Skip to main content

Pistlar

Fimur var Finnbogi rammi − AM 165 a fol.

Frá sautjándu öld er varðveittur aragrúi pappírshandrita sem geyma uppskriftir miðaldatexta. Í sumum tilvikum eru handritin ómetanleg vegna þess að forritin hafa glatast eftir að skrifað var upp eftir þeim. Önnur hafa lítið sem ekkert textagildi því að eldri forrit þess eru varðveitt. Þetta á meðal annars við um handrit í safni Árna Magnússonar undir safnmarkinu AM 165 a fol. Handritið er ekki varðveitt í upprunalegri mynd heldur var það hluti af talsvert stærri bók sem var tekin í sundur og er nú varðveitt undir alls sautján safnmörkum. Sá hluti sem nú er varðveittur sem AM 165 a fol. hefur að geyma Finnboga sögu ramma. Sagan er skrifuð af Jóni Gissurarsyni (1590–1648), sem var mikilvirkur skrifari á fyrri hluta sautjándu aldar og skrifaði upp fjölda fornra texta af ýmsum toga: Íslendingasögur, fornaldarsögur, biskupasögur, Landnámu, Sturlungu og fleira.

Handrit Jóns eru mörg hver auðþekkt af spássíugreinum þar sem Jón skrifar stuttar athugasemdir, að því er virðist til þess að merkja eitthvað í textanum sem vekur áhuga eða þarfnast skýringa (um þetta hafa til dæmis Tereza Lansing og Margrét Eggertsdóttir fjallað í tengslum við önnur handrit með hendi Jóns).

Við Finnboga sögu hefur Jón ritað nokkrar orðskýringar, vísanir í Landnámu og sums staðar bætt við ártölum. Þá merkir hann örnefni sem virðast vekja áhuga og tiltekur ákveðin víg, t.d. „Finnbogi drap Vilmund ...“ (16v). Á einum stað gerir hann athugasemd við orðalag, þegar Hákon jarl mælir í sögunni: „hér er Finnbogi piltur einn er þú skalt glíma við“ og Jón skrifar á spássíu: „Rangsnúið mál jarls að kalla stóran mann pilt ...“ (9r).

Lok sögunnar eins og Jón Gissurarson hefur skrifað þau upp fylgja þó ekki þessu handriti því að síðasta blaðið er yngra og með hendi Þórðar Þórðarsonar (d. 1747) sem var meðal annars skrifari Árna Magnússonar. Aftan við söguna hefur Þórður bætt við lausavísu um Finnboga ramma undir titlinum „Vísa Þórðar af Finnboga ramma“. Vísan hefur verið eignuð Þórði Magnússyni á Strjúgi og fylgdi útgáfu Hugo Gering á Finnboga sögu 1879 en er skrifuð upp hér með nútímastafsetningu eftir AM 165 a fol.

Fimur var Finnbogi rammi
fumaði þeygi hrumur
blóma bör í stími
blámann felldi rammann.
Frómur fyrir kom raumi
framur og birni hamra
gram húna réð gumi
glíma við um tíma.

Birt þann 13. desember 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Lansing, Tereza. Permissible entertainment. The post-medieval transmission of fornaldarsaga manuscripts in western Iceland. Mirrors of Virtue, ed. Margrét Eggertsdóttir og Matthew James Driscoll. Museum Tusculanum Press: Kaupmannahöfn, 2017, bls. 321–362.

Margrét Eggertsdóttir. The Postmedival Production and Dissemination of Njáls saga Manuscripts. New Studies in the Manuscript Tradition of Njáls saga, ed. Emily Lethbridge and Svanhildur Óskarsdóttir. Medieval Institute Publications: Kalamazoo, 2018, bls. 203–229.

Springborg, Peter. Antiqvæ historiæ lepores: Om renæssancen i den Islandske håndskriftproduktion i 1600-tallet. Gardar (1977) 8, bls. 53–89.