Skip to main content

Pistlar

Sundurskipt bók

Myndin er úr AM 587 c 4to. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir. Í Árnasafni eru þrjú pappírshandrit sem skrifuð voru á árunum 1653–1655 af Brynjólfi Jónssyni á Efstalandi í Öxnadal. Brynjólfur starfaði sem skrifari fyrir Þorlák Skúlason biskup og hefur sennilega verið fæddur einhvern tíma á fyrsta fjórðungi sautjándu aldar. Hann var enn á lífi 1671 en lítið er vitað um hann að öðru leyti. Þessi þrjú handrit voru upphaflega ein bók með fornaldarsögum sem Árni Magnússon tók í sundur og skipti í þrjá parta.

Langstærsti hlutinn er sá sem nú hefur safnmarkið AM 342 4to. Í honum eru 115 blöð og þar má finna Þorsteins sögu VíkingssonarFriðþjófs sögu fræknaKetils sögu hængsGríms sögu loðinkinna og Örvar-Odds sögu, allar með hendi Brynjólfs. Að auki hefur annarri gerð af Þorsteins sögu verið bætt við handritið síðar, óvíst hvenær, af hverjum eða hvers vegna. AM 285 4to er 35 blöð og geymir einungis Hrólfs sögu kraka, en í AM 587 c 4to er Göngu-Hrólfs saga á 32 blöðum. Þar hefur Árni bætt við lesbrigðum úr öðrum handritum á spássíur, bæði neðan við meginmálið og til hliðar við það, svo að texti sögunnar er víða umkringdur viðbótarefni.

Gera má ráð fyrir því að Árni hafi tekið handritið í sundur vegna þess að hann hafi viljað geyma hverja sögu sem sérstaka bók, „ad faciliorem usum“ (til hægðarauka). Það var að minnsta kosti líklega hugsunin varðandi Hrólfs sögu kraka og Göngu-Hrólfs sögu. Þessi skipting var þó ekki sem hreinlegust, því Hrólfs saga kraka hefst á sama blaði og Örvar-Odds saga endar, og við endi Hrólfs sögu hefst Göngu-Hrólfs saga. Árni skrifaði því upphaf og endi Hrólfs sögu upp á ný blöð og bætti þeim við textann í AM 285 4to, en strikaði aftur á móti út samsvarandi texta á því sem nú er síðasta blaðið í AM 342 4to og fyrsta blaðið í AM 587 c 4to, svo að þeir hlutar eru nú með öllu ólæsilegir. Á aftasta blaðinu í 587 c hefur upphaf Saulus sögu og Níkanórs verið strikað út á sama hátt en afgangurinn af sögunni virðist hafa týnst.

Árni virðist hafa viljað leyfa þeim textum að standa saman sem voru tengdir með einhverjum hætti. Í AM 342 4to er söguhetja Friðþjófs sögu sögð vera sonur söguhetjunnar í Þorsteins sögu og því má segja að þessar tvær sögur myndi eina heild. Ketils saga, Gríms saga og Örvar-Odds saga fjalla allar um persónur úr sömu fjölskyldu og teljast þannig samstæður sagnahópur, sem gæti verið ástæðan fyrir því að Árni skipti þeim ekki upp í aðskilin handrit.

Við getum auðveldlega séð fyrir okkur hvernig bókin hefur litið út meðan hún var í heilu lagi með því að bera saman partana þrjá. Þeir eru allir með sama sniði og skrifaðir með sömu hendi (nema viðbótartextinn af Þorsteins sögu). Á fyrsta blaði í hverju kveri er auk þess arkavísir, bókstafur sem sýnir hvar í röðinni kverið á að vera. Það er hins vegar ómögulegt að færa hlutana þrjá aftur saman og gera að einni bók, því þeir eru nú geymdir á tveimur stöðum: AM 342 4to og AM 587 c 4to eru í Reykjavík en AM 285 4to varð eftir í Danmörku þegar safninu var skipt, væntanlega vegna þess að hún hefur þótt tengjast danskri sögu fremur en íslenskri.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018