Skip to main content

Pistlar

Álfar og orrustur: þjóðfræði í örnefnasafni

Þjóðfræði fæst við afar fjölbreytt viðfangsefni, í raun allt sem viðkemur hversdagsmenningu bæði fyrr og nú og sækja því þjóðfræðingar heimildir víða að. Hér hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru varðveitt ýmiss konar gögn sem gagnast við þjóðfræðirannsóknir (sem og aðrar). Ekki einungis á þjóðfræðisviði heldur er þjóðfræði að finna á flestum sviðum stofnunarinnar, í rammgerðri handritageymslunni, hinum ýmsu orðfræði-, orða- og textasöfnum og síðast en ekki síst örnefnasafni nafnfræðisviðs.

Skjal úr örnefnasafni með upplýsingum um Orrustuvöll í Kjalardal

Í örnefnasafninu er að finna örnefnalýsingar fyrir flestar jarðir á Íslandi ásamt margs konar gögnum sem liggja þeim að baki. Frá heimildarmönnum höfum við allt frá stuttum svörum og athugasemdum yfir í heilar örnefnaskrár og nákvæm handteiknuð kort. Frá starfsmönnum höfum við síðan, auk örnefnalýsinga, alls konar minnispunkta, athugasemdir, drög og spurningar. Í þessum gögnum má ekki einungis finna skrif um örnefni heldur eru þar endurminningar, ýmiss konar sagnir og frásagnir, mannlýsingar og hálfgerð manntöl. Safnið varpar því ekki einungis ljósi á örnefni heldur einnig verklag, viðhorf og upplifun bæði starfsmanna og heimildarmanna.

Hægt er að skoða nýjustu útgáfur örnefnalýsinganna á Nafninu en nú er í gangi átak við að skrá gögnin sem liggja þeim til grundvallar. Stundum þegar ég er að skrá hugsa ég með mér að fyrri starfsmenn hafi verið heldur duglegir við að geyma en af og til rekst ég á eitthvað sem minnir mig á hversu verðmætt það er að þeir hafi haldið vinnugögnum sínum og fyrri útgáfum örnefnalýsinga til haga.

Eitt slíkt dæmi er jafnframt dæmi um hvernig þjóðfræðin og örnefnasafnið skarast. Er ég var að skrá gögn um æskuheimili móður minnar, Arkarlæk í Skilmannahreppi, rakst ég á sögu sem ég kannaðist eilítið við. Ég ólst upp við sögur af læk sem álfar eiga og ekki má leika sér í. Í örnefnalýsingunni er sagt frá sama læk en ekki er minnst á leik heldur silung og veiðar.

Á merkjum móti Kjalardal niður við sjó er lækur sem heitir Tungulækur (1) og efsti hluti hans heitir Vestri-Tungulækur (2). Þar vestar er annar lækur sem heitir Arkarlækur (3). Við þann læk er bærinn, lækurinn rennur um túnið. Kona nokkur, móðir Jóns í Hvítanesi, bað þess að ekki væri veitt í læknum neðan frá sjó og upp að hól, því huldufólkið hefði það handa börnum sínum. Einu sinni var brotið móti þessu ráði, en rétt á eftir lá einn hesturinn, sem einskis meins hafði kennt sér, með allar lappir upp í loft. Nú þykir öllum skemmtun að hafa silunginn óáreittan í læknum.

Það að álfar eigi hlunnindi ákveðinna svæða er víða þekkt og er svipaðar sagnir að finna á Ísmús. Þar eru meðal annars nokkrar frásagnir af Núpi í Öxarfirði þar sem einungis álfarnir mega veiða silung í tjörn nokkurri, sjá til dæmis hérna, hérna og hérna. En aftur að örnefnasafninu. Örnefnalýsing þessi er frá árinu 1943 og eru (Óskar) Guðmundur Björnsson bóndi á Arkarlæk og tengdafaðir hans, Jón Þorláksson frá Klöpp á Akranesi, nefndir heimildarmenn. Árið 1966 voru Guðmundur og Ásta Jónsdóttir (hún ólst upp á Arkarlæk og voru þau hjón) fengin til að lesa hana yfir. Eftir þann yfirlestur var ný örnefnalýsing skrifuð. Í henni er sagt svo frá:

Þar vestar er annar lækur sem heitir Arkarlækur (3). Við þann læk stendur bærinn. Lækur þessi rennur um túnið. Í honum var mikill silungur friðaður, vegna þess að talið var að huldufólkið ætti hann. En nú er hann horfinn, minkurinn sá um það, en hann bar ekki virðingu fyrir huldufólkinu.

