Skip to main content

Pistlar

Forngripir í Hólakirkju

Þekktastur er Árni Magnússon fyrir að safna gömlum handritum og skrifa þau upp en margt fleira gerði hann sem miðaði að því að skrásetja íslenska menningu og fornan fróðleik. Mikilsvert dæmi af þessu tagi er handritið NKS 328 8vo sem geymir lýsingar á Hóladómkirkju og gripum sem þar mátti finna á dögum Árna. Margt sem hér er skrásett væri annars með öllu gleymt.

Bókin er lítil og einföld, sumpart rituð af Árna sjálfum og sumpart af öðrum eftir hans fyrirmælum. Fremst í bókinni stendur: „Kom frá Íslandi 1720“ en Árni hefur haldið áfram að uppfæra hana og sumar glósurnar eru yngri. Ætla mætti að bókin hafi tilheyrt Árnasafni að Árna gengnum en einhvern veginn hefur hún álpast yfir í Konungsbókhlöðu og er ekki gott að vita hvenær. Hún kom síðan aftur til Íslands 9. apríl 1997.

Meðal gripa Hólakirkju sem Árni lýsir er skinnbók með guðspjöllunum, „vel skrifuð og eigi ný“. Þar var fremra spjaldið útholað og í holrýminu messing sem hafði verið forsilfruð og þar á Kristur á krossinum „og Jósef og María neðan undir“.

Annar gripur er kórkápa sem Árni lýsir svo:

Hóladómkirkju fylgir ein prýðileg kórkápa af rauðu flaueli, kostulega bordýruð niður að barminum beggja vegna og á kraganum. Segja menn að biskup Jón Arason hafi hana til kirkjunnar lagt og það trúist almennilega. Vidi. [Ég hef séð.]

Þessi kápa er raunar enn til og nú varðveitt á Þjóðminjasafninu.

Í skránni er einnig nefnd klukka kirkjunnar. Á hana var letruð vísa um Ólaf biskup sem lét gera klukkuna í Hamborg. Vísan er nokkuð afbökuð og sá sem gróf hana í klukkuna hefur sjálfsagt lítt kunnað fyrir sér í íslensku. Á klukkunni var einnig nafn klukkugerðarmannsins, Hans Altena, og ártalið 1556 ásamt mynd af krossfestingunni. Klukka eftir sama meistara með sama ártali er varðveitt í Danmörku (sjá bókina Kirker og klostre i Danmark (Dehn-Nielsen 2017)) og þótt sú á Hólum sé glötuð má því kannski fara nokkuð nærri um það hvernig hún leit út.

Tjald kirkjunnar var saumað 1594 og þar var skráð með refilsaum dróttkvæð vísa. Vísan er svo fornleg að ég geri það hér til gamans að rita hana með samræmdri stafsetningu fornri:

Gramr skóp hæstra heima
heims fegrð ok kyn beima.
Frægr hefr sett með sigri
sigrsvaldr skipan aldar.
Spenr í sælu sína
sín bǫrn jǫfurr stjǫrnu,
því er élstillir allra
allsannr faðir manna.

Allgömul hlýtur vísan að vera því að hún er ort eftir bragreglum sem mjög tóku að riðlast á 14. öld. Það mætti ef til vill gera sér í hugarlund að tjaldið, sem saumað var 1594, hafi verið eftirmynd af fornu tjaldi sem orðið var lúið og þurfti að endurnýja. En hvaðan sem vísan kom er hún vönduð smíði og með því einkenni sem kallað er dunhent í Snorra-Eddu. Tjaldið var saumað í biskupstíð Guðbrands Þorlákssonar sem mikla áherslu lagði á vandaðan kveðskap og hafði mætur á fornum háttum. Í Vísnabók þeirri sem hann gaf út 1612 eru einmitt mörg kvæði undir dróttkvæðum hætti.

Loks má nefna vængina við altarið sem Árni Magnússon skrifaði fyrst um eftirfarandi lýsingu:

Kvennamegin við altarið í dómkirkjunni á Hólum er vængur (tjald) saumaður af lérefti, hvar á stendur að ein kona (hver þar nefnist sine anno [án ártals]) hafi hann saumað fyrir Maríu. Vidi.

Þetta hefur honum ekki þótt nógu greinargott svo að hann skrifar hjá sér „að láta þennan væng betur describera [lýsa]“. Árið 1725 bætir Árni við athugasemd um að hann hafi fengið það sem hann óskaði eftir. Lýsingar á vængjunum tveimur má finna aftast í bókinni og þær má sjá á myndunum hér.

Forngripir í Hólakirkju I

 

Forngripir í Hólakirkju

Karlamegin voru myndir af dýrum og voru guðrækileg orð í kringum þau á íslensku og latínu. Kvennamegin voru myndir af dýrlingum. Listakonan sem þarna var að verki hét Þóra Tómasdóttir og talið er að hún hafi unnið verkið í biskupstíð Jóns Arasonar (Elsa E. Guðjónsson 2003:57).

Heimildir

Dehn-Nielsen, Henning. 2017. Kirker og klostre i Danmark.
https://books.google.is/books?id­snE3DwAAQBAJ&pg­PT927&dq=%22hans+altena%22+1556&hl­is&sa­X&ved=0ahUKEwjHrcOgzvXjAhV8ShUIHQevAPAQ6AEIJzAA#v­onepage&q=%22hans%20altena%22%201556&f­false

Elsa E. Guðjónsson. 2003. Íslenskur útsaumur. 

Íslenzkt fornbréfasafn III. 1896. Allur textinn er gefinn út á bls. 606–611.
https://baekur.is/bok/000197700/3/640/Diplomatarium_Islandicum__/?iabr­on#page/Bla%C3%B0s%C3%AD%C3%B0a+606++(640+/+1028)/mode/2up

NKS 328 8vo, myndir af öllu handritinu: http://digitalesamlinger.hum.ku.dk/Home/Samlingerne/35447
 

Birt þann 2. september 2019
Síðast breytt 24. október 2023