Skip to main content

Röskun verður á þjónustu Árnastofnunar næstu mánuði. Sjá nánar.

Málrækt

Málrækt
Viðfangsefni málræktarsviðs lúta annars vegar að málrækt almennt og hins vegar að sérhæfðum orðaforða. Sviðið sinnir lögbundinni þjónustu af hálfu stofnunarinnar við Íslenska málnefnd.
Starfsmenn málræktarsviðs veita almenningi og sérfræðingum málfarsráðgjöf og leiðbeiningar um vandað mál, réttritun, orðmyndun, íðorðastarf og fleira og aðstoða við útgáfu orðaskráa í sérgreinum. Þeir ritstýra m.a. Stafsetningarorðabókinni, Málfarsbankanum, nýyrðavef stofnunarinnar, Íðorðabankanum, ritröðinni Íðorðarit Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Málfregnum, auk þátttöku í ritstjórn vefgáttarinnar málið.is.
Starfsemi tengd málrækt
Málfarsráðgjöf og leiðbeiningar
Málræktarsvið veitir málfarsráðgjöf og leiðbeiningar um vandað mál, réttritun, orðmyndun og fleira. Spurningar um málfar skal senda á netfangið malfarsradgjof [hjá] arnastofnun.is. Einnig má hringja í síma 525 4430.
Hefurðu myndað nýyrði?
Almenningur getur sent inn nýyrði eða tillögur að þeim og tekið þátt í umræðu um þau.
Aðstoð við orðanefndir og aðra höfunda sérhæfðra orðasafna
Íðorðanefndir og sérfræðingar á fjölmörgum fræðasviðum eiga samstarf við stofnunina og leggja til efni í Íðorðabankann.

Nokkrar íðorðanefndir halda fundi með starfsmanni stofnunarinnar og hefur stofnunin getað lagt til einhverja aðstöðu eftir samkomulagi. Einnig er samstarf við Íðorðafélagið. Þeir sem hefðu áhuga á að taka þátt í íðorðastarfi geta haft samband við starfsmann.

Til eru m.a. íslensk leiðbeiningarrit: Leiðbeiningar um íðorðastarf (2004) og Orðmyndun. Um leiðir til að auka íslenskan orðaforða (2004).
Íslensk málnefnd
Hlutverk Íslenskrar málnefndar er að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og gera tillögur til ráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu.

Skrifstofa Íslenskrar málnefndar er í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og annast starfsmenn á málræktarsviði þá þjónustu af hálfu stofnunarinnar.

Formaður Íslenskrar málnefndar er Ármann Jakobsson.

Ritari og samverkamaður af hálfu málræktarsviðs er Ágústa Þorbergsdóttir.

Rannsóknir á sviði málræktar
Starfsmenn málræktarsviðs stunda meðal annars rannsóknir á sögu og forsendum íslenskrar málræktar, málstöðlun, leiðum til að auðga málið og efla notkun þess á sem flestum sviðum, á stöðu tungunnar fyrr og síðar og innra og ytra samhengi.
Dæmi um rannsóknarverkefni á sviði málræktar má skoða hér: