 1910 en var gefið 28 stelpum á árunum 1921-1930 og Stellum hefur síðan farið fjölgandi (Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson frá Arnarvatni 1991:513).

Eins og fram kemur af ofangreindu er hægt að skýra sama nafn með mismunandi hætti. Sumir sem gefa dætrum sínum nafnið Stella skilja nafnið sem latneska orðið fyrir stjörnu en aðrir líta á það sem gælumynd af stelpa.

6. Val á gælunafni
Oftast er val á eiginnafni meðvitað og úthugsað, meðan gælunafn festist einhvern veginn við einstakling án þess að menn viti nákvæmlega hvernig það gerist. Sögnin festast kemur langoftast fyrir í miðmynd, það er enginn gerandi sem “festir” nafnið.

Hvernig í ósköpunum gælunafnið Hotti festist við mig veit nú enginn (ÞÞ 13706, heitir Þorsteinn).

En hvað gælunöfnum viðkemur þá hef ég lengi átt mér gælunafnið Guffa. Ég geri mér ekki grein fyrir hvenær það festist við mig en trúlega einhvern tíma seint í barnaskóla. Það er alveg áreiðanlega frá skólafélögum mínum komið og festist við mig án þess að ég gerði mér grein fyrir því (ÞÞ 13978, heitir Guðfinna).

Andstætt þeim foreldrum sem fresta því eða “gleyma” að nefna barn eru þó nokkur dæmi um að foreldrar eru sagðir hafa valið gælunafn á barnið með meðvituðum hætti. Slíkar frásagnir af meðvituði vali á gælunafni hljóma hátíðlega, eins og val á eiginnafni.

Ég heiti Guðrún og er kölluð Gurra af fjölskyldu og skólafélögum. Þetta er algengara sem stytting á Guðríði en Guðrúnu en foreldrar mínir völdu þetta að þeim fannst óvenjulega gælunafn á elstu dótturina vegna þess að faðir minn hafði heyrt það notað sem gælunafn um Guðrúnu dóttur Vilmundar landlæknis. Á heimilinu var amma mín og alnafna og auk þess föðursystir sem kölluð var Rúna og ég á einnig móðursystur sem heitir Guðrún og er kölluð Gunna. Þegar afasystur mínar voru að tauta yfir þessu nýmóðins nafnskrípi á barninu sagði pabbi “ég held að það sé nóg af þessum Rúnum, Gunnum og Dúnum”. Guðrún var og er kannske enn algengasta kvenmannsnafn á Íslandi og í 6. bekk í Menntaskóla vorum við þrjár Guðrúnar í sama bekk. Við vorum kallaðar Gunna Páls. Gunna Guðjóns. Og Gurra (ÞÞ 13741).

Í þessu tilviki hefur val á eiginnafni greinilega ráðist af hefð: stúlkan hefur verið nefnd í höfuðið á ömmu sinni. Að skíra börn í höfuðið á eða eftir ömmu eða afa er svo sjálfsagt að mörgum heimildarmönnum hefur ekki þótt ástæða til að útskýra að það hafi verið gert. Um þriðjungur Íslendinga heitir í höfuðið á eða eftir afa eða ömmu en á 19. öld var hlutfallið rúmur helmingur (Ólöf Garðarsdóttir 1999:311). Þrýstingur á foreldra til að gefa börnum nöfn sem eru í ættinni er oft talsverður, sbr. Heijnen (2005:140-144). Foreldrunum hefur e.t.v. fundist þeir njóta meira “frelsis” við val á gælunafni. Þau hafa því valið gælunafn sem háttsett kona í samfélaginu notaði.

Sama heimildarkona skrifar um fjölda Guðrúna í ættinni og í bekknum. Guðrún hefur á fleiri tímabilum verið algengasta kvenmannsnafnið á Íslandi (Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson frá Arnarvatni 1991:63; Ólöf Garðarsdóttir 1999:312). Því hefur verið þörf fyrir að greina á milli Guðrúna með því að nota mismunandi gælunöfn. (Sbr. Ólaf Inga Ólafsson 2005 um gælunöfn Guðrúna.)

Í þessari frásögn er gefið í skyn að mismunandi gælunöfn (styttingar) hafi einkum verið notuð til að greina á milli Guðrúna innan ættarinnar en stytt föðurnöfn í skólanum. Þar sem gælunafnið Gurra er tiltölulega óalgengt (miklu sjaldgæfara heldur en Gunna) dugði það til að auðkenna þessa Guðrúnu bæði heima og í skólanum.

Heijnen (2005:140-144) heldur því fram að nafnavitjanir séu aðferð til að koma nýjum nöfnum inn í ættina. Að nafns skuli hafa verið vitjað er talin gild ástæða til að víkja frá hefðinni og gefa barni nafn sem er ekki í ættinni. Gælunafn getur þó verið notað til að sýna skyldleika á milli draumanafns og þess nafns sem barnið hefði átt að heita ef ekki hefði verið vitjað nafns.