Hér er töluverð breyting á, í þessari uppfærðu útgáfu örnefnalýsingarinnar (og þeirri nýjustu sem er frá 1989) er búið að taka út ítaratriði um lækinn, álfana og afleiðingarnar auk þess sem tónninn hefur breyst. Hugsanlega hefur skrásetjari og/eða heimildarmenn kímt yfir því að fyrri ábúendur hafi neitað sér um silunginn með þeim afleiðingum að hann féll í hlut minksins. Á næstu áratugum hefur sögnin síðan breyst í munnlegri geymd, silungurinn horfið en eign álfanna á læknum ekki.

Í örnefnalýsingu næstu jarðar, Kjalardal, er einnig dæmi um breytingar á sögn milli útgáfna en þar er öfugt farið því upplýsingum er bætt við. Sú sögn er annars eðlis því ekkert yfirnáttúrlegt kemur við sögu. Í fyrstu lýsingu, sem líklega er frá árinu 1942 og fengin frá heimildarmönnunum Sigurði Oddssyni bónda á bænum og fyrrnefndum Jóni Þorlákssyni, segir svo:

Sléttur blettur við tunguna er 11.Orrustuvöllur nýtt örnefni dregið af atburði er gerðist þar nú fyrir skömmu.

Hér vaknaði forvitni mín, hvaða atburður? Hvað telst vera fyrir skömmu? Í næstu lýsingu er aðeins meira kjöt á beinunum en atburðurinn enn óljós.

Sléttur blettur þar við heitir Orrustuvöllur (16), er það örnefni frekar nýlegt dregið af bardaga þar sem ein af valkyrjum nútímans barðist við berserk mikinn. Þetta er allt fyrir neðan veginn.

Ég var ekki ein um að verða forvitin því afriti af þeirri örnefnalýsingu fylgir handskrifaður miði með tveimur rithöndum:

Orrustuvöllur heitir hann svo, eða er þetta gaman safnarans. Hvert er tilefnið?

Safnarinn gerir aldrei að gamni sínu í söfnun. Á þessari sléttu flöt börðust nú fyrir nokkrum árum, húsfreyjan í Kjalardal Guðrún Arnórsd. (systir Einars Arnórssonar) og bóndinn í Fellsaxlarkoti Gunnar Björns. Hrífur höfðu þau að vopnum, hún sótti á, af miklum krafti, en hann varðist. Segi ekki frekar af því.

Á afritið er síðan handskrifuð athugasemd þar sem fram kemur að hún, sem og sagan um Orrustuvöll, hafi verið lesin fyrir Sigurð Oddsson í Kjalardal árið 1961 og telji hann þetta rétt. Í næstu (og nýjustu) útgáfu örnefnalýsingarinnar er búið að bæta þessum upplýsingum inn og Sigurður fenginn til að lesa yfir að nýju árið 1966.

Sléttur blettur þar við heitir Orrustuvöllur (16). Það örnefni er frekar nýlegt. Nú fyrir um 40 árum börðust þar húsfreyjan í Kjalardal, Guðrún Arnórsdóttir, systir Einars Arnórssonar, og bóndinn í Fellsaxlarkoti, Gunnar Bjarnason; hrífur höfðu þau einar vopna. Hún sótti á af miklum vígamóð, sem hverri valkyrju var boðlegt, en hann varðist sem sönnum víkingi sæmdi. Segir ekki meir af þeim vopnaviðskiptum, né leikslokum. Þetta er allt fyrir neðan veg.

Forvitninni hefur verið svalað að megninu til, nú vitum við af hverjum orrustan var háð og með hvaða vopnum og að hún hafi líklega átt sér stað um 1920. En var þetta létt glens eða bættist gamanið við í frásögnum seinni tíma? Auk þess er ég forvitin um hvort þessi saga hafi lifað og þróast áfram í munnlegri geymd líkt og álfasagan af Arkarlæk. Kannski ég líti við í Kjalardal næst þegar ég er á ferð undir Akrafjalli og spyrjist fyrir.

 

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér örnefni og þjóðfræði geta gluggað í Ísmús og Nafnið, einnig er þeim sem áhuga hafa á að leggjast í rannsóknir á því sem ekki er á netinu velkomið að hafa samband við þjóðfræðisvið og nafnfræðisvið stofnunarinnar.

Birt þann 23. maí 2022
Síðast breytt 24. október 2023