Ég heiti Sigrún, en það var stytt í Rúna. Og þegar ég fermist 11. maí 1930, halda allir að ég heiti Guðrún, því amman mín hét Guðrún. En ég átti að heita Jóna Ingibjörg eða Ingibjörg Jóna. En það var vitjað nafns. Ég var alltaf kölluð Rúna fram eftir öllu (ÞÞ 13908).

Önnur heimildarkona spaugar um að nota gælunafn eða uppnefni til að bæta fyrir það að hafa ekki látið son sinn heita í höfuðið á vinnuveitanda sínum.

Ég á 18 ára son sem heitir Guðmundur Steinn. Nafnið Steini festist við hann sem lítið barn. Flestir sem eitthvað þekkja til hans kalla hann það en í skólaskrám og öðrum opinberum skrám er hann Guðmundur. Þetta getur valdið misskilningi...Þess má til gamans geta að vinnuveitandi minn fyrir 19 árum (þegar ég gekk með soninn) var vanur að segja við vanfærar samstarfskonur sínar að svo myndu þær náttúrulega skíra barnið í höfuðið á honum, þ.e. Kjartan. Svo skemmtilega vill til að þessi maður á 2 (og aðeins 2) bræður, sem heita Guðmundur og Steinn. Ég var fljót að útskýra fyrir honum að drengurinn hefði að vísu verið skírður Guðmundur Steinn, en að hann væri kallaður Kjartan... (ÞÞ 13724).

Það er eitt dæmi um það að leikfélagar eldri bróður nafnbera (3-4 ára) eru sagðir hafa valið gælunafn á meðvitaðan hátt.

Ég sjálf: Þuríður Elísabet Pétursdóttir fékk styttinguna Beta. Leikfélagar bróður míns töldu bæði Þuríður og Elísabet of langt og óþjált og ákváðu eftir stuttan fund að ég skyldi kölluð Beta (Þura þótti þeim ljótt). Ég hef líklega verið um tveggja ára þá og þeir 3-4 ára (ÞÞ 13971).

Þessu ferli er lýst í skýrslunni eins og hátíðlegum fundi. Hvorki virðist vera um stríðni né barnamálsmynd að ræða.

Sumir (einkum foreldrar) velja gælunafn á börn sín til að koma í veg fyrir að annað gælunafn (e.t.v. algengara) festist við þau:

Ég heiti Georg og hef verið kallaður Gíi og er það óbeint dregið af skírnarnafninu. [...] Uppruni gælunafnsins er frá barnæsku og er eftirfarandi. Foreldrum mínum líkaði ekki að ég yrði kallaður Goggi eins og algengast er með þá sem heita Georg. Lítil frænka mín átti erfitt með að bera fram Georg og afbakaði það þannig að það hljómaði líkt og Gíi. Föður mínum fannst þetta hljóma svipað og gælunafn manns sem hann þekkti og ákváðu foreldrar mínir að taka upp það gælunafn og festa það á mig í staðinn fyrir Goggi. Sá maður mun hafa heitið Guðlaugur. Ég er ánægður með þetta gælunafn og tengi það við að þeir sem eru mér nánir nota það. Mér hefur alltaf verið illa við að vera kallaður Goggi (ÞÞ 13716).

Síðasta setning í frásögn Georgs bendir þó til þess að þetta hafi ekki alveg tekist heldur hafi hann stundum verið kallaður Goggi.

Sum gælunöfn "smitast" frá einum nafnbera til annars, yfirleitt innan ættarinnar:

Móðurbróðir heimildarmanns, sem lengi var skólastjóri á Eiðum, var fram eftir bernskuárum kallaður Lalli, þótt það virtist langsótt. Þetta gælunafn færðist einhvern veginn yfir á systurson hans, en hann vill helst ekki heyra það nema í þrengsta fjölskylduhring. Hann vill þá skömminni heldur kallast Tóti eða Doddi. Þetta gælunafn færðist líka um skeið yfir á elsta son skólastjórans, Þórarin Þórarinsson, sem nú er arkitekt (ÞÞ 13877).

Stundum fá menn sem uppnefni nöfn sem eru líka til sem eiginnöfn. Þetta gerist yfirleitt ekki innan fjölskyldunnar heldur í vinahópnum eða á vinnustaðnum (einkum á sjó). Vinnufélagar kynnast viðkomandi einstaklingi undir uppnefninu og geta ekki gert sér grein fyrir því að það er ekki eiginnafn.

Skondnasta gælunafn sem ég man eftir er tengt strák sem var með mér til sjós þegar við vorum báðir 17-18 ára. Hann var alltaf kallaður Hannibal og ég vissi ekki fyrr en um páskana þegar Vestmannaradíó spurði um Jón Ragnar, að vinur minn Hannibal hét og heitir enn þeim ágætu nöfnum (ÞÞ 13676).

Oft er saga á bak við slík nöfn. Hannibal þessi þótti róttækur. Tengslin geta verið með mismunandi hætti, t.d. skírskotanir til frægra persóna eða orðaleikir.

Gælunöfn tengjast oft heimasveit manna eða vaxtarlagi, skapgerð, t.d að þrár skipstjóri var ætíð nefndur Þráinn, lítt gefinn háseti nefndur Tómas og svo framv. (ÞÞ 13728).

7. Flokkaflakk nafna
Stundum fær einstaklingur uppnefni ótengt nafninu sem síðan verður ummyndað í dæmigert gælunafn, t.d. með lengingu samhljóðs í innstöðu. Þetta virðist oft fylgja því að nafnberi tekur nafninu ekki illa heldur "tileinkar" sér það:

Skilin milli gælunafna og uppnefna eru sem sé ekki alltaf ljós. Hér á Stöðvarfirði gerðu menn eitthvað af því að skíra menn upp. Kjartan heitinn Vilbergsson varð á stríðsárunum Göring og þekkist enn undir gælunafninu Görri en mun síðar festist Ögmundar nafnið við Sverri heitinn Þorgríms en félagar hans af sjónum þekkja hann vel undir gælunafninu Ömmi (ÞÞ 13920).

Í fyrstu lotu dettur mér í hug saga af skólabróður mínum úr MA sem kallaður er Golli. Hann heitir hins vegar Kjartan Þorbjörnsson og vinnur sem ljósmyndari á Mbl. Skýringin á Golla-nafninu ku vera sú að sem barn þótti hann óhemjustór og var því kallaður Golíat, sennilega af óprúttnum skólafélögum. Það var svo stytt í Golli og hann notar það óspart sjálfur og kann því ágætlega. Nú les maður undir myndum í Mbl.: Ljósmynd: Golli (ÞÞ 13720).

Að lokum skal nefnt eitt dæmi þar sem gælunafn virðist fela í sér örlög nafnberans:

Ég þekki mann á Sauðárkróki sem heitir Hörður Gunnar Ólafsson. Hann hefur verið kallaður Bassi síðan hann var smábarn, og flestir muna alls ekki hvað hann heitir. Þegar hann eltist fór hann að læra á hljóðfæri og hafði í mörg ár atvinnu af því að spila á bassa, ekki nóg með það, heldur hefur hann djúpa bassarödd og syngur mikið þegar hann leikur fyrir dansi á böllum. Ég vil taka það fram aftur að hann var ungabarn þegar byrjað var á að kalla hann Bassa (ÞÞ 13723).

Bassi hefur kannski upprunalega verið leitt af orðinu barn en vekur seinna hugrenningatengsl við tónlistargáfu manns sem er ekki lengur barn. Túlkun gælunafns, notkunarsvið þess og tilfinningagildi geta breyst á æviskeiðinu jafnvel þótt um sama gælunafn sé að ræða.

Birt þann 22. janúar 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Bodenhorn, Barbara, og Gabriele vom Bruck. 2006. "Entangled in histories": an introduction to the anthropology of names and naming. vom Bruck, Gabriele, og Barbara Bodenhorn (ritstj.): The anthropology of names and naming, bls. 1–30. Cambridge.

Bragi Jósepsson. 2004. Uppnefni og önnur auknefni. Stykkishólmur.

Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson frá Arnarvatni. 1991. Nöfn Íslendinga. Reykjavík.

Hale, Christopher. 1981. Modern Icelandic personal bynames. Scandinavian Studies 53/4:397–404.

Heijnen, Adriënne. 2005. Dream sharing in Iceland. Doktorsritgerð í mannfræði við Århus Universitet.

Höskuldur Þráinsson. 1999. Bill Clinton og íslenskar nafnvenjur. Íslenskt mál 19–20:209–216.

Höskuldur Þráinsson. 2004. “Dansar við úlfa” og önnur nöfn. Íslenskt mál 25:121–135.

Jurafsky, Daniel. 1996. Universal tendencies in the semantics of the diminutive. Language 72:533–578.

Layne, Linda. 2006. "Your child deserves a name": possessive individualism and the politics of memory in pregnancy loss. vom Bruck, Gabriele, og Barbara Bodenhorn (ritstj.): The anthropology of names and naming, bls. 31–50. Cambridge.

Linde, Charlotte. 1993. Life stories: the creation of coherence. New York.

Ólafur Ingi Ólafsson. 2005. Hvað heitir hún aftur hún Gógó? Rannsókn á gælunöfnum Guðrúna. BA-ritgerð í íslensku við Háskóla Íslands.

Ólöf Garðarsdóttir. 1999. Naming practices and the importance of kinship networks in early nineteenth-century Iceland. History of the family 4/3:297–314.

Sveinn Guðjónsson. 2001. Denni. Morgunblaðið, 31. ágúst 2001. [http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=623605]

ÞÞ Svör við aukaspurningu 100a frá Þjóðháttadeild Þjóðminjasafns eru auðkennd með ÞÞ og skráningarnúmeri svarblaðsins.